Af bújörð bræðinnar - framhald Sagan endalausa.
"Bréfið" Ég hef að sjálfsögðu rætt við mína vini og vandamenn um þetta ástand og einn þeirra lagði til að ég skrifaði þetta niður því þetta er orðið snúið og flókið og erfitt að henda reiður á öllu. Ég gerði það. Greinargerðin var hugsuð fyrir okkur og já, okkar vini og vandamenn. Brynjólfur heitir maður sem hefur verið vinur Marteins til margra ára. Brynjólfur þekkir Hólmar í gegnum Martein. Marteinn ræðir þetta ástand við Brynjólf eins og vinir gera, þeir leita til hvors annars. Einhverra hluta vegna virtist Brynjólfur ekki skilja það sem Marteinn var að segja honum, hann skildi ekki um hvað þetta snerist. Marteinn talar um þetta og finnst erfitt að vinur hans skilji ekki hans hlið svo ég legg til að við sendum Brynjólfi hlekk á greinargerðina sem var þá inni á google docs enda litum við enn á Brynjólf sem vin okkar. Verður svo. Líða svo einhverjir dagar og bíðum við eftir að Brynjólfur hringi til að ræða við Martein en hann hringir ekki. Hins vegar berst símtal frá manni frænkunnar, fólksins sem hér dvelur langdvölum í öllum fríum. Hann er reiður og hellir sér yfir Martein hvað við séum að draga þau inn í þetta mál, úthúðar mér fyrir eitt og annað* og m.a. eitthvað hræðilegt bréf sem ég hef skrifað og er að ganga í sveitinni. Marteinn veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Við hjónin erum ekki alveg að átta okkur á þessu þegar sá hræðilegi grunur flögrar að okkur að Brynjólfur hafi brugðist okkur. Við hringjum í Brynjólf og þá kemur í ljós að "hann var ekki sammála nokkrum punktum í greinargerðinni" svo hann sendi hana til Hólmars! Núna var Hólmar búinn að senda bréfið út um víðan völl. Við vitum auðvitað ekkert hvort hann sendi alla greinargerðina eða valda hluta. Getur fólk getið sér til hvað honum gengur til með þessu.
*Tilkynnti t.d. formlega að hann hefði misst alla virðingu fyrir mér þegar ég "skildi börnin hans eftir í reiðileysi."
Þessi “vinur” mætti með H á fund 25. okt. sem sérstakur stuðningsmaður hans. Engin sómatilfinning, engin.
Ég fjarlægi snarlega greinargerðina af google docs en skaðinn er skeður. Já, ég skrifaði greinargerðina og hún var skrifuð algjörlega út frá okkar sjónarhorni og aðeins ætluð örfáum. Hún var aldrei ætluð til nokkurrar opinberrar birtingar. En fyrst hún er farin að berast til hinna og þessara, þökk sé Hólmari, þá tel ég best að halda henni. Ég flyt hana yfir á Sway og bæti við eftir því sem atburðir gerast og sögusagnir berast. Og já, ég deili henni með örfáum vinum mínum. Ég sendi hana líka á systur langdvalarfrænkunnar því ég vildi tryggja að þau væru þá með hana alla en ekki bara valda og jafnvel breytta hluta frá Hólmari.* Um daginn mætir svo maður langdvalarfrænkunnar hér og fullyrðir að þetta hræðilega bréf gangi hér um allar sveitir, þau séu að fá stöðugar hringingar og fólk sé að spyrja hvort þetta hafi virkilega verið svona. (Já, þetta var virkilega svona.) Við skulum hafa það á hreinu að fólkið sem ég sýndi greinargerðina þekkir þau ekki og myndi aldrei hringja í þau. (Fyrir utan mágkonu hans, auðvitað, og hún hefur greinilega deilt greinargerðinni með honum). Svo "allt þetta fólk"** sem hefur þessa greinargerð undir höndum og er að hringja, hefur hana frá Hólmari.
*Maður langdvalarfrænkunnar segist vera með þrjár útgáfur undir höndum. Kannski meinar hann fyrsta google docs skjalið og svo breytingar sem verða á Sway skjalinu þar sem ég skrifa jafnóðum inn í það. Nema greinargerðin sé til í hinum ýmsustu útgáfum? ** Ég hef stórkostlegar efasemdir um allan þennan fjölda.
Leigan fyrir Suðurbæ Eins og fram kom í fyrri (og nú alræmdri) greinargerð lagði Hólmar til á stjórnar- og hluthafafundi Hálsbús ehf. 18. okt. 2017 að leiga fyrir Suðurbæ gengi til Hálsbús. Var það samþykkt, skráð í fundargerð og skrifaði hann undir ásamt öðrum. Undir lok febrúar berst svo frá honum rukkun fyrir leigu á Suðurbæ til Tveggja bræðra sf. Skv. fundargerðinni skrifa ég út rukkun fyrir leigu á Gamla bæ eins og hann hafði sjálfur lagt til.
"Hoppaðu upp í rassgatið á þér og komdu aldrei út aftur" Í byrjun mars er fjölskyldan í Reykjavík og þá áttar Hólmar sig á því að honum hefur verið send rukkun. Hann verður brjálaður og hringir í Martein. Það er greinilega verið að fárast yfir mér svo ég tek símann. Þá hefur Hólmar áttað sig á því að ég sem framkvæmdastjóri Tveggja bræðra sf. greiddi mér út laun. Nú, í fyrsta lagi þá hafði ég aldrei afsalað mér laununum , í öðru lagi þá er ég með niðurskrifaða tíma undirritaða af framkvæmdastjóra (mér) og öðrum eigandanum (Marteini). Í þriðja lagi ef fyrirtækið borgar ekki út laun þá verða arðgreiðslurnar skattlagðar sem laun. Tekjuskatturinn er talsvert hærri en fjármagnstekjuskatturinn. Vegna þessa telur Hólmar að hann eigi inni "laun" hjá Tveimur bræðrum sf. Það var aldrei nokkurn tíma talað um að hann fengi laun, hann átti að fá leigu. Hann hins vegar afsalaði sér leigunni. Hann tilkynnti, nokkrum sinnum, að hann vildi ekki leigu, hann vildi bara fá arðinn. Þá spyr hann í þessu sama símtali hvort ég haldi það virkilega að hann hafi ætlað að vinna launalaust við húsið! Hann er alveg með það á kristaltæru að hann eigi húsið og veit um öll þau réttindi sem fylgja því. En hann áttar sig alls ekki á því að réttindum fylgja skyldur og það er í hans verkahring sem húseiganda að halda því við. Þegar ég reyndi að benda honum á að hann hefði sjálfur stungið upp á að leiga fyrir Suðurbæ gengi til Hálsbús þá var ég að snúa út úr og hann lét þessu frómu orð falla: "Hoppaðu upp í rassgatið á þér og komdu aldrei út aftur." Nei, það er aldrei neitt athugavert við hans framkomu. Mér skildist reyndar að ég ætti þetta skilið vegna minnar framkomu við hann. Það er auðvitað verulega andstyggilegt af mér að herma hans eigin orð upp á hann. Hann tilkynnti í beinu framhaldi að fundargerðin væri ómerk og leiga fyrir Suður bæ myndi aldrei ganga til Hálsbús. Hann ætlar sem sagt að halda áfram að stinga leigunni af gjafahúsinu í eigin vasa og búa ókeypis í Gamla bæ sem hústökumaður.
Prókúran Þegar samstarfið í Tveimur bræðrum sf. sprakk lét ég taka Hólmar út sem prókúruhafa. Því miður segir í stofnskjölum að hann sé prókúruhafi svo bankinn varð að setja hann inn aftur. Hann greiddi sér sjálfur út launin sem eru dulbúin sem leiga. Þar sem enginn leigusamningur liggur fyrir, engir útreikningar fylgja og framkvæmdarstjóri hefur ekki kvittað upp á reikninginn þá heitir þetta fjárdráttur og fyllsta ástæða til að kæra sem slíkan.
