3 minute read

Vill meiri aflaheimildir í strandveiðipottinn

Þar sem brælutíð hefur verið um allt land að undanförnu, var Halldór í Sandgerði þar sem hann er með útgerðaraðstöðu, þegar blaðamaður tók símtalið við hann. „Það er búin að vera mikil ótíð að undanförnu en ég hef undanfarin tvö ár róið á strandveiðinni á svæði B, sem er Strandabyggð/ Grýtubakkahreppur. Ég kem yfirleitt alltaf heim á fimmtudögum en á strandveiðinni má einungis róa mánudag til fimmtudags. Ég ákvað að færa mig af D svæðinu sem tilheyrir Reykjanesinu, m.a. vegna þess að fiskeríið hefur vanalega minnkað þegar kemur fram í júní og oft lítið að hafa í júlí og ágúst. Hér áður fyrr var talað um vertíðarlok 11. maí en þá hefur hrygningarfiskurinn verið á okkar svæði frá apríl þegar hann hrygnir en síðan færir hann sig vestur eftir landinu. Fyrir norðan byrjar fiskiríið yfirleitt aðeins síðar en hægt er að vera að allan tímann, þ.e.a.s ef heildarkvótinn sem í ár er tíu þúsund tonn, verður ekki allur upp veiddur. Þó hefur fiskerí á B svæðinu verið með betra móti á þessu strandveiðitímabili. Í þessum töluðu orðum er u.þ.b. 30% strandveiðikvótans veiddur. Það er nokkuð ljóst að ef svo fer sem horfir, að þá muni leik ljúka löngu áður en sjálft strandveiðitímabilið segir til um, í ágúst.“

Fullur sjór af fiski

Það ríkir sjaldnast fullkomin sátt um ákveðin kerfi, hvað þá fiskveiðistjórnunarkerfið og strandveiðikerfið er þar engin undantekning. Eins og kerfið er uppsett í dag, geta þeir sem róa á C-svæðinu sem nær frá Þingeyjarsveit / Djúpavogshreppur, lent í því að allur strandveiðikvótinn sé veiddur þegar fiskurinn gengur loksins inn á þeirra slóðir. Halldór veit hvernig hann myndi vilja sjá kerfið. „Eins og kerfið er í dag, er potturinn sem úthlutað er úr alltof lítill. Allir sjómenn vita að sjórinn er fullur af fiski, það hefur líklega sjaldan verið eins mikið af fiski í sjónum og því ætti Hafró að leyfa miklu meiri veiði. Til að jafna leikinn á milli strandveiðimanna um allt land, finnst mér að það ætti að fækka dögunum sem má veiða í hverjum mánuði en í dag má veiða í tólf daga, ég myndi vilja sjá þeim fækkað, jafnvel í tíu. Þá yrði úr einhverju að moða fyrir hina þegar fiskurinn gengur inn á þeirra slóðir. En auðvitað ætti ráðherra sem vildi láta nefna sig strandveiðiráðherra á aðalfundi LS í fyrra, að úthluta miklu meira magni í strandveiðarnar.

Við getum veitt miklu meira en við gerum í dag, það er ég viss um. Mér hugnast illa pælingar ráðherra með að skipta kvótanum jafnt á milli svæðanna því þá hefst einfaldlega kapphlaup á milli strandveiðimanna. Við höfum því miður dæmi um nokkur sjóslys þar sem mannskaði varð, því menn fóru út í slæmu veðri, menn tóku þannig séð sénsinn því þeir þurftu að afla. Landhelgisgæslan og Slysavarnaskóli sjómanna, er okkur hjá Landssambandi smábátaeigenda, algerlega sammála um hættuna sem af þessu gæti hlotist,“ segir Halldór.

Grásleppa með pabba Halldór er fæddur á Drangsnesi og bjó þar til átta ára aldurs, flutti árið 1971 með fjölskyldunni í Sandgerði og fljótlega var ljóst hvert hugur hans stefndi. Hann hafði ungur byrjað að róa með pabba sínum á grásleppu öll sumur fyrir norðan, hann var búinn að ráða sig á vertíðarbáta strax eftir að grunnskólagöngu lauk og feðgarnir fóru svo saman í útgerð.

„Mér hefur líklega alltaf runnið sjómannsblóð í æðum, var pjakkur þegar ég fór með pabba og hafði alltaf mikinn áhuga á sjómennsku. Þó var tímabil þar sem ég vann við og lærði pípulagnir og ég tók líka vélstjóraréttindi í kvöldskóla en alltaf togaði blessaður sjórinn í mig. Við pabbi keyptum okkur svo bát árið 1996 og hófum útgerð saman. Við höfðum ekkert nema hendurnar og eignuðumst allan okkar kvóta með kaupum, þ.e. við fengum ekkert gefins. Svona unnum við okkur hægt og bítandi upp, bættum við báti, gerðum breytingar á bátum og endurbættum, yfir höfuð gekk bara vel myndi ég segja. Pabbi dó árið 2017 og þá ákváðum við systkinin að selja allt en ég tók annan bátinn sem við áttum þá, Guðrúnu Petrínu upp í minn hluta. Ég var ánægður með að kvótinn hélst hér á Suðurnesjum, Einhamar í Grindavík keypti af okkur. Síðan þá hef ég gert út á grásleppu, makríl og strandveiði auk þess að leigja kvóta. Það er bara að verða svo lítið framboð á leigukvóta, stóru smábátaútgerðirnar eru að hreinsa þetta allt upp svo hvernig framhaldið í þessu verður er óljóst, það kemur í ljós hvað maður gerir í haust.“

Landssamband smábátaeigenda

Halldór hefur setið í stjórn Landssambands smábátaeigenda undanfarin ár og er formaður Reykjaneshlutans. „Það er kosið í stjórn einu sinni á ári og einnig fer það eftir fjölda smábáta á viðkomandi svæði, hversu marga kjörna fulltrúa hvert félag fær. Ég er í stjórn Landssambands smábátaeigenda og þrír aðrir félagar úr stjórn Reykjaness mæta svo sem fulltrúar á aðalfund LS. Það eru alltaf næg mál sem smábátaeigendur geta fjallað um, allt frá öryggismálum að strandveiðinni. Grásleppan hefur verið mikið á milli tannanna á mönnum undanfarin ár, þar skiptast menn í fylkingar varðandi hvort setja eigi grásleppuna í kvóta eða ekki.

„Ég er ekki hlynntur því að kvótasetja grásleppuna og sama með strandveiðina en sumir trúa að strandveiðikvótinn endi sem venjuleg kvótaeign, ég mun alltaf berjast á móti því. Ég sé fyrir mér að hart verði barist um strandveiðina á næsta þingi, þar eru menn einfaldlega ekki að dansa í takti og verður líklega hart tekist á um þau mál “ sagði Halldór að lokum.

This article is from: