2 minute read

Fætur og sykursýki

Sykursýki fylgir þeim sem með hana greinast ævilangt og getur hún valdið ýmsum fylgikvillum. Meðal þeirra eru fótamein sem verða vegna skemmda í æðum og taugum. Þessar skemmdir geta valdið skynskerðingum og truflun á blóðflæði til fóta.

Meðal alvarlegustu fylgikvilla sykursýki eru fótasár. Þau eru oft langvinn og geta haft verulega neikvæð áhrif á lífsgæði. Því er nauðsynlegt að hafa eftirfarandi í huga:

Stjórn áhættuþátta: Með góðri stjórn á blóðsykri, blóðfitu og blóðþrýstingi er hægt að minnka líkur á fótameinum og öðrum fylgikvillum sykursýki.

Fótaeftirlit: Eftirlitið ætti að fara fram að minnsta kosti einu sinni á ári og vera í höndum fótaaðgerðafræðings eða annarra heilbrigðisstarfsmanna sem hafa til þess þekkingu.

Reykingar auka líkur á fótameinum og er eindregið hvatt til reykbindindis. Aðstoð er í boði á www.reyklaus.is

Fótaaðgerðafræðingar eru löggilt heilbrigðisstétt og hlutverk þeirra er meðal annars að veita einstaklingum með sykursýki þjónustu er snýr að heilbrigði fóta.

Viðtal og skoðun fótaaðgerðafræðings:

Meta ástand fóta með tilliti til blóðflæðis og skyntruflana.

Meðhöndla fótamein svo sem harða húð, sprungna hæla, líkþorn og þykkar inngrónar neglur.

Fótaaðgerðfræðingar veita einnig spangarmeðferð við inngrónum nöglum. Spöng er sett á nöglina í þeim tilgangi að leiðrétta vaxtarlag naglarinnar, en með því er komið í veg fyrir sýkingar og önnur óþægindi.

Veitir fræðslu um val á skóm, hlífðar- og innleggja meðferðir og umhirðu fóta.

Mjög einstaklingsbundið er hve oft þarf að leita til fótaaðgerðafræðings og er það samkomulagsatriði milli viðkomandi einstaklings og meðferðaraðila. Hjá sumum getur liðið allt að ári en aðrir þurfa að koma á fjögurra vikna fresti.

DAGLEG UMHIRÐA

Skoðaðu fætur þínar daglega. Athuga með sprungur á hælum, sár eða merki um sýkingu svo sem roða,hita eða bólgu. Nota skal fótakrem daglega til að halda húðinni mjúkri og koma í veg fyrir sprungur. Ekki skal setja krem á milli tánna.

NEGLUR

Klippa þarf neglur þvert yfir, oft en lítið í einu. Varastu að klippa upp í kviku eða þannig að skarpar brúnir verði eftir sem geta sært. Ekki klippa niður með hliðum naglanna, það eykur líkur á inngrónum nöglum. Mikilvægt er að leita aðstoðar fótaaðgerðafræðings ef umhirða reynist erfið.

Algengasta orsök fótasára eru skór sem passa illa. Þegar nýir skór eru keyptir er best að máta þá seinni part dags þegar fóturinn hefur náð fullri breidd.

Skór eiga að passa frá upphafi, saumar eiga ekki að nuddast við húð. Skó á ekki að þurfa ganga til. Í hvert skipti sem þú ferð í skóna skaltu ganga úr skugga um að engir aðskotahlutir séu ofan í skónum og ekkert hafi stungist upp í sólann. Mikilvægt er að skipta um sokka daglega. Þröngar teygjur geta skert blóðflæðið og saumar á sokkum valdið sárum. Best er að nota saumalausa sokka með víðri teygju. Aldrei ætti að ganga berfættur, það eykur hættu á sáramyndun.

This article is from: