Gangverk 3.tbl 2012

Page 1

FRÉTTABRÉF VERKÍS | JÚNÍ 2012

GANGVERK

1


2


Fréttabréf Verkís hf. 3. tbl. 11. árgangur, júní 2012

......................................................... Útgefandi: Verkís Ábyrgðamaður: Ingibjörg Lilja Diðriksdóttir Greinarskrif: Stefán Pálsson og Ingibjörg Lilja Diðriksdóttir Hönnun: Fíton Uppsetning og umbrot: Umslag ehf Umhverfisvottað fyrirtæki Prentun: Prentsmiðjan Oddi Ljósmyndir: Rafn Sigurbjörnsson, Ljósmynda­safn Reykjavíkur, Morgunblaðið, María Kjartansdóttir og úr safni Verkís Forsíðumynd: María Kjartansdóttir

......................................................... Fjölmiðlum er heimilt að nota efni úr blaðinu, í heild sinni eða að hluta, að því tilskildu að heimildar sé getið.

............................................

Sveinn Ingi Ólafsson Framkvæmdastjóri sio@verkis.is

MEÐ ÞAKKLÆTI Í HJARTA Í ár eru 80 ár síðan Sigurður Thoroddsen hóf rekstur fyrstu sjálfstæðu verkfræðistofunnar á Íslandi. Reksturinn var ekki burðugur í byrjun en óx smám saman fiskur um hrygg og stofan sem kennd var við stofnanda sinn, en oftast kölluð VST, var meðal stærstu verkfræðifyrirtækja landsins. Verkfræðistofurnar Rafteikning, Fjarhitun og RT-Rafagnatækni voru stofnaðar í byrjun sjöunda áratugarins og Fjölhönnun hóf rekstur árið 1970 en öll þessi fyrirtæki sameinuðust undir nafni Verkís árið 2008. Það má því með sanni segja að Verkís hvíli á breiðum og traustum grunni. Saga Verkís er samofin uppbyggingu samfélags og atvinnulífs á Íslandi. Daglegt starf á verkfræðistofu snýst um verkmenningu. Þar eru framkvæmdir skipulagðar og mannvirki hönnuð þannig að tilgangi þjóni og sómi sé að. Í þessu tölublaði skyggnumst við inn í tímabil mikillar uppbygg­ ingar í íslensku samfélagi og má þar nefna vegaframkvæmdir við Vesturog Suðurlandsveg, byggingu Gullinbrúar, þróun byggðar í Grafarvogi og opnun Kringlunnar. Við teljum það forréttindi að hafa fengið að starfa að þessari uppbyggingu og höldum með þakklæti í hjarta inn í sumarið framundan. Við þökkum samstarfsaðilum og viðskiptavinum fyrir samfylgdina undanfarna átta áratugi og þökkum starfsmönnum fyrir þeirra ómetanlega vinnuframlag. Einnig viljum við sérstaklega þakka þeim rúmlega 1200 gestum sem lögðu leið sína í Hörpu eitt föstudagskvöld í maí og fögnuðu afmælinu með okkur. Þar var boðið upp á íslenska tónlist sem spannaði 80 ár í íslenskri tónlistarsögu og rúsínan í pylsuendanum var frumflutningur nýrra laga sem minnir okkur á að framtíðin er björt, bæði í tónlistarheiminum sem og í áframhaldandi þróun samfélagsins. Sveinn Ingi Ólafsson Framkvæmdastjóri

......................................................... VERKÍS Ármúla 4, 108 Reykjavík Suðurlandsbraut 4, 108 Reykjavík Reykjavíkurvegi 68, 220 Hafnarfjörður Stillholti 16, 300 Akranes Bjarnarbraut 8, 310 Borgarnes Hafnarstræti 1, 400 Ísafjörður Austursíðu 2, 603 Akureyri Kaupvangi 3b, 700 Egilsstaðir Austurvegi 10, 800 Selfoss

3


Í KAPPI VIÐ TÍMANN - GRAFARVOGURINN OG GULLINBRÚ RÍSA ....................................

Verkís vann m.a. allar teikningar fyrir lagnir og vegakerfi í Folda­ hverfi.

Vorið 1981 birti Morgunblaðið viðtal við Davíð Oddsson, oddvita Sjálfstæðisflokksins í borgar­ stjórn Reykjavíkur. Fyrirsögn viðtalsins var ekki af styttri gerðinni: „Þær skipulagshugmyndir sem nú á að keyra í gegn eru gjörsamlega óraunhæfar og óframbærilegar.“ Millifyrir­sagnir voru í sama dúr: „Elliðaánum, golfvellinum og hagsmunum hestamanna stefnt í voða“, „Uppgjafar- og afturhaldsforsendur“ og „Óðs manns æði, að byggja á sprungu­svæði.“ Umfjöllunarefnið var skipulagsmál og þær hugmyndir meirihlutans um að hefja uppbygg­ ingu nýrra íbúðahverfa á Ártúnsholti, í Selási, við Rauðavatn og í Norðlingaholti. Sjálfstæðis­ flokkurinn í borginni snerist gegn hugmyndinni og vildi halda við fyrri áætlanir um byggð í Grafarvogi. Ýmis rök voru tínd til gegn Rauðavatnshverfinu, ekki síst snjóþyngsli og vangaveltur um stórhættuleg sprungusvæði. Skipulagsmálin urðu eitt helsta umræðuefnið í borgarstjórnarkosningunum 1982 og áttu vafalítið sinn þátt í sigri sjálfstæðismanna. Þorvaldur S. Þorvaldsson, sem var skipulagsstjóri Reykjavíkurborgar 1984-99 og síðar

4

borgararkitekt, bendir á að ákvarðanir um þróun borgarinnar hafi oft og tíðum byggst á eignarhaldi á landi fremur en skipulags­ legum sjónarmiðum. „Vandinn lá í því að ríkið átti megnið af landinu uppi í Grafarvogi og Gufunesi. Bölvanlega gekk að ná samningum um að fá að kaupa landið en hins vegar átti borgin sjálf spildurnar fyrir ofan Árbæinn.“ „Eftir að Davíð komst til valda sumarið 1982 tókst honum hins vegar að semja hratt og vel um landakaup og makaskipti. Þar sem þetta hafði verið svona stórt kosningamál vildi hann keyra það áfram af gríðarlegum krafti“, bætir Þorvaldur við. Óvæntur samstarfsaðili Borgin hafði ekki fyrr tryggt sér byggingarlandið í Grafarvoginum en farið var að huga að framkvæmdum. Hinn nýi borgarstjóri mátti engan tíma missa og ákvað að leita til þeirra sem ætla mátti að gætu undirbúið verkið hraðast, Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen. „Grafarvogsverkefnið markaði tímamót í sögu fyrirtækisins“, segir Sveinn Ingi Ólafsson framkvæmdastjóri Verkís. „Fram að þessu


Örn Steinar Sigurðsson var meðal þeirra sem komu að hugbúnaðarhluta verksins: „Á þessum árum var mjög margt í gangi innan VST, ekki hvað síst varðandi þróun á forritum og hugbúnaði. Fyrirtækið var að þreifa sig áfram með að nota tölvur til að ganga frá verkfræðiteikningum. Það var bæði tíma­ sparandi og fól í sér aukin gæði þar sem villum snarfækkaði.“ Það var að mörgu leyti auðvelt og ábótasamt að innleiða þessa nýju tækni við gatnagerð því slíkum teikningum fylgja jafnan hnitareikningar og töflur með útreiknuðum hæðar- og lengdarhnitum. Tölvurnar taka völdin „Það sem einkum ýtti undir þessa þróun“, bætir Örn við, „voru miklar framfarir í tölvu­ búnaði. Það voru að koma fram „plotterar“ sem voru einfaldari í notkun en fyrri tæki.

