58
Áritun óháðs endurskoðanda
ÁRITUN ÓHÁÐS ENDURSKOÐANDA Til stjórnar og hluthafa RARIK ohf.
Álit Við höfum endurskoðað meðfylgjandi samstæðuársreikning RARIK ohf. fyrir árið 2020. Ársreikningurinn hefur að geyma rekstrarreikning og yfirlit um heildarafkomu, efnahagsreikning, eiginfjáryfirlit, sjóðstreymisyfirlit, upplýsingar um mikilvægar reikningsskilaaðferðir og aðrar skýringar. Það er álit okkar að samstæðuársreikningurinn gefi glögga mynd af efnahag samstæðunnar 31. desember 2020, afkomu hennar og breytingu á handbæru fé á árinu 2020, í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla eins og þeir hafa verið staðfestir af Evrópusambandinu. Álitið er í samræmi við skýrslu okkar til endurskoðunarnefndar og stjórnar.
Grundvöllur fyrir áliti Endurskoðað var í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla. Ábyrgð okkar samkvæmt þeim stöðlum er nánar lýst í kaflanum um ábyrgð endurskoðanda hér á eftir. Við erum óháðir RARIK ohf. og í samræmi við settar siðareglur fyrir endurskoðendur höfum við uppfyllt ákvæði þeirra. Við teljum að við endurskoðunina höfum við aflað nægilegra og viðeigandi gagna til að undirbyggja álit okkar.
Megináherslur við endurskoðunina Megináherslur við endurskoðunina eru þau atriði, sem að okkar faglega mati, hafa mesta þýðingu fyrir endurskoðun okkar á ársreikningi samstæðunnar árið 2020. Þessi atriði voru yfirfarin við endurskoðun á samstæðuársreikningnum og höfð til hliðsjónar við ákvörðun á viðeigandi áliti á honum. Í áritun okkar látum við ekki í ljós sérstakt álit á hverju þeirra fyrir sig.
Virðismat virkjana og veitukerfa Virkjanir og veitukerfi eru verðmætustu eignir samstæðunnar og virðismat þeirra er háð mati stjórnenda og því teljum við það vera megináherslu við endurskoðun okkar. Virkjanir og veitukerfi samstæðunnar eru færð samkvæmt endurmatsaðferð og nam bókfært verð þeirra í árslok 2020 58,2 ma. kr. sem nemur um 74% af efnahagsreikningi félagsins. Endurmat er framkvæmt með reglubundnum hætti, þegar stjórnendur meta það að verulegar breytingar hafi orðið á rekstrarvirði eignanna. Mat á rekstrarvirði eignanna er byggt á sjóðstreymisgreiningu. Það er mat stjórnenda að ekki séu forsendur til þess að endurmeta veitukerfi samstæðunnar en að endurmeta bæri virkjanir um 4,5 ma. kr. Óháður sérfróður aðili var fenginn til að reikna tekjuvirði eigna til staðfestingar á mati stjórnenda. Að því er varðar mat á virði eignanna, vísum við að öðru leyti í skýringu 12 um rekstrarfjármuni, skýringu 4 um forsendur endurmats og næmni og í skýringu 33 e) og h) um mikilvægar reikningsskilaaðferðir.
Hvernig við endurskoðuðum virðismat virkjana og veitukerfa Endurskoðun okkar beindist að mati stjórnenda á rekstrarvirði virkjana og veitukerfa við árslok 2020. Við fórum yfir aðferðafræði virðismatsins og hvort breytingar hafi orðið á henni á milli ára. Við fórum jafnframt yfir helstu forsendur stjórnenda fyrir matinu. Við mátum hvort útreikningar virðismats væru unnir í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla og einnig lögðum við mat á hvort skýringar í ársreikningnum varðandi virðismatið væru viðeigandi. Við höfum einnig yfirfarið mat stjórnenda á eignfærslum og afskriftum virkjana og veitukerfa sem og endurmats og hvort það samræmist alþjóðlegum reikningsskilastöðlum.
2020 – ÁRSSKÝRSLA RARIK OHF.