1 minute read
Streita
Í raun er streita fyrirbæri sem hefur jákvæð áhrif á okkur. Hún bætir frammistöðu og skerpir athyglina. Þannig verðum við líklegri til að ráða við flóknar og erfiðar aðstæður. Streita er því ekki skaðleg nema þegar hún er til komin vegna langvarandi álags þar sem lítil eða engin hvíld og endurheimt hefur átt sér stað. Álagið getur hvort sem er verið til komið vegna vinnu eða einkalífs, t.d. þess að búa við langvarandi sjúkdóm.
Ef tekst að létta á streitunni bætir það líðan og eykur starfsgetu. Til þess þarf að auka eigin sýn og skilning á áhrifum langvarandi streituálags á heilsuna, bera kennsl á og vinna með undirliggjandi streituvalda auk þess að finna leiðir til að draga úr hamlandi streitueinkennum.
Þekktu þín einkenni
Birtingarmynd streitu er fjölbreytt og einkenni geta verið líkamleg jafnt sem andleg. Þau geta birst í bæði hegðun og hugsun. Hér eru nokkur algeng dæmi: ● Andleg og líkamleg þreyta og orkuleysi, örmögnunartilfinning. ● Erfiðleikar með minni og einbeitingu. ● Tilfinningalegt ójafnvægi, pirringur, aukin hætta á kvíða, þunglyndi, brotin sjálfsmynd. ● Svefnvandamál, erfitt að sofna og rofinn svefn. ● Líkamlegir kvillar á borð við stoðkerfisvanda, meltingartruflanir, viðkvæmni fyrir áreiti t.d. hljóði og birtu. ● Hegðunarbreytingar ýmiskonar, framtaksleysi, frestunarárátta, tilhneiging til að loka sig af, borða meira eða minna en áður.
Þeir sem eru með sykursýki sjá strax af þessari upptalningu að streita getur auðveldlega haft vond áhrif á blóðsykurstjórnun. Ef þú heldur að þú sért mögulega haldinn streitu en megnar ekki sjálf/ur að greiða úr málum, leitaðu þá hjálpar, hjá t.d. þinni heilsugæslu.