Borgarleikhúsblaðið 2014 - 2015

Page 1



Vertu með okkur í vetur!

ÁSKRIFTARKORT FJÓRAR SÝNINGAR AÐ EIGIN VALI Á AÐEINS

14.500 kr. Miðasala Borgarleikhússins

568 8000

Opið virka daga frá kl. 10 - 18 og til 20 sýningardaga Um helgar er opið frá kl. 12 - 20

www.borgarleikhus.is


Nýir og spennandi tímar framundan Söngleikurinn um Billy Elliot

2

Undirbúningur fyrir þessa stórsýningu er í fullum gangi og einkennist af miklum metnaði enda eru aðstandendur sýningarinnar þeir sömu og færðu okkur Mary Poppins. Leitin að hinum eina sanna Billy hófst í maí og fékk gríðarstór hópur hæfileikaríkra drengja að spreyta sig. Sex útvaldir komust í Billy-skólann svokallaða og lærðu stepp, ballet, hip hop, söng, leik, fimleika og margt fleira í sumar undir stjórn Elisabeth Greasly og Chantelle Carey. Leikstjórinn Bergur Þór Ingólfsson heldur þétt utan um allt samspil í leik, söng og sviðstöfrum og lofar ótrúlega skemmtilegri leikhúsupplifun enn á ný!

Opnir samlestrar Fyrsta skrefið í æfingum leikrita er svokallaður samlestur. Þá kemur starfsfólk sýningarinnar saman, ásamt listrænum stjórnendum og leikurum sem lesa leikritið upphátt. Auk þess kynna leikstjóri, leikmynda- og búningahöfundar hugmyndir sínar og fyrir vikið er fyrsti samlestur oftast eins konar hátíðarsamkoma. Þetta er upphaf langrar ferðar sem lýkur með pompi og prakt á frumsýningunni. Í vetur gefst áhugafólki um leikhús tækifæri til að koma á fyrsta samlestur leikverkanna sem sýnd verða í vetur. Þetta er liður í því að opna leikhúsið og skapa skemmtilegan formála að væntanlegum sýningum. Nánar tilkynnt síðar.

Spennandi vinnustofur listamanna í Borgarleikhúsinu Á þessu leikári verður bryddað upp á þeirri nýjung að hafa vinnustofur listamanna í Borgarleikhúsinu, sem víða erlendis ganga undir heitinu „artist in residency“. Hugmyndin er að fá til liðs við Borgarleikhúsið sviðslistamann eða hóp sem fær vinnuaðstöðu í húsinu í tiltekinn tíma, t.a.m. tvo mánuði, ýmist samfleytt eða í lotum. Listafólkið fær sérstakt vinnurými, aðgang að tækjum og tólum auk þess að geta leitað ráða og unnið með starfsfólki hússins. Starfsfólk Borgarleikhússins fær þannig tækifæri til þess að vinna með nýjum og óhefðbundnari hætti, brjóta upp hversdaginn og opna hug sinn og hjörtu á nýjan og afgerandi hátt. Listamennirnir vinna að hverju því rannsóknarefni sem hugur þeirra stendur til í ákveðinn tíma og sýna loks afraksturinn. Val á listafólki og viðfangs- og rannsóknarefnum er mjög opið og koma leikarar og leikstjórar til greina jafnt sem tónlistarfólk, söngvarar, höfundar, myndlistarmenn o.s.frv. Það er enginn vafi á því að þessar heimsóknir munu veita bæði gestum og gestgjöfum innblástur; að við lærum eitthvað af þeim og þeir af okkur.


Erlent samstarf Borgarleikhúsið efnir til samstarfs við Þjóðleikhúsið í Osló og Royal Court Theatre í London um sviðsetningar á nýjum leikritum, hérlendis og erlendis. Gísli Örn Garðarsson er aðaldriffjöðrin í þessu samstarfi, en í því felast ekki einungis tækifæri til uppfærslna á nýjum erlendum verkum hér heima, heldur opnast einnig möguleikar á sýningum nýrra íslenskra leikrita í Osló eða London. Einnig gæti íslenskt leikhúsfólk fengið verkefni hjá samstarfsaðilum og öfugt – að hingað til lands komi erlendir leikstjórar og listamenn, með ferska strauma og nýjar vinnuaðferðir.

Airport Margir minnast sýningarinnar Blam! eftir Kristján Ingimarsson, sem margoft var sýnd fyrir fullu húsi víða um heim og einnig hér í Borgarleikhúsinu. Ný sýning Kristjáns verður sviðsett haustið 2015. Hún fjallar um aðstæður fólks á flugvöllum og þær furðulegu kringumstæður sem þar myndast. Æfingar hefjast í haust með fimm leikurum Borgarleikhússins og fjórum dönskum leikurum.

Alþjóðlega leiklistarhátíðin Lókal Tvær sýningar í Borgarleikhúsinu verða hluti af alþjóðlegu leiklistarhátíðinni Lókal, dagana 27. – 30. ágúst. Sú fyrri, Bláskjár, vakti verðskuldaða athygli á síðasta leikári og hefur Lókal nú boðið aðstandendum Bláskjás að sýna verkið á hátíðinni. Þá mun framandverkaflokkurinn Kviss búmm bang jafnframt frumsýna nýtt verk á Lókal, sem framleitt er af Borgarleikhúsinu. Sýningin nefnist Flækjur og verður flutt um allt leikhúsið, nema á leiksviðunum!

Erna Ómarsdóttir og Íslenski dansflokkurinn Erna Ómarsdóttir, einn virtasti dansari og danshöfundur þjóðarinnar, var nýlega ráðin listrænn ráðgjafi Íslenska dansflokksins. Erna hefur unnið með nokkrum fremstu dans- og sviðslistahópum Evrópu og hafa verk hennar hlotið fjölda verðlauna og verið sýnd á dans- og sviðslistahátíðum út um allan heim. Síðastliðin ár hefur Erna aðallega unnið að eigin verkum með danshóp sínum Shalala. Borgarleikhúsið býður Ernu hjartanlega velkomna í húsið og við hlökkum til samstarfsins. Á komandi leikári mun dansflokkurinn leggja áherslu á frumsamin verk eftir íslenska danshöfunda og spreyta sig á krefjandi verkum eftir erlenda danshöfunda á heimsmælikvarða. Íslenski dansflokkurinn frumsýnir tvö ný kraftmikil dansverk 25. október á Nýja sviði Borgarleikhússins, Meadow eftir Brian Gerke og EMO eftir Ole Martin Meland.

Reykjavík Dance Festival Nú í september frumsýnir Reykjavík Dance Festival í samstarfi við Borgarleikhúsið eitt verk hátíðarinnar, Reið, á Stóra sviðinu. Auk þess verður sólódanshátíðinni Dancing Alone hleypt af stokkunum í febrúar 2015. Boðið verður upp á sólódansverk eftir innlenda og erlenda kóreógrafera í fremstu röð.


Verðlaunasöngleikurinn um Billy Elliot, nú loksins á Íslandi!

STÓRSÝNING Í HÆSTA GÆÐAFLOKKI FYRIR ALLA FJÖLSKYLDUNA 4

Frumsýnt í byrjun mars 2015 Höfundar: Lee Hall og Elton John Leikstjóri: Bergur Þór Ingólfsson Meðframleiðandi: Baltasar Kormákur Þýðing: Karl Ágúst Úlfsson Danshöfundur: Lee Proud Leikmynd: Petr Hlousek Búningar: Helga I. Stefánsdóttir Tónlist: Elton John Tónlistarstjóri: Agnar Már Magnússon Lýsing: Þórður Orri Pétursson Hljóð: Gunnar Sigurbjörnsson Aðstoðarleikstjóri: Hlynur Páll Pálsson Leikarar: Álfrún Örnólfsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Halldóra Geirharðsdóttir, Hilmar Guðjónsson, Hilmir Jensson, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Jóhann Sigurðarson, Sigrún Edda Björnsdóttir, Halldór Gylfason, Þórunn Arna Kristjánsdóttir, Orri Huginn Ágústsson, Magnús Guðmundsson, Sigurður Þór Óskarsson, Sölvi Viggósson Dýrfjörð, Örn Árnason o.fl.

Hinn margverðlaunaði hópur sem færði okkur Mary Poppins snýr aftur með stórbrotinn sviðsgaldur, glæsileg söng- og dansatriði, tónlist Elton John og áhrifamikla sögu sem hefur farið sigurför um heiminn. Billy er á leiðinni í boxtíma þegar hann lendir fyrir slysni á dansæfingu. Hann byrjar að hreyfa sig í takt við tónlistina og uppgötvar sér til furðu að þetta er ekki einungis það skemmtilegasta sem hann hefur gert heldur er hann einfaldlega fæddur til að dansa. Billy á sér draum sem samræmist ekki hugmyndum fullorðna fólksins, hann dreymir um að verða dansari á heimsmælikvarða og er tilbúinn að leggja allt í sölurnar. Billy Elliot er þroskasaga unga fólksins og hinna fullorðnu - mögnuð og falleg saga um baráttu drengs við fordóma samfélagsins og fjölskyldunnar um að fá að vera sá sem hann er. Þetta er kraftmikið verk um alvöru fólk með skotheldri og grípandi tónlist eftir Elton John,

stórfenglegum hópdansatriðum og ótrúlega hæfileikaríkum dreng í aðalhlutverki sem á eftir að fá áhorfendur til að gapa af undrun. Söngleikurinn um Billy Elliot var frumsýndur á West End í London árið 2005 og hefur vakið gríðarlega athygli um víða veröld. Sýningin hlaut mikið lof og fjölda verðlauna og er nú loksins komin í Borgarleikhúsið undir stjórn sama hóps og færði okkur Mary Poppins. Hér blandast saman blússandi húmor og stórkostleg dans- og söngatriði svo úr verður sannkölluð flugeldasýning með einvala liði leikara og auðvitað íslenskum Billy.

Stóra sviðið Máttarstólpi:


SÖNGLEIKURINN

BORGARLEIKHÚSIÐ

Í SAMSTARFI VIÐ BALTASAR

KORMÁK OG WORKING TITLE BYGGT Á KVIKMYND FRÁ UNIVERSAL PICTURES/STUDIO CANAL FILM


Hið sígilda meistarastykki Ibsens í nýrri þýðingu Hrafnhildar Hagalín

VEIST ÞÚ ÞEKKTASTA LEYNDARMÁL LEIKLISTARSÖGUNNAR? 6

„Hefur nú litla eyðsluklóin mín enn verið að spreða peningum!“

Frumsýnt í lok desember 2014 Höfundur: Henrik Ibsen Leikstjóri: Harpa Arnardóttir Þýðing og dramatúrgía: Hrafnhildur Hagalín Leikmynd og búningar: Ilmur Stefánsdóttir Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson Tónlist: Margrét Kristín Blöndal Hljóð: Garðar Borgþórsson

Nóra er ein þekktasta kvenhetja leiklistarinnar. Hún býr á venjulegu heimili ásamt eiginmanni sínum Þorvaldi og þremur börnum. En Nóra á sér leyndarmál sem enginn má komast að, allra síst Þorvaldur. Í augum hans er álit samfélagsins á honum og fjölskyldu hans mikilvægara en allt annað. Komist upp um leyndarmálið gæti það á svipstundu rústað hamingju fjölskyldunnar. Nóra stendur frammi fyrir erfiðu vali: Að þrauka áfram í þrengslum dúkkuheimilisins eða rjúfa múrinn og yfirgefa eiginmann og börn. Jólasýning Borgarleikhússins í ár, Dúkkuheimili,

er stórbrotið leikverk sem allir núverandi og fyrrverandi makar ættu að sjá og ekki síður þeir sem hyggja á sambúð - eða hafna henni. Henrik Ibsen skrifaði Dúkkuheimili árið 1879 og tryggði verkið honum ekki einungis heimsfrægð heldur stendur það enn í dag sem helsta verk leiklistarsögunnar sem flettir ofan af stórri lífslygi. Með glöggskyggni sinni og næmi fyrir mannlegum tilfinningum skoðar hann líf í hjónabandi, grundvöll þess og innihald.

Leikarar: Hilmir Snær Guðnason, Ingvar E. Sigurðsson, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Arndís Hrönn Egilsdóttir, Þorsteinn Bachmann o.fl.

Máttarstólpi:

Stóra sviðið



Maríanna Clara Lúthersdóttir ræðir við Halldóru Geirharðsdóttur, leikstjóra farsans Beint í æð

„TÆMINGARNAR SKIPTA ÖLLU MÁLI“ 8

Við Halldóra Geirharðsdóttir, leikkona og leikstjóri, komum okkur vel fyrir úti á svölunum við matsalinn í Borgarleikhúsinu enda eru góðar líkur á að þetta verði besti dagur sumarsins. Við ætlum að spjalla aðeins um farsann Beint í æð sem hún leikstýrir og ég leik í. Við gáfum skýr fyrirmæli um að ekki mætti trufla okkur og svo var kveikt á upptökutækinu.

M: Jæja Dóra, hvað er mikilvægast þegar maður ætlar að setja upp hinn fullkomna farsa? H: Mikilvægast? Númer eitt er að maður þarf að hafa góða leikara, eins og þig, sem geta fengið fólk til að pissa í sig af hlátri. Frábær leikari tekur áhorfandann nálægt persónunni á sviðinu og þá fer áhorfandinn líka nálægt sér sjálfum og hlær svo mikið að sjálfum sér að hann pissar í sig. Eða bara hlær mikið og pissar ekki, en í bílnum á leiðinni heim segir hann eitthvað sem hann hefði annars ekki sagt. M: Takk fyrir það! Aristóteles segir einmitt að harmleikurinn sé um fólk sem er aðeins göfugra en við en gamanleikurinn fjalli um fólk sem er aðeins verra en við. Maður speglar sig í því en hlær að óförunum. H: Er fólk í försum þá vitlausara en fólk í harmleikjum? M: Ja, kannski aðeins óviðkunnanlegra.

H: Og það fellur í fleiri gildrur – öðruvísi gildrur. M: Maður sér að fólk er að fara að gera eitthvað og hugsar: Neineineinei! Ekki gera þetta! Þú veist betur! H: En hvernig er það í þínu lífi, einhver svona farsi gegnumgangandi í því? M: Já, þegar maður er að ganga í gegnum erfiða hluti, sem eru samt kannski ekki mjög alvarlegir í lífs og dauða samhenginu, þá er mjög hjálplegt að ímynda sér að maður sé t.d. í rómantískri gamanmynd. Af því að þá veit maður að allt fer vel. Þá fer maður líka að búa til í huganum gamansögur af óförum sínum. Maður hugsar: Þetta er ömurlegt núna en djöfull verður þetta góð saga! Það eru þessi hversdagslegu klúður í lífinu, þegar maður segir eitthvað alveg glatað, týnir símanum, missir tölvuna, eitthvað sem gæti virkað sem stórkostlega fyndið atriði í gamanmynd. Ég gerði þetta sérstaklega þegar ég var yngri.

fg H: Veistu, þetta hefur mig alveg vantað inn í líf mitt. Ég hef held ég lifað í harmleiknum. En með árunum hef ég áttað mig á að líf mitt ætti kannski meira að vera svona Noh leikhús – lifa bara svona augnablik fyrir augnablik og hugsa: Það er allt í lagi, hver stund er nóg. M: Svo gæti maður líka verið svona indie-mynd af því líf manns er ekki alveg fyrirsjáanlegt, fer ótroðnar slóðir en verður alltaf áhugavert. H: Einmitt og endar með spurningu. Þú veist ekki alveg hvernig það endar. M: Og það leysist ekkert í lokin – en samt er endirinn frekar upplífgandi. H: Og þú heldur alveg með aðalpersónunni. M: Það minnir mig reyndar á það sem Jón Viðar sagði einhvers staðar: Að harmleikurinn sé í raun bjartsýnn því þótt hann endi illa þá verður yfirleitt til skilningur gegnum þjáninguna – þegar Rómeó og Júlía deyja þá loksins skilja fjölskyldur þeirra að þær verða að grafa stríðsöxina. Fólk lærir af reynslunni. Í gamanleiknum lærir enginn neitt, enginn er bættari í lok sýningar, enginn skilningur verður til.


„Maður þarf að hafa góða leikara sem geta fengið fólk til að pissa í sig af hlátri“ H: Beint í æð er alveg þannig farsi og persónurnar gera mistök aftur og aftur á hlægilegan hátt. En hvað finnst þér vera lykilatriði í því að vera fyndin? M: Tæknilega eru það tæmingar, þær skipta öllu máli og svo á maður ekki að reyna að vera þokkafullur og sætur á sviðinu. Nú er ég frekar klaufaleg sjálf og það nýtist voða vel. En annars er það bara það sem þú hefur sjálf sagt – að leika ekki eins og maður sé staddur í gamanleikriti heldur í harmleik. Persónan hugsar: Ég bara trúi ekki að þetta sé að koma fyrir mig – þetta er versti dagur lífs míns! En átt þú einhverjar fyrirmyndir í farsaleik eða finnst þér þú bara alltaf hafa kunnað þetta?

H: Já, ég horfði mjög mikið á Eddu Björgvins þegar ég var lítil og ég átti öll áramótaskaupin og Úllendúllendoff þættina á spólum og það var stundum sagt við mig þegar ég útskrifaðist að ég væri eins og Edda Björgvins og mér fannst það alveg frábært af því það var í raun engin önnur leikkona til að pikka upp ryþma og tímasetningar frá svo ég held bara að ómeðvitað hafi hún verið í skrokknum. M: Nei, það er heldur ekki eins og það hefi verið alltof margar fyrirmyndir. Hún er nú lífseig mýtan um að konur séu ekki fyndnar. H: Síðan var ég svo heppin að við Lolla (Ólafía Hrönn) vorum fengnar til að grína í sjónvarpinu þegar ég útskrifaðist úr Leiklistarskólanum. M: Ó, þið voruð svo fyndnar. Ég elskaði þessa þætti. H: Við vorum nú samt reknar! M: Það er bara gæðastimpill. Í Bandaríkjunum fara bestu þættirnir aldrei í meira en tvær seríur!

H: Já, við vorum alla vega reknar en Lolla var alltaf að draga mig með sér að skemmta og hún bara kenndi mér að „puncha“. Það var bara eins og hún væri með einhverja náðargáfu í því – að segja brandara og „puncha“ með orðum. Það hafði ég aldrei spáð í. Ég var kannski fyndin áður en ég hafði ekki hugmynd um það. M: Það er ekkert betra en að vera fyndin. H: Nei, guð minn góður, það er stórkostlegt. M: Að standa á sviði og segja eitthvað og fólk hlær – nei, það er bara dásamlegt, farsar eru dásamlegir! Einhver lokaorð? Mér skilst að þú viljir ekkert tala um heimsreisuna. H: Nei, ekki beinlínis, en ég er samt með svar. M: Allt í lagi. Nú ert þú nýkomin úr heimsreisu Dóra, hvernig var? H: Alveg frábært – ég mæli með því, farðu í heimsreisu! M: Ok, ég er rosa til í það!


Sprenghlægilegur farsi frá konungi gamanleikjanna og höfundi Nei, ráðherra!

SJÚKLEGUR SKAMMTUR AF BRÁÐSMITANDI HLÁTRI 10

Frumsýnt í lok október 2014 Höfundur: Ray Cooney Leikstjóri: Halldóra Geirharðsdóttir Íslensk heimfærsla: Gísli Rúnar Jónsson Leikmynd og búningar: Helga I. Stefánsdóttir Tónlist: Ólafur Björn Ólafsson Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson Hljóð: Ólafur Örn Thoroddsen Leikarar: Hilmir Snær Guðnason, Guðjón Davíð Karlsson, Halldór Gylfason, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Sigrún Edda Björnsdóttir, Valur Freyr Einarsson, Þórunn Arna Kristjánsdóttir, Hjörtur Jóhann Jónsson, Maríanna Clara Lúthersdóttir, Sigurður Þór Óskarsson og Örn Árnason

Halldóra Geirharðsdóttir stýrir sannkölluðu úrvalsliði gamanleikara í drepfyndnum farsa sem flæðir Beint í æð! Hvað myndir þú gera ef þú værir háttsettur læknir við stærsta sjúkrahús höfuðborgarinnar á leiðinni að flytja fyrirlestur ársins á norrænni læknaráðstefnu, nokkuð sem gæti fært þér yfirlæknisstöðu, fálkaorðu og fleiri eftirsóknarverðar vegtyllur - þegar á vettvang mætir, án þess að gera boð á undan sér, illa fyrirkölluð fyrrum kærasta á besta aldri ásamt afleiðingunum af ástarfundum ykkar nákvæmlega 18 árum og 9 mánuðum áður? Er þetta ekki ávísun á ógnarklúður?

Jón Borgar, vellukkaður og velkvæntur taugasérfræðingur hefur séð það svart um sína daga. En dagleg glíma hans með skurðhnífinn, þar sem hársbreidd skilur jafnan milli lífs og dauða, reynist hreinasti barnaleikur í samanburði við það sem hann á í vændum. Borgarleikhúsið hefur áður sýnt gamanleiki Ray Cooney við gríðarlegar vinsældir og metaðsókn, Viltu finna milljón? og nú síðast Nei, ráðherra! sem gekk í tvö leikár á Stóra sviðinu. Gísli Rúnar íslenskaði og heimfærði bæði verkin við afbragðs viðtökur.

Stóra sviðið



Nýtt verk eftir Birgi Sigurðsson höfund hins vinsæla leikrits Dagur vonar

SUM SVIK ERU SVO STÓR AÐ ÞAU VERÐA EKKI GRAFIN 12

,,Það löðuðust allir að honum. Jafnvel andstæðingar hans.”

