4 minute read

Heilsuvernd þróar alveg nýtt úrræði í

öldrunarþjónustu á Vífilsstöðum

Viðtal: Sigríður Elín Ásmundsdóttir | Myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir og Heiða Helgadóttir

Advertisement

Þar til í janúar á þessu ári veitti Landspítali skjólstæðingum sem bíða eftir varanlegri búsetu á hjúkrunarheimili þjónustu á Vífilsstöðum.

Heilsuvernd tók við þeirri þjónustu í janúar og sinnir henni áfram tímabundið. Framtíðaráform eru um að þróa nýtt úrræði í öldrunarþjónustu þar sem lögð verður áhersla á líknar- og bráðaþjónustu við aldraða með það að markmiði að bæta þjónustu og styðja við sjálfstæða búsetu aldraða sem lengst.

Aníta Magnúsdóttir hjúkrunarfræðingur starfar hjá Heilsuvernd og er forstöðumaður Vífilsstaða. Hún er ein þeirra sem við fengum til liðs við okkur þegar ímyndarherferð Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga var mynduð. Ritstýran og Heiða Helgadóttir, ljósmyndari herferðarinnar, hittu Anítu á Vífilsstöðum á sérlega sólríkum aprílmorgni, hún gekk með okkur um þetta einstaka hús þar sem sögulegir munir leyndust á hverri hæð og nánast í hverju rými. Ef þetta hús gæti talað væri það áhugavert viðtalsefni; sögur af berklaveikum sem lágu þarna inni, sumir sína hinstu lífsdaga og aðrir sem læknuðust og héldu áfram lífinu. Eftir að hafa skoðað þessa fallegu byggingu þaðan sem útsýnið er einstakt fundum við heppilegan stað til að stilla Anítu upp fyrir myndatöku. Þar sem veðrið skartaði sínu fegursta ákváðum við að fara líka út fyrir og taka aðra mynd af forstöðumanninum. Eftir að hafa spjallað við Anítu á meðan myndatökunni stóð lék ritstýrunni forvitni á að vita meira um hana og starfsemina sem hún heldur utan um á Vífilsstöðum.

Þú fluttir hingað frá Akureyri, ásamt eiginmanni og tveimur börnum, þegar þú fékkst stöðuna, hvernig kom það til að þú ákvaðst að sækja um þetta starf?

Ég kláraði stjórnunarnám frá Bifröst 2022 og langaði að prófa að breyta til og takast á við nýjar áskoranir. Ég vissi þegar ég fór í námið að það væru fleiri möguleikar hér fyrir sunnan og að það væri möguleiki á að við myndum flytjast suður. Svo þegar ég sæki um stöðuna þá gerist þetta allt mjög hratt. Ég var ráðin í lok nóvember, í lok desember vorum við búin að selja íbúðina okkar á Akureyri, kaupa íbúð í Mosfellsbæ og flutt með allt okkar hafurtask og dót.

Hvernig hefur gengið að aðlagast breyttum aðstæðum í stærra samfélagi?

Það gengur bara vel. Það er aðeins meiri hraði og meira um að vera. Við hjónin elskum veitingahúsamenninguna hérna og erum dugleg að prófa nýja staði. Helsti munurinn er að það er ekki eins auðvelt að skreppa hingað og þangað. Á Akureyri er maður alltaf bara örfáar mínútur að keyra á milli staða en hér í borginni tekur það lengri tíma.

Hvers vegna ákvaðst þú að læra hjúkrunarfræði og hvaða kostir finnst þér vera við starfið?

Það var aldrei planið að fara í hjúkrunarfræði, en þegar kom að því að velja háskólamenntun þá fannst mér kostur við hjúkrunina að þú ert nokkuð öruggur með starf, í rauninni hvar sem er í heiminum. Mamma mín er hjúkrunarfræðingur og mikil fyrirmynd mín og hvatti hún mig til þess að prófa eina önn og þá var ekki aftur snúið. Mér finnst helstu kostirnir við starfið vera hvað það er skemmtilegt og fjölbreytt. Það er alltaf gaman að mæta í vinnuna og ný verkefni og áskoranir að takast á við.

Hvar starfaðir þú áður og hvernig leggst nýja starfið í þig?