Hewlett Packard kom fram með „plottera“ sem voru með þægileg skipanasett en fram að því hafði verið afar flókið að stýra þessum búnaði. Þetta þýddi að hægt var að taka stórt skref í forritun á þessu sviði.“ Um veturinn voru þróuð forrit til að takast á við verkefnið og fjárfest í nýjum „HP-plotter“. Hug- og tölvubúnaðurinn hjálpaði til við að skila útboðsgögnum vegna fyrsta áfanga Foldahverfis hratt og örugglega. Þessi góði árangur varð til þess að opna augu manna innan fyrirtækisins fyrir því að framtíðin lægi í tölvuvæðingunni og hafði VST öðlast nokkuð forskot á keppinauta sína í þessum efnum.

Gullinbrú hefur verið stækkuð talsvert frá því hún var byggð.

....................................

hafði VST ekki sinnt neinum verkefnum fyrir Reykjavíkur­borg. Útboð á verkfræðivinnu voru nánast óþekkt. Þegar verkefnum var útvistað sömdu menn við sína aðila. VST var ennþá rækilega stimplað sem kommafyrirtæki, út af stofnand­ anum þótt hann væri kominn út úr rekstrinum. Það voru víst ekki allir í borgar­ kerfinu ánægðir með að samið væri við okkur en Davíð réð þessu. Hann hefur ef til vill viljað sýna að hann hikaði ekki við að hrista upp í hlutunum“. Verkefni VST var að vinna allar teikningar fyrir lagnir og vegakerfi í hinu nýja Foldahverfi. Stofan fékk verkið snemma vetrar 1982 og ráðist var í útboð fyrsta áfanga vorið eftir. Þessi framkvæmdahraði þótti einstakur og mátti ekki hvað síst þakka hann nýrri tækni sem tekin var í notkun í tenglum við verkefnið.

Sem fyrr sagði fóru fyrstu útboðin vegna vegagerðar í nýja Grafarvogshverfinu fram vorið 1983. Þá var vitaskuld ekki farið að byggja eitt einasta hús á svæðinu. Rúmu ári síðar var myndin hins vegar gjörbreytt. Þann 14. júní 1984 birtist frétt í DV af gangi mála. Þar kom fram að tvær fjölskyldur væru fluttar í hverfið en að 361 íbúð væri í smíðum og mætti því búast við að íbúarnir yrðu nærri 1.500 innan tíðar eða álíka margir og íbúar Hafnar í Hornafirði. Til að flýta enn fyrir uppbyggingunni var ákveðið að gefa húsbyggjendum mun frjálsari hendur en tíðkaðist í öðrum hverfum. Byggingar­skilmálar voru afar rúmir. Settar voru reglur um nýtingarhlutfall og hæsta punkt í mæni en að öðru leyti höfðu væntanlegir íbúar frítt spil. Þetta er enn áberandi í þessum elsta hluta Grafarvogsins þar sem hús eru af ýmsum toga og heildarsvipur lítill. Ekki var hafður sami háttur á í seinni áfanga hverfisins.

5


Brú yfir voginn Hið ört vaxandi hverfi kallaði á nýjar vegatengingar. Brú yfir Grafarvoginn var forgangsmál og var VST falið að sjá um hönnun hennar. Þorvaldur S. Þorvaldsson arkitekt var fenginn til að sjá um útlitslega þætti hönnunarinnar. „Gullinbrúarverkefnið var skemmtilegt“, segir Þorvaldur. „Það tók ýmsum breytingum á þróunar­stiginu og hugmyndir manna um þverun vogsins voru afar ólíkar. Lokaniðurstaðan var svo einhvers konar málamiðlun af þeim öllum.“ Þorvaldur var meðal fyrstu íslensku arkitektanna til að koma nálægt hönnun brúa en slík verk höfðu nær einungis verið í höndum verkfræðinga. „Ég hafði talsverð tengsl við Vegagerðina frá fornu fari. Móðurbróðir minn og fóstri, Jón Víðis, var mælingamaður þar og byrjaði ég snemma að aðstoða hann við mælingar. Ég kynntist því mörgum innan Vegagerðarinnar sem kann að hafa haft sitt að segja um að mér hafi verið falið að koma að hönnun Haukadalsbrúar og Borgarfjarðarbrúar“, segir Þorvaldur. „Við Borgarfjarðarbrúna vann ég ásamt Sigurði Thoroddsen. Leiðir okkar höfðu þá legið saman nokkrum sinnum, fyrst við gerð barnaskólans austur á Eiðum.“ Þorvaldur segir að Sigurður Thoroddsen hafi verið mikill listamaður og hönnuður eins og sjá megi á málverkum hans. Þessar listrænu áherslur kunni að skýra hvers vegna Sigurður hafi verið duglegri við að fá arkitekta til samstarfs um ýmis verkefni en margir kollegar hans. Fuglar eða smábátar? Ólíkar hugmyndir voru uppi um hvernig best væri að þvera Grafarvoginn. Sumir sáu fyrir

6

sér fyllingarbrú sem hefði bara verið með ræsi fyrir sjóinn í lónið fyrir innan. Aðrir vildu sjá stórt mannvirki, helst með miklu vænghafi og háum stöplum til að skapa tilfinningu fyrir því að verið væri að aka inn í nýtt hverfi. Þannig brú hefði líka staðið undir hinu stóra og mikla nafni: Gullinbrú. Þorvaldur vildi horfa til þess hvernig nýta mætti voginn innan við brúna. „Munurinn á flóði og fjöru er mjög mikill þarna og innsti hlutinn eru leirur sem nýtast mannfólkinu ekki mikið þótt þær komi sér vel fyrir fuglalífið“, útskýrir hann. „Hugmynd mín var að setja tveggja metra stíflu undir brúna til að hækka yfirborðið og draga úr áhrifum sjávarfalla. Inni í lóninu hafði ég svo gert ráð fyrir lítilli smábátabryggju og sá fyrir mér talsvert líf í kringum voginn. Þessar hugmyndir voru slegnar út af borðinu vegna fuglaverndarsjónarmiða. Menn vildu varðveita leirurnar og var það svo sem alveg gilt viðhorf.“ Ólafur Bjarnason, var verkefnastjóri VST í Grafarvogsverkefninu. Hann telur að hugmyndin um að hækka yfirborð vogsins hafi aldrei komið alvarlega til álita, einmitt vegna leiruverndarsjónarmiða sem þá voru komin í umræðuna fyrir alvöru. „Þessi mál höfðu talsvert verið rædd í tengslum við Borgarfjarðarbrúna sem var fyrsta alvöru brúarverkefnið þar sem hugsað var fyrir því að tryggja vatnsskiptin. Við unnum vatnafræðimódel af Grafarvoginum og reiknuðum út hversu stórt brúaropið yrði að vera.“ Ólafi rekur ekki minni til að borgin hafi gert slíkar kröfur varðandi hönnum Gullinbrúar heldur hafi stofan tekið það upp hjá sjálfri sér, minnug reynslunnar frá Borgarfirði.


Meira álag en ætlað var Við hönnun Gullinbrúar var frá upphafi gert ráð fyrir göngu- og hjólreiðabrú undir bíla­brúnni þótt það mannvirki risi ekki fyrr en nokkrum árum síðar. Ekki leið á löngu uns umferðin sprengdi af sér brúna sem hefur verið stækkuð allmikið frá því sem upphaflega var. Þorvaldur segir það ekki undarlegt. „Gullin­brú var fyrst og fremst hugsuð sem tenging á milli hverfa í Austurborginni. Hún átti aldrei að vera aðal-

samgönguæðin í og úr hverfinu nema til bráðabirgða. Við reiknuðum alltaf með því að Kleppsvíkurbrú (fyrsti hluti Sundabrautar) kæmi á næstu árum enda var alltaf hugsunin með byggðinni í Grafarvoginum að þaðan mætti komast á fáeinum mínútum niður í miðbæ. Einhverra hluta vegna hefur sú framkvæmd aldrei komist í gang og hverfið því þróast með allt öðrum hætti en búist var við.“

Hver ríður svo geyst á gullinbrúvu… Nafn Gullinbrúar er óvenjulegt og ekki í samræmi við þá hefð að mannvirki sem þessi dragi nöfn sín af nálægum örnefnum. Þórhallur Vilmundarson prófessor við Háskóla Íslands átti hugmyndina að því að gefa götum í Foldahverfi heiti sem vísuðu til ljóða eftir Bjarna Thorarensen. Í ljóðinu Vetur notar skáldið orðið „gullinbrú“ yfir sjálfa vetrarbrautina þar sem vetrinum er líkt við riddara sem ríður yfir himnafestinguna. Í ljóði sínu notaði Bjarni óvenjulega beygingar­ mynd af orðinu „brú“. Upphaflega var ætlunin að beyging Bjarna myndi halda sér í nafni nýja mannvirkisins og í fréttum frá byggingartíma brúarinnar er stundum talað um „framkvæmdir við Gullinbrúvu“. Ekki tókst þó að festa þessa sérvisku í sessi og tala Reykvíkingar einfaldlega um Gullinbrú í þágufalli.

