6 minute read
Áritun óháðs endurskoðanda
by Ritform ehf
Til stjórnar og hluthafa RARIK ohf.
Álit Við höfum endurskoðað meðfylgjandi samstæðuársreikning RARIK ohf. fyrir árið 2020. Ársreikningurinn hefur að geyma rekstrarreikning og yfirlit um heildarafkomu, efnahagsreikning, eiginfjáryfirlit, sjóðstreymisyfirlit, upplýsingar um mikilvægar reikningsskilaaðferðir og aðrar skýringar.
Það er álit okkar að samstæðuársreikningurinn gefi glögga mynd af efnahag samstæðunnar 31. desember 2020, afkomu hennar og breytingu á handbæru fé á árinu 2020, í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla eins og þeir hafa verið staðfestir af Evrópusambandinu.
Álitið er í samræmi við skýrslu okkar til endurskoðunarnefndar og stjórnar.
Grundvöllur fyrir áliti Endurskoðað var í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla. Ábyrgð okkar samkvæmt þeim stöðlum er nánar lýst í kaflanum um ábyrgð endurskoðanda hér á eftir. Við erum óháðir RARIK ohf. og í samræmi við settar siðareglur fyrir endurskoðendur höfum við uppfyllt ákvæði þeirra. Við teljum að við endurskoðunina höfum við aflað nægilegra og viðeigandi gagna til að undirbyggja álit okkar.
Megináherslur við endurskoðunina Megináherslur við endurskoðunina eru þau atriði, sem að okkar faglega mati, hafa mesta þýðingu fyrir endurskoðun okkar á ársreikningi samstæðunnar árið 2020. Þessi atriði voru yfirfarin við endurskoðun á samstæðuársreikningnum og höfð til hliðsjónar við ákvörðun á viðeigandi áliti á honum. Í áritun okkar látum við ekki í ljós sérstakt álit á hverju þeirra fyrir sig.
Virðismat virkjana og veitukerfa Virkjanir og veitukerfi eru verðmætustu eignir samstæðunnar og virðismat þeirra er háð mati stjórnenda og því teljum við það vera megináherslu við endurskoðun okkar.
Virkjanir og veitukerfi samstæðunnar eru færð samkvæmt endurmatsaðferð og nam bókfært verð þeirra í árslok 2020 58,2 ma. kr. sem nemur um 74% af efnahagsreikningi félagsins.
Endurmat er framkvæmt með reglubundnum hætti, þegar stjórnendur meta það að verulegar breytingar hafi orðið á rekstrarvirði eignanna. Mat á rekstrarvirði eignanna er byggt á sjóðstreymisgreiningu. Það er mat stjórnenda að ekki séu forsendur til þess að endurmeta veitukerfi samstæðunnar en að endurmeta bæri virkjanir um 4,5 ma. kr. Óháður sérfróður aðili var fenginn til að reikna tekjuvirði eigna til staðfestingar á mati stjórnenda.
Að því er varðar mat á virði eignanna, vísum við að öðru leyti í skýringu 12 um rekstrarfjármuni, skýringu 4 um forsendur endurmats og næmni og í skýringu 33 e) og h) um mikilvægar reikningsskilaaðferðir.
Hvernig við endurskoðuðum virðismat virkjana og veitukerfa Endurskoðun okkar beindist að mati stjórnenda á rekstrarvirði virkjana og veitukerfa við árslok 2020. Við fórum yfir aðferðafræði virðismatsins og hvort breytingar hafi orðið á henni á milli ára. Við fórum jafnframt yfir helstu forsendur stjórnenda fyrir matinu.
Við mátum hvort útreikningar virðismats væru unnir í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla og einnig lögðum við mat á hvort skýringar í ársreikningnum varðandi virðismatið væru viðeigandi.
Við höfum einnig yfirfarið mat stjórnenda á eignfærslum og afskriftum virkjana og veitukerfa sem og endurmats og hvort það samræmist alþjóðlegum reikningsskilastöðlum.
Aðrar upplýsingar Stjórn og forstjóri bera ábyrgð á öðrum upplýsingum. Aðrar upplýsingar innifela skýrslu stjórnar og aðrar upplýsingar sem finna má í viðauka með ársreikningnum. Álit okkar á ársreikningnum nær ekki yfir aðrar upplýsingar og við ályktum hvorki um, né veitum staðfestingu á efni þeirra ef frá er talin sú staðfesting varðandi skýrslu stjórnar sem fram kemur hér að neðan.
Í tengslum við endurskoðun okkar berum við ábyrgð á að lesa framangreindar upplýsingar og skoða hvort þær séu í verulegu ósamræmi við ársreikninginn eða þekkingu okkar sem við höfum aflað við endurskoðunina eða virðast að öðru leyti innifela verulegar skekkjur. Ef við komumst að þeirri niðurstöðu, byggt á þeirri vinnu, að það séu verulegar skekkjur í öðrum upplýsingum ber okkur að skýra frá því. Það er ekkert sem við þurfum að skýra frá hvað þetta varðar.
Við staðfestum að samkvæmt okkar bestu vitund eru í skýrslu stjórnar sem fylgir ársreikningi þessum veittar þær upplýsingar sem þar ber að veita í samræmi við lög um ársreikninga og koma ekki fram í skýringum.
Ábyrgð stjórnar og forstjóra á ársreikningnum Stjórn og forstjóri eru ábyrg fyrir gerð og framsetningu ársreikningsins í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla eins og þeir hafa verið staðfestir af Evrópusambandinu og viðbótarkröfur í lögum um ársreikninga. Stjórn og forstjóri eru einnig ábyrg fyrir því innra eftirliti sem nauðsynlegt er varðandi gerð og framsetningu ársreikningsins, þannig að hann sé án verulegra annmarka, hvort sem er vegna sviksemi eða mistaka.
