Dร MIN sem beรฐiรฐ var um
SUMAR 2017
Allt sem ég segi og geri er einskis virði. Veturinn 2010-2011 var ég atvinnulaus á bótum frá Vinnumálastofnun sem kom fram við mig eins og aumingja og glæpamann. Þú talaðir um að þér leiddist að vera bundinn í báða skó yfir gjöfinni svo ég stakk upp á að ég yrði ráðin við búið. Ég átti endilega að koma að vinna en búið hafði ekki efni á að borga mér laun. Samt var Gunnar nýlega hættur á launaskrá. Ég átti sem sagt að vinna launalaust við búið (svo þú gætir farið í verktöku) og halda áfram að þiggja bætur. Þetta stuðaði mig svo mikið að ég ákvað að ég myndi aldrei vinna launalaust við búið. Nema til að aðstoða Martein sem ég hef stundum gert. Ég stakk alla vega þrisvar upp á því að við tvö myndum stofna fyrirtæki um ferðaþjónustu. Þú hummaðir það alltaf fram af þér. Það var ekki fyrr en ég stakk upp á að þið Marteinn ættuð það að þú samþykktir hugmyndina. Ég sinnti allri pappírsvinnunni við fyrirtækjastofnunina og fékk þá eftirlitsaðila hingað sem til þurfti. Ég er opinber framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Í símtalinu um daginn, þar sem þú skelltir á mig, kom samt klárlega fram hjá þér að þetta er “fyrirtækið ykkar Marteins” og að ég hefði “of mikil völd.” Mér kemur þetta fyrirtæki sem sagt ekkert við nema sem ókeypis ræstitæknir. Við ræddum það að ég fengi laun og þú fengir sömu upphæð í leigu. Það má vera að ákveðin tala hafi ekki verið samþykkt en við stofnun fyrirtækisins þurfti að taka fram hversu marga starfsmenn það hefði og myndi borga í laun. Ég setti einn starfsmann og sagði hann fengi 50 þúsund. Þetta sagði ég þér og þú hreyfðir engum mótmælum. Kannski er ég að gera of miklar kröfur um ályktunarhæfni en ég hélt þú myndir leggja saman tvo og tvo. Þú virðist ekkert muna eftir þessum samtölum og finnst út í hött að ég fái laun. Vinna mín er aftur og enn svo ómerkileg að hún er ekki launa virði. Þú nefnir reglulega með fyrirlitningartóni að þú getir sko ekki “verið í tölvunni allan daginn.” Það er greinilega mjög ómerkilegt í þínum huga að vinna í tölvunni. Er væntanlega ekki vinna. Airbnb byggist hins vegar algjörlega á tölvunni, að búa til síðu, uppfæra upplýsingar og vera í samskiptum við gestina. Þetta er greinilega mjög ómerkilegt. Enda er ég að sinna því. Launalaust að sjálfsögðu. Þegar fyrirtækið var stofnað þá þurfti að borga rétt tæpar 90 þúsund krónur. Þessi upphæð var skráð sem stofnfé og það er ekki vaninn að stofnfé sé endurgreitt. Ég borgaði þessa upphæð út af reikningi Marteins. Þú lagðir svo 90 þúsund inn á reikninginn hans sem var vissulega ofgreitt. Við töluðum saman um þetta og þá áttir þú eftir að greiða fyrir rusladallinn og reikninginn frá Lex. Það áttu líka eftir að koma fleiri reikningar eins og t.d. þessi frá Sýslumanninum. Við komumst að samkomulagi um að við myndum ekki endurgreiða þér þessi ofgreiddu 45 þúsund heldur yrði þau notuð til skuldajöfnunar. Síðan eru liðnir 5 mánuðir og þetta er löngu dottið út úr höfðinu á mér enda frágengið. Þá ferð þú allt í einu að tala um þetta aftur. Ég sýndi þér í tölvunni það sem ég fann, þótt mér finnist endilega að það hafi verið meira enda samþykktir þú skuldajöfnunina á sínum tíma. Svo ferðu aftur að tala um þetta. Þú ert sem sagt algjörlega sannfærður um að ég sé að snuða þig. Þú ert beinlínis að þjófkenna mig. Svo á ég að biðjast afsökunar. Ég sagði þér nokkrum sinnum að það væri óþarfi að kaupa sjónvarp, gamla sjónvarpið dygði (vantaði bara stafrænan móttakara). Alli Sævar sem er í svipaðri ferðaþjónustu og við hefur ekkert sjónvarp og sagði að fólk væri ekki að koma til að horfa á sjónvarp. Allir væru með símann sinn eða spjald. Þegar ég kem heim af námsskeiðinu þá ertu samt búinn að kaupa þetta risasjónvarp. Ef þú hefðir bara sagst vera ósammála mér og að þú vildir kaupa sjónvarp þá væri þetta ekkert mál. Þessi framkoma hins vegar sýnir bara að það skiptir engu máli hvað ég segi eða hvað mér finnst.
En það mátti alls ekki kaupa nýtt klósett sem er töluvert ódýrara en sjónvarpið. Nei, ég mátti vera á kafi í klósettinu með stálullina í nokkra daga að skrúbba upp gulu taumana. Enda er ég bara ræstitæknir í fyrirtækinu þínu. Þú ert líka að vinna við gestaþjónustuna. Já, þú hefur unnið við húsið en það vill þannig til að þú átt húsið. Það er ferðaþjónustunni vissulega í hag að húsið sé í lagi en það er líka þér sjálfum sem eiganda hússins í hag. Húseiganda ber reyndar að sjá um hús sitt. Þá ætla ég að koma því að hér að ég sé talsvert eftir að hafa samþykkt að þú fengir að eiga húsið en það var samþykkt á þeirri forsendu að þú flyttir þangað og gamli bærinn yrði notaður undir ferðaþjónustu okkur öllum til hagsbóta. Ekki að þú byggir í gamla bæ endurgjaldslaust og leigðir út gjafahúsið og stingir í eigin vasa eins og þú gerðir í fyrra. Gaman að horfa upp á þetta og borga húsið sitt fullu verði á sama tíma.
Þú talar líka niður til Marteins. Þið voruð að fara úr mat hjá okkur eins og síðastliðin sjö ár og Marteinn var á undan þér og tók óvart húfuna þína. Þú öskraðir á eftir honum eins og hundi og bölvaðir honum í sand og ösku. Þú talar til hans með fyrirlitningu af því að hann rukkar ekki nógu snemma inn. Mér finnst líka óþarfi að lána öðru fólki peninga í lengri tíma vaxtalaust en það það hlýtur að vera hægt að ræða það öðruvísi en svona. Hitt er svo annað mál að skv. 17. grein samþykkta Hálsbús ehf. á framkvæmdastjóri félagsins að sjá um reikningshaldið og þú ert framkvæmdastjórinn. Þegar fyrstu gestirnir voru að koma stakk Marteinn upp á að sett yrði inn barnarúm, þú hnussaðir yfir því og taldir algjöran óþarfa. Þetta gerðist fyrir framan annað fólk. Þegar Svavar (yngri drengurinn) lokaði óvart í barnaskap sínum annan köttinn inni í Skodanum sem Helgi gaf þér og kötturinn meig og skeit inni í bílnum. Þú komst organdi inn í húsið okkar með óbótum og skömmum og skipaðir Marteini að þrífa bílinn. Þegar fóðurráðgjafinn kom nýverið þá sagðir þú beinum orðum að alltaf þegar Marteinn bæri undir þá blotnaði undir kálfunum. Hefur þú beðist afsökunar á einhverju af þessu? Marteinn á ekki skilið að svona sé talað til hans. Það er hann sem hefur haldið þessu búi á floti á meðan þið meðeigendurnir hafið verið að lifa og leika ykkur þá hefur hann staðið vaktina hér. Þá tel ég rétt að segja þér að Marteini fannst síðasti vetur erfiður í samstarfi við þig. Það þarf allt að vinnast á þínum forsendum og hans hugmyndir iðulega skotnar niður með skætingi.