....................................................................................................................................................

Verkís tók þátt í Hönnunarmars með innsetningu við Hafnarstræti 17. Innsetningin nefndist Andrými og snerist um samspil ljóss, upplifunar og heilsu. Ljósið getur verið margbreytilegt og mótar sýn okkar á nánasta umhverfi hvort sem um er að ræða sólar-, tungls- eða rafljós. Í Andrými fengu gestir að upplifa margbreytileika rýmisins og skapa það andrými sem óskað var eftir. Í Andrými var til sýnis huglæg hönnun. Þar náði upplifun á aðstæðum yfirhöndinni á hlutlægri hönnun forms og virkni. Rýmið sýndi fram á hversu ljósið væri margbreytilegt hvað varðar lit, styrk, stefnu og fleira og hvernig ljósið mótar sýn okkar á nánasta umhverfi. Gestir gátu einnig skapað það andrými sem óskað var eftir þar sem notast var við sérhannaðan lampa.

.................

VERKÍS SKAPAR ANDRÝMI

Hægt var að leika sér með ljós og skugga í Andrými. 7


EINI TÆKNIMAÐURINN Á VESTFJÖRÐUM ....................................

Þorkell Erlingsson spjallaði við blaðamann Gangverks.

„Ég er bara búinn að vera hér í 45 ár“, svarar Þorkell Erlingsson aðspurður um starfsaldur sinn hjá Verkís (áður VST). „Það var í október 1966 sem ég fór á fund Sigurðar Thoroddsen og réð mig til starfa. Ætli starfsmennirnir hafi ekki verið svona tólf um þær mundir – og svo náttúrlega „Siggi gamli“ eins og hann var alltaf kallaður þótt hann væri ekki nema 64 ára.“ Þorkell lauk seinni����������������������������� hluta prófi í byggingarverkfræði frá Þrándheimi þetta sama ár en hafði ekki langa viðdvöl á aðalskrifstofunni í Reykja­ vík í þessum fyrsta áfanga. „Sigurður hafði mikinn áhuga á að koma upp útibúi á Ísafirði. Hann hafði miklar taugar þangað, vegna Skúla föður síns, og hafði talsvert lagt sig eftir því að sinna verkefnum á Vestfjörðum. Úr varð að ég fór vestur til að koma upp og stýra útibúinu vorið 1967. Á þeim tíma var hvorki að finna verkfræðing né tæknifræðing á gjörvöllum Vestfjarðakjálkanum.“ Verkefnin voru margvísleg, þar á meðal gegndi Þorkell starfi bæjarverkfræðings á bæði Ísafirði og Bolungarvík sem starfsmaður VST. „Ég var meira og minna fyrir vestan vel á þriðja ár en

8

með síldarkreppunni tók fyrir öll verkefni. Það var bókstaflega ekkert að gera.“ Vinnufélagarnir Þorkell og Pálmi R. Pálmason ákváðu að fylgja fordæmi margra annarra ungra verkfræðinga og halda utan meðan kreppan var hvað dýpst. Leiðin lá til Bandaríkjanna og lauk Þorkell MS-námi frá Cornellháskóla í New York árið 1971. „Það voru ótrúleg viðbrigði að snúa aftur til Íslands þar sem allt var komið á fulla ferð. Alþjóðabankinn veitti stórlán til vegagerðar og Þórisvatnsmiðlunar og verkfræðingar höfðu í nógu að snúast enda fjölgaði jafnt og þétt á stofunni næstu misserin.“ Hasar við Kröflu „Fyrst eftir heimkomuna vann ég við Hellis­ heiðarvegagerðina sem var afar stórt verkefni. Um 1974 breytti ég nokkuð um kúrs og fór að sinna Kröfluverkefninu og kom að því að ná í það verk. Samstarfsaðilar okkar voru Rogers Engineering sem voru sérhæfðir í jarðvarmavirkjun í Bandaríkjunum.“ Þorkell var staðarverkfræðingur við Kröfluvirkjun 1976-77, á dramatískum tímum. „Það gekk auðvitað mikið á. Kröflunefndin var mikið á milli


tannanna á fólki enda ef til vill ekki nægilega sterk. Fjölmiðlarnir ólmuðust og svo braust út eldgos til að bæta gráu ofan á svart! Eftir á að hyggja var Kröfluvirkjun auðvitað gríðarlega mikilvæg fyrir þróun jarðhitatækninnar hér á landi og ruddi brautina fyrir seinni virkjanir en til skemmri tíma höfðu áföllin á uppbyggingar­ tímanum líklega þau áhrif að Landsvirkjun varð afhuga jarðvarmanum um nokkurra áratuga skeið – taldi hann ekki samkeppnishæfan við vatnsorkuna til rafmagnsframleiðslu.“

Sviptingar í áliðnaði Ef litið er yfir feril Þorkels sést að honum hefur einkum verið falin umsjón með stórverkefnum, framkvæmdum sem eru óvenju umsvifamiklar, flóknar eða undir tímapressu. Kringluverkefnið, sem fjallað er um annars staðar í blaðinu, er dæmi um slíkt. Bygging verksmiðju Fjarðaáls í Reyðarfirði er annað stórverkefni af sama toga. „Það má segja að ég hafi tengst álinu allt frá því 1980 eða þar um bil. Norsk Hydro vann þá ötullega að hagkvæmniathugun álvera á Íslandi. Stjórnmálamennirnir vildu finna stað við Eyjafjörð en Norðmönnunum leist betur á Reykjanesskaga. Ekkert varð úr þessu. Aftur kom ég að því þegar Alumax og fleiri aðilar

Fjarðaálsverkefninu tókst hins vegar að sigla í höfn. VST, Rafhönnun og Hönnun tóku höndum saman, stofnuðu fyrirtækið HRV og fengu ásamt alþjóðlega stórfyrirtækinu Bechtel samning um verkfræði- og umsjónarþátt bygging­ ar­ innar. Álverið var að mestu hannað í Montreal á skrifstofu Bechtel og bjó Þorkell í Montreal í nærri tvö ár meðan á hönnunarvinnunni þar stóð. Skipulagsbreytingar Auk þess að beita sér á vettvangi hefur Þorkell sinnt ýmsum trúnaðarstörfum sem tengjast innri stjórn verkfræðistofunnar. „Sigurður Thoroddsen kom sjálfur á meðeigandafyrirkomulaginu þar sem starfsmenn stofunnar keyptu hlut í fyrirtækinu. Sjálfur átti Sigurður þó langstærsta hlutinn. Fljótlega eftir að við Pálmi snerum aftur frá Bandaríkjunum gerðumst við meðeigendur. Síðar kom það í minn hlut að gegna stjórnarformennsku og þá beitti ég mér fyrir því að gera það að hlutafélagi með jöfnum hlut allra. Það var rekstrarform sem mér hugnaðist vel og sem ég held að hafi reynst farsælt.“ Þótt styttist í 46 ára starfsafmælið virðist ekkert fararsnið á Þorkatli. Hann lýkur viðtalinu enda tekur við fundur vegna næsta verkefnis, olíuleitar á Drekasvæðinu. „Þetta er spennandi verkefni og hagnaðarvonin mikil ef allt gengur eftir“, segir hann. Sjálfur gerir hann þó ekki ráð fyrir að lifa það að sjá olíuframleiðslu hefjast í íslenskri lögsögu. „Þessi verkefni taka langan tíma, jafnvel áratugi. En við getum alveg látið okkur dreyma fyrir barnabörnin.“

Ýmislegt kom upp á við hönnun og byggingu Kröfluvirkjunar, þar á meðal nokkur eldgos.

