Atburðaskráning

Page 1

Atburðaskráning Bréf til KÍ


Ég hóf störf við Hafralækjarskóla haustið 2005. Áður hafði ég kennt við Fellaskóla í Reykjavík þar sem hafði gengið vel og gáfu yfirmenn Fellaskóla mér bestu meðmæli. Ég var sjálfsöruggur og góður kennari sem hafði mikið að gefa. Í Hafralækjarskóla tók ég við heimakennslu Árbótarnemenda og enskukennslu unglingastigs. Robert Faulkner sem áður hafði sinnt enskukennslu 10. bekkjar segir mér að nemendur skólans séu sterkir í ensku. Almennt eru þeir góðir námsmenn. Líður svo tíminn og veit ég ekki betur en að allt sé í góðu lagi. Yfirmenn Árbótar furða sig reyndar á áhugaleysi skólastjórans á því sem þar er að gerast. Það truflaði mig ekki, enda þykir mér eðlilegt að ég beri ábyrgð á minni kennslu og að mér sé treyst fyrir henni. Á haustönn 2005 er ákveðið að setja upp leikritið um Dýrin í Hálsaskógi og láta þemaviku snúast um dýr með einkenni manna. Ekki væri verra að þetta þema kæmi inn í námsefni annarinnar. Ég sting upp á að lesa Animal Farm í ensku. Það er rætt ítarlega af mér, skólastjórnendum, Robert og á kennarafundi einnig ef ég man rétt og allir samþykkir. Verður úr að bókin er pöntuð og lesin í 10. bekk. Í annarprófum kemur upp misskilningur á milli mín og sérkennara. Einn nemandi var nánast alfarið í námsveri í ensku og útvegaði sérkennari honum allt námsefni. Hélt ég því að sérkennari myndi sjá um prófið hans, það voru vinnubrögðin sem ég var vön úr Fellaskóla. Það eru ekki vanaleg vinnubrögð í Hafralækjarskóla en það láðist að láta mig vita af því. Á svo smáum vinnustað vita allir allt sem gerist og fann ég að almannaálit hallaðist í þá átt að ég væri að koma mér undan verkum. Eftir einkunnaskil kom nemandi í 10. bekk með foreldrum sínum til viðtals. Honum hafði að þeirra áliti ekki gengið nógu vel í prófinu. Ég hafði lagt gamalt samræmt próf fyrir 10. bekk til að kanna stöðuna og æfa þau fyrir samræmda prófið um vorið. Þetta var alltaf gert í Fellaskóla og fannst mér það góður undirbúningur. Nemandinn sinnti því miður heimanámi lítið sem ekkert og fylgdist illa með í tímum. Í viðtalinu var ljóst að hann og foreldrar hans voru þeirrar skoðunar að ég bæri fulla ábyrgð á ástundun nemandans. Þykir mér það í sjálfu sér skiljanleg afstaða og eðlilegar tilfinningar foreldra. Öllu verra þótti mér þó að umsjónarkennari og skólastjóri voru einnig þessarar skoðunar. Umsjónarkennarinn kallaði mig til sín þar sem foreldrar höfðu einnig talað við hann. Var niðurstaðan úr því samtali að mati umsjónarkennarans að ég væri; ,,ekki að höfða til áhugasviðs nemandans.” Lét skólastjóri mig vita að hann væri sammála mati umsjónarkennarans. Síðar kom í ljós að skólaganga þessa nemanda hafði alla tíð verið nokkuð brösótt og foreldrar óánægðir. Það hvarflaði hins vegar ekki að neinum að segja mér það fyrr en við skólaslit 2006. Ég fékk því að sitja með þá trú í nokkra mánuði að vandamálið væri alfarið mitt. Eftir þetta fór að falla til verri vegar og varð mér ljóst að skólastjóri taldi mig ekki vera að sinna vinnunni minni sem skyldi.