Frumsýnt í lok mars 2015

Höfundur: Birgir Sigurðsson Leikstjóri: Hilmir Snær Guðnason Leikmynd: Vytautas Narbutas Búningar: Stefanía Adolfsdóttir Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson Hljóð: Garðar Borgþórsson Leikarar: Kristbjörg Kjeld, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Björn Thors, Katla Margrét Þorgeirsdóttir og Hjörtur Jóhann Jónsson

Máttarstólpi:

Er ekki nóg að elska? er raun­ sæisleg og kraftmikil fjölskyldu­saga sem lýsir fjölskyldu­ átökum um leyndarmál sem ekki mega koma upp á yfirborðið því þau sverta þar með minningu mektarmanns. Jarðarför hans stendur fyrir dyrum og ekkjan berst hetjulega fyrir sóma hússins og minningu mikils stjórnmálamanns og hreinskiptins eiginmanns sem hefur gert afar óvenjulega kröfu í erfðaskránni.

Birgir Sigurðsson er eitt fremsta núlifandi leikskáld okkar. Fyrsta leikrit hans, Pétur og Rúna, var sett á svið árið 1973. Leikritið vann til fyrstu verðlauna, ásamt Kertalogi Jökuls Jakobssonar, í leikritasamkeppni Leikfélags Reykjavíkur í tilefni af 75 ára afmæli félagsins árið 1972. Dagur vonar var frumsýnt hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1987 og 2007 og naut gífurlegra vinsælda í bæði skiptin. Leikritið var einnig tekið upp fyrir sjónvarp og tilnefnt til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1989.

Nýja sviðið


ER EKKI NÓG AÐ ELSKA?

EFTIR BIRGI SIGURÐSSON


Ágústa Eva er hin eina sanna Sigurlína Rúllugardína Nýlendína Krúsimunda Efraímsdóttir langsokkur

STERKASTA STELPA Í HEIMI ER MÆTT Í BORGARLEIKHÚSIÐ 14

Frumsýnt um miðjan september 2014

Höfundur: Astrid Lindgren Leikstjóri: Ágústa Skúladóttir Þýðing: Þórarinn Eldjárn Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir Búningar: María Th. Ólafsdóttir Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson Tónlistarstjóri: Stefán Már Magnússon Hljóð: Baldvin Magnússon Brelluþjálfari: Steve Harper Danshöfundar: Ágústa Skúladóttir og Katrín Ingvadóttir Leikarar: Ágústa Eva Erlendsdóttir, Örn Árnason, Sigurður Þór Óskarsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Halldór Gylfason, Valur Freyr Einarsson, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Hjörtur Jóhann Jónsson, Maríanna Clara Lúthersdóttir, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Magnús Guðmundsson og Orri Huginn Ágústsson Hljómsveit : Stefán Magnússon, Unnur Birna Bassadóttir, Björn Stefánsson og Karl Olgeirsson

Hér sérðu Línu langsokk – tralla hopp, tralla hei, tralla hopp sa-sa!

Lína langsokkur, Herra Níels api og hesturinn eru aftur mætt til leiks ásamt vinum sínum Tomma og Önnu. Leiðindaskarfurinn frú Prússólín er staðráðin í að koma Línu fyrir á vandræðaheimili þannig að Lína þarf að hafa sig alla við vilji hún búa áfram á Sjónarhóli. Lína langsokkur er hjartahlýr og réttsýnn prakkari sem allar kynslóðir barna verða að kynnast. Ágústa Eva fer á kostum sem Lína í þessu bráðfyndna og skemmtilega leikriti sem sýnir okkur að við eigum alltaf að vera við sjálf og ekkert annað.

Börn: Agla Bríet Einarsdóttir, Ágúst Beinteinn Árnason, Ágúst Örn Wigum, Álfheiður Karlsdóttir, Bjarni Hrafnkelsson, Davíð Laufdal Arnarsson, Elva María Birgisdóttir, Gríma Valsdóttir, Helena Clausen Heiðmundsdóttir, Hildur Clausen Heiðmundsdóttir, Ísabella Rós Þorsteinsd, Mikael

Máttarstólpi:

Astrid Lindgren höfundur Línu langsokks er einn ástsælasti barnabókahöfundur allra tíma. Hún fæddist 14. nóvember1907 í Smálöndum í Svíþjóð og lést í Stokkhólmi 28. janúar 2002, 94 ára að aldri. Hún skrifaði samtals 40 barnabækur og fjölda myndabóka.

Guðmundsson, Sóley Agnarsdóttir, Steinunn Lárusdóttir

Stóra sviðið



Misstir þú af umtöluðustu sýningu síðasta leikárs?

FYRSTA VERÐLAUNALEIKRITIÐ SEM GERIST Í KÓPAVOGI 16

VALTER: Bíddu, bíddu, bíddu, bíddu, hold the phone. Smáratorg. Er það ekki staðurinn þar sem gamlir hommar koma til að deyja? ELLA: Nei, það er Kanarí. Smáratorg er bara mjög smart restaurant

Sýningar hefjast í byrjun sept. 2014

Höfundur: Tyrfingur Tyrfingsson Leikstjóri: Vignir Rafn Valþórsson Aðstoðarleikstjóri: Pétur Ármannsson Leikmynd og búningar: Brynja Björnsdóttir Lýsing og hljóð: Garðar Borgþórsson Tónlist: Högni Egilsson Leikarar: Arndís Hrönn Egilsdóttir, Hjörtur Jóhann Jónsson og Arnmundur Ernst Björnsson

Systkinin Valter, Ella og Eiríkur eru að verða of sein í jarðarför föður síns þegar blá ruslatunna frá Kópavogsbæ hrapar ofan úr loftinu. Bláskjár er ærslafullur harmleikur um nýdáinn pabba, drauma okkar um að gefa út skvísubók, kynnast rétta manninum á Netinu og byrja lífið upp á nýtt. Tyrfingur Tyrfingsson er leik­skáld Borgarleikhússins. Verk hans hafa hlotið einróma lof gagnrýn­enda og áhorf­enda. Sýningum á Bláskjá þurfti að hætta fyrir fullu húsi á síðasta leikári en verkið birtist aftur á fjölunum núna í haust.

„Bráðskemmtileg og sterk sýning þar sem leikarar fara á kostum í vel skrifuðu verki.“ F.B. Fréttablaðið „Frábærlega skemmtilegt og skrifað af miklum skáldskap.“ G.S.E. Djöflaeyjan

,,Styrkur verks og sýningar felst ekki síst í því að þar er sögð flókin saga sem hver áhorfandi getur í raun túlkað með sínum hætti.” Þ.E.S. Víðsjá

Styrktaraðilar: Reykjavíkurborg og menntaog menningarmálaráðuneytið. Í samstarfi við Óskabörn ógæfunnar.

Litla sviðið Sproti ársins 2014



Nýtt leikrit eftir Huldar Breiðfjörð sem þreytir frumraun sína í leikhúsi

GRÁTBROSLEGT VERK UM KARLMENN, TILFINNINGAR OG SPARAKSTUR 18

TÓMAS: En þið? Hvar kynntust þið konan, fyrrverandi? GUNNLAUGUR: Fólk kemst nú varla hjá því að kynnast fyrir vestan. TÓMAS: En þú hefur orðið ástfanginn? GUNNLAUGUR: Maður varð eitthvað svona upptendraður á tímabili.

Frumsýnt í lok september 2014

Höfundur: Huldar Breiðfjörð Leikstjóri: Jón Páll Eyjólfsson Leikmynd og búningar: Brynja Björnsdóttir Lýsing: Þórður Orri Pétursson Tónlist: Úlfur Eldjárn Hljóð: Baldvin Magnússon Leikarar: Jóhann Sigurðarson og Hilmar Guðjónsson

Máttarstólpi:

Tómas hittir Gunnlaug á hótelherbergi á landsbyggðinni að vetri til. Gunnlaugur sem er eldri hefur komið sér þar fyrir ásamt gæludýri sem hann hyggst gefa frá sér. Tómas hefur mikinn áhuga á gæludýrinu og er kominn úr borginni til að skoða það. Gunnlaugi er umhugað um að finna góðan eiganda og yfirheyrir Tómas um fjölskylduhagi og reynslu af dýrahaldi. Þegar Gunnlaugur er loks að verða sannfærður um ágæti Tómasar kemur upp ákveðið vandamál sem flestir myndu kalla smáatriði en er þó nógu stórt til að setja fund mannanna í uppnám.

Gaukar fjallar um sparakstur, skilnaði, Vestfirðinga, dýralíf, smokka með ananasbragði og Vísindakirkjuna. Huldar Breiðfjörð sló í gegn með bók sinni Góðir Íslendingar. Hann er þekktur fyrir næma sýn á mannfólkið og sér í lagi Íslendinga. Huldar nálgast fólk af hlýju en húmorinn er aldrei langt undan. Gaukar er fyrsta leikrit hans.

Nýja sviðið


E F T I R H U L DA R B R E I Ð FJ Ö R Ð


Íslensk klassík sem sópaði að sér Grímuverðlaunum á síðustu hátíð

VINSÆLA VERÐLAUNASÝNINGIN AÐ NORÐAN KEMUR Á STÓRA SVIÐIÐ 20

„Það er löng leið frá Íslandi til himnaríkis“

Frumsýnt um miðjan september 2014 Höfundur: Davíð Stefánsson Leikstjóri: Egill Heiðar Anton Pálsson Sviðsmynd og lýsing: Egill Ingibergsson Búningar: Helga Mjöll Oddsdóttir Tónlist: Hljómsveitin Eva Leikarar: Aðalbjörg Árnadóttir, Hannes Óli Ágústsson, Hilmir Jensson, María Pálsdóttir og kór

Máttarstólpi:

Kerling nokkur leggur á sig langt og strangt ferðalag til þess að koma sál syndaselsins eiginmanns síns inn í himnaríki. Á leiðinni hittir hún ýmsar persónur úr lífi hans og verður smám saman ljóst að það mun ekki reynast þrautalaust að koma „sálinni hans Jóns míns“ inn fyrir hið gullna hlið. Davíð Stefánsson frá Fagraskógi varð þjóðþekkt skáld við útkomu fyrstu ljóðabókar sinnar, Svartar fjaðrir, árið 1919. Hann samdi fjögur leikrit og frumsýndi Leikfélag Reykjavíkur Gullna hliðið jólin 1941. Verkið hitti beint í mark og varð eitt þekktasta og vinsælasta leikrit sem skrifað hefur verið á íslensku og hefur margoft verið sviðsett síðan, bæði hér á landi og erlendis.

Gríman 2014 Lýsing Búningar Leikstjórn

Uppfærsla Leikfélags Akureyrar á Gullna hliðinu sló í gegn á síðasta leikári. Gagnrýnendur kepptust við að lofa sýninguna sem var tilnefnd til sjö verðlauna Grímunnar og hlaut verðlaunin fyrir búninga, lýsingu og leikstjórn. Leikstjóri verksins, Egill Heiðar Anton Pálsson, lauk framhaldsnámi í leikstjórn við Statens Teaterskole í Kaupmannahöfn og hefur einkum starfað við leikstjórn á Norðurlöndum og í Þýskalandi. Hann hefur sviðsett á þriðja tug leiksýninga og er nýráðinn prófessor við einn virtasta leiklistarskóla Evrópu, Ernst-Buschskólann í Berlín.

Stóra sviðið



Verið velkomin í tilraunakennda meðferðarstöð við því að vera manneskja

ÓVÆNT OG SPENNANDI LEIKHÚSREYNSLA Í BOÐI KVISS BÚMM BANG 22

Flækjur, hæli í Borgarleikhúsinu, er óvænt og áhugaverð leikhúsreynsla í boði framandverkaflokksins Kviss búmm bang í samstarfi við leikmyndahönnuðinn Tinnu Ottesen. Flokkurinn hefur ferðast víða um heim og hlotið einróma lof fyrir áhugaverðar og frumlegar sýningar af ólíku tagi.

Frumsýnt í lok ágúst 2014

Höfundar: Eva Rún Snorradóttir, Eva Björk Kaaber og Vilborg Ólafsdóttir Leikmynd og útlit: Tinna Ottesen Leikarar: Guðjón Davíð Karlsson, Hilmir Snær Guðnason, Þórunn Arna Kristjánsdóttir, Sigrún Edda Björnsdóttir o.fl.

Lausir við hvers kyns samskiptatæki og tól leggjast þátttakendur inn á hælið, dvelja í leikhúsinu og horfast í augu við allar þær flækjur sem lífið leggur okkur á herðar. Hælið er tilraunakennd meðferðarstöð við því að vera manneskja. Hér er í boði að gefast upp. Leggja allt frá sér. Lúta höfði. Aðeins örfá pláss eru laus í hælisdvölina, sem stendur yfir frá kl. 18.00 til miðnættis. Boðið er upp á kvöldverð og kvöldnasl. Kviss búmm bang er hópur þriggja kvenna sem hafa starfað saman frá árinu 2009. Hópurinn hefur unnið að því að þróa verk sem krefjast

þátttöku áhorfenda og miða að því að leiða þá inn í tilbúnar kringumstæður þar sem þeir fylgja leiðbeiningum og upplifa nýstárlega sviðsetningu á raunveruleikanum og viðteknum hugmyndum. Sýningin er unnin í samvinnu við leikmyndahönnuðinn Tinnu Ottesen sem hefur komið víða við á ferli sínum og hannað rými og leikmyndir fyrir leikhús, kvikmyndir, dansverk og innsetningar. Hópurinn hefur sýnt verk sín á virtum leiklistarhátíðum víða um heim, t.a.m. Wiener Festwochen, Baltic Circle Helsinki, Spring Festival Utrecht og Mladi Festival í Ljubljana.

Sýnt út um allt hús



Góðkunningi lögreglunnar sem sló í gegn í Fangavaktinni útskýrir lífið og tilveruna

24

„VIÐ ERUM KANNSKI GLÆPAMENN ... EN VIÐ ERUM ALLA VEGA EKKI ÓHEIÐARLEGIR“

Kenneth Máni, stærsti smáglæpamaður landsins, stelur senunni í Borgarleikhúsinu.

Frumsýnt í lok september 2014 Höfundar: Jóhann Ævar Grímsson, Saga Garðarsdóttir og Björn Thors. Byggt á samnefndri persónu úr sjónvarpsþáttaröðinni Fangavaktin eftir Jóhann Ævar Grímsson, Jón Gnarr, Jörund Ragnarsson, Pétur Jóhann Sigfússon og Ragnar Bragason. Leikstjóri: Bergur Þór Ingólfsson

Kenneth Máni Johnson, um tíma Ketill Máni Áslaugarson, vann fyrir Georg Bjarnfreðarson í Fangavaktinni. Kenneth er eilífðarfangi sem glímir við lesblindu, athyglisbrest, ofvirkni og almennt hömluleysi. En hann er alveg óhræddur við að segja áhorfendum frá þessu öllu saman og svara spurningum þeirra um ,,lívið og tilverunna”.

Höfundarnir Jóhann Ævar Grímsson og Saga Garðarsdóttir leiða nú saman krafta sína í fyrsta sinn í samvinnu við leikarann Björn Thors til að ljá Kenneth Mána loksins rödd á sviði Borgarleikhússins. Jóhann Ævar skrifaði Næturvaktina, Dagvaktina og Fangavaktina á meðan Saga var meðhöfundur síðasta Áramótaskaups, skrifaði pistla í Fréttablaðið og hélt fyrirlestra um mannsheilann.

Ekki fræðandi en mjög fyndið skemmtikvöld þar sem Kenneth Máni lætur dæluna ganga svo engar tvær sýningar eru eins.

Leikmynd: Móeiður Helgadóttir Búningar: Helga Rós Hannam Lýsing og hljóð: Garðar Borgþórsson Leikari: Björn Thors

Litla sviðið Í samstarfi við Sagafilm



Þorvaldur Kristinsson ræðir við Kristínu Eysteinsdóttur, leikhússtjóra

ÞESSI ÞJÓÐ ER EKKI FEIMIN VIÐ AÐ MÆTA Í LEIKHÚS

L LL L L L L LL L L L L L 26

Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri „Ég var lengi að leita að því hvað ég vildi leggja fyrir mig í lífinu. Margt freistaði, til dæmis nám í tónlist, en þegar ég kynntist grískum harmleikjum í bókmenntafræði við Háskóla Íslands kviknaði eitthvað sem ekki vildi sleppa af mér takinu. Ég fór að skima eftir námi í leikhúsfræðum og fann það í Árósum. Ég starfaði svo í þrjú ár við leikhús hér á landi þar til ég hélt aftur utan til náms í London. Síðan hefur íslenskt leikhús verið minn vettvangur og ég hef verið svo heppin að fá að kljást við margvísleg verkefni. Vinna mín hefur ekki bara snúist um leikstjórn heldur líka dramatúrgíu og leikgerðir sagna, að finna skáldskapnum leið upp á svið.“ Í samtali við samfélagið Var það gamall draumur að verða leikhússtjóri? „Nei, ég hugsaði aldrei: Já, þetta ætla ég að verða þegar ég er orðin stór. Ég hef alltaf litið fyrst og fremst á mig sem leikstjóra. En þau sex ár sem ég hef starfað í Borgarleikhúsinu hef ég átt þátt í að móta listræna stefnu og starf í hópi annarra og haft sterkar skoðanir á

Fyrir sjö árum stóð hún á tímamótum. Eftir nám í leikstjórn við Goldsmiths, University of London, bauðst henni í félagi við leikhópinn Vér morðingjar að setja á svið leikritið Sá ljóti eftir Marius von Mayenburg í Þjóðleikhúsinu. Fyrir leikstjórn sína hlaut hún Grímuna, Íslensku sviðslistaverðlaunin 2008, og sá árangur varð til þess að Borgarleikhúsið bauð henni til starfa. Þar hefur Kristín Eysteinsdóttir síðan unnið sem leikstjóri og ráðgjafi – allt þar til hún var ráðin leikhússtjóri á liðnu vori. Í samtali við Þorvald Kristinsson segir Kristín frá sínu nýja starfi.

því hvert halda skuli. Mér er í mun að reyna að svara því hvern dag sem ég mæti til vinnu hvers konar samtal við viljum eiga við samfélagið. En auðvitað varð ég yfir mig glöð þegar ég hreppti starfið því að mér er annt um þetta hús og velgengni þess.“ Mega leikhúsgestir búast við nýjum og breyttum áherslum í starfi leikhússins á næstu misserum? „Þegar ég tók við starfinu lá dagskrá þessa vetrar nokkurn veginn fyrir og verkefni leikársins lofa góðu. Stefna mín og smekkur mun þó smám saman koma í ljós, ég boða vissulega breytingar áður en langt um líður, breytingar sem ég vinn að í félagi við samstarfsfólk mitt. En markmiðið er það sama og verið hefur, að búa til gott leikhús og setja sýningar á svið sem eiga erindi til fólks.“

texti sé lykilatriði í leikhúsi og fyrir leikara og leikstjóra er ekkert eins skapandi og að fást við snjallan skáldskap. Upp úr þeim jarðvegi spretta endalaust nýjar plöntur á sviðinu sem enginn sér fyrir. Til að sinna þessu verkefni á verðugan hátt höfum við ráðið Hrafnhildi Hagalín sem dramatúrg að húsinu og hlutverk hennar er að vinna með höfundum okkar eftir að við höfum samþykkt að ganga til samstarfs við þá. Hrafnhildur býr yfir mikilli menntun og langri reynslu þegar kemur að leikritun og mun leiðbeina um hana, meðal annars þegar um er að ræða unga höfunda sem eru að kynnast leiksviðinu í fyrsta sinn. Leiðin frá hugmyndum til handrits og þaðan upp á svið er löng og ég er viss um að sú ráðstöfun sem ég er að lýsa verði enn til þess að styrkja nýsköpun í íslenskri leikritun.“

Stuðlum að góðri leikritun „Í því sambandi er mér ekki síst annt um að efla íslenska leikritun, leggja áherslu á að sýna ný íslensk verk og reyna að stuðla að góðum skáldverkum. Ég lít svo á að sterkur

Leikstjórar utan úr heimi „Þá er það eitt af markmiðum mínum að kalla erlenda listamenn til starfa með okkur. Góðir gestaleikstjórar hafa verið miklir áhrifamenn í íslensku leikhúsi, þeir benda okkur á nýjar leiðir


og breyta hugarfari okkar sem búum afskekkt. Nú þegar höfum við lagt drög að því að opna þennan glugga út í heim í meiri mæli en áður, bjóða hingað erlendu leikhúsfólki en kanna um leið hvað Ísland hefur að bjóða umheiminum í samstarfi. Það kemur mér satt að segja skemmtilega á óvart að við í Borgarleikhúsinu eigum kost á gestaleikstjórum sem standa sterkt í sinni list og vilja vinna með okkur. Svo vil ég leggja áherslu á að opna leikhúsið borgarbúum, við erum Borgarleikhús og eigum að rækta það fólk sem hér býr. Í vetur bjóðum við upp á þá nýjung að halda fyrstu æfingu á verki – fyrsta samlestur eins og hann kallast – að viðstöddum gestum sem vilja koma og hlusta. Við munum líka bjóða til vandaðra kynninga á starfi okkar, til dæmis fyrir eldri borgara og fyrir börn. Þá höldum við uppteknum hætti frá fyrri árum og bjóðum ýmsum leikhópum til samstarfs og í vetur fitjum við upp á þeirri nýjung að gefa þremur sviðslistamönnum kost á vinnustofum í húsinu. Þar fá þeir aðgang að öllum þeim búnaði sem við höfum upp á að bjóða og afraksturinn verður kannski sýning, leiklestur eða fyrirlestur, allt eftir eðli verkefnanna.“ Mætum klassíkinni af heilum hug En hvað er að segja um öll þau verk sem fortíðin hefur fært okkur, sjálfan leiklistararfinn? Hvaða rými er honum ætlað? „Ég stefni svo sannarlega að því að mæta klassíkinni af heilum hug. Á yngri árum skorti

mig stundum áhuga á því sem var miklu eldra en í gær, en núna veit ég í rauninni fátt betra en skapandi samtal nútíðar og fortíðar, öll þessi mögnuðu leikverk sem eiga erindi við alla tíma. Ég á mér mörg eftirlætisskáld, sum lífs og önnur liðin, Jon Fosse og Edward Albee, Söruh Cane, Harold Pinter, Beckett og Evripídes. Við sjáum hvað setur, umfram allt vil ég leiða saman nútíð og fortíð í leikhúsinu okkar.“

„Umfram allt skynja ég mikinn vilja allra til að taka framförum og búa til enn betra leikhús“ Fram á bjargbrúnina Leiklist dagsins hér á landi, hvaða augum lítur leikhússtjórinn það starf sem unnið er í leikhúsum landsins. Hver er að hennar mati styrkleiki og veikleiki leikhúslífs á Íslandi? „Mér finnst íslenska þjóðin stundum óþarflega rausnarleg þegar kemur að því að hæla sjálfri sér og það á líka við um okkur í leikhúsinu. Sjálfshól virkar lamandi til lengdar og gerir okkur óeðlilega viðkvæm fyrir gagnrýni. En þetta á sínar skýringar. Við í leikhúsinu erum eins og lítil fjölskylda, við þekkjumst náið og myndum vinabönd og það gerir alla innri gagnrýni erfiða. En til að komast áleiðis

verðum við að þora að gagnrýna sjálf okkur og samstarfsfólkið og vera á varðbergi gegn þeirri einsleitni sem ég held að sé versti óvinur leiklistarinnar í litlu og afskekktu landi. Þess vegna finnst mér fátt þýðingarmeira en að fá að heyra hvað félagar mínir í leikhúsinu hafa að segja, þora að hlusta á gagnrýni og þora að kalla eftir henni. Þetta hef ég reynt að tileinka mér sem leikstjóri og ég trúi því að það verði mér til gæfu í nýju starfi og það gleður mig að sjá fjölgun í hópi upprennandi leikhúsfólks. Umfram allt skynja ég mikinn vilja allra til að taka framförum og búa til betra leikhús, taka meiri áhættu á sviðsbrúninni og taka hana oftar. Góð list felur alltaf í sér háska og gott leikhúsfólk verður að þora fram á bjargbrúnina. Ég nýt þess í nýju starfi að taka við góðu búi í Borgarleikhúsinu og það léttir svo sannarlega róðurinn. Við höfum þúsundir ánægðra kortagesta sem hafa árum saman haldið tryggð við okkur og þeir eru ómetanleg hvatning. Þegar ég litast um í leikhúsinu verður mér einhverra hluta vegna alltaf starsýnast á áhorfendur: Getur verið að þar sé stærsti styrkur leiklistarinnar? Þessi þjóð er ekki feimin við að mæta í leikhús, það er hluti af lífi Íslendinga, og ef ég er einhvers megnug þá stefni ég að því að gera þá enn nánari því. Því ég vil rækta Borgarleikhús sem mætir ólíku fólki og margvíslegum smekk – og iðar af lífi.“


Fyndið og áleitið verk eftir Auði Övu um fjórar konur og flóknar tilfinningar

ÞÆR ELSKUÐU ALLAR MANNINN SEM DÓ ÁÐUR EN TATTÚIÐ KRUMPAÐIST 28

KONA 1: Hann hefði átt að verða gamall. KONA 2: Þá hefði tattúið breyst. Tattú krumpast á gömlum líkömum. Það hefði ekki orðið smart. KONA 1: Hann dó áður en tattúið krumpaðist. KONA 2: Stundum er það besta lausnin.

Frumsýnt í byrjun janúar 2015 Höfundur: Auður Ava Ólafsdóttir Leikstjóri: Stefán Jónsson Leikmynd og búningar: Brynja Björnsdóttir Lýsing: Garðar Borgþórsson Tónlist: Árni Rúnar Hlöðversson Hljóð: Ólafur Örn Thoroddsen Leikarar: Elma Lísa Gunnarsdóttir, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, María Heba Þorkelsdóttir og Tinna Hrafnsdóttir

Í samstarfi við Háaloftið Sýningin er styrkt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu

Fjórar konur bregðast við auglýsingu þar sem leitað er að þeim sem hafa þekkt Hákon heitinn náið en honum er lýst sem „meðalmanni á hæð með ljósar krullur”. HANN eða hinn látni hefur sjálfur sett saman lagaval fyrir eigin jarðarför, m.a. Don´t Hold your Breath eða Ekki hætta að anda með Nicole Scherzinger sem veldur mönnum nokkrum heilabrotum. Jafnframt hefur hann óskað sérstaklega eftir að konurnar fjórar flytji íslenska útgáfu af laginu við athöfnina með texta sem þjóni hlutverki minningarorða. Eftir því sem verkinu

vindur fram kemur í ljós að það er ýmislegt málum blandið varðandi samband kvennanna við hann. Auður Ava Ólafsdóttir hefur áður skrifað þrjú leikrit, Svartur hundur prestsins (2011) og Svanir skilja ekki (2014) sem Þjóðleikhúsið setti upp og útvarpsleikritið Lán til góðverka (2014). Þar að auki er hún höfundur fjögurra skáldsagna og einnar ljóðabókar. Skáldsaga Auðar Övu, Afleggjarinn hefur verið þýdd á tuttugu og tvö tungumál.

Litla sviðið



Glæsileg, fyndin og forvitnileg og höfðar jafnt til foreldra sem barna

BARNASÝNING ÁRSINS SNÝR AFTUR 30 GEIRÞRÚÐUR: Láttu ekki svona, Hamlet! Gefðu mömmu knús. HAMLET: Ég hef engan tíma fyrir kossa og knús. Það er hér heil leiksýning sem þarf að sýna. Þetta leikur sig ekki sjálft.

Sýningar hefjast í byrjun nóv. 2014

Þegar Hamlet litli missir pabba sinn fer hann að haga sér undarlega. Hann verður enn skrýtnari þegar mamma hans ætlar örfáum dögum eftir útförina að giftast föðurbróður hans. Óbærilegt verður þó ástandið þegar honum verður ljóst að bestu vinir hans hafa verið fengnir til að njósna um hann.

Höfundur og leikstjóri: Bergur Þór Ingólfsson Leikmynd og búningar: Sigríður Sunna Reynisdóttir Tónlist: Kristjana Stefánsdóttir Lýsing og hljóð: Garðar Borgþórsson Leikarar: Sigurður Þór Óskarsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir og Kristjana Stefánsdóttir

Sorgin yfir föðurmissi, óttinn við að missa móður og brostið traust til vina. Eitt þessara áfalla ætti að vera nóg til að trufla tilfinningalíf fullorðinnar manneskju – hvað þá ungrar sálar. Hér verður þó leikið á als oddi, enda býr hugarheimur barna yfir ótal verkfærum til að takast á við sjokk, sorgir – og jafnvel stríð. Það gerir leikhúsið líka.

„Hér vinnur allt saman eins og best verður á kosið. Sigur fyrir Berg Þór Ingólfsson sem sýnir með stórskemmtilegri, hugmyndaríkri og kröftugri leiksýningu hversu öflugur leikhúsmaður hann er.“

„Þetta er leikhús í sinni bestu mynd, óaðfinnanlegur leikur, sterkt handrit, góð leikstjórn og tæknivinna til fyrirmyndar. Sýningin er glæsileg, fyndin og forvitnileg, og höfðar jafnt til foreldra sem barna.“ B.L. pressan.is

Bergur Þór Ingólfsson, leikstjóri Galdrakarlsins í Oz og Mary Poppins, færði þennan merka harmleik á svið í fyrra og fékk sýningin Grímuverðlaun sem barnasýning ársins.

„Leikhúsið bókstaflega blómstrar í öllu sínu litlasviðsveldi þar sem hugmyndaflugið og ástin á leikhúsinu er alltaf við völd. Glimrandi míní Hamlet“

Gríman 2014 Barnasýning ársins

J.B.G. Fréttablaðið

H.A. DV

Litla sviðið



Meira! Meira! Meira! Meira! Meira! Meira! Meira!

FIMM ROKKSTJÖRNU LEIKHÚSBRJÁLÆÐI Á STÓRA SVIÐINU 32

„Krafturinn og ákefðin í sýningunni var áþreifanleg hún var beinlínis dáleiðandi. Annað í sýningunni var eftir þessu. Hvílík skemmtun!“ J. S. Fréttablaðið

Sýningar hefjast í lok sept. 2014 Höfundar: Skálmöld og leikhópurinn Leikstjóri: Halldór Gylfason Leikmynd og búningar: Móeiður Helgadóttir Lýsing: Gísli Bergur Sigurðsson Tónlist: Skálmöld Hljóð: Flex Flytjendur: Björgvin Sigurðsson, Baldur Ragnarsson, Gunnar Ben, Jón Geir Jónsson, Snæbjörn Ragnarsson, Þráinn Árni Baldvinsson, Guðjón Davíð Karlsson, Hilmar Guðjónsson og Hildur Berglind Arndal

Þungarokkararnir í Skálmöld ætla aftur að henda leikmyndunum út af Stóra sviði Borgarleikhússins eins og í fyrra er þeir sýndu sex sýningar fyrir troðfullu húsi. Eins og þá munu þeir rífa göt á búninga leikaranna og hækka í Marshall mögnurunum. Skálmöld og listafólk Borgarleikhússins taka höndum saman og magna upp norrænan seið með vænum skammti af þungarokki maríneruðum í leikhúsinu. Sagan er Baldur, sem Skálmöld rakti svo listilega á samnefndum diski sveitarinnar og gerði hálfa þjóðina að þungarokkurum. Baldur verður fluttur í heild sinni af hljómsveitinni og leikurunum Hilmari Guðjónssyni, Hildi Berglindi Arndal og Guðjóni Davíð Karlssyni.

Hljómsveitin Skálmöld hefur vakið mikla athygli og aðdáun fyrir plötur sínar, Baldur og Börn Loka sem sækja innblástur í þungarokk annars vegar og norrænar goðsögur hins vegar. Plöturnar mynda hvor um sig eina heild, lögin og textarnir eru samhangandi saga og textarnir allir kirfilega ortir samkvæmt íslenskum bragarháttum. Hljómsveitin hélt útgáfutónleika í Háskólabíói við gríðarlega góðar undirtektir og sérstaka athygli vakti leikrænn og sjónrænn þáttur tónleikanna.

„Skálmaldarpiltar rokkuðu fyllingarnar úr tönnum hvers einasta túla í Borgarleikhúsinu fimm stjörnu veisla fyrir aðdáendur þessarar æðislegu sveitar.“ S.M.J. DV

Stóra sviðið



Nýtt og krassandi verk eftir Kristínu Eiríksdóttur

34

ÞRJÁR VINKONUR SEM ERU EKKI VINIR Á FACEBOOK HITTAST OG DREKKA LANDA

- Segðu mér, getur verið að ... kúkaðirðu á stofugólfið? - Nei? - Þetta er ekkert úr hundinum. Ég veit alveg hvernig þetta sem kemur úr hundinum lítur út og þetta er ekkert úr hundinum. Þetta er mannakúkur.

Frumsýnt um miðjan mars 2015 Höfundur: Kristín Eiríksdóttir Leikstjóri: Ólafur Egill Egilsson Leikmynd og búningar: Eva Signý Berger Lýsing: Kjartan Þórisson Tónlist: Högni Egilsson Hljóð: Baldvin Magnússon Leikarar: Arndís Egilsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir og Birgitta Birgisdóttir

Dagný, Begga og Lilja voru bestu vinkonur í grunnskóla. Þegar þær voru fimmtán ára hættu þær að tala saman. Síðan eru liðin tuttugu ár. Þær mætast stundum á förnum vegi: í Melabúðinni, á Ægisíðunni eða í ræktinni úti á Nesi. Þær brosa, kinka kolli, segja: Sæææl ... en hendurnar dofna og þær verkjar í hjartað. Dagnýju finnst kominn tími til að þær hittist svo hún sendir Beggu og Lilju skilaboð á Facebook og býður þeim heim til sín í kaffi. Hana langar til að hreinsa andrúmsloftið en Beggu finnst ekki vera hægt að taka til í minningum annarra og Lilja man ekki neitt.

Kristín Eiríksdóttir er myndlistarmenntaður rithöfundur. Fyrsta bókin hennar, Kjötbærinn, kom út árið 2004. Á eftir fylgdu svo ljóðabækurnar Húðlit auðnin (2006) og Annarskonar sæla (2008). Árið 2010 kom út smásagnasafnið Doris deyr og haustið 2012 sendi hún frá sér sína fyrstu skáldsögu, Hvítfeld – fjölskyldusaga. Hún hefur einnig skrifað tvö leikrit: Karma fyrir fugla ásamt Kari Ósk Grétudóttur, sem frumsýnt var í Þjóðleikhúsinu í febrúar 2013 og Skríddu sem sett var upp í Borgarleikhúsinu í apríl 2013.

Litla sviðið Í samstarfi við Sokkabandið



Urrandi fersk háðsádeila frá einu merkasta og umtalaðasta leikskáldi Evrópu

36

HVAÐ ÞURFUM VIÐ EIGINLEGA AÐ BURÐAST LENGI MEÐ AFRÍKU Á SAMVISKUNNI? Hvað getum við gert? Hvað halda þau að þau séu? Hvað halda þau að við séum? Hvað höldum við að við séum?

Frumsýnt um miðjan apríl 2015 Höfundur: Roland Schimmelpfennig Leikstjóri: Vignir Rafn Valþórsson Þýðing: Hafliði Arngrímsson Leikmynd og búningar: Anna Rún Tryggvadóttir Lýsing: Þórður Orri Pétursson Tónlist og hljóð: Garðar Borgþórsson Leikarar: Maríanna Clara Lúthersdóttir, Valur Freyr Einarsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir, og Hjörtur Jóhann Jónsson

Fyrir sex árum útskrifuðust tvö pör saman úr læknanámi. Þau voru bestu vinir og gerðu allt saman. En svo skildu leiðir. Lísa og Frank fengu góðar stöður á hátæknispítalanum hér heima og lifa góðu lífi: eiga stóra íbúð, fínan bíl og litla dóttur. Katrín og Marteinn fóru aftur á móti til Afríku til starfa sem læknar án landamæra. Þau eiga ekkert. Nú eru þau loks komin heim og það kallar á endurfundi. En hversu mikið eiga pörin ennþá sameiginlegt? Geta Lísa og Frank einhvern tímann sýnt ástandinu í Afríku skilning? Geta Katrín og Marteinn áttað sig á allri þeirri pressu sem hvílir á okkur sem heima sitjum? Það geta ekki allir bara farið og bjargað heiminum! Og hvernig gátu þau skilið eftir litlu munaðarlausu

stelpuna sem búið er að eyða svo miklum peningum í að bjarga? Af hverju tóku þau hana ekki með sér heim? Hver á núna að fá Peggy Pickit? Siðferði, ábyrgð, samviskubit, vanmáttur, samkennd og nýjasta útgáfan af hinni geysivinsælu Peggy Pickit dúkku. Roland Schimmelpfennig er þekktasta samtímaleikskáld Þjóðverja. Leikrit hans hafa verið sýnd um allan heim og einkennast af óvæntri sýn á mannfólkið. Eitt af megineinkennum leikrita hans er hvernig hann vinnur með tímann og endurtekninguna, og reynir þannig skemmtilega á þanþol leikhússins. Peggy Pickit sér andlit Guðs er hluti þríleiks um Afríku sem saminn var fyrir Vulcano-leikhúsið í Toronto, Kanada árið 2010 og tileinkaður flóknu sambandi álfunnar og hins vestræna heims.

Litla sviðið


sér ANDLIT guÐs


Hvað er fullkomin kona í augum samfélagsins í samanburði við hina fullkomnu meri?

38

NÝTT ÍSLENSKT DANSVERK UM DÁSAMLEGA DRAMATÍSKAR, VILLTAR OG VIÐKVÆMAR SKEPNUR

Frumsýnt í lok ágúst 2014 Höfundar: Steinunn Ketilsdóttir og Sveinbjörg Þórhallsdóttir Búningar og útlit: Jóní Jónsdóttir Tónlist: Andrea Gylfadóttir Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason Dansarar: Díana Rut Kristinsdóttir, Elín Signý W. Ragnarsdóttir, Eydís Rose Vilmundardóttir, Gígja Jónsdóttir, Halla Þórðardóttir, Saga Sigurðardóttir, Snædís Lilja Ingadóttir, Valgerður Rúnarsdóttir, Védís Kjartansdóttir

Verkefnið er styrkt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu og sýnt á Reykjavík Dance Festival.

Í dansverkinu Reið stíga á svið níu flóknar skepnur. Glæsilegar, ljósar yfirlitum, holdugar, loðnar og gljáandi. Dásamlega dramatískar, skapmiklar, villtar og viðkvæmar. Þær eru með tígulegan limaburð, langan háls, sterka leggi, breið bök og mjúkar línur. Þægar en óútreiknanlegar, varar um sig, þolinmóðar og gáfaðar. Tillitssamar, kærleiksríkar, kynæsandi og kraftmiklar. Þetta eru hraustar, frjóar og geðþekkar gyðjur.

Í dansverkinu Reið skoða dans­ höfundarnir Steinunn Ketilsdóttir og S­ veinbjörg Þórhallsdóttir hvar mörkin liggja á milli konunnar og hryssunnar og hvernig þær endurspegla hvor aðra. Samlíking konunnar og hryssunnar býður upp á margar spaugilegar myndir en getur um leið varpað ljósi á önnur og jafnvel dekkri málefni lífsins og kveikt spurningar um eðli

náttúrunnar og grunnþarfir bæði manna og skepna; kærleika, umhyggju, samstöðu, samkeppni, o.s.frv. Jafnframt varpar verkið ljósi á það sem menn og skepnur eiga sameiginlegt, hvað tekist er á um og hvernig hegðun þeirra er innan hóps sem og utan hans. Jafnframt beinir verkið sjónum að náttúrulegum sérkennum kvendýrsins og fegurðinni sem felst í því að vera kona, móðir, vinkona, systir, eiginkona eða gyðja.

Stóra sviðið


REIÐ


Margverðlaunað meistarastykki sem kemur öllum í gott jólaskap

40

sýning ársins og leikverk ársins Menningarverðlaun DV

LÁTTU TRÚÐANA FÆRA ÞÉR JÓLIN

Sýningar hefjast í lok nóv. 2014

Höfundar: Benedikt Erlingsson, Bergur Þór Ingólfsson, Halldóra Geirharðsdóttir, Kristjana Stefánsdóttir og Snorri Freyr Hilmarsson Leikstjóri: Benedikt Erlingsson Leikmynd og búningar: Snorri Freyr Hilmarsson Tónlist: Kristjana Stefánsdóttir Lýsing: Kjartan Þórisson Hljóð: Ólafur Örn Thoroddsen Leikarar: Bergur Þór Ingólfsson, Halldóra Geirharðsdóttir og Kristjana Stefánsdóttir

Við erum stödd í Palestínu á því herrans ári núll. Rómverjar hafa sölsað undir sig landið og Heródes er settur landsstjóri. Þegar spyrst út að frelsari muni fæðast í landinu kemur tilskipun frá honum um að myrða skuli öll sveinbörn, tveggja ára og yngri.

Öll vitum við að Jólaguðspjallið er einstaklega fallegt og hátíðlegt, en það er ekki síður átakanlegt. Trúðarnir láta allt flakka, umbúðalaust. Þeim er ekkert óviðkomandi, þeir velta við öllum steinum, snúa öllu á hvolf og segja allan sannleikann – og ekkert nema sannleikann. Jafnvel þótt hann sé grimmur. Eða fyndinn.

„Þetta er það langbesta sem sést hefur á fjölum leikhúsanna í haust“ J.V.J. DV

„Ég skora á fólk að fara í leikhúsið og sjá Jesús litla“ G.B. Morgunblaðið

„Ástarþökk fyrir ógleymanlegt kvöld“ S.A. TMM

Gríman 2010 Leikskáld ársins Sýning ársins Menningarverðlaun DV

Litla sviðið


Bestu vinkonur barnanna stytta biðina eftir jólunum

JÓLAHÁTÍÐ SKOPPU OG SKRÍTLU

Dansandi dádýr, svífandi stjörnur, elskandi englar og nýfallinn snjór

Sýningar hefjast í lok nóv. 2014 Höfundur: Hrefna Hallgrímsdóttir Leikstjóri: Þórhallur Sigurðsson Leikmynd: Ólafur Jónasson Búningar: Gunnhildur Þorsteinsdóttir Lýsing: Garðar Bergþórsson Tónlist: Hallur Ingólfsson Myndvinnsla: Bragi Þór Hinriksson Hljóð: Ólafur Örn Thoroddsen Leikarar: Linda Ásgeirsdóttir, Hrefna Hallgrímsdóttir, Vigdís Gunnarsdóttir, Viktor Már Bjarnason og Einar Karl Jónsson

Í samstarfi við Skoppu og Skrítlu

Í aðdraganda jóla halda Skoppa og Skrítla mikla hátíð til að bjóða sjálfan jólasveininn velkominn til byggða. Hann kemur til að aðstoða þær við að fagna hátíð ljóss og friðar og búa til gjafir fyrir alla góðu vinina. Þegar undirbúningur hátíðarinnar stendur sem hæst og leikhúsgestir hafa samið og æft atriði, banka óvæntir gestir upp á, því jólasveinninn á í stökustu vandræðum! Nú reynir á hversu úrræðagóðar Skoppa og Skrítla eru ... Skoppa og Skrítla hafa verið í uppáhaldi hjá yngstu kynslóðinni um árabil, hvort sem er í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum, tónlist eða leiksýningum. Þær hafa verið áberandi í Borgarleikhúsinu undanfarin ár en bjóða nú í fyrsta sinn til jólaskemmtunar. Sýningarnar Skoppa og Skrítla á tímaflakki og Skoppa og Skrítla í leikhúsinu slógu báðar í gegn og voru sýndar við geysigóðar viðtökur.