Við gerð ársreikningsins eru stjórn og forstjóri ábyrg fyrir því að meta rekstrarhæfi RARIK ohf. Ef við á, skulu stjórn og forstjóri setja fram viðeigandi skýringar um rekstrarhæfi og hvers vegna þau ákváðu að beita forsendunni um rekstrarhæfi við gerð og framsetningu ársreikningsins, nema stjórn og forstjóri hafi ákveðið að leysa félagið upp eða hætta starfsemi, eða hafi enga aðra raunhæfa möguleika.
Stjórn og endurskoðunarnefnd skulu hafa eftirlit með gerð og framsetningu ársreikningsins.
Ábyrgð endurskoðanda á endurskoðun ársreikningsins Markmið okkar er að afla nægjanlegrar vissu um að ársreikningurinn sé án verulegra annmarka, hvort sem er af völdum sviksemi eða mistaka og að gefa út áritun sem felur í sér álit okkar. Nægjanleg vissa er mikil vissa, en ekki trygging þess að endurskoðun sem framkvæmd er í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla muni uppgötva allar verulegar skekkjur séu þær til staðar. Skekkjur geta orðið vegna mistaka eða sviksemi og eru álitnar verulegar ef þær gætu haft áhrif á fjárhagslega ákvarðanatöku notenda ársreikningsins, einar og sér eða samanlagðar.
Endurskoðun okkar er í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla og hún byggir á faglegri dómgreind og gagnrýni. Við framkvæmum einnig eftirfarandi: • Greinum og metum hættuna á verulegri skekkju í ársreikningnum, hvort sem er vegna mistaka eða sviksemi, skipuleggjum og framkvæmum endurskoðunaraðgerðir til að bregðast við þeirri hættu og öflum endurskoðunargagna sem eru nægjanleg og viðeigandi til að undirbyggja álit okkar. Hættan á að uppgötva ekki verulega skekkju vegna sviksemi er meiri en að uppgötva ekki skekkju vegna mistaka, þar sem sviksemi getur falið í sér samsæri, fölsun, villandi framsetningu ársreiknings, að einhverju sé viljandi sleppt eða að farið sé fram hjá innri eftirlitsaðgerðum. • Öflum skilnings á innra eftirliti, í þeim tilgangi að skipuleggja viðeigandi endurskoðunaraðgerðir, en ekki í þeim tilgangi að veita álit á virkni innra eftirlits félagsins. • Metum hvort reikningsskilaaðferðir og reikningshaldslegt mat stjórnenda ásamt tengdum skýringum séu viðeigandi. • Ályktum um notkun stjórnenda á forsendunni um rekstrarhæfi og metum á grundvelli endurskoðunarinnar hvort verulegur vafi leiki á rekstrarhæfi eða hvort aðstæður séu til staðar sem gætu valdið verulegum efasemdum um rekstrarhæfi. Ef við teljum að verulegur vafi leiki á rekstrarhæfi ber okkur að vekja sérstaka athygli á viðeigandi skýringum ársreikningsins í áritun okkar. Ef slíkar skýringar eru ófullnægjandi þurfum við að víkja frá fyrirvaralausri áritun. Niðurstaða okkar byggir á endurskoðunargögnum sem aflað er fram að dagsetningu áritunar okkar. Engu að síður geta atburðir eða aðstæður í framtíðinni valdið óvissu um rekstrarhæfi félagsins. Engin ástæða er til að efast um forsendur stjórnenda um rekstrarhæfi samstæðunnar. • Metum í heild sinni hvort ársreikningurinn gefi glögga mynd af undirliggjandi viðskiptum og atburðum, metum framsetningu, uppbyggingu, innihald og þar með talið skýringar með tilliti til glöggrar myndar.
Okkur ber skylda til að upplýsa stjórn og endurskoðunarnefnd meðal annars um áætlað umfang og tímasetningu endurskoðunarinnar og mikilvæg atriði sem komu upp í endurskoðun okkar, þar á meðal verulega annmarka á innra eftirliti sem komu fram í endurskoðuninni, ef við á.
Við höfum einnig lýst því yfir við stjórn og endurskoðunarnefnd að við höfum uppfyllt skyldur siðareglna um óhæði og höfum miðlað til þeirra upplýsingum um tengsl eða önnur atriði sem gætu mögulega haft áhrif á óhæði okkar og þar sem viðeigandi er, hvaða varnir við höfum sett til að tryggja óhæði okkar.
Af þeim atriðum sem við höfum upplýst stjórn og endurskoðunarnefnd um, lögðum við mat á hvaða atriði höfðu mesta þýðingu í endurskoðuninni á yfirstandandi ári og eru það megináherslur í endurskoðuninni. Við lýsum þessum atriðum í áritun okkar nema lög og reglur leyfi ekki að upplýst sé um slík atriði eða í undantekningartilfellum þegar endurskoðandinn metur að ekki skuli upplýsa um viðkomandi atriði þar sem neikvæðar afleiðingar upplýsinganna eru taldar vega þyngra en almannahagsmunir.
Ríkisendurskoðun, 24. febrúar 2021
Óskar Sverrisson endurskoðandi
Meðal flýtiframkvæmda á árinu sem voru að frumkvæði viðskiptavina var lagning 8 km háspennujarðstrengs frá Þorbergsstöðum að Álfheimum í Dalabyggð.