....................................

Segja má að Þorkell hafi aldrei sleppt hendinni alveg af jarðvarmavirkjununum og hefur á liðnum árum komið að ýmsum verkefnum erlendis sem VST og síðar Verkís hafa átt aðild að. „Við ætluðum að koma upp hitaveitu fyrir sjálft Ólympíuþorpið í Peking sem hefði eflaust vakið mikla athygli. Þegar til átti að taka fundu Kínverjarnir ekki nóg af heitu vatni svo í staðinn var komið upp hitaveitu sem nýtti skólpið frá borgarbúum sem var í sjálfu sér einnig umhverfis­vænt.“

ætluðu að koma sér fyrir á Keilisnesi nokkrum árum síðar en þegar kom að því að taka endanlega ákvörðun hrundi álverðið og allt fór út um þúfur.“

Brunareiturinn endurbyggður Einhver frægasti eldsvoði síðari ára hér á landi átti sér stað í apríl 2007 þegar kviknaði í á horni Lækjargötu og Austurstrætis. Hús, sem gegnt höfðu mikilvægu hlutverki í miðborgar­mynd Reykjavíkur, fuðruðu upp án þess að slökkvil­ið fengi mikið við ráðið. Í beinni útsendingu frá atburðinum hét borgarstjóri Reykjavíkur, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, því að húsin yrðu byggð upp að nýju. Í kjölfarið leysti Reykjavíkur­borg til sín húseignirnar og stóð fyrir upp­byggingu í anda liðinna tíma. Í kjölfar samkeppni um deiliskipulag reitsins var vinnings­höfunum Argos, Gullinsniði og Studio Granda falið að hanna húsin á reitnum. Þorsteinn Bergsson hjá Minjavernd stýrði mótun verkefnisins fyrir hönd Reykjavíkur­borgar en Verkís sá um verkfræðihönnun. Þorkell Erlingsson var fulltrúi Verkís og hönnunar­ stjóri verkefnisins. Reiturinn hefur hlotið virt alþjóðleg verðlaun á sviði endur­byggingar eldri húsa.

9


GLÆSILEG AFMÆLISHÁTÍÐ Í HÖRPU


Föstudaginn 11. maí fagnaði Verkís afmæli fyrirtækisins með glæsilegum hátíðar­ tónleikum í Eldborg í Hörpu. Nú eru 80 ár frá því Sigurður Thoroddsen hóf rekstur fyrstu sjálfstæðu verkfræðistofunnar á Íslandi en Verkís rekur uppruna sinn til þess tíma. Tónleikarnir eru liður í að fagna þessum áfanga og nutu gestir þeirrar ríku menningar sem felst í sköpun íslenskra tónskálda og flytjenda. Á tónleikana mættu rúmlega 1200 gestir en dagskráin var innblásin af íslenskri tónlistar­ sögu síðustu átta áratuga. Fram kom hin landsþekkta hljómsveit Hjaltalín og frumflutti m.a. þrjú glæný lög sem koma út á nýrri plötu hennar í sumar. Jafnframt frumflutti sópransöngkonan Þóra Einarsdóttir aríu úr væntanlegri óperu eftir þá Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson. Auk þeirra komu fram Karlakórinn Fóstbræður, Steinunn Birna Ragnarsdóttir píanóleikari og strengjasveit en Árni Harðarson kórstjóri stýrði tónleikunum. Flutt voru m.a. lögin Draumalandið, Í fjarlægð, Flughoppið og Feels like sugar. Á meðal gesta voru forseti Íslands, starfsmenn Verkís, ásamt samstarfsaðilum og viðskipta­ vinum. Að tónleikunum loknum var boðið upp á léttar veitingar í Flóanum við ljúfa djasstóna.

Myndir: María Kjartansdóttir


BYLTING Í VERSLUNAR­HÁTTUM - ALDARFJÓRÐUNGUR FRÁ OPNUN KRINGLUNNAR ....................................

Fyrsta skóflustungan að Kringlunni var tekin vorið 1985.

Þann 13. ágúst verða 25 ár liðin frá því að verslunar­ miðstöðin Kringlan var formlega opnuð. Tilkoma hennar hafði margvísleg áhrif, jafnt á verslunarhætti og þróun byggðar í Reykja­vík. Þorkell Erlingsson var verkefnastjóri Verkís (þá VST) í hönnun á verkinu og átti eftir að sinna ýmsum verkefnum í tengslum við breytingar og stækkanir á Kringlunni næstu árin. Gangverk tók Þorkel tali í tilefni afmælisins. Árið 1965 var samþykkt nýtt aðalskipulag Reykja­víkur fram til 1988. Skipulagið braut blað í þróunarsögu Reykjavíkur sem vaxið hafði óskipulega áratugina á undan. Skipulag þetta komst þó ekki nema að takmörkuðu leyti til framkvæmda og er í seinni tíð helst rifjað upp til marks um öfgakennda niðurrifsstefnu. Þannig var gert ráð fyrir að flest gömul hús í Kvosinni yrðu rifin en umferð leidd yfir miðbæinn á háum brúm í anda bandarískra stórborga. Það eina sem minnir á þau áform er götu­stubbur og bílastæði á þriðju hæð Tollhússins við Tryggvagötu. Þótt sumstaðar hafi verið farið fullgeyst var skipulagið frá 1965 óneitanlega metnaðarfull tilraun til að koma böndum á

12

tilviljanakenndan vöxt borgarinnar og hafði að mörgu leyti jákvæð áhrif á þróun hennar og útlit. Meðal veigamestu tillagnanna var hugmyndin um „nýjan miðbæ“ í Kringlumýri. Mómýri og kartöflugarðar Kringlumýrin var gamalt beitarland Reykvíkinga og mótökustaður til 1920. Snemma á fjórða áratugnum var farið að skipta mýrinni upp til ræktunar. Þar stóðu um langt skeið matjurta- og kartöflugarðar fjölda Reykvíkinga. Nyrsti hluti mýrarinnar, norðan Miklubrautar, var snemma tekinn undir byggð og sama máli gegndi um austasta hlutann í átt að Grensásnum. Svæðið sem ætlað var undir Nýja miðbæinn markaðist af Miklubraut í norðri, Kringlumýrarbraut í vestri, Hvassaleitis­ hverfinu í austri og Bústaðavegi í suðri. Framtíðar stækkunar­ möguleikar yrðu svo niður í Fossvogsdal. Heildarsvæði Nýja miðbæjarins var samkvæmt þessu 60 hektarar, þar af 40 í fyrsta áfanganum norðan Bústaðavegar. Hefði því mátt koma fyrir 200 þúsund fermetrum af húsnæði miðað við nýtingarhlutfallið 0,5. Rík


áhersla var lögð á að flatarmál bílastæða yrði jafn mikið og húsnæðis en því yrði ekki náð nema með bílakjallara. Til að þessar áætlanir gætu gengið eftir töldu höfundar skipulagsins brýnt að staðið yrði gegn mikilli uppbyggingu skrifstofu- og verslunarhúsnæðis við Laugaveg ofan Snorrabrautar og við Suðurlandsbraut. Ljóst var að Kringlumýrarsvæðið yrði ekki tilbúið fyrir framkvæmdir strax en vonandi yrði ekki of löng bið á því. Hæg uppbygging Tíu ár liðu þar til byrjað var á fyrstu mannvirkjunum. Árið 1975 var hafist handa við að reisa Hús verslunarinnar og sama ár var tekin skóflustunga að Borgarleikhúsinu. Verslunarog þjónustukjarnar höfðu hins vegar sprottið upp inni í Skeifu og með fram Laugavegi og Suðurlandsbraut svo vandséð var að grundvöllur væri fyrir nýjum miðbæjarkjarna. Nýi miðbærinn var þó látinn halda sér í skipulaginu. Þrengt var að svæðinu með íbúðabyggð og snemma á níunda áratugnum var nafninu „Nýi miðbærinn“ varpað fyrir róða en þess í stað umýri eða talað um verslunarsvæðið í Kringl­ Hvað á barnið að heita? Efnt var til nafnasamkeppni um heiti á nýju verslunarmiðstöðina og rúmlega 5.700 tilnefningar bárust sem skiptust niður á um 2.000 nöfn. Fimm heiti fengu flestar tilnefningar:

Niðurstaða dómnefndar var sú að Kringlan væri best þar sem það vísaði í staðsetningu og væri þjált í beygingu og samsetningum. Þá þyrfti ekki mikið hugmyndaflug til að tengja það við „kringlu heimsins“ en í húsinu ætti einmitt að vera margvísleg starfsemi og iðandi mannlíf.

Metnaðarfyllstar voru þó hugmyndir stjórnenda Hagkaupa sem áformuðu að safna fjölda smáverslana undir eitt þak og stofna „mall“ að erlendri fyrirmynd. „Pálmi í Hagkaupum fékk enskan vin sinn og verslunarráðgjafa til að undirbúa nýja verslunarmiðstöð“, segir Þorkell. „Þeir réðu einnig breska arkitektastofu til að skipuleggja „mallið“ en þeir höfðu komið að gerð margra slíkra mannvirkja í Bretlandi. Vaninn er að finna slíkum miðstöðvum stað í útjaðri borga þar sem byggingarland er ódýrt og nóg pláss fyrir bílastæði. Pálmi var hins vegar eindregið þeirrar skoðunar að byggja skyldi í Kringlumýrinni og beitti sér fyrir því að fá skipulaginu breytt með það í huga.“ Áfengið breytti öllu Verkís kom að verkinu í janúar 1984 og var fyrsta skóflustungan að Kringlunni tekin vorið 1985 en Þorkell bendir á að þá hafi engan veginn verið búið að hanna húsið. Fram­ kvæmdin skyldi að mestu fjármögnuð með því að selja fyrir fram húsnæði undir smá­verslanir en fermetraverðið var í mörgum tilvikum tvöfalt hærra en í miðborg Reykjavíkur. „Byggingin tók miklum breytingum á byggingar­ tímanum enda lá ekkert fyrir um hversu stór hún yrði að lokum. Það gekk afar illa að sannfæra smærri verslanir um að kaupa sig inn í verkefnið og lengi vel var endinn með verslun Hagkaupa það eina sem fast var í hendi. Pálmi lét þó engan bilbug á sér finna og gerði mönnum ljóst að þótt engir aðrir fengjust með yrði byrjað á þeim áfanga. Á tímabili var jafnvel reiknað með að flytja hluta af bílastæðunum inn á neðri hæðina!“

....................................

Miðgarður..........................................76 Kringlan..............................................75 Kauphöllin..........................................70 Hagbær...............................................59 Pálmalundur......................................59

„Kringlubæ“. Á sama tíma var mikil gerjun í verslunar­geiranum á höfuðborgar­svæðinu. Hafin var stórhuga tilraun til verslunar­reksturs í Holtagörðum undir nafni Miklagarðs sem reyndist þó ekki standa undir væntingum. Nágrannasveitarfélögin undirbjuggu eigin verslunar­kjarna á Eiðistorgi og Garðatorgi, auk annarra fjárfestinga í greininni.

Byggingin tók miklum breytingum á byggingar­tímanum enda óljóst hvað hún myndi verða stór að lokum.

13


Seinni hluta árs 1985 var ákveðið að ÁTVR myndi opna verslun í Kringlunni og telur Þorkell að sú ákvörðun hafi valdið straumhvörfum. „Þetta var eiginlega einkaákvörðun Alberts Guðmundssonar sem þá var fjármálaráðherra. Hann tryggði fjárveitingu og átti þetta að vera fyrsta verslun ÁTVR með sjálfsafgreiðslu­ sniði. Um leið og þetta lá fyrir breyttist afstaða verslunar­ eigenda. Menn öðluðust skyndilega trú á að þetta myndi ganga upp. Verslunarrýmin ruku út og teikningarnar voru endurskoðaðar jafnóðum í samræmi við það.“

....................................

Kringlan hefur breyst talsvert frá því hún opnaði en nokkrar verslanir eru alltaf á sínum stað.

Hraðinn í fyrirrúmi Eigendur Kringlunnar lögðu ríka áherslu á framkvæmdahraða og að breyta mætti innréttingum hratt og örugglega. Það var því ákveðið að húsið skyldi að mestu samanstanda af steyptum einingum og með langt á milli súlna. „Kröfurnar um afköst voru slíkar að íslensku steypustöðvarnar höfðu ekki undan og var meira að segja gripið til þess ráðs að flytja hingað heilan skipsfarm af steyptum einingum frá Danmörku, slíkur var hraðinn.“ Steypustöðvunum var raunar nokkur vorkunn því Kringlan var fjarri því eina stórmannvirkið sem var í smíðum á þessum miklu þenslu­ tímum. Framkvæmdir stóðu sem hæst við Leifsstöð, Borgar­leikhúsið, Þjóðarbókhlöðuna, Hótel Ísland, Útvarpshúsið, Verzlunarskólann, Seðlabankann og viðbyggingu Hótels Sögu svo eitthvað sé nefnt.

Ekki selt í stæðin Bílastæðafjöldinn var eitt af lykilatriðunum við hönnun Kringlunnar. Horft var til erlendra fyrirmynda en í raun gert mun betur en útlendu staðlarnir miðuðu við. Upphaflega var gert ráð fyrir að selt yrði inn á bílastæðin, t.d. með því fyrirkomulagi að þeir sem keyptu eitthvað í verslunum fengju kort sem jafngilti greiðslu. Kostnaður við útfærslu slíks kerfis reyndist hins vegar of mikill og var horfið frá því. Reyndist það líklega heilladrjúg ráðstöfun enda voru ókeypis bílastæðin eitt helsta tromp Kringl­ unnar umfram miðborgina. Sú ákvörðun að opna Kringluna þann 13. ágúst 1987 var tekin snemma í ferlinu og þeirri dagsetningu ekki hnikað. Var hugsunin sú að opna fyrir byrjun skólaársins og venja Reykvíkinga við verslunar­ miðstöðina fyrir jólaösina. Til að ná settu marki var unnið nótt sem nýtan dag síðustu vikurnar og yfirgáfu síðustu iðnaðarmennirnir húsið fáeinum mínútum áður en kaupglöðum viðskiptavinunum var hleypt inn. „Vinnutörnin í lokin var með ólíkindum en afar lærdómsrík“, segir Þorkell. „Ensku ráðgjafarnir áttu ekki orð yfir að tekist hefði að opna allar verslanirnar strax á fyrsta degi og staðhæfðu að það hlyti að vera einsdæmi. En stemningin var bara þannig að allir vildu taka þátt í ævintýrinu frá upphafi.“

Torglífið sem ekki varð Ekki þróuðust öll mál í tengslum við Kringluna með sama hætti og aðstandendur gerðu ráð fyrir. Skipulagið gerði ráð fyrir að miðpunktur hverfisins væri torg fyrir framan Borgarleikhúsið þar sem myndi skapast erlend markaðsstemning á góðviðrisdögum. Á torginu var komið fyrir útisviði sem Borgarleikhúsið gæti nýtt til leiksýninga og gert var ráð fyrir að kaffihús myndu opna út á torgið. Torgið var gert en minna fór fyrir mannlífinu. Í hugum flestra var Kringlan staður þar sem fólk verslaði innandyra en færi annað til að njóta útiveru og ferska loftsins. Allar minjar um Kringlutorgið eru nú horfnar undir mannvirki og bílastæði.