„Litríkir boðberar kærleika og gleði” S.G. Morgunblaðið

„Skoppa og Skrítla eru bestu vinir yngstu barnanna og það er ekki nema von. Þær skilja hvað þau vilja og gefa þeim það í formi tónlistar, gleði og hláturs.” H.L. Morgunblaðið

„Framlag Skoppu og Skrítlu til barnamenningar er bæði þarft og kærkomið en þær hafa einsett sér að höfða til barna allt frá 6 mánaða aldri.” H.L. Morgunblaðið

Nýja sviðið


Orri Páll Ormarsson ræðir við Birgi Sigurðsson

„GOTT LEIKRIT ER LIFANDI ANDLEGUR ORGANISMI“

42

Nýtt leikrit eftir Birgi Sigurðsson, Er ekki nóg að elska?, verður frumsýnt í Borgarleikhúsinu í vetur í leikstjórn Hilmis Snæs Guðnasonar. Efnið hefur brotist um í höfði höfundar í þrjá áratugi en lengi vel fann hann ekki hvernig hann gæti tekið á skepnunni. Birgir, sem ætlaði að verða ljóðasöngvari, ræðir hér meðal annars um höfundarferil sinn, farveg sköpunarinnar, gagnrýni, breytta tíma og kýrnar á Korpúlfsstöðum.

Nöfn tveggja listamanna eru á hurðinni, Birgis Sigurðssonar og Gunnlaugs Scheving. Manna sem báðir hafa snert strengi í brjóstum Íslendinga með verkum sínum. Hvor á sinn hátt. Eins og við var búist kemur Birgir til dyra. Dagar Gunnlaugs í þessu húsi eru löngu liðnir. Skáldið heilsar glaðlega og býður gesti sínum upp á efri hæðina. Þakgluggarnir færa okkur til að byrja með birtu og yl en við erum ekki fyrr sestir að spjalli en regnið tekur að hamast á þeim. Gefur engin grið. Þetta er nú einu sinni Ísland. Tilefni heimsóknarinnar er nýtt leikrit eftir Birgi sem frumsýnt verður í Borgarleikhúsinu í vetur, Er ekki nóg að elska? Það fyrsta sem frá honum kemur í nokkurn tíma. Þar á undan skrifaði Birgir leikritið Dínamít, 2005, og sjálfsævisögulegu smásögurnar Prívat og persónulega, 2009. „Þá var ég orðinn illilega veikur í baki. Ég gat varla setið við skriftir í fjögur ár en er orðinn alveg sæmilegur núna. Þannig séð.“ Meginkjarninn í Er ekki nóg að elska? hefur brotist lengi um í höfðinu á Birgi, þrjátíu ár eða svo, en hann fann ekki hvernig hann gæti tekið á skepnunni, eins og hann kemst að orði. „Ég byrjaði tvisvar á þessu leikriti en lagði það frá

mér í bæði skiptin. Efnið lifnaði ekki fyrir mér hvernig sem ég hamaðist. Ég gafst upp. Samt gat ég ekki losnað við það úr hausnum á mér. Árin liðu og þetta var farið að líkjast alvarlegri þráhyggju. En á endanum opnaðist mér leið inn í efnið. Eftir það var engin uppgjöf í mér og leikritið varð til.” Stríðnislegur svipur kemur á Birgi þegar hann er spurður um hvað leikritið fjallar. „Ég ætla ekki að svara því. Ef leikritið er heppnað er það lifandi andlegur organismi; lifir sínu eigin lífi og segir sjálft um hvað það er. Ég ætla ekki að blanda mér í það. Það er alveg nóg fyrir mig að hafa skrifað leikritið.” Söng fyrir kýrnar á Korpúlfsstöðum Já, tilveran getur tekið undarlegustu beygjur og kollsteypur. Birgir veit allt um það. „Ég ætlaði að verða ljóðasöngvari í klassískum skilningi þess orðs. Söng sem barn fyrir kýrnar á Korpúlfsstöðum þegar ég sat yfir þeim í haganum. Þær kunnu sig ekki alltaf sem áheyrendur, blessaðar. Áttu til að míga eða skíta í miðju lagi.“ Hann brosir.

Fimmtán ára gamall byrjaði hann að skrifa. Án þess þó að gefa sönginn upp á bátinn. „Þetta var eilíf togstreita: Átti ég að skrifa? Átti ég að syngja? Það háði mér við skriftirnar að ég var sjúklega sjálfsgagnrýninn. Rýndi í hvert einasta orð og gaf mér aldrei tækifæri til að láta gamminn geisa og skrifa af hjartans list. Þegar ég var átján eða nítján ára birtist fyrsta ljóðið mitt í menningarriti sem nefndist Dagskrá. Það varð ekki langlíft, komu ekki út nema þrjú tölublöð, minnir mig. Svo skemmtilega vildi til að við systkinin, Ingimar Erlendur, Sigríður Freyja og ég, áttum öll skáldskap í þessu riti.“ Eftir það hætti Birgir að hugsa um skáldskap og sneri sér að söngnum. Stundaði söngnám hjá söngkonunni Engel Lund sem kenndi við Tónlistarskólann í Reykjavík. Lærði jafnframt tónfræði og hljómfræði, m.a. hjá Jóni Þórarinssyni tónskáldi. Hélt síðan til Amsterdam í framhaldsnám. Hann var lýrískur baríton og stundaði námið af miklu kappi. Dag einn réðust örlög hans á annan veg en hann hugði. „Ég fór í bíó. Þetta var um miðjan dag og ég var einn í salnum. Myndin, Dr. Zhivago, hafði undarleg áhrif á mig. Ég


ráfaði út úr kvikmyndahúsinu, rakst á bókina, sem myndin er gerð eftir, á standi fyrir utan bókabúð, keypti hana og greip með mér inn á næstu bjórkrá. Áður en ég vissi var ég byrjaður að yrkja á spássíurnar. Eftir það réð ég ekki neitt við neitt. Ég orti dag og nótt. Þvert gegn vilja mínum. Þetta var algjör kollsteypa.“

hleypir Birgir brúnum. „Ég hef enga skoðun á því. Svona er þetta bara. Ég skrifa ekki leikrit nema það sæki á mig. Ég ætlaði aldrei að verða leikskáld eingöngu. Get ómögulega fest mig í ákveðnum farvegi. Þegar ég var ungur vann ég allskonar störf, til sjós og lands. Sem rithöfundur hef ég skrifað allskonar verk.“

Hann sagði söngkennara sínum að náminu væri lokið. Hann yrði að yrkja. Þegar hann sneri heim frá Amsterdam var hann með sína fyrstu bók í farteskinu, ljóðabókina Réttu mér fána. Þetta var árið 1968 og Birgir 31 árs.

Talið berst að viðtökum og Birgir segir að góðar viðtökur gleðji hann. Það sé þó ekkert úrslitaatriði. Hitt sé mikilvægara að verkið nái til áhorfenda og að það snerti þá. „Þegar ég hef verið viðstaddur sýningu á verkum mínum hef ég nokkrum sinnum upplifað ótrúlega mikla lífstilfinningu; þegar bilið milli áhorfenda og þess sem fram fer á sviðinu hverfur og þetta ólýsanlega djúpa og hlustandi andartak verður til. Hafi maður upplifað slíkt andartak þráir maður það alla tíð síðan.“

„Ég orti síðan tvo ljóðaflokka við tónlist eftir Gunnar Reyni Sveinsson; Alþýðuvísur um ástina og Á jörð ertu kominn. Ég ætlaði að skrifa skáldsögur en mér lukkaðist það ekki á þessum tíma. Ég gat ekki heldur ort lengur og leið bölvanlega. Ég var á þessum tíma skólastjóri í Gnúpverjahreppi og var fenginn til þess að setja upp þætti úr Kristnihaldi undir Jökli á þorrablóti. Þegar ég byrjaði að æfa leikarana fann ég allt í einu með algjörri fullvissu að ég gæti skrifað leikrit. Ég hafði alltaf lesið mikið, meðal annars mörg leikrit eftir helstu leikskáld heimsins. Ég sá líka helstu leiksýningar sem voru í boði í Reykjavík. Það hafði samt aldrei hvarflað að mér að skrifa leikrit. En vorið eftir þorrablótið góða í Ásaskóla í Gnúpverjahreppi fór ég til Stykkishólms til þess eins að skrifa leikrit. Ég valdi Stykkishólm af því að þar þekkti ég ekki nokkra sálu.” Fyrstu verðlaun Þetta fyrsta leikrit Birgis nefndist Pétur og Rúna. Þegar hann var langt kominn með að skrifa leikritið heyrði hann fyrir tilviljun að Leikfélag Reykjavíkur stæði fyrir leikritasamkeppni í tilefni af 75 ára afmæli sínu. Honum tókst með naumindum að ljúka við verkið áður en skilafresturinn rann út. Það var eins gott því hann fékk fyrstu verðlaun ásamt Jökli Jakobssyni sem þá var þekktasta leikskáld þjóðarinnar. „Það var auðvitað mög gott fyrir mig,“ segir Birgir. Er ekki nóg að elska? er áttunda leikrit Birgis. Þekktasta verk hans er Dagur vonar, 1987. Spurður hvort hann sé sáttur við þessi afköst

„Ég skrifa ekki leikrit nema það sæki á mig“ Þegar Birgir er spurður hvort hann taki mark á gagnrýni segir hann: „Ég hef fengið óskaplega góða gagnrýni og líka óskaplega vonda. Jafnvel fyrir sama verkið. Dagur vonar fékk til dæmis mikið hrós, bæði hér heima og erlendis; meistaraverk sögðu sumir en aðrir voru ekki sammála: „H åbets dag, nej tak!“ sagði danskur gagnrýnandi. Í leikriti mínu Selurinn hefur mannsaugu er persóna sem kölluð er Gamli. Einn gagnrýnandi sagði: Hver trúir á svona persónu? Annar sagði Gamli er stórkostleg persóna. Á hverjum þessara gagnrýnenda á ég að taka mark? Svarið er einfalt: Ég tek mark á sjálfum mér! Það er auðvitað áhætta en það er ennþá meiri áhætta að taka meira mark á öðrum en sjálfum sér.“ Tímarnir hafa sannarlega breyst „Þetta er erfið spurning,“ dæsir Birgir þegar spurt er hvort íslenskt leikhús sé betra eða verra en þegar hann kom fyrst fram á sjónarsviðið fyrir rúmum fjórum áratugum. „Ég get ekki lagt mat á það en tímarnir hafa