Að eiga og éta kökuna Marteinn hefur verið gjaldkeri búsins á Hálsi síðastliðin 35 ár. Skv. Samþykktum Hálsbús ehf. á samt framkvæmdarstjórinn að sjá um fjármálin en Marteinn hefur séð um að skrifa út flesta reikninga og borga hingað til. Marteinn dregur það stundum að útbúa reikningana og fer það óskaplega í taugarnar á Hólmari. Hann hefur nefnt það nokkrum sinnum við mig að ég eigi að útbúa þessa reikninga og í rauninni taka yfir gjaldkerastöðuna. Ég sagði honum að ég myndi ekki taka fram fyrir hendurnar á Marteini. Marteinn er ekki mikill tölvumaður og nú hafa verið miklar framfarir í tölvumálum. Nýverið stofnuðum við Inkasso innheimtu fyrir Hálsbú, á mínu nafni reyndar, til að geta fært inn reikningana og sent þetta. Þetta er miklu fljótlegra og einfaldara en að vinna þetta handvirkt. Ég sendi reikninginn fyrir leigunni á Inkasso. Hólmar varð svo brjálaður að hann hringdi í Inkasso, sverti mig auðvitað þar, allt var þetta gert án leyfis háttvirts framkvæmdarstjóra og lét loka aðganginum. Hann er sem sagt búinn að koma því þannig fyrir að hann fékk borgaða leigu fyrir Suðurbæinn en borgar ekki leigu fyrir Gamla bæ. Það er nú aldeilis ljúft að geta étið kökuna og átt hana líka. Hitt er annað mál að það er alveg spurning hvort þetta sé löglegt, Marteinn er jú stjórnarformaður Hálsbús og hlýtur að hafa eitthvað um þetta að segja. Í kjölfarið á þessu framferði afhenti Marteinn Hólmari bókhaldið. Það er lágmark að hann vinni verkin sín sjálfur.
Véfengjanlegur gjörningur Það er sennilega tilvalið að skjóta því hér inn í að yfirfærslan á Suðurbæ til Hólmars má teljast mjög vafasamur gjörningur. Þeir bræður voru ekki orðnir andlega veilir á neinn hátt en yfirfærslan átti sér engu að síður stað rétt rúmum mánuði fyrir andlát þeirra og þeir skrifuðu undir pappírana þegar þeir lágu á sjúkrahúsi. Bara það eitt og sér getur vakið vafa. En hvaða þýðingu hefur þetta?
Helgi og Hrólfur áttu húsið saman, sitthvor 50%. Hrólfur hafði gert erfðaskrá þar sem Gunnarsbörn erfðu allt hans svo 50% hússins eru strax kominn til þeirra systkina. Helgi hafði ekki gert erfðaskrá svo bræður hans voru lögerfingjar hans. Þeir voru fjórir svo hver átti að fá 12,5% af húsinu. (Hefði Hrólfur dáið á undan Helga hefðu þessi hlutföll breyst.) Þannig að 12,5% hefðu átt að ganga til Hrólfs sem hans erfingjar hefðu svo fengið, þ.e. Gunnarsbörn. Gunnar hefði líka átt að fá 12,5% . Eftir standa sitthvor 12,5% sem Sigurður hefði átt að fá annars vegar og Jakobsbörn hins vegar. Jakob átti 6 börn svo þessi 12,5% hefðu deilst niður og orðið rétt rúmlega 2% hlutur. Það er vissulega ekki mikið en samt vika ef hugsað er um húsið sem sumarbústað. Það er líka ákveðið tilkall, ákveðinn réttur sem var hunsaður. Þá geta snuðaðir erfingjar velt því fyrir sér af hverju þeir fá ekki að dvelja í húsinu heldur er alltaf boðið upp á "óíbúðarhæfa" húsið með börnin sín. Já, við Marteinn tókum fullan þátt í þessu og fórnuðum 12.5% eignarhlutdeild Marteins fyrir vikið. Og hinna systkinanna líka. Getum engum um kennt nema sjálfum okkur fyrir að trúa og treysta þessum manni. Þá má til gamans nefna að Helgi átti talsverða upphæð í banka.
Hver skyldi nú hafa staðið fremstur í flokki að forða húsi og fjármunum undan?
Verðmatið
Verðmatið barst eftir langa mæðu 25. febrúar 2018. Búið er metið á ca. 100 milljónir. Við Marteinn reiknum dæmið og gerum svo tilboð í búið upp á matsverð. Hólmar segir nei, hann muni aldrei selja búið. Hann telur að búið sé ekki svona mikils virði og vill fá tíma til að útbúa fyrir sig rekstraráætlun svo hann sjái hvað hann geti borgað mikið fyrir búið en það standi samt undir sér líka. Fyrirgefðu, hvað....?
Þetta er auðvitað bara sama sagan aftur og aftur. Hann telur sig eiga rétt á öllu, ef ekki ókeypis þá ódýrt.
9.4.2018 Hólmar metur búið á 45 milljónir og býður í hlutinn í samræmi við það. Svo snýr hans sér við og selur á matsverðinu. Fool me once shame on you, fool me twice shame on me.
Vopnahlé
Þar sem báðir deiluaðilar sjá fram á að þurfa að borga talsverða upphæð til að losna við hinn og það er í alla staði betra að tveir vinni við búið ákváðum við Marteinn að bjóða vopnahlé. Ekki sættir, það er ekki hægt að sættast við hann eftir hans framkomu undanfarna mánuði en vopnahlé. Lögfræðingurinn okkar ræddi þetta við Hólmar en hann tók mjög dræmt í það. Það er greinilegt að sáttamiðlarinn las hann algjörlega rétt. Þessi maður "þrífst á leiðindum." Lögfræðingurinn okkar upplýsti okkur líka um það að Hólmar mætti til hans óforvarendis til að leita ráða í deilunni. Hólmar virtist ekki átta sig á að þetta væri lögfræðingurinn okkar þótt hann hefði talað við hann í gegnum síma. Í för með Hólmari var eiginkona bókarans. Það er því orðið ljóst að sá maður getur ekki lengur verið bókari búsins.
Vonda konan Nú hef ég heyrt það utan að mér að Hólmar sakni strákanna og auðvitað er ég vonda konan sem "bannaði þeim" að hitta hann. Þetta er ekki rétt. Það skal alveg viðurkennt að ég er hreint ekki hrifin af því að þeir umgangist hann. Lái mér hver sem vill eins og hann hefur talað um mig og við mig. Hann hefur líka verið að ræða deiluna við yngri drenginn. Hann er fimm ára. Ég leyfi þeim samt að heimsækja hann ef þeir vilja. Drengjunum mínum þykir vænt um Hólmar, á því leikur enginn vafi. En þeir eru ungir og þetta er farið að vera langur tími. Hann er ekki hluti af fjölskyldunni lengur. En ég verð að segja fyrir mína parta að mér finnst þessi málflutningur afskaplega grunnur og sjálfhverfur. * Ef maðurinn saknar drengjanna og þykir vænt um þá af hverju í ósköpunum er hann að reyna að flæma þá burtu? Af hverju heldur hann hér öllu í eitraðri fýlu? Heldur hann virkilega að drengirnir finni ekki fyrir þessu? Af hverju reynir hann að koma í veg fyrir að foreldrar þeirra geti séð betur fyrir þeim?**
Af hverju er hann að reyna að svipta þá arfleifð sinni? Afsakið mig margfaldlega en mér finnst þessi meinti söknuður snúast um það eitt hvað hann eigi bágt.
*Sérstaklega eftir að hann ætlaði að láta köttinn þeirra veslast upp og deyja í skíthúsinu. **Neitar að leigja okkur stærri lóð í kringum húsið svo við getum unnið fyrir okkur með gistiþjónustu. Eða bara hreinlega selt húsið. Það kaupir enginn hús inni á bújörð sem hefur enga lóð.
Eldri son okkar langaði að nefna nýfæddan kálf eftir hundi sem við áttum og þótti vænt um. Nei, það mátti alls ekki nefna kálfinn Snúlla, það var hundsnafn. Drengurinn var miður sín eftir þessar trakteringar. Hólmar þarf ekki aðstoð okkar hjóna við að flæma alla frá sér sem þykir vænt um hann.
Hver fer?
Það er orðið alveg ljóst að hann ætlar sér að flæma okkur í burtu. Hann ætlar helst ekki að borga neitt og reynir að flæma okkur á brott með fýlu og leiðindum. Nýverið mættu ættingjarnir hérna á svæðið, fólkið sem hefur tekið afgerandi afstöðu með honum og ýtt undir leiðindi, og ætluðu sér að vera hér alla páskana! Að sjálfsögðu í búshúsinu (því ekki vill Hólmar hafa þau í fína húsinu sínu) sem Hálsbú ehf. á og Hólmar býr í sem hústökumaður. Það skipti þau greinilega engu máli þótt hvorki Marteinn né Gunnar vildu hafa þau þarna. Maðurinn, sem hringdi í reiður í Martein og úthúðaði konunni hans, kom og reyndi að sannfæra Martein um að þau hefðu ekki tekið neina afstöðu í deilunni, þau voru bara að heimsækja Hólmar! Svo spurði hann mig, eftir að hafa reynt að hunsa mig, hvort ég vildi ekki fara og taka einhverjar töflur. Merkilegt hvað þessum mönnum finnst í lagi að tala eins og þeim sýnist við mig. Okkur tókst að losna við þau og á meðan við höfum það tangarhald þá verður því beitt. Við höfum enga ánægju af þessu en okkur var stillt upp við vegg. Maðurinn virtist alveg átta sig á því að okkur fyndist mjög óþægilegt að hafa þau á staðnum en samt voru þau mætt. Þau voru beinlínis að gefa algjöran skít í okkur. (Svo er sagan sögð á þann veg að við séum svo vond að reka þau í burtu. Þau eru auðvitað alveg sárasaklaus.)
Hólmar virðist ekki gera sér grein fyrir því að Hálsbú ehf. er fyrirtæki og því ber að stjórna sem slíku. Meirihluti stjórnar getur sagt upp framkvæmdarstjóranum. Meirihluti stjórnar getur ákveðið að nýta eignir sínar og viljað fyrir þær gjald. Meirihluti stjórnar getur líka ákveðið að selja mjólkurkvótann og aðrar eignir og í raun lagt niður búið sem slíkt.
Hvassyrt? Er þetta svolítið hvassyrt? Örugglega. Við erum líka orðin mjög langþreytt á þessu rugli. Það væri ofsögum sagt að kalla þetta eitraða ástand hér á Hálsi deilu því deiluefnið er ekkert. Hólmar er bara í fýlu. Við höfum nú gert þrjár tilraunir til að ná einhverri lendingu en hann hefur ekki áhuga á því. Þetta er auðvitað mesta fúttið sem hann hefur upplifað undanfarin ár en það væri gott ef hann reyndi að skapa sér einhverja ánægju í eigin lífi öðruvísi en að eitra okkar. Það er ekki okkur að kenna að hann sé óhamingjusamur einsetukarl. Hann sér alveg um það sjálfur. Það er algjörlega Hólmari að kenna að þessi della er komin á þetta stig og er búin að vara svona lengi . Sögusagnirnar og orðalagið sem ég fæ að sitja undir er engu lagi líkt.* Hann sjálfur sendir meterslöng SMS skilaboð til mannsins míns til að úthúða mér. Vinir hans telja það ekki heldur eftir sér að úthúða mér við manninn minn. Þeir ganga svo langt að halda því fram fullum fetum að ég "fari á bak við hann og leyni hann upplýsingum." Hversu lágt getur fólk lagst? Hvern andskotann gengur því til? Heldur það virkilega að það geti flæmt mig á brott með börnin, því ég mun að sjálfsögðu taka þau með mér, og Marteinn verði eftir sem undirokaður vinnumaður hjá Hólmari? Er það sæluríkið sem hann sækist eftir? Það mun aldrei gerast.
* Því miður virðist engin/n átta sig á þeirri einföldu staðreynd að ég get lagt fram gögn til að styðja það sem ég er að segja. Hvar eru gögnin hans? Hvar er t.d. “uppsagnarbréfið” mitt?
Sannleikurinn kemur í ljós 18. 04. 2018 Þegar þetta meinta "gagntilboð" Hólmars birtist vill lögfræðingurinn fá að sjá ársreikningana til að sannreyna þá fullyrðingu að búið skuldi 30 milljónir. Við útvegum hann og þá rekum við augun í merkilega staðreynd. Eftir að Gunnar flutti til Akureyrar hefur hann farið fram á að bræður hans kaupi hans hlut í búinu á fullu markaðsverði. Eins og fram hefur komið þá eignuðust þeir bræður búið án þess að borga krónu fyrir það. Gunnar er vissulega annarrar skoðunar en hans vinnuframlag var talsvert minna en hinna bræðranna, fyrir utan nú að hann gat ekki gengið til allra verka, og var hann þess vegna á lægri launum en þeir. Hann fékk á móti umönnunarbætur með mömmu sinni. Honum hafa verið gerð ýmis tilboð en hann hefur blásið á þau öll og kemur ekki með nein gagntilboð. Eins og flestir vita þá gefur búskapur ekki mikið af sér svo ábúendum leist ekki neima rétt vel á það að puða hér myrkranna á milli á skítakaupi og jafnvel skuldsetja sig svo Gunnar gæti lifað í vellystingum praktuglega á Akureyri, þar sem hann er óvænt farinn að geta unnið fulla vinnu. Þar sem Gunnar er ekki til viðtals um neitt var ákveðið í samráði við lögfræðing að þynna út hlutinn hans. Þ.e. laun starfandi ábúenda voru hækkuð (upp í heilar 300 þúsund á mánuði) en þar sem búið hefur ekki efni á að borga svo há laun þá safnaðist upp launaskuld. Launaskuldin yrði síðan borguð út í hlutafé. Þessi hækkun er samþykkt um mitt ár 2015. Til að launaskuldin virki og hægt sé að auka hlutfé starfandi eigenda þarf að halda fundi. Af einhverjum ástæðum, sem nú hafa komið í ljós, er Hólmar mjög tregur til að halda þessa fundi svo hlutafjárbreytingin hefur ekki enn tekið gildi. Í janúar 2017 fer ég að ýta á svona fund og fæ m.a. upplýsingar frá bókara búsins, góðvini Hólmars, um hversu mikil launaskuldin sé orðin. Í tölvupósti frá honum kemur fram að hún sé í kringum milljón hjá báðum aðilum. Hann hengir með ársreikning 2015 en þar kemur fram að launaskuld Marteins sé talsvert minni en Hólmars. Ég hringi og spyr út í þetta. Ég man ekki hvaða svar ég fékk en það var á þá leið að þetta myndi stillast einhvern veginn af, ég hafði alla vega ekki frekari áhyggjur af því enda ekki ástæða til á þeim tímapunkti. Í ársreikningnum 2016 sem við fáum í hendur um daginn er þessi launaskuld enn ójöfn og ekki nóg með það, Hólmar á, skv. þessum ársreikningi, um milljón meira inni í ógreiddum launum en Marteinn.
Og skyndilega varð allt ljóst. Það eru sem sagt tvö ár síðan að Hólmar tók þá ákvörðun að sölsa undir sig búið og flæma okkur í burtu með dyggri aðstoð vinar síns bókarans. Allt sem hefur gerst síðan er leikþáttur skrifaður af honum. Það skal viðurkennt að þetta var vel gert hjá honum. Sérstaklega atriðið þar sem hann er stöðugt fúll og leiðinlegur svo það endar með því að mótaðilanum er nóg boðið og reiðist svo þá er hægt að kenna mótaðlinanum um allt saman. Ég féll algjörlega fyrir þessu enda lék hann hlutverk sitt fullkomlega. Líklega hefur hann tekið þessa ákvörðun þegar honum varð ljóst að við ætluðum ekki að sitja þegjandi undir því að hann leigði út Suðurbæ og stingi leigunni í eigin vasa. Svo þegar ég fer að ýta á fund í janúar 2017 til að hrinda launaskuldinni í framkvæmd þá blasir við að við munum uppgötva plottið. Eina leiðin til að halda því í gangi er að hér springi allt í loft upp svo aðilar tali ekki saman. Menn sem tala ekki saman halda ekki fundi. Tíminn vinnur með honum, þess vegna er hann reiðubúinn að halda þessum leiðindum, sem komu til út af hans framkomu, áfram út í hið óendanlega.
Ég, um mig
25. júlí 2018 Fyrir átta árum síðan setti ég aleigu mína í óseljanlegt hús hér á Hálsi. Ég vissi það fullvel að hér bjó fjölskylda Marteins og að ég gengi hér inn í aðra fjölskyldu. Hér var hans arfleifð, hans líf. Í sjö ár var Hólmar heimagangur á heimili mínu, sat við matarborðið okkar, borðaði matinn okkar, lék við drengina okkar. Í sjö ár hélt ég að Hólmar væri vinur minn. Já, ég hélt það virkilega og mér þótti vænt um hann sem frænda barnanna minna. Þegar okkar lendir svo saman út af smotterí, eins og iðulega gerist í samskiptum fólks, þá er eins og stungið hafi verið á kýli. Heiftin og hatrið sem vellur frá manninum er ótrúlegt. Ég veit ekki hvaðan á mig stendur veðrið. Það er augljóst að þetta hefur grasserað í lengri tíma. Allt í einu stend ég frammi fyrir þeirri staðreynd að maðurinn sem ég hélt að væri vinur minn, maðurinn sem hefur hampað og hossað börnunum mínum og hefur deilt hér með okkur gleði og sorgum, fyrirlítur mig. Hversu lengi hefur þetta varað? Hversu lengi hefur hann verið heimagangur hjá okkur með hatrið kraumandi? Ég er núna fyrst að átta mig á hversu mikið áfall þetta var mér. Og í rauninni höfum við verið að ganga í gegnum sorgarferli. Einn úr fjölskyldunni er horfinn. Við vitum ekki hvaða maður þetta er sem er hér út
um allt og allt um kring en þetta er ekki bæðir Marteins, frændi barnanna okkar og svo sannarlega ekki vinur minn. Við söknum þess manns. Viðbrögð vinafólks hans og ættmenna þeirra beggja var mér líka áfall. Það er ekkert launungarmál úr því sem komið er að mér leiddust þessar langdvalir. Þetta er ekkert vont fólk og mér líkaði ekki illa við þau en mér fannst þau vera hér lengi og já, ég upplifði ákveðna tilætlunarsemi. En ég ákvað að það væri í lagi, Marteins vegna. Þetta eru jú ættingjar hans líka. Þegar "deilan" hófst þá fannst mér fyrst eins og þau vildu að aðilar sættust. En viðbrögðin við sáttamiðlaranum voru slík að mér hefði ekki brugðið meira að fá kalda tusku í andlitið. Við vorum að "þvinga hann til sátta." Það var tekin afgerandi afstaða með honum og við vorum greinilega vonda fólkið í þessu. Ég átta mig á því núna að auðvitað er þetta hrein og klár hagsmunagæsla. Ef þau lenda upp á kant við Hólmar þá missa þau ókeypis sumardvalarstað, hvort sem það er hér eða á Rauðá. En við skulum átta okkur á að ég skrifaði greinargerðina eftir þessi viðbrögð og afgerandi afstöðu. Mér getur nefnilega líka sárnað. Og mér finnst þetta sárt. Mér finnst sárt að sumu fólki finnist virkilega að Marteinn eigi það ekki skilið að vera bóndi á Hálsi. Marteinn hefur verið hér alla tíð og staðið sína plikt. Hann hefur verið hér og haldið hlutunum gangandi á meðan hinir bræðurnir hafa verið að lifa og leika sér út og suður. Mér finnst líka sárt að þessu sama fólki finnist synir Marteins ekki eiga tilkall til arfleifðar sinnar og reyna að hrifsa hana frá þeim. Þykist í öðru orðinu vilja þeim allt hið besta en reyna í hinu að flæma þá í burtu. Auðvitað er þetta bæði sárt og vont. En núna vitum við hvar við stöndum. Það er alltaf gott að vita það.