....................................................................................................................................................

OLÍULEIT Á DREKASVÆÐINU Félagið Íslenskt kolvetni, sem er að hluta í eigu Verkís, og færeyska olíurannsóknarfyrirtækið Faroe Petroleum hafa lagt inn sameiginlega umsókn um leyfi til olíuleitar á Drekasvæðinu. Markmið Íslensks kolvetnis eru rannsóknir og leit á Drekasvæðinu til nýtingar jarðefnaeldsneytis. Með þátttöku sinni í útboðinu vill Íslenskt kolvetni stuðla að því að íslenskir hagsmunir séu í fyrirrúmi og tryggja að Íslendingar byggi upp eigin þekkingu og reynslu á þessu sviði. Olíuverzlun Íslands (Olís) og Dreki Holding ehf. standa að Íslensku kolvetni ásamt Verkís. Verkís hefur áratuga reynslu af nýtingu náttúruauðlinda til orkuframleiðslu og hefur sú þekking nýst til atvinnuuppbyggingar á Íslandi ásamt því að skapa tækifæri á erlendum vettvangi. Nauðsynlegt er að byggja upp traustan grunn að íslenskri þekkingu á olíurannsóknum og olíunýtingu. Finnist olía í vinnanlegu magni á Drekasvæðinu í íslenskri landhelgi skapar það einnig mikla hagsæld fyrir íslenska þjóð.

14


SLYSIN GERA BOÐ Á UNDAN SÉR!

- VERKÍS OG ÖRYGGISSTJÓRNUN

Að morgni 14. apríl 2010 braust út eldgos í toppgíg Eyjafjallajökuls. Eldsumbrotunum fylgdi mikill gosmökkur sem olli mikilli röskun á flugsamgöngum víða um heim. Eðli málsins samkvæmt var ástandið þó verst í sveitunum næst jöklinum. Þar varð gríðarlegt öskufall, rýma þurfti stór svæði og stóðu björgunar­ sveitir í ströngu. Þrátt fyrir þessar miklu hamfarir stóð raforku­ kerfið fyrir sínu. Öskufallið hafði ekki í för með sér rafmagnsleysi en slíkt hefði gert stöðu íbúanna mun verri og valdið miklum erfið­ leikum við björgunarstörfin. Góð frammistaða raforkukerfisins var engin tilviljun. Íslensku veitufyrirtækin höfðu undirbúið sig vel gegn mögulegri náttúruvá. Vorið 2006

hafði t.a.m. verið haldin almannavarnaæfingin „Bergrisinn“ þar sem æft var hvernig bregðast skyldi við Kötlugosum. „Í undirbúningi og framhaldi af Bergrisanum hafa raforkufyrirtækin unnið við að meta möguleg áhrif eldgosa og gert viðbragðsáætlanir“, segir Dóra Hjálmarsdóttir. „Enda kom það í ljós þegar Eyjafjallajökull gaus að fyrirtækin voru vel undirbúin. Þau gátu strax aflestað línur sem voru í hættu, haft dísilstöðvar til taks og virkjað viðbragðs­ áætlanir. Öryggisstjórnunarkerfin sönnuðu svo sannarlega gildi sitt í þessum hamförum.“

Æfingar gegna stóru hlutverki í öryggis­ stjórnun.

....................................

Stjórnun öryggismála er snar þáttur í starfsemi Verkís, jafnt inn á við til að tryggja heilsu og öryggi starfsmanna sem og í tengslum við ráðgjöf til annarra fyrirtækja. Gangverk hitti þau Dóru Hjálmarsdóttur rafmagnsverkfræðing og ÖHU-fulltrúa og Sigþór U. Hallfreðsson gæðastjóra hjá Verkís.

Öryggi í víðum skilningi Dóra hefur langa reynslu af öryggisstjórnun á vegum Verkís. Stjórnun öryggis fyrirtækja nær yfir mjög vítt svið, allt frá vinnuvernd til neyðar- og samfellustjórnunar. „Það var um miðjan tíunda áratuginn sem stofan hóf að sinna ráðgjöf í þessum málaflokki. Það má segja að íslenskan sé eilítið heftandi þegar kemur að þessum málaflokki, við notum aðeins eitt orð, öryggi, til að lýsa því sem ensku­ mælandi þjóðir kalla annars vegar safety en hins vegar security. Fyrrnefnda hugtakið vísar í

15


vinnuvernd en það síðarnefnda felur í sér varnir gegn utanaðkomandi ógnum og áföllum. Stjórnun öryggis nær því yfir breitt svið, allt frá því að huga að vinnuvernd og öryggi mann­ virkja út frá hönnun og rekstri yfir í að skipu­ leggja viðbrögð við hamfaraaðstæður og tryggja samfelldan rekstur.“ Í mörgum nágrannaríkjum hefur löggjafinn skyldað fyrirtæki og stofnanir til að útbúa viðbragðsáætlanir miðað við mismunandi hættu­ ástand. Hér á landi hafa fá slík ákvæði verið í gildi og þeim lítið verið beitt. Undir lok níunda áratugarins ákváðu því stjórn­ endur stóru raforkufyrirtækjanna og Samorka, samtök veitufyrirtækja, að ganga lengra en lagabókstafurinn kvað á um. Einnig hefur verið stofnað til neyðarsamstarfs í raforku­geiranum að frumkvæði Landsnets þar sem aðilar styðja hver annan ef vá dynur yfir. Síðan hafa fleiri fyrirtæki fylgt á eftir, t.d. í fjarskipta­geiranum. „Raforkugeirinn hefur verið í fararbroddi í þessum efnum“, segir Dóra. „Landsvirkjun reið á vaðið en hin fyrirtækin fylgdu á eftir. Þar hjálpaði eflaust til að það er mjög sterk og rótgróin hefð fyrir samstarfi og samvinnu á milli veitufyrirtækjanna.“ Listræn stjórnun Sigþór U. Hallfreðsson hefur talsvert sinnt ráðgjöf á sviði gæðamála fyrir orkufyrirtækin. Hann bendir á að áhersla fyrirtækjanna á öryggisþáttinn sé í raun gæðamál. Þegar veitufyrirtæki skilgreinir áhættuviðmið fyrir afhendingaröryggi er það um leið orðið þáttur í gæðastjórnun. Starfsmenn Verkís hafa unnið mjög fjölbreytt öryggisstjórnunarverkefni fyrir íslensku veitufyrirtækin á liðnum árum. Fyrirtækið sá til dæmis um úttekt á mannvirkjum Orkuveitunnar sem byggð höfðu verið fyrir árið 2000 út frá áhrifum hamfara. Í kjölfarið var ráðist í ýmsar lagfæringar og þessir þættir teknir með inn í hönnun og undirbúning nýrra mannvirkja. Mörg verkefni hafa falist í gerð viðbragðs­ áætlana með veitufyrirtækjunum og undirbúningi æfinga, meðal annars í tengslum við lögreglu og almannavarnir. Starfsmenn Verkís koma að því að hanna og rita handrit að æfingum, jafnt skrifborðsæfingum sem raunæfingum, fylgjast með þeim eins og flugur á vegg og leggja loks mat á niðurstöður. „Ætli það megi ekki tala um starfsmenn okkar sem listræna stjórnendur á æfingunum“, segir Sigþór brosandi. Aðspurð segir Dóra að ekki hafi orðið mikil breyting á skilgreindum ógnum frá því að byrjað var að huga að öryggisstjórnunarmálum hér á landi. „Þetta eru svo til sömu hættur sem menn skilgreindu þá og nú. Fyrst og fremst er um að ræða hefðbundnar náttúruhamfarir:

