5 minute read

Lyfsala á sjó og landi

Snorri Rafn Hallsson

Elín Bragadóttir Apótek Vesturlands og Reykjavíkur Apótek ritstjóri hafa um árabil séð um lyfjakistur skipa og báta fyrir ýmsar útgerðir. Við hittum lyfsalann og lyfjafræðinginn Ólaf Adolfsson og ræddum apótek framtíðarinnar.

Þann 1. febrúar síðastliðinn opnaði Reykjavíkur Apótek nýtt útibú í Skeifunni 11b en fyrirtækið hefur frá árinu 2009 starfrækt lyfsölu í gamla Héðinshúsinu á Seljavegi 2. Ólafur Adolfsson, lyfjafræðingur er einn stofnanda þess og eigandi, en hann hefur um árabil sinnt þjónustu við lyfjakistur skipa og báta, bæði í Reykjavík og á Akranesi, en þar rekur hann einnig Apótek Vesturlands sem var stofnað árið 2007. Ólafur hefur alla tíð lagt mikið upp úr því að sinna þjónustu við skip og útgerðir og verið áhugasamur um aðbúnað sjómanna þegar kemur að lyfjum og sjúkragögnum. Má þar nefna margítrekaðar áskoranir hans til samgönguyfirvalda um uppfærslu og endurbætur á reglugerð um lyfjakistur skipa. Ólafur hefur tekið sér ýmislegt fyrir hendur í gegnum tíðina, spilaði m.a. með hinu sigursæla knattspyrnuliði ÍA frá 1991 til 1997, á yfir 20 leiki með karlalandsliði Íslands í knattspyrnu og er nú kominn í pólitíkina. Ólafur er orðinn Skagamaður í húð og hár þrátt fyrir að vera fæddur í Reykjavík og uppalinn í Ólafsvík, en samhliða lyfsölunni er hann nú bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akranesi. Við mæltum okkur mót á skrifstofu Faxaflóahafna, en Ólafur er áheyrnarfulltrúi í stjórn Faxaflóahafna fyrir hönd Akraneskaupstaðar.

Eldskírn og áskoranir

Apótek Vesturlands stofnaði Ólafur eins og fyrr segir árið 2007 og þó fyrirtækið hafi fengið mjög góðar viðtökur var á brattan að sækja í upphafi. „Við fengum svo sannarlega eldskírn á sínum tíma þegar við hófum starfsemi. Samkeppnisaðili okkar kom ekki vel fram og vildi bola okkur út af markaðnum svo maður segi það bara hreinlega. Þeir reyndu ýmislegt misjafnt í þeirri baráttu en þeim varð ekki kápan úr því klæðinu“, segir Ólafur. Skömmu síðar áttu aðstæður í þjóðfélaginu eftir að breyttast hratt með hruninu en þjónusta apóteka er jafnan nokkuð stöðug hvað sem öðru líður. Ólafur segir að sala á lyfjum eigi eftir að vaxa í framtíðinni. „Íslenska þjóðin er að eldast og okkur er að fjölga. Sjúkdómar og krankleiki hefur fylgt mannkyninu frá örófi og mun gera það áfram þannig að þetta er nokkuð tryggur bransi“.

Ólafur hefur nýtt sér margt af því sem hann lærði þegar hann lék með ÍA á gullaldarskeiðinu 1991-1996, þegar liðið náði þeim einstaka árangri að verða Íslandsmeistari 5 ár í röð. „Maður lærði ýmislegt í fótboltanum, það er náttúrulega ákveðinn agi og vinnusemi sem þarf til að ná árangri en það er ekki síður samvinnan, seiglan og traustið á foringjanum og liðsfélögunum sem skiptir máli. Að búa til heildsteypt lið sem stefnir

Ólafur Adolfsson, lyfsali.

allt að einu marki, það lærir þú svo sannarlega í fótbolta“, segir Ólafur og velgengnina í lyfsölunni þakkar hann meðal annars góðu starfsfólki. „Við erum reyndur og samhentur hópur sem erum búin að starfa lengi saman og eigum mjög vel saman. Við vitum hvað þarf að gera og það er ekkert hálfkák“.

