5 minute read
Ungt fólk til áhrifa gegn loftslagsbreytingum?
sérfræðingur á sviði virðiskeðju hjá Matís
Loftslagsbreytingar eru eitt stærsta vandamálið sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir um þessar mundir. Hér á Íslandi eru það helst áhrif á hafið sem valda áhyggjum, enda sjávarútvegurinn mikilvæg atvinnugrein bæði efnahagslega og menningarlega. Þá eru e.t.v. ríkust ástæða til þess að hafa áhyggjur af afdrifum smárra byggðarlaga þar sem fábreytt atvinnulíf reiðir sig að mestu á hafið. Hvað verður um þau ef aðstæður í kringum landið taka verulegum breytingum? Mikilvægt er að unga fólkið okkar fái góða fræðslu um málefnið enda eru það þau sem munu koma til með að verða fyrir áhrifunum auk þess sem þau eru ótrúleg uppspretta góðra hugmynda og framtíðarlausna.
Grænir Frumkvöðlar Framtíðar
Í vetur hefur fræðsluverkefnið Grænir Frumkvöðlar Framtíðar (GFF) verið í gangi í þremur grunnskólum á landsbyggðinni, Nesskóla í Neskaupstað, Árskóla á Sauðárkróki og í Grunnskóla Bolungarvíkur. Verkefninu er fyrst og fremst ætlað að vekja áhuga og efla þekkingu nemenda á loftslags- og umhverfismálum, nýsköpun og sjálfbærri auðlindanýtingu með áherslu á hafið. Matís fer með verkefnastjórnun en þar að auki komu FabLab smiðjur á hverjum stað að samstarfinu á samt sjávarútvegsfyrirtækjum í heimabyggð, Djúpinu Frumkvöðlasetri, Cambridge University og Climate KIC. Þar að auki hefur N4 unnið að heimildamynd um verkefnið sem verður sýnd á sjónvarpsstöðinni í haust. Verkefnið er fjármagnað af Loftslagssjóði.
Hvar á að byrja?
Þegar kemur að erfiðu umfjöllunarefni líkt og loftslagsbreytingum getur verið erfitt að átta sig á því hvar er best að byrja. Lagt var upp með að halda vinnustofur og þær voru útbúnar með það í huga, þ.e. að gefa kennurum nauðsynlegar bakgrunnsupplýsingar um loftslagsbreytingar, áhrif þeirra á hafið, lífríki þess, auðlindanýtingu og samfélög. Vinnustofurnar voru fjórar og samanstóðu þær af hugtakalista, efnislegri umfjöllun og svo verkefnabanka. Þó svo að mælt væri með að vinna vinnustofurnar sjálfar í ákveðinni röð gátu kennarar valið umfjöllunarefni og verkefni innan vinnustofanna eftir því hvað hentaði hverjum nemendahóp fyrir sig.
Setja í samhengi sem krakkarnir þekkja
Eitt af því sem er talið mikilvægt þegar kemur að því að fræða börn og ungmenni um erfið málefni líkt og loftslagsbreytingar er að setja það í samhengi sem er þeim kunnuglegt. Í tilfelli GFF lá beinast við að kanna möguleg áhrif loftslagsbreytinga á sjávarbyggðir, enda líkur á að þau verði töluverð sé ekkert gert. Áhrifin sem eru hvað augljósust eru bein áhrif á hafið og lífríki þess en auk þeirra könnuðu nemendur afleidd áhrif á efnahag og samfélög. Vegna þess að verkefnið fór fram í sjávarplássum þekktu allir nemendurnir til einhvers sem hafði lífsviðurværi sitt af hafinu hvort sem það eru sjómenn, starfsfólk fisk- og rækjuvinnsla eða starfsfólk nýsköpunarfyrirtækja sem nota hráefni úr hafinu. Þetta eru foreldrar þeirra, frænkur og frændur, afar og ömmur. Það var því auðveldara fyrir þau að gera sér í hugarlund hver áhrifin myndu verða á þeirra eigið líf, skyldu aðstæður í hafinu við landið gjörbreytast. Verkefnin sem fylgdu vinnustofunum fjórum snerust að mestu leyti um þetta en þar voru m.a. hlutverkaleikir, tilraunir og fleira. Að tengja umfjöllunarefni við nærumhverfi nemenda er mikilvægt, bæði vegna þess að samhengi færir vandamálið nær þeim og gerir þeim auðveldara að skilja, en líka vegna þess að auðveldara getur reynst að sjá mögulegar lausnir í umhverfi sem er kunnuglegt. Þau vandamál sem verða til vegna loftslagsbreytinga fara úr því að vera fjarlæg, óáþreifanleg og yfirþyrmandi yfir í að vera augljós og aðkallandi og þar með viðráðanlegri.
Eitt verkefna GFF var að kanna áhrif mismunandi veiðiaðferða á fiskistofna. Hér eru gúmmíbangsarnir fiskarnir en rörin og skeiðararnar tákna mismunandi aðferðir.
Fisk roð var eitt þeirra hráefna sem nemendum datt í hug að nota í stað plasts. Það hefur meðal annars þann kost að eftir notkun brotnar það niður.
var að fá heimsóknir frá þeim sem höfðu stundað sjóinn í mörg ár og fá að heyra beint frá þeim hvernig starfsumhverfi þeirra hefði breyst í áranna rás. Fyrir heimsóknirnar höfðu krakkarnir undirbúið spurningar sem sneru t.d. að breytingum í veðurfari, á tegundum sem veiddar eru, tækniframförum og ýmsu fleiru. Annað stórt verkefni fól í sér að fara í heimsóknir í sjávarútvegsfyrirtæki. Þar fengu nemendur fræðslu um starfsemi þeirra og hvaða áskorunum þau standa frammi fyrir í sambandi við umhverfismál. Krakkarnir voru mjög áhugasamir í heimsóknunum, enda að fá ný sjónarhorn á starfsemi sem er þeim annars kunnugleg. Aftur setur þetta það sem þau höfðu lært í allan vetur í nærtækara samhengi. Greinilegt var að börnin gátu nýtt sér þá þekkingu sem þau höfðu varið vetrinum í að afla sér. Það kviknuðu ýmsar spurningar og vangaveltur, og virtust þau sérstaklega áhugasöm um hvernig starfsemin hafði breyst í gegnum tíðina, og í því samhengi hvernig hún myndi breytast á næstu árum. Út frá þessum spurningum kviknuðu svo alls konar hugmyndir og það er aldrei að vita hvort einhverjar þeirra leiði til sprotafyrirtækja í framtíðinni. Það var allavega ljóst að krakkarnir eru efnilegir frumkvöðlar og eiga fullt erindi inn í alla umræðu um framtíð sinnar heimabyggðar, og landsins alls.
Að vinna með þekkinguna
Á Íslandi er sérstaklega sterkt umhverfi nýsköpunar þegar kemur að því að nýta hina ýmsu hluta bláa lífmassans en blái lífmassinn er allur sá lífmassi sem kemur úr sjónum, þ.e. fiskar, þari, skeldýr, o.s.frv. Krakkarnir fengu sjálfir að vinna með þekkinguna í svokölluðum MAKEathonum sem voru í raun hápunktur vetrarins í GFF. MAKEathonin voru nýsköpunarkeppnir sem haldnar voru í hverjum skóla fyrir sig. Þar glímdu nemendur við áskoranir sem þeir höfðu komið auga á í heimsóknum sínum í sjávarútvegsfyrirtækin. Áskoranirnar sem unnið var með, voru því raunverulegar, þ.e. þetta voru (og eru) raunveruleg vandamál sem fyritækin eru að glíma við frá degi til dags. Keppnin gekk svo út á það hvaða lið fann upp á bestu lausninni. Krakkarnir komu með eigin hugmyndir og rannsökuðu hversu raunhæfar þær væru t.d. hvað varðar kostnað, hráefni, framleiðslu og markaðsetningu. Smíðaðar voru frumgerðir að uppfinningum, plaköt og logo voru hönnuð, kvikmyndaðar auglýsingar teknar upp og margt fleira. Sköpunargleðin var ótrúleg og krakkarnir afar metnaðarfullir. Þetta voru erfið verkefni en krakkarnir stóðu sig hreint ótrúlega vel, sem sannar enn og aftur að krakkar eiga fullt erindi í nýsköpun. Úrslit keppninnar verða svo tilkynnt í nýsköpunarvikunni í maí.
Fyrir frekari upplýsingar er bent á að hafa samband við verkefnastjóra verkefnisins: Justine@matis.is. Þá eru skólar sem vilja taka þátt í verkefninu í framtíðinni sérstaklega hvattir til að hafa samband. Hægt er að fylgjast með gangi verkefnisins á heimasíðu verkefnisins: https:// graenirfrumkvodlar.com/ eða á Instagramsíðu verkefnisins: https:// www.instagram.com/gff_matis/ #Graenirfrumkvodlar.