16

jarðskjálfta, eldgos, flóð og fárveður. Stíflurof, stórfelldar tæknibilanir í tölvukerfum og orku­ kerfum hafa alltaf verið á listanum og sama gildir um skemmdarverk og hryðjuverk. Það eru helst farsóttirnar sem hafa bæst við í seinni tíð.“ Hugarfarsbreyting Í kjölfar stórframkvæmda síðasta áratugar og í gegnum rekstur stórfyrirtækja á Íslandi hefur orðið hugarfarsbreyting hjá íslenskum fyrirtækjum hvað varðar öryggismál. Fram að því höfðu veitufyrirtækin verið helstu viðskiptavinir þjónustu Verkís á sviði öryggis­ stjórnunar. Nú eru æ fleiri fyrirtæki farin að huga að öryggismálum og standa sig vel í því. Enn er þó ýmislegt óunnið á þessum vettvangi. Samkvæmt vinnuverndarlöggjöfinni eiga öll fyrirtæki stór og smá að vera með forvarna­ áætlun þar sem m.a. kemur fram áhættumat starfa. Nýlegar niðurstöður Almannavarna gefa til kynna að sveitarfélögin vantar fjölmargar viðbragðsáætlanir við ýmiss konar vá. Búast má við að úr því verði bætt á næstu misserum enda er vitund almennings, fjölmiðla og stjórnmálamanna um mikilvægi málaflokksins sífellt að aukast. Dóra og Sigþór eru sammála um að líklega sé hugarfarsþátturinn það sem mestu máli skipti varðandi slysavarnirnar. Á fáeinum áratugum hafi orðið ótrúleg breyting á viðhorfi manna og að sitthvað sem hafi þótt sjálfsagt fyrir ótrúlega skömmu þyki nú óverjandi glannaskapur.

Bergrisinn rumskar Almannavarnaæfingin Bergrisinn var haldin í mars 2006 og var tveimur atburðum stillt upp. Annars vegar hlaup á Mýrdalssandi með til­ heyrandi rofi á samgöngum, raf­ orku og fjarskiptakerfi. Hins vegar hlaup til vesturs yfir svæðið frá Hvolsvelli til Markarfljótsbrúar, með flóðbylgju sem riði yfir Vestmannaeyjar. Á annað þúsund manns tók þátt í æfingunni sem var sú stærsta sem haldin hefur verið hér á landi. Allar helstu stofnanir á sviði almannavarna komu að Bergrisanum auk sjálfboðaliða, áhugamanna­ félaga og fyrirtækja á sviði orku- og fjarskipta. Til­ gangurinn var að æfa alla þætti viðbragðsáætlunar Almannavarna vegna Kötlu­gosa og að gera íbúa áhrifa­svæðisins meðvitaða um rétt viðbrögð við hamförum.


ÚTLENDINGARNIR KOMA!

- ALÞJÓÐABANKINN, HRAÐBRAUTAÁTAKIÐ OG ERLENDIR VERKFRÆÐINGAR

Í endurminningabók sinni, „Eins og gengur“, kvartaði Sigurður Thoroddsen yfir ofurtrú á erlendum verkfræðingum. Gagnrýnin beindist ekki hvað síst að forystumönnum opinberra stofnana sem sinntu verkfræðilegum framkvæmdum. Þessum embættum var komið á á fyrri hluta tuttugustu aldar og voru þau framan af einn helsti starfsvettvangur útskrif­ aðra verkfræðinga. Hönnun, undirbúningur og vinna við flestallar smærri framkvæmdir var á þeirra höndum þar sem reynt var að komast hjá því að kaupa þjónustu utanaðkomandi aðila. Þegar um stærri verkefni var að ræða var leitað til útlendinga sem höfðu lítið til brunns að bera

umfram heimamenn. Þetta var í það minnsta mat íslenskra ráðgjafarverkfræðinga sem voru ósáttir við hvað þeir fengu fá verkefni frá hinu opinbera. Barist um verkefnin Á sjötta og sjöunda áratugnum byggðu sjálfstæðar verkfræðistofur afkomu sína á verkefnum fyrir einkaaðila og sveitarfélög. Á uppgangstímum í atvinnulífinu var enginn hörgull á slíkum verkefnum. Þannig reyndust síldarárin blómlegur tími því uppbygging í útgerð og fiskvinnslu kallaði á margvíslegar framkvæmdir í byggingum, vegagerð, hafnarmannvirkjum og vatnsveitum. Þegar harðnaði á dalnum í kjölfar hruns síldarstofnsins 1967 dró úr framkvæmdum einstaklinga og fyrirtækja en þá jókst mikilvægi stórra opinberra framkvæmda til muna og að sama skapi kröfurnar um að sjálfstæðir aðilar kæmu að verkefnunum.

Vegaframkvæmdir við Vesturlandsveg í Grafarholti.

....................................

„Kafli út af fyrir sig er ofdýrkun á útlendingum og þeirra þjónustu, sem enn eimir eftir af, löngu eftir að íslenska verkfræðistéttin er orðin fjölmenn, hefir sýnt hæfni sína á fjölmörg­ um sviðum og er gjaldgeng hvar sem er í heiminum annarsstaðar. Kátbrosleg er sagan af því er opinber stofnun sendi menn út á flugvöll til að taka á móti útlendum sérfræðingi, sem reyndist vera ungur íslenskur verkfræðingur, sendur af hinu erlenda fyrirtæki.“

Miklar vonir voru því bundnar við stórátak sem boðað var í vegamálum veturinn 1967-68. Einkum var horft til helstu aðflutningsæða til höfuðborgarsvæðisins, Suðurlandsvegar og

17


18

....................................

Í stað holóttra malarvega til suðurs og vesturs frá Reykjavík eru nú komnir malbikaðir þjóðvegir.

Vesturlandsvegar. Í stað hlykkjóttra og hægfarinna malarvega skyldu lagðir beinir og breiðir vegir með bundnu slitlagi. Kröfur Alþjóðabankans Þar sem ríkissjóður átti ekki handbært fé til stórverkefna í samgöngumálum var ákveðið að leita á náðir Alþjóðabankans en eitt af skilgreindum verkefnum hans var að lána til uppbyggingar á innviðum samfélaga. Bankinn gerði hins vegar aðrar kröfur til undirbúnings og ákvarðanatöku en Íslendingar áttu að venjast. Í stað þess að fjármunum til framkvæmda væri úthlutað frá ári til árs, þar sem unnið væri að mörgum verkefnum um langt tímabil fyrir of lítið framkvæmdafé, var gerð krafa um skipulag. Til að greiða fyrir lántökunni þurftu Íslendingar að láta vinna heildar­ samgönguáætlun til átta ára þar sem lagt væri mat á stöðu og þarfir samgöngu­kerfisins innanlands. Möguleg verkefni í vegagerð yrðu tekin saman og forgangs­ raðað á grundvelli hagkvæmni. Samið var við danska verkfræðifyrirtækið Kampsax um þessa heildar­athugun en umferðarrannsóknin 1968 markaði tímamót í skipulagsmálum. Í tengslum við hana var meðal annars ráðist í víðtæka könnun um allt land undir yfirskriftinni „Hvert ertu að fara?“ Dag einn í ágúst stöðvuðu starfsmenn könnuna­ r­­­ innar fjölda bílstjóra og spurðu þá nákvæmlega út í ferðir þeirra. Á grunni þessara upp­ lýsinga var dregin upp mynd af ferða­ mynstri landsmanna. Rannsóknin var að miklu leyti hagfræðilegs eðlis og með henni var, eftir því sem næst verður komist, í fyrsta sinn reynt

að leggja mat á hversu arðbærar einstakar framkvæmdir væru. Ráðgjafarverkfræðingum var hins vegar ekki skemmt að sjá enn einu stórverkefninu vistað út til erlendra aðila. Í forsíðufrétt Þjóð­ viljans 9. apríl 1968 mátti lesa fyrirsögnina: „Ríkisstjórnin tekur útlenda verkfræðinga fram yfir jafnhæfa Íslendinga.“ Í fréttinni var bent á að fjöldi íslenskra verkfræðinga væri starf­ andi erlendis vegna verkefnaskorts og gert lítið úr því að verkefnið sem Kampsax væri falið kallaði á mikla sérþekkingu auk þess sem Danirnir væru fremur verktakafyrirtæki en verkfræðistofa. Verkfræðingum heitt í hamsi Fáeinum vikum síðar hélt Sigurður Thoroddsen erindi á félagsfundi Verkfræðingafélags Íslands með yfirskriftinni: „Starfsemi erlendra verkfræðinga fyrir opinbera aðila.“ Þar ræddi hann almennt um þróun íslenskrar verkfræði á liðnum áratugum. Niðurstaða hans var sú að einkaaðilar treystu innlendum verkfræðingum fyrir krefjandi verkefnum en vantraust hins opinbera í þeirra garð væri rótgróið. Dæmi um þetta væru raforkumálin. Íslendingar hefðu sjálfir sinnt verkfræðilegri hönnun flestra sinna virkjana en síðan verið ýtt til hliðar þegar kom að Búrfellsvirkjun. Í umræðunum á eftir tóku flestir þátttakendur undir orð framsögumanns. Einn fundargesta gekk það langt að halda því fram að ekkert væri hægt að læra af þeim erlendu verkfræðingum sem væru að störfum við Búrfell. Í lokin var samþykkt samhljóða


ályktun þess efnis að skora á íslensk stjórnvöld að leita fyrst með öll verkefni til innlendra verkfræðinga sem gætu þá leitað sér aðstoðar að utan ef þyrfti. Olli straumhvörfum Gestir á fundi Verkfræðingafélagsins gáfu lítið fyrir þær útskýringar ráðamanna að nauðsynlegt hefði verið að leita til stofu sem nyti viðurkenningar Alþjóðabankans. Rifjuðu menn upp að stórlán til hitaveitulagningar hefðu fengist frá Alþjóðabankanum í upphafi sjöunda áratug­arins og þá hefðu íslenskir verkfræðingar þótt nægilega góðir. Líklegt verður þó að telja

að stjórnvöld hafi haft á réttu að standa í þessu efni. Sjálfstæðu íslensku verkfræðistofurnar voru flestar smáar í sniðum og höfðu ekki aflað sér alþjóðlegrar vottunar. Skýrsla Kampsax hefur vafalítið átt sinn þátt í jákvæðri afgreiðslu bankans á umsókninni. Aðkoma Alþjóðabankans varð að lokum lyfti­ stöng fyrir sjálfstæðar verkfræðistofur því hann gerði kröfu um útboð framkvæmda og þrýsti á að verkfræðistofur sæju um hönnun og eftirlit. Vinna við vegalagninguna hófst 1970 og var þar um að ræða Vesturlandsveg frá Höfðabakka í Reykjavík að Mógilsá í Kollafirði og Suðurlandsveg á milli Reykjavíkur og Selfoss.

Í þjónustu Íranskeisara Kampsax var sögufrægt verkfræði- og verktakafyrirtæki sem var stofnað árið 1917. Á þriðja og fjórða áratugnum öðlaðist það alþjóðlega frægð vegna tveggja stórverkefna. Í lok þriðja áratugarins sá það um járnbrautarlagningu frá Istanbúl í Tyrklandi, 1.000 kílómetra austur á bóginn. ������������������������������������������������������������������������������������������ Í kjölfar þessa �������������������������������������������������������������������������� verkefnisins fékk keisarinn í Íran fyrirtækið til að sjá um lagningu járnbrautar þvert yfir landið. Verkið tók fimm ár og var risavaxið enda unnu yfir 50 þúsund manns að því þegar mest var. Mörg þúsund járnbrautarbrýr voru reistar og heildarlengd ganga var 80 kílómetrar. Vinnuaðstæður voru með versta móti, allt frá 50 stiga hita í eyðimörkum niður í 35 stiga frost á hæstu fjallstoppum. Járnbraut þessi átti eftir að skipta miklu máli fyrir gang síðari heimsstyrjaldarinnar enda ein helsta flutningsæð bandamanna til Sovétríkjanna stóran hluta stríðsins. Þegar íslensk stjórnvöld tilkynntu að Kampsax myndi vinna að samgöngu­áætluninni var sérstaklega tekið fram að fyrirtækið hefði sinnt slíkum verkefnum í Brasilíu. Það þóttu ekki slæm meðmæli enda var Brasilía um þær mundir í fararbroddi nývæðingar þar sem verkfræðingum og arkitektum var falið að skapa nýtt samfélag frá grunni.

....................................................................................................................................................

SÁÐ TIL FRAMTÍÐAR Verkís starfar samkvæmt metnaðarfullri stefnu í umhverfis- og öryggismálum og fer stjórnun fyrirtækisins fram með Verkískerfinu, samþættu kerfi sem uppfyllir staðlana ISO 9001, ISO 14001 og ISO 18001. Fyrirtækið hefur sótt um ISO 14001 og OHSAS 18001 vottanir á kerfinu og er undirbúningur þess ferlis nú á lokastigi. Markmiðin með vottun kerfisins eru m.a.: > Að tryggja varanlega og virka stjórnun umhverfis, öryggis og heilbrigðis. > Samþætting við núverandi gæðakerfi. > Aukin vitund starfsmanna. > Aukinn umhverfis- og öryggisbragur.

Starfsmenn Verkís hafa að undanförnu gróðursett rúmlega 300 reynitré víða um land.

....................................

Verkís stefnir á að verða leiðandi við uppbyggingu umhverfis- og öryggisstjórnunar í íslensku samfélagi og sýna þannig samfélagslega ábyrgð. Það mun draga úr umhverfisáhrifum af starfsemi fyrirtækisins og öryggi starfsmanna á vinnustað verður í öndvegi. Einnig er tekið tillit til umhverfis­ áhrifa og öryggis við hönnun verkefna hjá Verkís. Á dögunum gaf Verkís starfsmönnum sínum ilmreyni sem tákn um umhverfisþátt vottunarferilsins og sem hvatningu til starfsmanna til að sá og horfa til framtíðar. Nýlega hafa því rúmlega 300 reynitré verið gróðursett víða um land og munu virka sem áminning um mikilvægi þess að tileinka sér umhverfis­vænan hugsunarhátt og lífsstíl. „Við hlökkum til að sjá reynitrén vaxa og dafna á næstu árum en vottun stjórnkerfis okkar samkvæmt þessum stöðlum er mikilvægt skref í því að lifa eftir gildum fyrirtækisins sem snúa að ábyrgð og virðingu fyrir umhverfinu,“ segir Sveinn I. Ólafsson framkvæmdastjóri Verkís.

19


Öflug uppbygging í 80 ár 1972 Hitaveita á Reykjum, Mosfellsbæ

Verkís rekur uppruna sinn til 1932 þegar fyrsta íslenska verkfræðistofan hóf starfsemi sína.

2010 Sundlaugin Hofsósi

1953 Laxárvatnsvirkjun

2011 Hörputorg

2008 Svartsengi

Hjá Verkís starfa útsjónarsamir smiðir hugmynda og lausna, reynsluboltar á öllum sviðum verkfræði og skyldra greina. Síðastliðin 80 ár hafa starfsmenn fyrirtækisins átt þátt í flestum stærri mannvirkjum og framkvæmdum á Íslandi. 1958 Háspennumastur í Kollafirði

Verkís verkfræðistofa | Ármúla 4 | 108 Reykjavík | Sími 422 8000 | www.verkis.is

1958 Grímsárvirkjun

20 2003 Bláa lónið

Saga Verkís er þannig samofin sögu uppbyggingar og atvinnulífs á Íslandi eins og við þekkjum það. 1946-2011 Hallgrímskirkja


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.