Apótek framtíðarinnar

Þjónusta apóteka hefur breyst mikið undanfarin ár og á eftir að þróast enn frekar í framtíðinni. Þar spilar margt inn í, svo sem tæknibreytingar, breytingar á greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands og verðlagning lyfja í smásölu. Fólk er almennt upplýstara og meðvitaðra um lyf og sjúkdómsmeðferðir en áður og fyrr. Eftir að lyfsala var gefin frjáls var mikil áhersla á verðlag lyfja en það hefur breyst mikið með breyttu greiðsluþátttökukerfi sjúkratrygginga. „Það er mín tilfinning að í dag velji viðskiptvinir apótek fremur út frá staðsetningu og þjónustu en verði. Því skiptir persónuleg þjónusta og traust á lyfjafræðingum og starfsfólki apóteka miklu máli,“ segir Ólafur. „Við höfum alltaf lagt áherslu á góða og persónulega þjónustu, það er aðalsmerki okkar apóteka að bjóða góða og persónulega þjónustu“. Tilkoma tæknilausna hefur áhrif á hlutverk lyfjafræðingsins, þar sem stærri hluti lyfsölu kemur til með að fara fram í gegnum netið. Ólafur sér því fyrir sér að í framtíðinni muni apótek fara með stærra hlutverk í heilsufarseftirliti og verða virkari þátttakendur í meðferð sjúklinga en er í dag.

Þjónusta við skip og báta

Bæði Apótek Vesturlands og Reykjavíkur Apótek eru nálægt höfn og hefur Ólafur frá upphafi lagt sig eftir því að sinna þjónustu við lyfjakistur skipa og við útgerðir. „Það fylgir því mikil ábyrgð að hafa umsjón með lyfjakistum skipa og báta“, segir Ólafur og bætir við, „það skiptir máli að sjómenn hafi aðgang að lyfjum og sjúkragögnum sem tryggja öryggi þeirra. Þú ert oft mjög langt frá aðstoð og þá getur skipt máli, upp á líf og dauða jafnvel, hvort að sá búnaður sem er um borð sé í lagi eða ekki“. Á stærri skipum þarf lyfjafræðingur að fara um borð og taka út aðstöðuna, fara yfir lyfjakistuna, fylla á það sem vantar, endurnýja það sem þarf að skipta út og votta að allt sé í lagi og samkvæmt reglum. Hjá smærri bátum er yfirleitt komið með kistuna í apótek og hún yfirfarin þar. Þetta er því að mörgu leyti frábrugðið venjulegri lyfsölu, og þarfnast sérstakrar aðstöðu og regluverks.

„Það sem gerir okkur erfitt fyrir er að við erum að vinna eftir meira en 20 ára gamalli reglugerð. Lyfja- og hjúkrunarvörulistar hafa ekki verið uppfærðir í mjög langan tíma“, segir Ólafur. Reglugerðin, sem er að stofninum til frá árinu 1998, gildir um öll skoðunarskyld skip á Íslandi. „Ég hef í langan tíma kallað eftir breytingum á reglugerðinni, og þá sérstaklega lyfjalistunum vegna þess að það er ekki endilega verið að veita bestu meðferðir sem fáanlegar eru í dag. Úr þessu þarf að bæta“. Borið hefur á því að athugasemdir hafi verið gerðar við lyfjakistur íslenskra skipa sem sigla til annarra landa. „Við heyrum reglulega af athugasemdum erlendra eftirlitsaðila vegna skipa sem við þjónustum, um að lyfjabirgðir séu naumar og takmarkaðar“.

Berst fyrir breytingum

Síðastliðin 6 ár hefur Ólafur setið í bæjarstjórn Akraneskaupstaðar og meðal annars lagt áherslu á það að bæjarfélagið verði sjálfbært varðandi atvinnutækifæri. En hvað fær fótboltakappa og lyfjafræðing til að fara í framboð? „Ég hef alltaf haft áhuga á pólítík og það er auðvitað þannig að þú getur staðið á hliðarlínunni og nöldrað um að hlutirnir eigi frekar að vera gerðir svona eða hinsegin en það skilar yfirleitt engu. Þá er ágætis leið, að reyna að ná áhrifum með því að bjóða sig fram og benda á það sem þú hefur fram að færa og vilt berjast fyrir“. Þannig hefur Ólafur einnig beitt sér fyrir breytingu á reglugerð um lyfjakistur skipa en segir að það hafi tekið ótrúlega langan tíma og málaflokkurinn sé hornreka hjá samgönguyfirvöldum. „Maður sér ósköp lítinn afrakstur, en ég er þrjóskur“, segir Ólafur og bætir við að „yfirvöld eru aðeins að vakna til meðvitundar um þetta, svo ég sé fram á að þetta muni breytast áður en langt um líður“.

This article is from: