5 minute read

Námsferð til Bandaríkjanna

Ferðadagbók alþjóðafulltrúa

Námsferð til Bandaríkjanna í mars 2013

Advertisement

Eftir Kristínu Arnórsdóttur, alþjóðafulltrúa Politica

Eins og margur veit stendur stjórnmálafræðinemum á 2. og 3. ári í grunnnámi til boða að fara í námsferð á vorönn. Ef áhugi er fyrir námsferð meðal nemenda er kosið á milli áfangastaðanna Brussel í Belgíu og New York og Washington í Bandaríkjunum. Það varð ljóst nokkuð snemma að meiri áhugi var fyrir Bandaríkjunum meðal nemenda, og því var stefnan sett vestur um haf strax í október á seinasta ári. Þá tók við margra mánaða skipulags og fjáröflunarverkefni nemendahópsins og má segja að undirbúningsvinnan sem nemendur stóðu að hafi gengið einstaklega vel upp.

Alls fóru 25 nemendur í ferðina, en auk þeirra fengum við Jón Gunnar Ólafsson, aðjúnkt í stjórnmálafræðideild og alhliða snilling, með okkur í ferðina sem kennara fagsins. Það var mikið happ fyrir námsferðalanganna að fá Jón Gunnar í þetta verkefni, enda stóð hann fyrir meirihluta þeirra heimsókna sem hópnum bauðst að sækja.

Flogið var til New York frá Keflavík, föstudaginn 1. mars síðastliðinn. Hópurinn hittist á Leifi Eiríks, en þar skiptust nemendur á að aðvara hvorn annan um stranga landamæraverði á flugvöllum í Bandaríkjunum. Sem betur fer lenti þó enginn í vandræðum þegar út var komið, fyrir utan alþjóðafulltrúann sem fékk leiðinlega ræðu um fingraskannann frá einum landamæraverðinum.

Því næst safnaðist hópurinn saman í tveimur glæsikerrum sem fluttu þá að forláta hóteli í efravestur hverfinu (Upper West side) í New York. Eftir að allir höfðu komið sér fyrir fór hópurinn saman út að borða á veitingastaðnum El Malecón, sem matreiðir rétti frá Dómeníska lýðveldinu. Það má segja að maturinn hafi komið flestum að óvart þar sem nánast enginn vissi hvað hann var að panta.

Laugardagurinn var svo mest megnis frídagur, fyrir utan heimsókn í NYU (New York University) þar sem nemendur í stjórnmálafræðideild skólans tóku á móti okkur og fræddu okkur um bandarísk stjórnmál og kosningar. Nemendurnir áttu það sameiginlegt að hafa unnið á kosningaskrifstofu fyrir forsetaframbjóðanda fyrir kosningarnar 2012. Eftir hringumræður með nemendunum í skólanum fóru þau með okkur á matsölustaðinn Amity Hall þar sem námsferðalöngum gafst kostur á að taka þau eintali um hin ýmsu málefni.

Á mánudagsmorgni mættu nemendur svo hressir í morgunmat eftir annan frídag í stóra eplinu. Því miður var morgunmaturinn á hótelinu ekki upp á marga fiska en það spilti þó ekki eftirvæntingu hópsins fyrir heimsóknum dagsins. Byrjað var á ferð í Sameinuðu þjóðirnar þar sem okkur var skipt í tvo hópa sem fékk hver sinn leiðsögumann. Það var ys og þys í aðalbyggingunni útaf árlegri kvennaráðstefnu sem byrjaði á sama degi. Allsstaðar mátti sjá konur í fallegum þjóðbúningum og aðalþingsalurinn var þétt setinn af fulltrúum landanna.

Eftir heimsóknina lá leið okkar til fulltrúa í Maltnesku riddarareglunni (Sovereign Military Order of Malta) sem bauð okkur í heimsókn á sendiskrifstofu sína og ræddi við okkur um starfsemi reglunnar. Því næst flýtti hópurinn sér á Time Square í hjarta borgarinnar þar sem við áttum bókaða heimsókn til ritsjórans Toni Reinhold hjá Reuters. Dagurinn endaði svo á heimsókn á skrifstofu fastanefndar Íslands hjá Sameinuðuðu þjóðunum.

