1 minute read
Mikið eignatjón í eldsvoða
Sextán slökkviliðsmenn börðust við eld í einbýlishúsi í Garði á föstudaginn langa. Tilkynning barst til Neyðarlínunnar kl. 16:37 þar sem tilkynnt var um mikinn svartan reyk frá íbúðarhúsi við Valbraut í Garði. Það voru nágrannar sem tilkynntu um eldinn. Bílar frá Brunavörnum Suðurnesja og lögreglunni á Suðurnesjum voru þegar send á staðinn.
Þegar slökkvilið kom á staðinn var mikill hiti í húsinu. Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, sagði í samtali við Víkurfréttir að ljóst væri að þarna hafi eldur náð að loga lengi áður en hans varð vart. Teymi reykkafara var þegar sent inn í húsið til leitar. Enginn reyndist í húsinu. Húsráðendur voru erlendis.
Baráttan við eldinn í húsinu var erfið en hvass vindur hafði áhrif á slökkvistarfið.
Einn slökkviliðsmaður slasaðist við slökkvistörf og var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Að sögn Jóns slökkviliðsstjóra skarst slökkviliðsmaðurinn á gleri við slökkvistörf.
Þegar slökkvistarfi var lokið var vettvangur afhentur lögreglu. Rannsókn beindist að mögulegum eldsupptökum í eldhúsi. Eignatjón er mikið.
Nacho Heras hefur fundið stöðugleika á Íslandi