4 minute read

Áfram virk á sínu fræðasviði en ætlar að njóta lífsins meira

Sóley Sesselja Bender er prófessor og forstöðumaður fræðasviðs um kynheilbrigði við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands og Landspítalann. 50 ár eru liðin á þessu ári frá því að hjúkrunarfræðinám hófst á háskólastigi við HÍ. Sóley hefur í áratugi rannsakað kynheilbrigðismál ungs fólks á Íslandi

Hvað kemur upp í hugann þegar þú hugsar 50 ár aftur í tímann þegar þú varst ein af fyrstu nemendum í hjúkrunarfræðinámi þegar það fór á háskólastig?

Advertisement

Mér fannst spennandi að fara í nám sem var nýtt innan Háskóla Íslands. Við vorum nokkrar úr mínum bekk í Menntaskólanum í Reykjavík sem höfðum áhrif hver á aðra. Ég var reyndar búin að ætla mér að fara í sjúkraþjálfun í Noregi og til að undirbúa mig undir það vann ég á Grensásdeild Borgarspítalans sumarið 1973. Þar kynntist ég erfiðum aðstæðum fólks eftir veikindi eða slys sem þurfti á endurhæfingu að halda.

Að þínu mati, hvaða breytingar í heilbrigðiskerfinu eða á spítalanum hafa haft jákvæðustu áhrifin á starf hjúkrunarfræðinga og jafnvel sjúklinga? Spurningin er ansi víðfeðm því ýmsar breytingar hafa orðið á heilbrigðiskerfinu en hvort þær hafi haft jákvæð áhrif á störf hjúkrunarfræðinga er hins vegar óvíst. Það varð heilmikil breyting við það að sameina spítalana á höfðborgarsvæðinu og fólk hafði skiptar skoðanir á því. Einnig hefur með árunum verið vaxandi áhersla á geðheilbrigðismál og samsetning þjóðarinnar hefur verið að breytast sem kallað hefur á öflugri öldrunarþjónustu á heimilum og utan þeirra. Heilsugæslan hefur einnig verið í mikilli þróun og fengið stór verkefni í fangið. Á örlagatímum eins og í heimsfaraldrinum stigu hjúkrunarfræðingar fram og sýndu þjóðinni hversu öflugir þeir eru. Það sem vakti fyrir þeim var heilsa þjóðarinnar.

Út frá sjónarhorni hjúkrunarfræðinga held ég að það sem skipti mestu máli varðandi vellíðan og ánægju í starfi sé að vera vel metinn, hafa tök á því að þróa sig í starfi og fá tækifæri og stuðning til að prófa nýja hluti. Gott samstarf við aðrar heilbrigðisstéttir er einnig dýrmætt til að leysa ýmiss vandamál skjólstæðinga okkar. Ánægja hjúkrunarfræðinga í starfi skilar sér í bættri heilbrigðisþjónustu.

Hefur margt breyst í náminu við HÍ frá því að þú settist þar fyrst á skólabekk?

Sóley Sesselja Bender er prófessor og forstöðumaður fræðasviðs um kynheilbrigði við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands og Landspítalann.

Ég tel að lagður hafi verið mjög góður grunnur að náminu frá upphafi og margt af því er enn við lýði. En auðvitað, á þessum fyrstu árum, var námið mjög mikið í mótun. Með náminu var lögð rík áhersla á gagnrýna og sjálfstæða hugsun og vinnubrögð sem eiga við enn í dag enda grundvallarþættir allrar háskólakennslu. Bæði stjórnun og kennslufræði voru mikilvægar námsgreinar. Það vantaði mjög mikið kennara í ýmsum námsgreinum og því fengnir erlendir kennarar til að sjá um ákveðna kennslu. Má þar nefna námskeiðið í stjórnun en

Margaret E. Hooton, kennari við hjúkrunarskólann við McGill University í Kanada, hafði umsjón með því. Í minningarorðum um hana var sagt: „She was able to challenge students to think critically and unconventionally“. Það sem hefur kannski breyst hvað mest á þessu tímabili er að mun fleiri kennarar eru með doktorsnám og rannsóknum á vegum kennara deildarinnar hefur fleygt fram sem hefur skilað sér inn í kennsluna og við þróun á meistara- og doktorsnámi við deildina.

