2 minute read

Dropinn

Nú er ár liðið síðan undirritaður skrifaði síðast í þennan miðil og það má segja að þetta hafi ekki verið ár framkvæmda, síður en svo. En eins og mörg félagasamtök hafa eflaust fundið fyrir hefur reynst erfitt að halda hefðbundnu starfi gangandi á tímum covid.

Þrátt fyrir að árlegir viðburðir eins og fjáröflunarviðburðir, foreldrahittingar og skemmtidagskrá fyrir börnin hafi fallið niður tókst okkur með naumindum að framkvæma eitt af okkar mikilvægustu verkefnum, það er að halda sumarbúðir.

Sumarbúðir barna fóru fram að Löngumýri með mjög hefðbundnu snið. Krakkarnir og starfsfólk búðanna fóru í pcr próf áður en haldið var af stað og svo var dagskrá með svipuðu sniði og síðastliðin ár. Tvinnað er saman skemmtun og fræðslu sem hæfir aldri barnanna en aðal markmiðið er auðvitað að allir skemmti sér vel og að veran í búðunum sé jákvæð og hvetjandi.

Fljótlega í vor varð ljóst að ungmennaferð á skólaskipið Kvartsita í Svíþjóð var í uppnámi, staða faraldurs þar í landi var óræð og ekki þótti ráðlagt að fara með hóp af óbólusettum ungmennum erlendis. Því var brugðið á það ráð að senda ungmennin í ferð að Bakkaflöt í Skagafirði dagana 11.-14. júní. Þátttaka var góð og skemmtu ungmennin sér í siglingu, loftbolta, og annarri afþreyingu sem staðurinn hefur uppá að bjóða. Fyrst og fremst nutu þau samveru með jafningjum sem öll eru að kljást við sama verkefni.

Viljum við í stjórn Dropans skila miklu þakklæti til allra þeirra sem komu að búðunum, starfsfólks, foreldra og velvildaraðila. Sumarbúðirnar eru og verða okkar stærsta og mikilvægasta verkefni.

Eins og áður hefur komið fram fóru nokkrir af okkar föstu fjáröflunarviðburðum fyrir bí og því þurfti að hugsa nýjar leiðir til að safna fyrir stóra verkefni ársins. Seint á síðasta ári var leitað til símavers um að sinna úthringi söfnun fyrir félagið.

Söfnun tók mikinn kipp þegar sumarbúðir nálguðust. Við viljum þakka öllum þeim sem studdu okkur!

Stjórn Dropans hafði stór plön fyrir Reykjavíkurmaraþonið í ár og til stóð að halda bæði hitting til að þjappa hlaupurum saman, merkja boli hlaupara og setja upp hvatningarstöðvar á 10km hlaupaleið allt með það fyrir sjónum að safna aurum fyrir okkar stóra verkefni. Það má því segja að þegar hlaupinu var frestað og því svo loks aflýst hafi síðustu dropum framkvæmdargleði verið helt úr glasinu. Engu að síður söfnuðust nokkur hundruð þúsund og færum við þeim sem hlupu á eigin vegum okkur til stuðnings bestu þakkir fyrir.

Vonandi eigum við bjartari tíma framundan í félagastarfinu og getum átt margar samverustundir á árinu 2022.

Leifur Gunnarsson, formaður Dropans

Sýndu þér sömu mildi og samhug og þú auðsýnir öðrum!

This article is from: