2 minute read
Dýrmætt að
Finna
Gle I Hjartanu Lok Vaktar
Advertisement
Hvað varð til þess að þú valdir hjúkrun frekar en eitthvert annað nám? Vegna þess að það hefur alltaf verið ástríða mín að hjálpa og hlúa að fólki, sérstaklega þeim sem eru veikir og/eða einmana.
Hvar starfar þú í dag og hvað myndir þú segja að væri það besta við starfið? Á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Mér finnst það vera forréttindi að fá að sinna veiku fólki, sérstaklega öldruðum. Málefni aldraðra eru mín hjartans mál, eldra fólk er viðkvæmur hópur í samfélaginu sem hefur þjónað samfélaginu og lagt sitt af mörkum oft frá unga aldri. Þegar aldraðir hafa ekki nægan styrk til að sjá um sig sjálfir, sérstaklega í veikindum, þurfa þeir aðstoð og umönnun og ég er ánægð að fá að gera það í starfi mínu. Þetta er gefandi starf og veitir mér ánægju.
Draumastarfið þitt innan hjúkrunar? Öldrunar-, krabbameins-, barna- og geðhjúkrun.
Bestu eða skemmtilegustu vaktirnar/ vinnudagarnir? Ég myndi segja að það skipti máli að vera jákvæður gagnvart hverri vakt í vinnunni, gera vinnuna og verkefnin skemmtileg og þá er vinnudagurinn alltaf gefandi í lok dags. Að finna gleði í hjartanu í lok vaktar er dýrmætt og að vita að ég gerði mitt besta gagnvart skjólstæðingum mínum eru alltaf bestu launin í starfi mínu sem hjúkrunarfræðingur. Bros, hlýtt handaband og þakklæti frá skjólstæðingum eða frá aðstandendum þeirra fyllir hjarta mitt alltaf af gleði, það eru bestu stundir starfsins.
Hefur þú farið erlendis að starfa sem hjúkrunarfræðingur? Ég starfaði sem hjúkrunarfræðingur í mínu heimalandi, Filippseyjum. Ég er hamingjusamari og öruggari á Íslandi, þess vegna vil ég helst vera hér á landi áfram.
Hvernig var upplifunin af því að fara í myndatöku fyrir ímyndarherferð Fíh? Það var heiður að vera með í þessari herferð. Ég er auðmjúk yfir því að hér á landi, starfa hjúkrunarfræðingar af erlendum uppruna.
Hvernig hafa viðbrögðin við auglýsingunum verið? Margir vinir mínir og samstarfsfólk, hér og erlendis, hafa óskað mér til hamingju.
Hver er þín fyrirmynd í faginu? Áður en ég kom til Íslands var það samstarfsmaður minn sem starfaði á gjörgæsludeild. Hér á Íslandi voru það mikil forréttindi að fá að vinna með Hönnu Þórarinsdóttur á Landakotspítala. Á öllum mínum 17 ára hjúkrunarferli er hún að mínu mati eins og lifandi Florence Nightingale. Hún er svo sannarlega góð fyrirmynd.
Framúrskarandi eiginleikar í starfi að þínu mati? Seigla, jákvæðni, dugnaður, sýna skjólstæðingum skilning og þolinmæði.
Hver er draumurinn? Draumur minn er að geta stundað framhaldsnám á meistarastigi í öldrunar- og krabbameinshjúkrun.
Hvað ætlar þú að gera í sumarfríinu? Ég ætla að verja tíma með börnunum mínum. Að vera einstætt foreldri og vinna 100% starf er áskorun, að hafa jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Á frídögum set ég alltaf í forgang að tengjast börnunum mínum sem best og verja tíma með þeim.
Eitthvað að lokum? Að vera hjúkrunarfræðingur gerir mér líka kleift að lifa óuppfylltan draum minn um að verða nunna.
Hvenær útskrifaðist þú úr hjúkrunarfræði?
Ég útskrifaðist frá University of Cebu á Filippseyjum árið 2006. Hjúkrunarfræði var mitt annað nám því ég lærði fyrst viðskiptafræði og starfaði í banka í rúm fjögur ár.