2 minute read
Slægði kola með brýndri skeið
Það var mikil stemmning í loftinu núna í byrjun maí, enda hófst strandveiðitímabilið þá og aldrei hafa jafnmargir strandveiðibátar verið á veiðum og þá, aðallega frá Sandgerði.
Þrátt fyrir þessa miklu stemmningu voru veðurguðirnir nú alls ekki á sama máli, enda hafa vetraráttir hálfpartinn ríkt síðustu vikur og til að mynda komust færabátar ekkert á sjó í síðustu viku – og núna eftir hvítasunnuna komust nokkrir bátar á sjóinn, t.d. Dímon GK, Arnar ÁR og Tjúlla GK, allir frá Sandgerði og allir náðu skammtinum sínum.
Þegar þessi pistill kemur út verður nú veðráttan vonandi orðin skárri þannig að þessi gríðarstóri floti komist á sjóinn og allir koma með bros á vör með skammtinn sinn og meira til.
Það er nokkuð árvisst að áhöfnin á Sigurfara GK fari í flakk á dragnót og alla leið vestur til Patreksfjarðar og veiði þar fyrir utan og utan við Arnarfjörð. Er þá að mestu að eltast við steinbítinn og má alveg segja að þær veiðar hafi gengið feikilega vel hjá Sigurfara GK. Þeir lönduðu alls um 207 tonnum í aðeins fjórum róðrum, mest 62 tonn í einni löndun sem landað var í Sandgerði. Öllum aflanum var landaði í Sandgerði nema 33 tonna löndun sem var landað á Patreksfirði. Af þessum afla var steinbítur um 180 tonn. Allur steinbíturinn sem Sigurfari GK landaði var unnin í Miðnesi HF í Sandgerði, líka sá afli sem var landað á Patreksfirði – honum var öllum ekið til Sandgerðis og Garðs. Reyndar veit ég ekki hvort Nesfiskur sendi sína eigin trukka til að sækja aflann en ég veit að þeir hafa sent trukka til Grundarfjarðar til þess að ná í afla af bátunum sínum þar.
Hinir dragnótabátarnir hafa ekki róið svo mikið en hafa þó verið á hefðbundnum slóðum utan við Hafnarberg og veitt vel þá fáu róðra sem þeir hafa komist í, t.d. er Siggi Bjarna GK með 90 tonn í átta róðrum, Benni Sæm GK 80 tonn í átta, Maggý VE 31 tonn í fjórum róðrum og Aðalbjörg RE 99 tonn í tíu róðrum. Allir landa í Sandgerði.
Þess má geta að Aðalbjörg RE hefur að mestu verið á veiðum svo til vestur af Sandgerði inn í Faxaflóanum og verið að eltast við kola, enda er af þessum afla 31 tonn af skarkola. Maður má nú ekki blóta en ég man sjálfur, þegar ég var á sjó á Þór Péturssyni GK, þegar kolinn kom í trollið var það nú alls ekki það skemmtilegasta sem maður slægði. Sérstaklega sólkolinn sem var sleipur eins og sápa – og reyndar komst ég aldrei upp á lag með það að slægja kola. Reyndar var nú einn sem var með mér á sjónum, hann tók sig til og brýndi skeið og náði ansi góðum tökum á að nota hana til þess að slægja kolann. Því má segja að áhöfnin á Aðalbjörgu RE fær ansi mikið hrós frá mér fyrir að nenna að vinna og slægja 31 tonn af kola en jú, verð á kola er gott á mörkuðum eða um 460 krónur á kílóið svo þannig má áætla að aflaverðmæti Aðalbjargar RE bara fyrir kolann sé um 14 milljónir í maí og er það ansi gott. Aðeins í netin því að Erling KE var eini stóri netabáturinn sem réri á netum allan maí og náði að veiða 264 tonn í sextán róðrum og mest 28 tonn í róðri. Öllum aflanum var landað í Keflavík en báturinn hefur lítið landað í Njarðvík eftir að Grímsnes GK brann. Hinir bátarnir hans Hólmgríms, Maron GK og Halldór Afi GK, hafa ekkert róið. Hvað verður get ég ekki skrifað um hérna. Kannski síðar.
Að lokum minni ég á vertíðaruppgjörið 2023-1973-1993 sem hefur fengið mjög góðar viðtökur. 46 blaðsíður og hægt að panta í síma 7743616 (Hrefna Björk).