Undanfarin 10 ár starfaði ég sem aðstoðarforstöðumaður og forstöðumaður á hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð á Akureyri sem heyrir nú undir Heilsuvernd. Ég hef mikinn áhuga á öldrunarhjúkrun og öldrunarþjónustu. Starfið leggst mjög vel í mig og það sem er spennandi við Vífilsstaði er að hér erum við að þróa í raun alveg nýtt úrræði sem okkur finnst vera vöntun á hérna á Íslandi.

Heilsuvernd tók við rekstri Vífilsstaða í janúar á þessu ári, hvernig hefur gengið að koma starfseminni í gang?

Það hefur í raun gengið betur en ég átti von á. Ég var alltaf að bíða eftir einhverju bakslagi sem hefur enn ekki komið, svo nú ætla ég að vona að það komi bara alls ekki. Það fylgja auðvitað alltaf einhver flækjustig þegar farið er af stað í svona verkefni en ég held að okkur gangi ágætlega að leysa úr þeim. Við höfum verið ótrúlega heppin með gott starfsfólk sem er duglegt, jákvætt og til í að taka þátt í þessu með okkur. Það er í raun ekki sjálfsagt að ná strax inn góðri vinnustaðamenningu á nýjum vinnustað, ég held að okkur hafi tekist það vel og það hjálpar mikið til.

Hvert er markmið ykkar með starfsemina á næstu árum, á að stækka og opna fleiri deildir? Markmiðið er að reka hér 30 bráðarými og 10 líknarrými á þremur hæðum. Í dag erum við bara með rekstur á einni hæð en verðum komin á tvær hæðir í haust og vonandi þrjár hæðir fyrir áramót. Þetta fylgist að með því að við erum að lagfæra ýmislegt í húsinu og svo tekur líka tíma að manna vel.

Hvernig finnst þér að starfa í byggingu sem býr yfir svona mikilli sögu, er góður andi í húsinu?

Það er ótrúlega skemmtilegt og mér finnst ég heppin að fá að starfa hér. Það hefur alls konar starfsemi verið í húsinu í gegnum tíðina og hér er mjög góður andi, starfsfólk, skjólstæðingar og aðstandendur eru sammála um það. Það er samt einn rauður stóll staðsettur úti á miðju gólfi uppi á háalofti sem er „bannað“ að færa. Ég hef ekki storkað örlögunum með því að reyna að færa hann og ekki orðið vör við neinn draugagang enn þá.

Hvernig væri mögulega hægt að leysa mönnunarvandann í heilbrigðiskerfinu að þínu mati?

Ég held að umfjöllun um þessi störf sé allt of neikvæð. Það er mikið einblínt á að launin séu ekki nógu góð og álagið mikið.

Við þyrftum með einhverjum leiðum að bæta okkur í þessari umræðu og horfa meira á jákvæðu hliðarnar svo að ungt fólk sækist í menntun og störf í heilbrigðiskerfinu.

Hvaða áskoranir upplifir þú helst í nýju starfi?

Fjölmenningin sem er miklu meiri hér á höfuðborgarsvæðinu, samanber á Akureyri. Á Vífilsstöðum starfar til að mynda fólk af 15 þjóðernum. Hörkuduglegt fólk og langflestir hafa búið hér lengi og tala íslenska tungumálið en það getur auðvitað stundum verið svolítið flókið þegar við höfum öll mismunandi bakgrunn og gildi. Mér finnst ég hins vegar búin að læra helling á fjölmenningunni, þetta er því skemmtileg og lærdómsrík áskorun.

Hvernig finnst þér að vera hluti af ímyndarherferð Fíh? Það er auðvitað mikill heiður og skemmtilegt.

Heiða Helgadóttir verðlaunaljósmyndari myndaði ímyndarherferð Fíh. Hér er hún að mynda Anítu fyrir utan Vífilsstaði en þessi mynd sem hún er að taka þarna er á forsíðu þessa tölublaðs.

Sumarið er tíminn til að … ferðast og prófa eitthvað nýtt.

Það fyrsta sem ég fæ mér á morgnana er … kaffi.

Eftir langan vinnudag finnst mér best að … kúra uppi í sófa með fjölskyldunni.

Uppáhaldshreyfingin mín er … frisbígolf.

Hjúkrunarfræðingar eru … úrræðagóðir.

Að lokum … ætla ég að vitna í orð Mayu Angelou. „Ef þér líkar ekki eitthvað, breyttu því þá. Ef þú getur ekki breytt því, breyttu þá viðhorfum þínum.“

This article is from: