8 minute read
Erkióvinir ráðleggja kjósendum
Hvað myndir þú ráðleggja fólki að gera sem hefur ekki gert upp hug sinn fyrir Alþingiskosningarnar í vor en vill taka upplýsta ákvörðun?
Ég myndi ráðleggja fólki að kynna sér árangur núverandi ríkisstjórnar og leggja mat á hvort umsagnir um hana séu sanngjarnar. Síðan er auðvitað að skoða það sem stendur til boða nú. Fólk á að hafa í huga að það var frjálshyggja Sjálfstæðisflokksins sem leiddi þjóðina afvega á tímabilinu frá um 1995 til 2008. Sú stefna sigldi Íslandi inn í stærsta bóluhagkerfi sögunnar og svo í stærsta hrun sögunnar. Það er ekkert smá mál engin smá mistök. Svo á fólk að spyrja að hvaða leyti hefur Sjálfstæðiflokkurinn skipt um stefnu? Mér sýnist hann í engu hafa breytt um kúrs. Þeir sækja vúdúhagfræðina og auðmannadekrið til Hannesar Hólmsteins sem aldrei fyrr og bjóða enn stærri skammt af þessari snákaolíu en fyrr. Er það trúverðugt?
Advertisement
Svo er Framsókn á mikilli siglingu núna. Fólk virðist trúa því að hún muni bæta hag heimilanna með fastri áherslu á skuldaniðurfellingu. Framsókn gerðist of höll undir frjálshyggju Sjálfstæðismanna á árum Davíðs og Halldórs og tengdust talsverðri fjármálaspillingu þá. Nú er ný forysta og fleira nýtt fólk. Kannski vill fólk láta reyna á hvort þau skili kjarabótum. Það er ekki fráleit afstaða miðað við aðstæður, þó fortíðin og fjármálaöflin sem standa á bak við flokkinn hræði óneitanlega.
Svo eru nýju framboðin. Ég er svolítið skotinn í Bjartri framtíð. Mér finnst þau með áhugaverða öðruvísi nálgun á pólitík og geðþekka miðjustefnu. Mér hugnast það líka vel að þau vilja klára aðildarviðræðurnar við ESB til að sjá hvað kemur út úr því og leyfa þjóðinni svo að taka upplýsta ákvörðun. Svo finnst mér Guðmundur Steingrímsson sérstaklega geðþekkur forystumaður. Faðir hans var vel þokkaður leiðtogi Framsóknarflokksins á sini tíð og að mörgu leyti farsæll stjórnmálamaður.
Ég held að önnur ný framboð muni ekki komast á skrið, nema helst Lýðræðisvaktin. Þar mun væntanlega ráða miklu hvernig til tekst við uppstillingu á framboðslistum. Það á eftir að koma í ljós. Mér skilst að ungt fólk hafi einhvern áhuga á Pírötum, en það er held ég einkum leið til að sóa atkvæði sínu.
Þetta kallar allt á svolitla stúdíu, en ef menn vilja taka upplýsta ákvörðun um örlög atkvæðis síns þá kallar það á vinnu. Stjórnmálafræðinemar eiga að vera öðrum fremri í könnun valkostanna. Kannski væri það verðugt verkefni fyrir stjórnmálafræðinema að taka saman hlutlaust skýrt yfirlit um einkenni allra framboðanna og stefnumálanna sem verða í boði fyrir kosningarnar í vor. Þannig gætuð þið eflt ykkar eigin upplýstu ákvörðun og hjálpað öðrum kjósendum í leiðinni.
Hvort telur þú að það sé betra eða verra að hafa færri og aðgreindari flokka eða fleiri og líkari?
Frá sjónarhóli markaðsfræðanna eru fleiri og sérhæfðari framboð líklegri til að koma betur til móts við fjölbreyttar skoðanir kjósenda. Þá aukast líkurnar á að einstakir kjósendur geti fundið sér "klæðskerasaumað" framboð til að velja! Þetta er hins vegar ekki eina sjónarmiðið, því fámennisframboð skipta engu máli þegar á hólminn er komið. Ef þau ná ekki 5% markinu þá detta atkvæði þeim greidd í reynd niður dauð. Tveir alltumlykjandi flokkar, eins og er í Bandaríkjunum og lengi var í Bretlandi (hægri og vinstri valkostir) ná yfir megin áherslumun fólks, en eru svolítið eins og fjöldaframleiðsluverksmiðjur eða loðnubræðslur. Taka oft lítið tillit til sérmála. Örfá framboð til viðbótar geta mætt slíku, eins og t.d. VG gerir hér á landi, þjóna vel ákveðinni og mikilvægri sérvisku, eins og á sviði umhverfisverndarmála og femínisma. Samt á fólk líka að hugsa sem svo að hægt er að vinna sérmálum fylgi innan stærri framboðanna. Án stærðar ná menn engum áhrifum í fulltrúalýðræðinu. Þess vegna er mikilvægt að hafa stóra flokka og menn eiga að forðast að sundra fólki
STEFÁN ÓLAFSSON FÉLAGSFRÆÐIPRÓFESSOR
sem hefur sömu lífsskoðun í megindráttum. Það dregur á möguleikum á að hafa áhrif og þá er til lítils unnið.
Heldur þú að kosningaþátttaka í ár verði frábrugðin kosningaþátttöku fyrri ára?
Ég myndi spá því að kosningaþátttaka verði lítillega minni en áður.
Hver er þín persónulega spá fyrir útkomu kosninganna í vor?
Þetta er stærsta spurningin! Ég held að það sé enn mikil óvissa um útkomur. Fylgið er almennt mjög laust og reikult. Það er ein af afleiðingum þess tapaða trausts sem kom með hruninu. Það vekur auðvitað mikla athygli nú hversu illa gengur hjá Sjálfstæðisflokknum og velgengni Framsóknar að sama skapi vekur athygli. Ég býst við að stjórnarflokkarnir muni rétta hlut sinn eitthvað frá núverandi könnunum en tapa þó miklu frá síðustu kosningum, sem voru þeim óvenju hagstæðar. Stjórnarflokkarnir munu líða fyrir það að enginn getur verið ánægður með kjör sín í dýpstu kreppu lýðveldissögunnar, jafnvel þó þau hafi náð þokkalegum árangri við endurreisnina og hreingerninguna ekki síst miðað við aðrar kreppuþjóðir. Ég hélt um tíma að Björt framtíð gæti endurtekið leik Besta flokksins í Reykjavík og siglt upp í hæstu hæðir. Það er alls ekki útilokað að þau fái góða kosningu. Framsókn virðist þó vera að taka það svolítið frá þeim, en þetta gæti breyst. Svo er óvissa um Lýðræðisvaktina. Hún gæti sett strik í reikninginn. Óvissa er sem sagt enn mjög mikil.
Nú líður senn að Alþingiskosningum og eru væntanlega margir kjósendur með valkvíða þar sem úrvalið hefur sjaldan verið jafnmikið. Íslenska leiðin fékk prófessoranna og andstæðurnar Hannes Hólmstein Gissurarson og Stefán Ólafsson til þess að ráðleggja kjósendum og spá fyrir um úrslit kosninganna.
Hvað myndir þú ráðleggja fólki að gera sem hefur ekki gert upp hug sinn fyrir Alþingiskosningarnar í vor en vill taka upplýsta ákvörðun?
Ég myndi ráðleggja því að kjósa annan hvorn stjórnarandstöðuflokkinn, Sjálfstæðisflokkinn eða Framsóknarflokkinn. Ríkisstjórnin, sem nú situr, er hin versta, sem ég hef þekkt. Hún hóf feril sinn í skugga ofbeldis og óeirða og lét verða fyrstu verk sín að hrekja gamla stjórnmálaandstæðinga úr embættum (Davíð Oddsson) og jafnvel draga þá inn í réttarsal (Geir Haarde), sem er einsdæmi í Íslandssögunni. Hún kiknaði í hnjáliðunum fyrir framan útlendinga og gerði fráleitan samning við Breta og Hollendinga, sem hefði sett okkur í skuldafangelsi áratugum saman: Kostnaðurinn af Icesavesamningnum, sem átti að keyra óséðan í gegnum þingið, hefði verið um 531 milljarðar. Hún tók lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem var hreinn óþarfi að taka, en vaxtakostnaðurinn nam um 30 milljörðum á ári. Hún afhenti erlendum vogunarsjóðum tvo af bönkunum á silfurfati, sem er óskiljanleg ákvörðun. Hún efndi til kosninga á stjórnlagaþing, sem Hæstiréttur dæmdi ógildar, en gaf síðan Hæstarétti langt nef með því að skipa sömu einstaklinga í svokallað stjórnlagaráð, og frá því fólki hefur komið óskýr óskalisti, sem á að neyða upp á þjóðina kortéri fyrir kosningar. Hún reynir að þröngva okkur inn í Evrópusambandið, þótt Vinstri grænir svíki með því sín kosningaloforð, á sama tíma og ESB er að glíma við stórkostlegan vanda, og hún kallar aðlögunarferilinn „samningaviðræður“. Hér hefur enginn hagvöxtur verið frá bankahruninu (nema sýndarvöxtur vegna þess, að menn tóku út lífeyrissparnað og lengdu í lánum), en í öðrum Evrópulöndum, sem fengu jafnvondan skell, er nú að verða ör hagvöxtur, til dæmis í Eystrasaltsríkjunum. Og forsætisráðherrann getur ekki einu sinni farið rétt með fæðingarstað Jóns forseta.
Hvort telur þú að það sé betra eða verra að hafa færri og aðgreindari flokka eða fleiri og líkari?
Ég er þeirrar skoðunar, að best sé að hafa tveggja flokka kerfi eins og í Bandaríkjunum og Bretlandi. Þá verður ábyrgð einstakra flokka skýrari. Þá eiga menn völ um tvo ólíka kosti, stjórn eða stjórnarandstöðu. Hlutfallskosningar virðast á yfirborðinu réttlátari. En markmið kosninga er í rauninni ekki að endurspegla þjóðarviljann, því að hann er ekki til nema sem hugtak í stjórnmáladeilum. Markmið kosninga er að draga valdamenn til ábyrgðar. Kjósendur eru spurðir á nokkurra ára fresti, hvort þeir vilji áfram þá valdamenn, sem þeir hafa. Lýðræði er umfram allt friðsamleg leið til að skipta um valdamenn, ef meiri hluti kjósenda eru óánægðir með þá. Aðalatriðið er, að menn geti búið við sömu réttindi, hvort sem þeir lenda í meiri hluta eða minni hluta. Það er til dæmis mikið ranglæti, ef skattamálum er svo fyrir komið, að meiri hluti kjósenda greiði engan tekjuskatt eða mjög lágan, en geti síðan ákveðið með afli atkvæða, að minni hlutinn greiði hlutfallslega miklu hærri skatta. Þá er meiri hlutinn að kúga minni hlutann. Menn eiga allir að greiða sama hlutfall af tekjum sínum í skatt yfir einhverju lágmarki.
Heldur þú að kosningaþátttaka í ár verði frábrugðin kosningaþátttöku fyrri ára?
Það kæmi mér ekki á óvart, ef kosningaþátttakan yrði minni en venjulega. Margir hafa orðið fyrir vonbrigðum með stjórnmálin, en það er vegna þess, að þeir hafa ætlast til of mikils af þeim. Marx sagði, að frelsun verkalýðsstéttarinnar yrði að verða verk hennar sjálfrar. Á sama hátt verður frelsun hvers manns að verða verk hans sjálfs. Stjórnmálamenn geta ekki boðið okkur hamingju eða hagsæld. Það eru einstaklingarnir sjálfir, sem skapa hamingju sína eða hagsæld. Reynslan sýnir, að hagsældin helst í hendur við frelsið, svigrúm manna til athafna. Stjórnmálamenn gera best í að halda sér til hlés, ryðja úr vegi hindrunum fyrir því, að einstaklingarnir geti í frjálsum viðskiptum og samskiptum sínum bætt hag sín og sinna.
Hver er þín persónulega spá fyrir útkomu kosninganna í vor?
Ég held, að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn bæti báðir við sig fylgi frá því, sem var í kosningunum 2009. Ég yrði ekki hissa, þótt þeir fengju hvor um sig eitthvað í kringum 5–8% meira en þá, saman 10–15%. Stjórnarflokkarnir tveir, Svört fortíð, munu missa meiri hluta sinn, en ekki gjalda eins mikið afhroð og skoðanakannanir sýna. Gangnamönnum þeirra mun takast að draga marga sauði aftur inn í dilkana. Björt framtíð tekur eitthvað frá stjórnarflokkunum, þó meira frá Samfylkingunni. Aðrir flokkar fá lítið, held ég. En kosningar eru aðeins önnur lota baráttunnar. Hin er stjórnarmyndun. Þar er allt opið. Sjálfstæðisflokkurinn gæti hugsanlega myndað stjórn með Samfylkingunni eða með Framsóknarflokknum. Framsóknarflokkurinn gæti myndað stjórn með Samfylkingunni og Bjartri framtíð. Jafnvel væri hugsanlegt, að allir vinstri flokkarnir myndi saman stjórn ásamt Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram í stjórnarandstöðu. Það gæti gerst, ef hann bætir ekki verulega við sig fylgi frá síðustu kosningum. Hið eina, sem kæmi mér verulega á óvart, væri, ef Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur fengju ekki saman meiri hluta á þingi, þótt það merki alls ekki sjálfkrafa, að þeir fari saman í stjórn. Það væri hins vegar rökréttast. En ekki öfunda ég þá stjórn, sem þarf að taka við af þessari.