Geturðu sagt okkur minnisstæða sögu frá námsárum þínum?

Að loknu meistaranámi mínu í Bandaríkjunum var ég í mörg ár klínískur kennari hjúkrunarfræðinemenda á Kvennadeild Landspítalans, nánar tiltekið á sængurkvennadeildum. Ég man eftir því að einn daginn þá rak barnalæknir nemendur mína út af nýburastofunni. Þetta gat ég ekki sætt mig við þar sem um kennslusjúkrahús var að ræða. Ég fékk því fund um málið með framkvæmdastjóra hjúkrunar og yfirlækni, ásamt viðkomandi barnalækni, og farið var yfir málið. Ég gerði mér smám saman grein fyrir því að ég var á þessum árum stöðugt að vernda nemendur mína því ég hafði sjálf lent í erfiðri reynslu á námstímanum og vildi gæta þess að þeir þyrftu ekki að ganga í gegnum niðurlægjandi athugasemdir eða að gert væri lítið úr þeirra háskólanámi. Við sem tilheyrðum fyrstu árgöngunum sættum mikilli, oft óverðskuldaðri, gagnrýni hjúkrunarstéttarinnar sem ekki var tilbúin að sætta sig við að komið væri grunnnám í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands en ekki framhaldsnám. Auk þess fengum við ósjaldan spurningar frá ýmsum aðilum í samfélaginu um það hvort það væri nauðsynlegt að kenna hjúkrun á háskólastigi.

Sóley og móðir hennar Þorbjörg Þórarinsdóttir, hjúkrunarkona.

Eftir á að hyggja, er eitthvað sem þú hefðir viljað gera öðruvísi og ertu með heilræði fyrir hjúkrunarfræðinga?

Ég hefði kosið að ljúka doktorsnámi fyrr en það var mikill hörgull á kennurum og því erfitt um vik. Hvað viðkemur framtíðinni og heilræðum þá vildi ég gjarnan sjá mun fleiri hjúkrunarfræðinga með BS-gráðu fara í meistara- og doktorsnám til annarra landa, til dæmis til Bandararíkjanna og Kanada. Það gefur einstaklingnum ýmiss tækifæri til að kynnast ólíku heilbrigðiskerfi og nemendum frá öðrum löndum og takast á við ýmsar áskoranir sem eru þroskandi. Það skapar einnig víðsýni og fjölbreytileika. Ég vil því hvetja þá sem ljúka BS-gráðu að fara í framhaldsnám erlendis.

Hvað ætlar þú að nýta tíma þinn í nú þegar þú ferð á eftirlaun?

Ég mun halda áfram að leiðbeina þeim meistaraog doktorsnemum sem ég er með. Svo hef ég tímabundið tekið við formennsku í Samtökum um kynheilbrigði og á þessu ári mun koma út nýtt alhliða námsefni fyrir kennara og skólahjúkrunarfræðinga í framhaldsskólum til að vera með kennslu um kynheilbrigði á því skólastigi. Jafnframt mun á árinu koma út rafræn handbók fyrir unga karlmenn sem byggist á rannsóknum mínum og minna meistaranema og nefnist hún Ertu klár í kynlífi? Ég mun því vera áfram virk á mínu fræðasviði en mun í vaxandi mæli geta notið þess að sinna heimili og barnabörnum en jafnframt að njóta náttúrunnar.

Hálfrar aldar afmæli í haust Í haust eru 50 ár liðin frá því að fyrstu stúdentarnir hófu nám í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og mun Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild fagna þeim tímamótum föstudaginn 29. september nk. kl. 15:30 í Hátíðarsal Háskóla Íslands.

This article is from: