3 minute read
Næsta kröfugerð undirbúningi
Það var virkilega ánægjulegt að sjá svona öflugan hóp hjúkrunarfræðinga koma saman á aðalfundi félagsins í Hörpu og á Teams á alþjóðlegum degi hjúkrunarfræðinga 12. maí síðastliðinn. Takk fyrir. Við megum nefnilega ekki gleyma því að aðalfundur félagsins er æðsta valdið og því kjörinn vettvangur fyrir okkur hjúkrunarfræðinga til að hafa áhrif á framtíð okkar öfluga fagog stéttarfélags. Ályktanir aðalfundarins um launakjör og starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga rötuðu í ýmsa fjölmiðla. Viðbrögðin segja sína sögu um stuðning almennings við baráttu okkar fyrir leiðréttingu á kjörum til samræmis við aðra háskólamenntaða sérfræðinga, þörf fyrir mönnunarviðmið og aðrar aðgerðir til að koma í veg fyrir að fleiri hjúkrunarfræðingar hverfi frá störfum úr heilbrigðisþjónustu.
Þegar þetta er skrifað standa samningaviðræður enn yfir við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu en skammtímakjarasamningar við ríki, Reykjavíkurborg og sveitarfélög hafa verið samþykktir. Vinnan er hafin fyrir næstu samninga og er hún samkvæmt tímasettri verkáætlun en hana má sjá betur í hverjum samningi fyrir sig. Ríkið þarf t.d. að rýna með okkur verkefni hjúkrunarfræðinga með tilliti til ábyrgðar og launa. Fyrir lok þessa árs verða starfshópar búnir að yfirfara starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga hjá ríkinu og endurskoðun á mati starfa stéttarinnar hjá Reykjavíkurborg og sveitarfélögum. Vinnan samkvæmt verkáætlun samninganna er þegar hafin, fyrstu fundir bókaðir og strax farið að undirbúa næstu kröfugerð. Einnig erum við að óska eftir fundum með heilbrigðisstofnunum til að endurskoða stofnanasamningana. Að mínu mati verður það að gerast, enda kalla niðurstöður kosninga á samningunum við ríki og Reykjavíkurborg á það.
Advertisement
Í viku hjúkrunar stóð félagið fyrir viðburði í Smárabíói þar sem framleiðendur þáttanna Stormur sýndu hjúkrunarfræðingum áður óséð myndefni sem tekið var upp í Covid-faraldrinum.
Svöruðu þeir svo spurningum um þættina, sína reynslu og upplifun af þessu stóra verkefni. Við gerð þáttanna var tekið upp ógrynni af myndefni sem vonandi nýtist rannsakendum framtíðarinnar þegar rýnt verður í þetta erfiða tímabil í sögu þjóðarinnar. Óhætt er að segja að viðburðurinn hafi vakið ánægju á meðal þeirra sem mættu í bíóið eða horfðu á í streymi og frábært hvað sköpuðust góðar umræður í kjölfarið. Jóhannes Kr. Kristjánsson, einn framleiðendanna, laumaði hugmynd að okkur en hann benti á að nánast allir sem klæddust hlífðarbúnaði tóku sjálfu af sér. Ef öllum þeim myndum yrði safnað saman yrði til risastórt listaverk til heiðurs heilbrigðisstarfsfólki. Þar er ég viss um að hjúkrunarfræðingar létu ekki sitt eftir liggja.
Ný vefsíða félagsins var formlega opnuð á alþjóðlegum degi hjúkrunarfræðinga 12. maí. Einn af stóru lærdómum í Covidfaraldrinum var notkun tækninnar. Á aðeins nokkrum árum hefur notkun hjúkrunarfræðinga á vefnum, fjarfundarlausnum og rafrænum lausnum aukist til muna og sjáum við það á aukningu á notkun vefs félagsins, sem og fylgni og samskiptum á samfélagsmiðlum. Við sjáum líka breytingu á því hvernig vefurinn er notaður en í dag er leitað að mun sértækari upplýsingum en áður og á sama tíma eru kröfurnar orðnar meiri. Með nýjum vef gefst tækifæri til að bæta enn frekar þjónustu við félagsfólk og má þar helst nefna nýja viðbót þar sem auðvelt er að fletta í gegnum kjarasamninga og leita eftir einstökum atriðum. Ég hvet ykkur til að skoða vefinn vel og láta okkur einnig vita ef það er eitthvað sem þarfnast lagfæringar því svona vefur er stöðugt í endurskoðun og lifandi afl.
Með nýjum vef myndast tækifæri til að kynna betur út á við störf hjúkrunarfræðinga til að almenningur átti sig á því hversu öflugt og fjölbreytt starfið er í raun. Í maímánuði fór til dæmis af stað ímyndarherferð sem miðaði að því að sýna almenningi fjölbreytnina og ábyrgðina sem felst í starfinu. Auglýsingum var komið fyrir á strætisvagnaskýlum um alla höfuðborgina sem og skiltum við fjölfarna vegi á Akureyri, Selfossi, Reykjanesbæ, Reykjavík og víðar.
Að lokum minni ég á að skráning er hafin á vísindaráðstefnuna Hjúkrun 2023 sem fram fer í lok september. Ráðstefnan verður haldin á Hilton Reykjavík Nordica líkt og í fyrra. Boðið verður upp á mörg áhugaverð erindi og vinnustofur. Mikill fjöldi hjúkrunarfræðinga lagði leið sína á ráðstefnuna í fyrra þar sem þeir gátu einbeitt sér að faginu og komið saman sem stærsta fagstéttin í heilbrigðisþjónustunni.
En nú er enn eitt sumarið komið og styttist í langþráð sumarleyfi. Ég þreytist ekki á að minna hjúkrunarfræðinga á að þeir eiga rétt á meira jafnvægi milli vinnu og einkalífs og þurfum við sjálf að sjá um það, það er ekki endilega annarra að gera það fyrir okkur, þ.m.t. vinnuveitandans. Njótum sumarsins milli vakta, hvort sem er á Íslandi eða erlendis. Veðrið er bara hugarástand, ekki satt? Notum sumarfríið til að hlaða batteríin, lifa lífinu og hafa gaman. Við sjáumst svo hress og kát á Hjúkrun 2023 í haust.