2 minute read
Alvörumál, ályktanir og gleði á aðalfundi Fíh
Aðalfundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga fór fram 12. maí í Norðurljósasal Hörpu og á Teams. Þetta er í annað skiptið sem notast er við fjarfundabúnað og rafrænar kosningar til að leyfa félagsfólki um allt land og víðar að taka þátt. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel í bæði skiptin og er því útlit fyrir að það verði eins um ókomna tíð þar sem aðalfundur er æðsta vald félagins, hjúkrunarfræðingar eru ekki bundnir við höfuðborgarsvæðið og mikilvægt að allt félagsfólk geti tekið þátt. Góð þátttaka félagsfólks í kosningum um mál er varða félagið er forsenda fyrir öflugu fag- og stéttarfélagi.
Texti: Ari Brynjólfsson | Myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir öflugir hjúkrunarfræðingar hlutu rannsóknarstyrk B-hluta Vísindasjóðs en sjóðurinn styrkir rannsóknir og fræðaskrif hjúkrunarfræðinga. hjúkrunarfræðingar fengu hvatningastyrk og á heimasíðu félagsins má lesa nánar um þá styrkþega og verkefnin þeirra.
Advertisement
Tímabært að stjórnvöld fjárfesti í hjúkrunarfræðingum Áherslur Alþjóðasamtaka hjúkrunarfræðinga, ICN, í ár settu mark sitt á upphafsávarp fundarins þar sem Guðbjörg Pálsdóttir formaður beindi kastljósinu að framtíð hjúkrunarfræðinga. Sagði hún að tími væri kominn til að yfirvöld hér á landi, sem og víðar, fjárfestu í hjúkrunarfræðingum og meti virði starfa þeirra að fullu. Kynnt var skýrsla um starfsemi félagsins á síðasta starfsári sem tók mið af starfsáætlun sem samþykkt var á aðalfundi félagsins á síðasta ári.
Hafdís Böðvarsdóttir fjármálastjóri gerði grein fyrir reikningum félagsins árið 2022 og kynnti hún breytta framsetningu ársreiknings sem gerir hann auðlæsilegri en áður. Reikningurinn var staðfestur án athugasemda frá endurskoðendum, skoðunarmönnum, stjórn og aðalfundi. Ákveðið var að halda félagsgjöldum óbreyttum.
Tvær ályktanir samþykktar og rötuðu báðar í fjölmiðla Í starfsáætlun stjórnar fyrir næsta ár koma fram fjórar megináherslur sem þjóna félagsfólki. Áhersla við gerð kjarasamninga er á virði starfa og unnið verður að því að fá mönnunarviðmið tryggð í heilbrigðiskerfinu.
Samþykktar voru tvær ályktanir, báðar rötuðu í umfjöllun fjölmiðla að fundi loknum. Annars vegar var skorað á stjórnvöld að leiðrétta kjör hjúkrunarfræðinga til samræmis við aðrar stéttir háskólamenntaðs starfsfólks hins opinbera og hins vegar var lýst yfir þungum áhyggjum af þeim hópi hjúkrunarfræðinga sem leita til annarra starfa vegna aukins álags.
Helga Bragadóttir lagði fram bókun um breytingu á skráningu fag- og landsvæðadeilda. Sameining er um að breytinga sé þörf en mikinn undirbúning þarf til að leiða til lykta þess lags breytingar og verður meðal fyrstu verka nýrrar stjórnar að fylgja því eftir.
Söngur, ávörp og ný heimasíða félagsins opnuð Sérstök hátíðardagskrá í tilefni alþjóðlegs dags hjúkrunarfræðinga tók við af loknum aðalfundarstörfum. Sigga Eyrún, Bjarni Snæbjörns og Kalli Olgeirs spiluðu nokkur bráðskemmtileg lög fyrir viðstadda.
Ný heimasíða félagsins var formlega opnuð og fór Ari Brynjólfsson, kynningarstjóri félagsins, yfir nokkrar breytingar á vefnum, má þar helst nefna bætt viðmót og leit í kjarasamningum. Að því loknu tóku við ávörp.
Ávörpin voru fimm talsins og þau fluttu: Kristófer Kristófersson, fulltrúi nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga. Ingunn Stefánsdóttir, formaður Curators, nemendafélags hjúkrunarfræðinema við Háskóla Íslands. Erla Salome Ólafsdóttir, formaður Eirar, félag heilbrigðisnema við Háskólann á Akureyri. Ólafía Daðadóttir, fulltrúi nýútskrifaðra úr námi í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands – önnur háskólagráða. Ragnheiður Haraldsdóttir, formaður öldungadeildar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Viðstaddir voru sammála um að fundurinn hefði heppnast vel og þar fyrir utan er líka gaman að koma saman, hittast og ræða málin.