sannarlega breyst mikið, bæði til hins betra og verra. Það á jafnt við um leikhúsið og samfélagið. Það sem breyst hefur til hins betra hvað varðar leikhús er það að við eigum fleiri góða leikhúslistamenn í dag en við áttum fyrir fjörutíu árum. Leikhúsin búa líka yfir margfalt betri og fjölbreyttari tækni til að koma leikverkum til skila. Þessi aukna tækni getur vitanlega aukið hættu á yfirborðsmennsku og innihaldsleysi. Þetta á raunar ekki einungis við um leikhús heldur allar listgreinar: Allir listamenn verða sífellt að vera á verði, bæði gagnvart sjálfum sér, öðrum og öðru. Standa vörð um lífssannindin í sjálfum sér. Um tækni í leikhúsi gildir það mest að hún þarf að vera þjónn leikverksins, dýpka en ekki grynnka sýninguna.“ „Ef horft er til baka svo sem eins og hundrað og fimmtíu ár sést að ýmsar áherslubreytingar hafa orðið í leikhúslífinu á Vesturlöndum,“ segir Birgir. Fyrst hafi allt snúist um prímadonnuna, aðalkvenleikarann. Síðan varð leikskáldið alfa og ómega leikhússins, þá leikstjórinn og nú séu vísbendingar um að „leikhópurinn“ sé að verða miðlægur í leikhúsinu: „Hér er átt við leikhóp sem semur sjálfur eða hefur textahöfund á sínum snærum, leikstýrir sjálfum sér og hefur á hendi margt annað sem viðkemur leiksýningu,“ segir Birgir. „Slíkar sýningar eiga auðvitað rétt á sér. En ekki nema að vissu marki. Því verði þessi aðferð að tískuafli getur hún skaðað leikhúsið. Ástæðan er sú að þessar sýningar ná sjaldan, kannski aldrei, dramatískum slagkrafti eða dýpt. Öll list sem hefur raunverulega dýpt er persónuleg: Gott leikskáld, góður leikstjóri, góður leikari, góður leikmyndahönnuður, góður ljósameistari, góður búningahönnuður o.s.frv. leggur fram alla sína persónulegu sálarorku, alla sína reynslu, persónulegu sérþekkingu og persónulegu listrænu sýn svo þessi dýpt og slagkraftur skili sér til áhorfenda. Þannig verður til dýrmæt sýning. En ekki með því að svo til allir séu að vasast í öllu. Síðan held ég að það sé rétt að hafa eftirfarandi í huga framar ýmsu öðru: Gott leikrit er ekki texti. Gott leikrit er lifandi andlegur organismi. Slíkt verk verður aldrei skrifað af textahöfundi. Það verður aðeins skrifað af leikskáldi. – Og lýkur þar með þessari predikun.“


NÝ ANDLIT HALDA LEIKHÚSINU FERSKU OG ORKURÍKU

NNNNNNNNNNNNNNNN BORGARLEIKHÚSIÐ HEFUR FENGIÐ TIL LIÐS VIÐ SIG SEX NÝJA LEIKARA: BJÖRN THORS, HILMI SNÆ GUÐNASON, HJÖRT JÓHANN JÓNSSON, KÖTLU MARGRÉTI ÞORGEIRSDÓTTUR, MARÍÖNNU CLÖRU LÚTHERSDÓTTUR OG ÞÓRUNNI ÖRNU KRISTJÁNSDÓTTUR.

Hrafnhildur Hagalín hefur verið ráðin sem handrita- og sýningadramatúrg. Hún mun skrifa leikrit, laga skáldsögur og kvikmyndir að leiksviðinu og veita höfundum listræna ráðgjöf. Ráðning Hrafnhildar er liður í viðleitni nýs leikhússtjóra til að styrkja íslenska leikritun.

Tyrfingur Tyrfingsson verður áfram leikskáld Borgarleikhússins. Yfirleitt hafa leikskáldin okkar staldrað stutt við, nokkra mánuði upp í eitt ár, og svo flögrað úr hreiðrinu. Að þessu sinni langaði okkur að virkja hið unga og efnilega skáld enn frekar og leyfa Tyrfingi að taka áframhaldandi þátt í verkefnavali leikhússins og stefnumörkun þess.

Alexía Björg Jóhannesdóttir er kynningarfulltrúi Borgarleikhússins. Hún er með BA-gráðu í leiklist frá Arts Educational í London. Hún hefur starfað við kynningarmál fyrir ýmsa sjálfstæða leikhópa meðfram leiklistinni en hún mun stíga á stokk í vetur þegar kynfræðsla Pörupilta hefst aftur á Litla sviðinu.

Hlynur Páll Pálsson er nýr listrænn ráðunautur leikhússins. Hlynur hefur áður starfað við leikhúsið sem sýningarstjóri. Hann er í sviðslistahópnum 16 elskendur og hefur víðtæka reynslu af hefðbundnu leikhúsi og framsæknu.

Ilmur Stefánsdóttir hefur verið fastráðin sem leikmyndahönnuður við Borgarleikhúsið. Hún hefur hannað leikmyndir og unnið að myndlist sinni árum saman og er einn stofnenda CommonNonsense sem gerði m.a. verðlaunasýninguna Tengdó og rútugjörninginn Routeopiu. Ilmur mun jafnframt taka þátt í verkefnavali leikhússins.

Jón Þorgeir Kristjánsson er nýr markaðsstjóri leikhússins. Jón Þorgeir hefur starfað í leikhúsi um árabil. Hann hefur tekið þátt í uppsetningu fjölda leiksýninga í flestöllum leikhúsum landsins sem ljósahönnuður, sviðshönnuður, verkefnastjóri og grafískur hönnuður. Síðastliðin ár hefur hann unnið í markaðsdeild Borgarleikhússins og tekur nú við stöðu markaðsstjóra. Jón Þorgeir lauk BA-gráðu í grafískri hönnum frá Listaháskóla Íslands og leggur nú stund á MBA-nám í Háskólanum í Reykjavík.


LÍFLEGT OG FJÖRUGT FRÆÐSLUSTARF Markmið fræðsludeildar Borgarleikhússins er að opna leikhúsið á nýjan hátt fyrir ungum jafnt sem öldnum og vekja þannig áhuga nýrra kynslóða og nýrra áhorfenda. Leikskóla- og grunnskólanemendum er boðið í ævintýralegar skoðunarferðir og skemmtileg fyrirlestraröð ætluð framhaldsskólum Reykjavíkur er í bígerð. Þá eru reglulega haldnar skoðunarferðir og starfskynningar samkvæmt óskum, auk þess sem margvíslegt efni tengt sýningum er gefið út.

UPPISTAND UM ÞAÐ SEM ALLIR ERU AÐ SPÁ Í

GRUNNSKÓLANEMENDUR SKOÐA LEIKHÚSIÐ

LEIKSKÓLABÖRN MEGA HEIMSÆKJA UNDRAVERÖLD LEIKHÚSSINS

Á hverju ári er öllum nemendum í 5. bekkjum grunnskóla Reykjavíkur boðið að eyða stórskemmtilegum morgni í Borgarleikhúsinu þar sem tækifæri gefst til að skoða leikhúsið, sjá leiksýningu og taka þátt í leiksmiðju. Sú sýning sem boðið verður upp á í haust var samin fyrir þetta tilefni í fyrra. Hún nefnist Hamlet litli og hlaut í vor Grímuverðlaunin sem barnasýning ársins 2014.

Vegna fjölda áskorana hafa Pörupiltar og Borgarleikhúsið ákveðið að endurtaka leikinn í ár og halda áfram að fræða 10. bekkinga borgarinnar um það sem allir eru að spá í. Þessar heimsóknir heppnuðust mjög vel á síðasta leikári þegar 10. bekkingum í Reykjavík var boðið að sjá uppistandið Kynfræðsla Pörupilta, en Pörupiltar hafa troðið upp víða um heim á síðustu árum og velt fyrir sér samskiptum kynjanna við ósvikna kátínu áhorfenda.

Elstu börnum allra leikskóla Reykjavíkur verður boðið að kynnast leikhúsinu og töfrum þess. Á síðasta leikári komu hátt í annað þúsund leikskólabarna í heimsókn og könnuðu undraveröld leikhússins á fjörugan hátt og uppgötvuðu að „það er allt hægt í leikhúsi!“, eins og eitt þeirra orðaði það svo skemmtilega.

NÁMSKEIÐ Í SAMSTARFI VIÐ ENDURMENNTUN Í tengslum við uppsetningu á Dúkkuheimili eftir Henrik Ibsen efnir Endurmenntun HÍ til námskeiða í samstarfi við Borgarleikhúsið.

Rýnt verður í verkið, baksvið þess og hugarheim, auk þess sem þátttakendum verður boðið á æfingar þar sem þeim gefst tækifæri til að hitta aðstandendur sýningarinnar. Skráning er hjá Endurmenntun í síma 525 4444 og á www. endurmenntun.is

WORKSHOP FOR IMMIGRANTS On popular demand, Borgarleikhúsið will be offering a theatre workshop for immigrants again next season. Participants will develop tools for expression through physicality and

language used in a creative way. The workshops will be held from September 11th to April 30th every Wednesday at 18:30. No language skills are required. For further information please send an e-mail to aude@borgarleikhus.is

FRÆÐSLUDEILDIN ER FYRIR ÞIG OG ALLA HINA Auk skipulagðrar dagskrár kappkostar fræðsludeildin að sinna eftir fremsta megni öllum þeim sem áhuga hafa á að fræðast meira um starfsemi leikhússins. Fræðslufulltrúi leikhússins, Ástrós Elísdóttir, svarar öllum spurningum með glöðu geði! Hún er með netfangið astros@borgarleikhus.is


Við gerum Borgarleikhúsið skemmtilegra! 46



VERTU MEÐ Í ÁSKRIFT! FJÓRAR SÝNINGAR Á AÐEINS 14.500 KR. ÁSKRIFTARKORT ER ÁVINNINGUR

VERTU MEÐ OKKUR Í VETUR

• 30% afsláttur af miðaverði • Öruggt sæti á þær leik- og danssýningar sem þig langar að sjá • Betri kjör á gjafakortum og viðbótarmiðum • Afsláttur af varningi sem seldur er í miðasölu • Afsláttur af menningarviðburðum hjá samstarfsaðilum • Miðasala reynir ávallt að hliðra til dagsetningum ef þær henta þér ekki

Þú kaupir áskriftarkort og velur fjórar sýningar sem þú vilt sjá. Ef það nægir ekki þá færðu þér bara annað kort og velur fleiri af þeim fjölmörgu sýningum sem verða á fjölunum í vetur.

ÁSKRIFT Á AÐEINS

9.900KR FYRIR UNGT FÓLK

VIÐ SENDUM ÞÉR SMS! 25 ára og yngri fá áskriftarkort á kostakjörum, aðeins 9.900 kr. fyrir fjórar sýningar að eigin vali.

Ekki hafa áhyggjur af því að gleyma hvenær þú átt miða í leikhúsið. Við látum þig vita með SMS. Mundu bara að skrá GSM númerið þitt þegar þú gengur frá áskriftinni.

ÞRJÁR GÓÐAR LEIÐIR TIL AÐ NÁLGAST ÁSKRIFTARKORT: Þú hringir í síma 568 8000, gengur frá kaupunum og færð kortið sent heim. • Á borgarleikhus.is er einfalt að ganga frá áskrift og þú færð kortið sent heim. • Líttu inn til okkar í leikhúsið við Listabraut. Við tökum vel á móti þér! •


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.