Í starfsviðtali í febrúar 2006 segir hún mér að nemendur séu að kvarta undan mér. Bekkirnir virðast hafa rætt þetta við ,,einhvern”, annað hvort hana eða umsjónakennara, í tíma. Þeir eru ,,eitthvað óöruggir” og þetta er ,,óljós óánægja”, hún ,,veit ekki alveg hvað það er sem er að.” Ég er vinsamlegast beðin um að taka þetta til greina. Um þetta leyti varð ljóst að Harpa var þeirrar skoðunar að Árbótarnemendur væru ekki á neinn hátt frábrugðnir öðrum nemendum. Á reglubundnum fundi skólans og heimilisins er forstöðumaðurinn, Snæfríður Njálsdóttir, að tala um það að ég sé með langerfiðustu nemendurna, 5 einstaklinga sem ekki teljast skólahæfir. Harpa nánast hnussar yfir þessu og segir að sumum ,,þyki bara gott að vera með fáa nemendur.” Snæfríður var mjög undrandi á þessu viðhorfi og sagði mér það. Hins vegar fannst Hörpu Árbótarkennslan heldur strembin þegar Þórunn Sigtryggsdóttir tók við henni í skólanum. Var hún samt með þá nemendur er töldust skólahæfir Í Árbótardeildinni í skólanum var stúlka í 10. bekk. Það var ákveðið að setja hana í ensku með bekknum. Árbótarnemendur voru ekki settir inn í bekk nema þeir réðu við það. Stúlkan sinnti ekki heimanámi og kvartaði undan að sér þætti það erfitt. Harpa kallaði umsvifalaust á mig og gerði mér ljóst að ég væri ekki að standa mig frekar en fyrri daginn. Þessi stúlka þyrfti sérkennslu og ég átti að sinna henni inni í bekk. Það hefur aldrei gerst, hvorki fyrr né síðar, að Árbótanemandi sé sendur úr Árbótarkennslunni inn í almennan bekk til að fá sérkennslu hjá bekkjarkennara. Hörpu fannst einnig fullkomlega eðlilegt að ég sæti með nemandanum í eyðu og hjálpaði honum með heimanámið. Um vorið 2006 legg ég fyrir próf eins og gengur. Fljótlega verður ljóst að enskuprófið hjá 8. og 9. bekk er ,,alltof erfitt.” Ég lagði fyrir gamalt próf sem ég kom með úr Fellaskóla. Nú er væntanlega rétt að taka það fram að Fellaskóli hefur sjaldan þótt vera með „bestu“ (einkunnalega séð) skólum landsins né nemendur hans með „bestu“ námsmönnum. En þetta gamla próf úr Fellaskóla í Reykjavík var ,,alltof, alltof þungt.” Þetta var rætt fjálglega á kennarastofunni frétti ég síðar. Þegar ég kom á kennarastofuna þótti Hörpu fullkomlega eðlilegt að ræða þetta skelfilega próf þar og setja niður við mig í vitna viðurvist. Hún bað mig einnig um það að ,,endurskoða” prófið. Ég átti sem sagt að gera prófið léttara svo útkoman yrði betri. Meðaleinkunn var 6,5 svo ég varð ekki við þessari beiðni. Verst þykir mér þó að engum þótti það áhyggjuefni að gamalt próf úr Fellaskóla þætti alltof þungt fyrir nemendur skólans. Þarna þótti mér sýnt miðað við hvernig hún talaði að ég ætti ekki að fá enskukennslu aftur. Við áttum samtal inni á skrifstofunni hennar þar sem hún sagði fullum fetum að hún gæti ekki treyst mér fyrir enskukennslu 10. bekkjar. Enskuefnið hjá mér væri of þungt, sama efni og í Fellaskóla, og Animal Farm hefði verið alltof erfið. Hún spurði mig einnig eftirfarandi spurninga:


Hafði ég farið með nemendum 8. og 9. bekkjar í öll orðin sem komu fyrir á prófinu? Ég hafði reyndar ekki gert það enda hélt ég að eðlilegt væri að byggja á kennslu fyrri ára og einnig að leggja fyrir ólesinn texta. Þetta þótti henni ómögulegt. Hafði ég lesið allar frjálslestarbækurnar sem stóðu nemendum til boða? Nei, ég hafði reyndar ekki gert það. Það þótti henni ómögulegt. Seinna komst ég að því að hvorki Hulda Svanbergsdóttir né Robert Faulkner höfðu lesið allar frjálslestrarbækurnar. Samtalið var allt á þessum nótum og endaði með því að ég gekk út með grátstafinn í kverkunum, kona að verða 36 ára gömul. Ég hringdi í KÍ og sagði farir mínar ekki sléttar. Sesselja Sigurðardóttir tók samtalið og hringdi hún svo í Hörpu og ræddi við hana. Sesselja hringdi svo aftur í mig og sagðist ekki geta ímyndað sér hvað væri í gangi ,,annað en persónuleg óvild.” Næst þegar ég hitti Hörpu ræðir hún inngrip KÍ við mig. Þarna er hún búin að ákveða að ég eigi að kenna 8. bekk ensku næsta vetur og að það hafi alltaf staðið til þótt það hafi aldrei verið nefnt fyrr en þarna. Mér var ekki treyst til að kenna 10. bekk og kenndi ég ekki 10. bekk ensku síðan. Frá þessari stundu stóð ég í þeirri fullvissu að yfirmaður minn teldi mig vanhæfa í starfi og ekkert gerðist síðan til að breyta þeirri fullvissu. Þetta hafði að sjálfsögðu ekki góð áhrif á líðan mína í starfi. Hefði ég á þessum tímapunkti ekki verið búin að kynnast manninum sem nú er eiginmaður minn þá hefði ég farið. Í staðinn ákvað ég að láta mig hafa það. Þetta gekk þokkalega um tíma þótt alltaf hafi verið eitthvað pot. Á kennarafundi var verið að ákveða að 9. og 10. bekkur færu saman í útskriftarferð og verið að ræða fjáröflun. Ég segi að mér finnist líklegt að Foreldrafélagið vilji hafa hönd í bagga með þessu, ferðin er jú á vegum foreldrafélagsins og að mér finnist líklegt að foreldrar vilji ekki láta segja sér fyrir verkum varðandi fjáröflunina. Það er bara þaggað niður í mér, ég er alltaf með eitthvað bull. Stuttu seinna segja HRR og AGG nákvæmlega það sama. Þá er þetta allt í einu orðin markverður punktur. Eitt sinn var ég að lýsa þeirri hugmynd minni á kaffistofunni að setja upp heilsuhæli á Þeistareykjum. ,,Á sandi byggir heimskur maður hús” kvað Harpa þá upp úr með. Í eitt skipti var ég á kennarastofunni að ræða um Elvis Presley við samkennara en ég var að lesa ævisögu hans. Í ævisögunni kom fram að foreldrar Presley hefðu þótt vera „white trash“ en það hugtak var notað um bláfátæka farandverkamenn á kreppuárunum í Bandaríkjunum. Harpa situr á móti okkur og heyrir samtalið. Stendur upp og segir með þykkju að henni finnist alls ekki við hæfi að ég noti svona orðbragð og fer fram.


Það þótti fullkomlega eðlilegt að framhaldsskólanemendur Árbótar sætu hjá mér í tímum alla daga vikunnar jafnvel þótt að fjarnámið þeirra væri ekki byrjað. Ég gat alveg fundið þeim eitthvað til dundurs. Þetta þótti ekki jafn sjálfsagt þegar Þórunn tók við kennslunni þegar ég fór í fæðingarorlof. Fyrrverandi fósturfaðir eins Árbótarnemans hringdi út um allar sveitir í allt og alla og bar upp á mig einelti og kynþáttahatur. Þessi ályktun mannsins var á hrapalegum misskilningi byggð eins og félagsráðgjafi nemandans áttaði sig fullkomlega á. Maðurinn linnti hins vegar ekki látum. Harpa gat ekki stutt mig í því að kæra manninn til lögreglu ,,því hann var jú að fara eftir verklagsreglum.” Á prófi skrifaði nemandi svo illa að ég gat ekki lesið eitt svarið og gaf honum því vitlaust fyrir. Hann klagaði í Hörpu sem kom og spurði mig út í þetta. Ég sagði henni hvernig í málinu lægi en hún vildi samt fá að sjá prófið. Vantraustið var algjört. Yfirleitt sat ég af mér þetta pot en ég snerist stundum til varnar. Þá fékk ég að heyra að ég væri ,,svo viðkvæm fyrir gagnrýni.” Þar sem ég gekk í gegnum persónulegar hremmingar frá hausti 2006 til hausts 2008 þá var ég nokkuð friðhelg þann tíma. Það varð hins vegar ljóst veturinn (2009-2010) að sá tími var liðinn og aftur komið á mig veiðileyfi. Tölvumál skólans voru í lamasessi allan þann vetur og allir mjög pirraðir út af því. Þetta var mjög slæmt um haustið, erfitt að nálgast PDF skjöl og erfitt að prenta. Tölvumanni skólans var reglulega bölvað í sand og ösku af öllum sem þurftu að nota tölvu og prentara. Þann 10. sept. 2009 er ég að reyna að prenta út. Ég er með stofu á annarri hæð en get ekki prentað úr tölvunum þar. Það var eitthvað klúður með tölvuna í vinnuherberginu líka svo ég var búin að hlaupa upp og niður og reyna að hafa þetta í gegn en ekkert gekk. Í eitt skiptið kem ég út af kennarastofunni og Harpa er á skrifstofunni sinni. Ég segi stundarhátt: ,,Það á að skjóta þennan mann.” Harpa spyr hvort ég ætli að taka það að mér, ég flissa eitthvað og ætla svo að halda áfram ferð minni þá kallar hún á mig til baka og segir: ,,Ásta, ég ætla að ávíta þig fyrir þetta. Það er ekkert gamanmál að skjóta fólk. ” Ég veit ekki hvaðan á mig stendur veðrið held helst að hún sé að grínast. Nei, hún er það ekki. Ég sagði þetta á stað þar sem nemendur gætu heyrt til mín og það er bara ekki gott. Ég segi að það hafi nú enginn heyrt til mín en það skiptir ekki máli, ég get ekki verið viss um það og auk þess þá hefði getað heyrst til mín. Ég hunskast í mínar vistarverur með þetta í andlitinu. Einhverju seinna er ég í vinnustofunni og þá heyri ég að hún er að tala um á kaffistofunni og hafa í flimtingum að hún hefði ávítað mig fyrir að tala illa um tölvumanninn. Þótti þetta mjög sniðugt. Mér finnst þetta svo yfirgengilegt að ég hef aftur samband við Sesselju hjá KÍ og segi henni þetta. Henni finnst ávítunar vera fyrir litlar sakir og grínið á kaffistofunni mjög ófaglegt. Ég sendi Hörpu tölvupóst þar sem ég mótmæli þessari framkomu. Hún kallar á mig inn á skrifstofu og við förum yfir þetta. Hún getur samþykkt að það hafi ekki


verið viðeigandi að gera grín að þessu á kaffistofunni. En hún telur sig í fullum rétti að ávíta mig fyrir skotbrandarann og það hafi verið fullkomlega eðlilegt að ávíta mig fyrir opnum dyrum þar sem nemendur gátu alveg heyrt ávítunar því hafi þeir heyrt mín orð þá var mikilvægt að þeir heyrðu ávíturnar líka. Ég get ekki mögulega samþykkt þetta. Tel ég einnig að það grafi undan kennara verði nemendur vitni að ákúrum yfirmanns í hans garð. Við verðum sammála um að vera ósammála um þetta. Mér finnst ávíturnar óverðugar og að hún hafi skotið flugu með fallbyssu þarna. Þá sagði hún viðhlæjendum aldrei frá því að „grínið“ á kaffistofunni hefði verið óviðeigandi né bað mig afsökunar á því. Í eitt skipti segi ég við hana inni á kaffistofu að ég þurfi að tala við hana og viðkomandi umsjónakennara um nemanda. Hún situr sem fastast og setur upp spurnarsvip. Ég skil svipinn sem svo að ég eigi að halda áfram svo ég nefni nafn nemandans og hvað ég vilji ræða. Þá segir hún fyrir framan alla að það sé óskólatengt fólk (fyrrverandi kennari og maki kennara) á kaffistofunni og ég þurfi að gæta orða minna. Skömmu síðar þegar annar kennari (ÁPH) gerði nákvæmlega sama hlutinn og ræddi um nemanda fyrir framan óskólatengda var það í góðu lagi. Síðasta veturinn minn var búið að minnka starfsemi Árbótar talsvert og aðeins kennt í skólanum. Sá ég um þá kennslu. Hjá okkur var ungur piltur sem þurfti eins og flestir Árbótungar talsvert aðhald. Honum fannst t.d. í góðu lagi að steyta að mér hnefa, reyna að sparka í mig og ausa yfir mig svívirðingum. Allt var þetta í góðu lagi, það tók alltaf ákveðinn tíma fyrir nemendurna að átta sig á að það væri ég sem réði en ekki þeir. Átakalaust gekk það samt sjaldnast en hafðist þó alltaf á endanum. Leyfi ég mér að halda því fram að nemendur úr Árbót hafi staðið sig mjög vel á meðan ég sinnti kennslu þeirra. Nema þessi nemandi, því miður. Hann átti sérstakan stað í hjarta Hörpu. Sem var auðvitað mjög gott, börn geta ekki fengið of mikla umhyggju. Hins vegar kom umhyggja hennar fram í skilyrðislausum stuðningi. Hann kom til hennar og kvartaði undan mér og ég var strax kölluð á teppið þar sem var ég látin segja söguna út frá mínu sjónarhorni. Mín viðbrögð við hegðun nemandans voru röng að hennar mati. Notaði ég samt sömu aðferð og ég hafði notað síðustu 5 ár og hafði reynst vel. Ég fékk samt engar leiðbeiningar um úrbætur. Þetta þýddi að ég gat aldrei tekið á honum, aldrei stoppað hann og að endingu; ekkert kennt honum. Eitt sinn kallaði hann mig tussu þegar ég gekk fram hjá honum á gangi. Harpa var einmitt að koma að svo ég dokaði við til að heyra hvernig hún tæki á þessu. Drengnum brá þegar hún lagði hönd á öxl hans, hann hafði ekki vitað af henni. Eina sem hún gerði var að spyrja drenginn blíðlega hvort allt væri ekki í lagi. Glottið sem drengurinn sendi mér var alveg skýrt. Hann hafði töglin og haldirnar í okkar samskiptum og við vissum það bæði.


Undir vor 2010 er orðið ljóst að minnka þarf starfshlutfall við skólann, bæði vegan fækkunar heimanemenda og vegna þess að Árbót hafði lokað. Í starfsviðtali segir Harpa að ekki sé sjálfgefið að ég verði látin fara þótt ég sé nýjust. Reyndin varð þó sú og mætti Harpa með uppsagnarbréfið á dyraþrepið heima hjá mér 30. apríl klukkan 17:30 en uppsagnir verða að eiga sér stað fyrir 1. maí.yhggiku Eins vont og það var að missa vinnuna var það líka mikill léttir því mér hefur aldrei liðið eins illa á nokkrum vinnustað. Síðastu mánuðirnir voru beinlínis skelfilegir því ég gat aldrei vitað hvaðan á mig stæði veðrið og var með stöðugan kvíðahnút í maganum.


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.