Þriðjudagurinn var svo seinasti dagur nemenda í New York. Dagurinn byrjaði á heimsókn í skemmtileg grasrótar hagsmunasamtök sem kallast NYPRIG (New York Public Interest Research Group). Samtökin vinna meðal annars að því að hvetja nemendur og ungt fólk í Bandaríkjunum til að skrá sig á kosningaskrá (þess má geta að Barack Obama er fyrrverandi meðlimur samtakana). Seinni heimsóknin var svo hringborðsumræða með Dr. Cörlu Ann Robbins hjá Council on Foreign Relations. Eftir heimsóknina tóku nemendur svo rútur til Washington DC en þar kom hópurinn sér fyrir á hefðbundnu farfuglaheimili (Youth Hostel).

Miðvikudagsmorguninn í Washington var heldur dauflegur. Veðurspáin gerði ráð fyrir snjóstormi í borginni (Snow Storm Saturn) og því var nánast allt lokað og enginn á ferð nema hópur af léttklæddum Íslendingum. Heimsóknirnar sem höfðu verið bókaðar þann daginn héldust þó mest megnis eftir áætlun, og við byrjuðum daginn á heimsókn í American Foreign Service Association og skoðunarferð um Utanríkisráð Bandaríkjanna.

Seinnipart dagsins heimsóttum við íslenska sendiráðsbústaðinn á Kalorama Road þar sem Guðmundur Árni Stefánsson og samstarfsmaður hans Erlingur Erlingsson tóku vel á móti okkur.

Nemendahópurinn tók fimmtudaginn einstaklega snemma með heimsókn í Pentagon þar sem við byrjuðum á skoðunarferð um bygginguna. Leiðsögumennirnir okkar voru algjörir snillingar, strákur í sjóhernum og stelpa í flughernum, bæði voru þau meistarar í gríni og að ganga aftur á bak. Eftir skoðunarferðina var okkur svo boðið að ræða við starfsmenn Pentagon sem fengust við málefni Íslands. Eftir hádegið lá síðan leið okkar í þinghúsið, þar sem við fengum skoðunarferð og glimmrandi flotta fyrirlestra um hin ýmsu listaverk í þeirri margbrotnu byggingu.

Það var vægast sagt mikil eftirvænting fyrir föstudagsmorgninum, en þá áttum við bókaða heimsókn í Hvíta húsið. Okkur barst tilkynning um það að öllum heimsóknum í Hvíta húsið skyldu verða aflýst frá og með laugardeginum 9. mars vegna sparnaðar hjá ríkinu (þar með mun fólk ekki geta fengið að heimsækja hvíta húsið í framtíðinni uns kostnaðarmál verða leyst) og því rétt sluppum við inn meðal seinustu gestanna í bili. Eftir hádegið héldum við svo á skemmtilegan fund með stategistanum Will Marshall, sem hefur meðal annars unnið fyrir Bill Clinton.

Laugardagurinn var fyrsti frídagur nemenda í Washington. Flestir nýttu hann til að skoða söfn og minnisvarða eða versla og rölta um borgina. Tvær val heimsóknir stóðu nemendum til boða á laugardeginum, heimsókn í Fox News, og heimsókn og skoðunarferð í Georgetown University.

Ferðin okkar endaði á sunnudeginum, nemendur fengu frí um morguninn í glimrandi sól og hita til að kíkja á seinustu staðina í Washington áður en lúxusrútan sem við leigðum kom og sótti okkur.

Námsferðin var í fáum orðum einstaklega lærdómsrík og skemmtileg. Frábær hópur af nemendum, frábærar heimsóknir og ómetanleg innsýn inn í stjórnmál frá ýmsum sjónarhornum.

Við viljum nýta tækifærið og þakka þeim sem styrktu okkur með gjöfum. Hafliða Ragnarssyni og konfekt.is sem gáfu okkur einstaklega flotta og girnilega konfektkassa, 66° norður sem gaf okkur fallegar húfur og bókaútgáfuna Bjart sem gaf okkur vandaðar ljósmyndabækur. Einnig viljum við þakka Háskólabíói fyrir aðstoð við fjáröflun.

Að ofan: Fyrir utan Hvítahúsið. Til hliðar: Hópurinn í Council of Foreign Relations.

This article is from: