William Shakespeare
Hamlet Í nýrri útgáfu Jóns Atla Jónassonar og Jóns Páls Eyjólfssonar
Borgarleikhúsið 2013 / 2014
Persónur og leikendur Hamlet, prins af Danmörku . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Ólafur Darri Ólafsson Claudius, Danakonungur, föðurbróðir Hamlets / Svipurinn. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Hilmar Jónsson Gertrude, Danadrottning, móðir Hamlets, nú eiginkona Claudiusar . . . . . . . . . . . . . . . . . Elva Ósk Ólafsdóttir Polonius, ráðgjafi Claudiusar konungs . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Jóhann Sigurðarson Ophelia, dóttir Poloniusar / Fortimbras, Noregsprins. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Hildur Berglind Arndal Laertes, sonur Poloniusar / Leikari. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Hilmar Guðjónsson Horatio, trúnaðarvinur Hamlets. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Hjörtur Jóhann Jónsson Guildenstern, hirðmaður og fyrrum skólabróðir Hamlets / Grafari / Leikari . . . . . . . . . . . . Halldór Gylfason Rosenkrantz, hirðmaður og fyrrum skólabróðir Hamlets / Grafari / Leikari / Reynaldo, þjónn Poloniusar. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Sigurður Þór Óskarsson
Þýðing . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Helgi Hálfdanarson, Jón Atli Jónasson Leikstjórn. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Jón Páll Eyjólfsson Dramatúrg, aðstoðarleikstjórn. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Jón Atli Jónasson Leikmynd. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Ilmur Stefánsdóttir Búningar. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . María Ólafsdóttir Lýsing . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Björn Bergsteinn Guðmundsson Tónlist. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Úlfur Eldjárn Leikgervi . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Árdís Bjarnþórsdóttir Hljóð . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Baldvin Þór Magnússon
Borgarleikhúsið 2013–2014
4
Sýningarstjórn Ingibjörg Elva Bjarnadóttir
Hljóðdeild Ólafur Örn Thoroddsen Thorbjørn Knudsen Baldvin Þór Magnússon
Myndbandshönnun Bragi Brynjarsson
Leikmyndagerð Smíðaverkstæði Borgarleikhússins Zedrus Gunnlaugur Einarsson Ingvar Einarsson Karl Jóhann Baldursson Guðmundur Hreiðarsson.
Aðstoðarmaður leikstjóra Pétur Ármannsson Aðstoð við leikmynd Fanney Sizemore Búningaaðstoð á sýningum Heiðdís Gunnarsdóttir
Leikmunir Móeiður Helgadóttir Nína Rún Bergsdóttir Lárus Guðjónsson Ísold Ingvadóttir Móa Hjartardóttir
Ljósastjórn Gísli Bergur Sigurðsson Bjarni Antonsson Eltiljós Birgitta Ólafsdóttir Elmar Þórarinsson
Ljósadeild Þórður Orri Pétursson Björn Bergsteinn Guðmundsson Garðar Borgþórsson Dusan Loki Markovic
Hljóðstjórn Baldvin Þór Magnússon Þakkir Izabela Malgorzata Wiak Witczak Kornelia Elzbieta Dyszkiewicz
Leiksvið Kjartan Þórisson Friðþjófur Sigurðsson Richard H. Sævarsson Ögmundur Jónsson Þorbjörn Þorgeirsson Haraldur Unnar Guðmundsson Bergur Ólafsson Sigurjón Reynisson
Búningagerð Stefanía Adolfsdóttir Maggý Dögg Emilsdóttir Elma Bjarney Guðmundsdóttir Linda Húmdís Hafsteinsdóttir Heiðdís Norðfjörð Ingunn Lára Brynjólfsdóttir
Hljóðfæraleikur Þverflauta: Kolbeinn Bjarnason Klarinett, bassaklarinett: Guðni Franzson Fagott, kontrafagott: Rúnar Vilbergsson Horn: Emil Friðfinnsson Basúna, bassabásúna: Sigurður Þorbergsson Slagverk: Kjartan Guðnason Semball, elektróník og annað: Úlfur Eldjárn
Leikgervi Margrét Benediktsdóttir, Hulda Finnsdóttir Guðbjörg Ívarsdóttir Harpa Finnsdóttir
Leikskrá: Hamlet er 573. viðfangsefni Leikfélags Reykjavíkur Frumsýning 11. janúar 2014 á Stóra sviði Borgarleikhússins Hamlet (The Tragicall Historie of Hamlet, Prince of Denmarke) var líklega frumflutt árið 1601 Sýningartími er u.þ.b. þrjár klukkustundir. Eitt hlé er á sýningunni. Ljósmyndir eru teknar á æfingum og eru því ekki endanleg heimild um sýninguna.
Ritstjórn: Frank Hall og Hafliði Arngrímsson Útgefandi: Leikfélag Reykjavíkur Leikhússtjóri: Magnús Geir Þórðarson Ljósmyndun: Grímur Bjarnason Útlit: Fíton Umbrot: Jorri Prentun: Oddi
5
Hamlet
HAMLET a.d (hd) 2014
Plottið er meira en fjögur hundruð ára gamalt. En gæti smollið inn í hvaða sápu sem er. Hvaða Hollywood mynd sem er. Leikfang sem fylgir skyndibitamáltíð. Barnahauskúpa úr hættulausu plasti. (Má naga) Klassík. Ljósrit af ljósriti. Hamlet er einnota. Alls staðar og hvergi. Hann er Mikki mús sem kemur að nema land á víkingaskipinu Titanic. Riddari þjóðmenningar. Hann er Sigmundur Davíð að reyna að útskýra misskilning sem hefur komið upp á meðal andstöðu. Hann er misskilningurinn og andstaðan. Hann er sorgmæddur maður á Helsingjaeyri sem mæmar lag með Sigurrós og setur á Youtube. Svo heimurinn heyri í honum. Af því hann er hættur að heyra í heiminum. Heiminum sem er orðinn svo heiðarlegur. Hann er galdramyrkrið á Rás eitt. Orðið sem er gert af anda. Andinn sem er gerður orðinu. Og má ekki mæla framar. Hæfði best að gera um hann varðhring. Hann ætti ekki að ganga laus. Það þarf að gera gangskör að því. Komast að því hvað kvelur hann. Konunglegt innskot í Kastljósi. Hamlet eins og hann er. Á stakhendurófi. Geðveikur. Á kjötinu. Í háskerpu.
Jón Atli Jónasson
Borgarleikhúsið 2013–2014
6
7
Hamlet
William Shakespeare
1564 - 1616
Enginn var í honum; andlit hans sem líkist engu öðru andliti á slæmum málverkum þessara tíma, og orð sem voru margslungin, hamslaus og tilkomumikil, leyndu ekki öðru en votti af kulda, draumi sem engan hafði dreymt. Rúmlega tvítugur að aldri fór hann til Lundúna. Hann var þegar orðinn mjög leikinn í því að látast vera einhver, til þess að aðrir kæmust ekki að því að hann væri í rauninni ekki neinn og í Lundúnum ætluðu örlögin honum starf leikarans sem þykist vera annar en hann er frammi fyrir hópi fólks sem þykist trúa því að svo sé. Starf leikarans veitti honum einkennilega fullnægingu, ef til vill þá fyrstu sem hann kynntist, en ekki voru lokaversin fyrr þögnuð og síðasta líkið flutt burt af sviðinu en miskunnarlaus raunveruleikinn heltók hann á ný. Um leið og hann hætti að vera Ferrex eða Tamberlane varð hann ekki neinn aftur. Í neyð sinni greip hann til þess ráðs að hugsa upp aðrar hetjur og aðrar harmsögur. Og því fór svo, að á sama tíma og hold hans fullnægði þörfum sínum á öldurhúsum og hóruhúsum Lundúna var sálin í brjósti hans Sesar sem sinnir ekki viðvörun spámannsins, Júlía sem hræðist söng lævirkjans og Makbeð, sem talar við skapanornirnar á sléttunni. Enginn hefur verið jafn margir menn og þessi eini maður, sem líkt og Egyptinn Próþeifur gat tekið á sig líki allra fyrirbæra sköpunarinnar. Stöku sinnum laumaði hann játningu inn í verk sín, í góðri trú að enginn myndi ráða í hana; þannig segist Ríkharður leika hlutverk margra og Jagó mælir þau einkennilegu orð að hann sé ekki sá sem hann sé. – Þær eru frægar setningar hans um að tilvist, draumur og leikur væru eitt og hið sama. Sagan segir að fyrir eða eftir dauða sinn hafi hann fundið nálægð Guðs og sagt við Hann: „Ég sem hef verið svo margir menn til einskis vil nú vera einn og ég sjálfur.“ Rödd Herrans svaraði úr stormsveip: „Ekki er ég heldur neinn; mig hefur dreymt veröldina eins og þig dreymdi þitt verk, Shakespeare minn góður, og meðal þess sem birtist í mínum draumi ert þú, sem eins og ég sjálfur ert margur og enginn.“ Jorge Luis Borges (1899-1986)
Borgarleikhúsið 2013–2014
8
9
Hamlet
Gleymið Shakespeare Fyrsta minning mín um Shakespeare er fólk á hreyfingu, leikarar, sem fullir ástríðu leika og láta merkinguna lönd og leið. Svo kom byltingin mikla frá Stratford. Nú stóð „merkingin“, sem gáfumenn rökræddu og greindu, í forgrunni: leikur bundins máls varð hreint, heiðvirkt handverk. Þökk sé nýja skólanum, nú sást hve snjallar, skírar og djúphyggnar þessar gamalkunnu setningar voru. Steypumót var brotið. Þá kom brátt annað vandamál til sögunnar þegar leikarar blönduðu saman bundnu máli og hversdagslegu; þeir álitu að það nægði að tala eins og „í lífinu“. Afleiðingin varð sú að hið bundna mál lamaðist og varð venjulegt við tilviljanakennda og tilfinningasnauða hrynjandi og rangar áherslur, og verkin týndu ástríðu sinni og leyndarmálum og afbrýðisöm leikskáld spurðu hvort Shakespeare væri nú í raun og veru svo miklu betri en þeir sjálfir. Þessu svöruðu hinir lærðu af fullri hörku og lögðu höfuðáherslu á hin tæknilegu einkenni vers og prósa; og þeir stóðu fast á því að menn skyldu bera virðingu fyrir forminu. Þetta leiddi til nýrrar villutrúar: „að sýna textann“ eða „flytja áhorfendum textann“. Mörgum ungum leikara var innprentað að andspænis hinum stóru orðum skáldsins væri hann eins konar fréttaþulur og æðsta verkefni hans væri að flytja setningarnar og leyfa þeim að tala sínu máli. Þarna varð til „Shakespeare-röddin“. Allar þessar tilhneigingar hafa runnið sitt skeið. Í dag stöndum við andspænis nýrri hættu og verðum að takast á við annars konar ögrun. Til er slungið eitur sem ógnar stærstum hluta samfélagslífs okkar - það heitir „smækkun“. Í reynd þýðir það smækkun alls þess sem er óþekkt og vandi að ráða framúr: að svipta trúnni á töfra, hvar sem því er viðkomið, allt skrúfað niður í normalskilning. Þannig verða ungir leikarar lokkaðir í þá gildru, og halda að hversdagslíf þeirra gefi þeim allt, sem þeir þurfa á að halda að skilningur þeirra eða hæfileiki þeirra til skilnings, byggðist eingöngu á þeirra eigin reynsluheimi. Sem leiðir til þess að leikarar grípa til vinsælla pólitískra eða þjóðfélagslegra klisja í starfi sínu, sköpun persóna og í kringumstæðum þar sem einföld hugsun hrekkur skammt. Ef menn reyna til að mynda að nota „Ofviðrið“ sem útskýringu á margþvældum hugmyndum um þrælahald, kúgun og nýlendustefnu eða þegar nútíma kynlífsvenjur eru látnar hæfa flóknum persónum, sem einmitt er í tísku, fær maður ætíð sömu úrlausnina: persónur, sem hafa töfrað áhorfendur um aldir, vegna þess að þær eru óvenjulegar, sérstakar og torskildar, eru teknar og gerðar venjulegar. Hamlet er allt ljóst þegar hann segir: ...Þú ætlaðir að leika á mig; láta sem þú kynnir á mér gripin; ætlaðir að slíta hjartað úr leyndarmáli mínu... .” (III.2.) (Ísl. þýð. Helgi Hálfdanarson) Hvað getur maður sagt við ungan leikara, sem stendur frammi fyrir því að þurfa að kljást við einhverja hinna stóru hlutverka? Gleymdu Shakespeare. Gleymdu að einhvern tíma hafi verið til maður með þessu nafni. Gleymdu að verk þessi áttu sér höfund. Hugsaðu bara um það, að sem leikari berð þú ábyrgð á því að blása lífi í persónuna. Gefðu þér - sem kænskubragð, til hjálpar, - að persónan, sem þú ert að undirbúa, hafi verið til í raun og veru. Ímyndaðu þér að Hamlet hafi verið til í raun og veru, og einhver hafi fylgt honum hvert fótmál með segulbandstæki. Orð hans hafi því í raun og veru verið töluð af honum. Hvert leiðir þetta? Slík tilgáta hefði víðtækar afleiðingar. Í fyrsta lagi er allri tilhneigingu til að halda að „Hamlet er eins og ég“ sópað burt. Hamlet er aðeins áhugaverður vegna þess að hann líkist ekki neinum heldur er einstakur. Til að fullvissa sig um það, gerðu þá einhvern spuna, það skiptir ekki máli hvaða atriði verksins er notað. Hlustaðu vel eftir því sem kemur frá þér - máski
Borgarleikhúsið 2013–2014
10
er það afar áhugavert, en hefur það frá orði til orðs, setningu til setningar, sama kraft og ræða Hamlets? Þú munt viðurkenna að það er ekki mjög sennilegt. Og það er auðvitað hlægilegt að ímynda sér, að setji maður Ófelíu í stað stúlkunnar sem maður elskar eða geri Geirþrúði að móður sinni, geti atriði fyrir atriði tjáð sig með styrkleika Hamlets, orðaforða hans, húmor og hugsanaauðgi. Þetta leiðir til þeirrar uppgötvunar að maður eins og Hamlet hafi aðeins verið til einu sinni í mannkynssögunni, lifað, andað og talað. Og við erum með hann á bandi! Upptakan er vitni þess, að þessi orð hafi verið sögð. Þökk sé þessari fullvissu vex smátt og smátt innra með okkur ástríðufull löngun til að kynnast svo óvenjulegum manni. Er það einhver hjálp að hugsa um leið um Shakespeare, höfundinn? Greina ætlunarverk hans og áhrif tímans á hann o. s. frv.? Rannsaka bragtækni hans, aðferðir, heimspeki? Svo heillandi sem það nú gæti verið, hjálpar það okkur? Eða er það einfaldara og notadrýgra að nálgast verk hans eins og írskir leikarar vinna með írsk leikrit? Í bestu leikritum Íra eru orðin aldrei hversdagsleg, þau hafa áhrif eins og „listræn skrif“ en - eins og Synge sagði einhvern tíma - höfundurinn liggur svo að segja uppi á þaki með eyrað í rifu til að hlera hið raunverulega, hið einstaka sanna samtal í húsinu. Hjá Synge, O’Casey og Friel tjáir hinn írski veruleiki sig í prósa, sem jafnframt er ljóðrænn. Hver sem það vill getur talið atkvæðin á fingrunum, en hjálpar það okkur til sannari leiks? Írar finna einfaldlega fyrir því að sú persóna sem þeir leika er raunveruleg, og þegar þeir hafa samþykkt það heyrir hin ríka tónlist tjáningarinnar til eðli persónunnar, og kemur skýrt fram af tungu leikarans: verkefni leikarans er ekki að líta á orðin sem grunn textans, heldur sem grunnþátt persónu, og trúa því að hún tali þau í hita augnabliksins. Í dag eru (enskir, amerískir, franskir) leikarar í sjónvarpi og kvikmyndum undravert ekta, þegar þeir leika sannsögulega atburði. Í leikhúsi rata leikarar ekki í neinar vitsmunalegar ógöngur þegar þeir leika til dæmis yfirheyrslu fórnarlambs lögregluofbeldis, þar sem þeir nota gögn tiltekins máls; upptökur og skýrslur. Þegar persónan sem þeir eiga að leika segir óvænt orð, sérkennilegt máltæki, eða sérstæða líkingu, eða jafnvel notar fráhrindandi mynd, verða leikararnir ekki ringlaðir, spyrja ekki hvað „höfundurinn“ meini eða hvaða tilefni „samtími“ höfundarins hafi gefið honum. En um leið og ögrunin hljómar: að leika Shakespeare fer allt í rugling. Það er tvöfeldni í hugsun að snúa sér ýmist til höfundarins eða persónunnar sem verið er að skapa. Tvöfeldni í hugsun sóar orku og spillir einbeitingu. Ímyndum okkur að við hlustuðum saman á það hvernig Lér segir við Kordelíu: „...setjum þá á okkur / þann speki svip sem værum við á jörðu / Guðs njósnarar.“ (Ísl. þýð. Stgr .Thorst.) Í hinum nýja leik okkar látum við sem Lér hafi i raun og veru sagt þetta, sem er verulega mikið undarlegra en að ímynda sér að það komi frá manni skrifandi af gaumgæfni með fjöður á pappír við skrifborð. Þannig verðum við að spyrja okkur, hvers konar maður það er, sem spinnur slík orð eftir að hafa verið tekinn til fanga í blóðugri orrustu. Við verðum með öllum ráðum að finna út hvernig hans einstæða lífsreynsla og augnablik djúprar sjálfskoðunar hefur markað líf hans; hvaða næmi hans hefur gert þennan einræðiskonung svo ofur einlægan. Við komumst að því að það er tilgangslaust að nálgast Lé eftir sálfræðilegum leiðum og sömuleiðis tilgangslaust að smækka hann niður í eitthvað normalt. Við verðum að gangast inná að það er orðfæri persónunnar sem sýnir okkur hver hún er. Leikari, sem skoðar til dæmis eingöngu gjörðir Lés gæti komist að þeirri niðurstöðu, að einungis gamall bjálfi geti gefið tveimur dætra sinna konungsríkið. Þetta verður hann að hugsa upp á nýtt er honum verður ljóst að maður sem á slíkri ögurstund í stað sjálfsvorkunnar talar um „speki svip“ og tengir saman „Drottinn“ og „njósnara“. Hver er hann þá? Spurning þessi leiðir leikara um Freud, um Jung, og út yfir hvers kyns smækkanir. Þetta leiðir ekki til kæruleysis, til minni nákvæmni í umgengni við hið fínpússaða vers. Þvert á móti, hvert atkvæði öðlast nýja þýðingu hver bókstafur getur orðið að mikilvægum þætti í sköpun flókinnar persónu. Við getum ekki lengur byrjað með einhverja hugmynd, með konsept eða kenningu um persónuna. Það eru ekki til neinar skammstafanir. Allt verkið verður að stóru mósaíkverki, og við nálgumst tónlistina, hljóðfallið, sérkenni myndanna, rímið, jafnvel ljóðlínurnar, með undrun og auðmýkt uppgötvarans, vegna þess að allt þetta er tjáning hins innra munsturs óvenjulegrar mennskrar veru. Það var aldrei ætlun Shakespeares að einhver ætti að rannsaka Shakespeare og engin tilviljun að hann lagði áherslu á nafnleysið. Fyrst er við gleymum Shakespeare, getum við byrjað að finna hann. Grein þessa samdi hinn heimsfrægi enski leikhúsmaður Peter Brook í tilefni Shakespeare-hátíðar Konunglega Shakespeare-leikhússins (The Royal Shakespeare Company) í London árið 1994
11
Hamlet
Borgarleikhúsið 2013–2014
12
13
Hamlet
Hamlet
Draugur og demantur Hamlet er verk sem á að lesa eða sjá á tíu ára fresti því það birtir manni nýjan mann í hvert sinn. Hið klassíska listaverk er spegill sem sýnir okkur sjálfið upp á nýtt og mælistika sem við bregðum á samtímann, hitamælir sem við stingum upp í þjóðfélagið. Og við lesum á mælinn og sjáum að samfélagið er með hita, samfélagið er sjúkt, jafn sjúkt og rotið Danaveldi var á tíma verksins. Ekkert hefur breyst, ekki síðan Hamlet var á dögum og ekki síðan Shakespeare skrifaði verkið, ekki síðan það var leikið í París 1707, í Leipzig 1803, í Moskvu 1902, í Jóhannesarborg 1972… Og sjálf upplifum við okkur sem Hamlet: Heilbrigða rödd í sjúku samfélagi, rödd sem leikur sig til geðbilunar, í viðbragði við samfélagsgeðveikinni, uns við töpum tökum á þeirri geðveiki og verðum kannski geðveik sjálf, kannski ekki. Hver er geðveikur? Hver er með fullu viti? Hamlet telur fjögur þúsund línur og fimm tíma í flutningi og inniheldur 1600 slíkar spurningar og jafnmörg svör við hverri. Þess vegna er verkið kallað “Móna Lísa bókmenntanna”. Og þess vegna verður að taka það fram: Allt sem þú hefur að segja um Hamlet hefur ekkert að segja og allra síst um Hamlet. Verkið hlær að öllu slíku fikti. Orð þín eru sem naglakrafs í 400 ára gamlan virkisvegg sem staðið hefur af sér öll tímans veður og allar tískutúlkanir, hvort sem þær heita rómantík, marxismi, existensíalismi, mínimalismi, póst-módernismi eða pönk. Í raun er því ekkert hægt að segja um Hamlet. Það er vonlaust verk. En höldum samt áfram.
Frum-Hamlet Hamlet er skrifaður um aldamótin 1600, og yfirleitt talinn byggður á fyrra verki frá því um tólf árum fyrr, verki sem nú er glatað en fræðimenn kalla Frum-Hamlet (Ur-Hamlet). Nokkrir í þeirra hópi telja Shakespeare sjálfan höfund þess. Hamlet sé endur- og umritun á Frum-Hamlet. Þjóðsagan um Hamlet, eða Amleth, var kunn á þessum tíma. Shakespeare hefur að líkindum sótt ritaða útgáfu hennar í samtímaþýðingu á riti hins franska Belleforest, Histoires Tragiques, frá árinu 1570. Sá franski hafði söguna eftir Saxo Grammaticus hinum danska er ritaði á latínu söguna Vita Amlethi (Líf Amlóða) um aldamótin 1200. Saxo getur hafa fengið söguna úr íslenskum heimildum, ritum eða munnmælum, því í Snorra-Eddu kemur Amlóði fyrir í vísu eftir Snæbjörn nokkurn sem uppi var fyrir árið 1000. Einnig er Amlóðamótífið að finna í Hrólfs sögu Kraka. Þá voru á tíð Árna Magnússonar uppi kenningar um glatað handrit sem bar nafnið Amlóðasaga. Goðsögnin um kóngssoninn sem leikur fávita til bjargar sjálfum sér þegar föðurbróðir myrðir kónginn föður hans, til að hefna hans síðar, er þó víða að finna í vestrænum kúltúr, meðal annars í rómversku verki sem ber titilinn Brútus, og víst er að sagan var mjög á kreiki um daga Shakespeares. Rætur verksins liggja því djúpt í þjóðsögum og munnmælum rétt eins og gildir um Fást Goethes.
Hvað er Hamlet? Hver er Hamlet? Hvað er Hamlet? Þetta eru góðar spurningar en svörin geta aldrei orðið annað en léleg. Hann er allt, hann er ekkert. Jú, hann er danskur prins, Hamlet Hamletsson, sonur konungs sem dó tveimur mánuðum áður en verkið hefst. Móðir hans, drottningin, ekkjan, hefur nýlega gengið að eiga bróður síns fyrrverandi, föðurbróður Hamlets, Kládíus að nafni. Allt eru þetta mjög þjakandi staðreyndir fyrir ungan prins, sem í upphafi leiks er háskólastúdent í Wittenberg í Þýskalandi og gæti verið 25-6 ára gamall. Í fyrsta atriði fyrsta þáttar birtist draugur hins látna konungs og síðar ræða þeir saman Hamlet og Vofan. Hún tjáir honum bitran sannleik: Föðurbróðrinn Kládíus drap konunginn og kvæntist síðan drottningunni. Vofan krefst hefndar. Hamlet á að hefna föður síns. Þetta vefst hinsvegar talsvert fyrir hinum unga manni, hann þarf fjögur þúsund ljóðlínur af hyldjúpum hugleiðingum og fagurlega orðuðum hikanda til að koma sér að verki. Og gerir það í raun ekki fyrr en hann sjálfur er dauðvona og hefur drepið nær allar aðrar persónur verksins. (Hamlet drepur ekki aðeins Póloníus heldur einnig
Borgarleikhúsið 2013–2014
14
Ófelíu (óbeint), sem og Rósinkrans og Gullinstjörnu, og auðvitað Laertes.) Hann drepur heldur ekki Kládíus fyrr en móðir hans er fallin í valinn. Hvað veldur þessu fræga hiki? Er Hamlet kannski sonur Kládíusar? Slíkt er vel mögulegt miðað við það sem gerst hefur í upphafi verks. Hikar þá Hamlet við að drepa föður sinn? Shakespeare virðist mér aldrei ýja að blóðskyldleik í textanum, en kannski í undirtextanum, þessi hugmynd er aðeins ein af þeim 1600 sem verkið vekur. Skemmtilegra svar við frægu hiki kemur ef við lítum í eigin barm: Hvað tæki það okkur langan tíma að manna okkur upp í að drepa nýjan eiginmann móður okkar að áeggjan sem fram kom á miðilsfundi? Er það ekki einmitt málið?: Hamlet er maður, mannlegastur allra manna, mesta manneskja heimsbókmenntanna, sú dýpsta og víðasta, sú sem safaríkust er og hvað mest heillandi. Um leið og hún er mesta gátan. Við náum ekki utan um hann. Hann sleppur undan öllum skilgreiningum, háll sem áll. Já, hann er heimspekingur, en samt svo miklu meira en það. Já, hann er kannski haldinn Ödipusar-komplex, (eins og Freud skilgreindi hann) en það er samt of mikil einföldun. Já, hann er fyrsti exístensíalistinn, en efaðist þó sjálfur um það. Um leið og einhver merkimiðinn er borinn upp að Hamlet fuðrar hann upp, því bergið er ennþá glóandi heitt, fjórum öldum síðar. Hamlet er maður sem veit. Skilaboð að handan veita honum innsýn í lífið; hann sér svo djúpt inn í það að hann sér jafnvel út úr því, inn í dauðann. Hvað gerir maður við slíkar upplýsingar? Hamlet glímir við þær. Verkið er sú glíma. Segja má að eitrið á sverðsoddinum sem drepur hann að lokum sé honum byrlað í upphafi verks; það tekur hann fimm tíma að deyja og hann talar allan tímann… Hamlet er maður með eitur í hjarta.
Undir beru lofti Það er upplifun að lesa Hamlet enn og aftur. Það er næstum hægt að tala um trúarlega upplifun. Textinn er lifandi, þó ekki alltaf ljós, stundum tyrfinn, stundum fyndinn, stundum hrein ráðgáta, en yfirleitt djúpur að merkingu, stundum ljómandi af ljóðrænni fegurð, fíngerðum hlutum bundnum í rammsterkt form. Við megum aldrei gleyma því að línur Shakespeares voru ritaðar til flutnings utan dyra. Menn skrifa öðruvísi fyrir útið en innið, fyrir munninn en pappírinn. Textinn þarf að vera nægilega sterkur til að berast um veður og vind, útyfir hlæjandi mígandi þvöguna og upp á efstu svalir. Hann þarf að vera skýrt fram settur, hraustlegur.
15
Hamlet
Shakespeare er meistari þeirrar miklu listar að setja þunga hluti fram á léttu máli. “…heitar erfisleifar / prýddu sem kaldir réttir brúðkaups-borðin.” (1.2.180) En hann er þó ekki alltaf auðveldur og það verður alltaf ráðgáta hvernig fólki tókst að fanga heilu einræðurnar með tveimur jafnstórum, á staðnum, í þvögunni, á svölunum, einræður sem í dag þarfnast þriggja lestra. En semsagt, við skulum muna að ein af ástæðunum fyrir því að texti Shakespeares hefur lifað storma hundrað tíða er sú að hann var skrifaður til flutnings utandyra. Bókmenntir geymast best í fersku lofti.
Hamlet er dauður En semsagt: Það sem gerist við lesturinn er visst ævintýri sem kalla má trúarlegt. Eftir því sem á verkið líður rís upp af síðunum andi, líkt og gufulæða upp af vatni, og það fer ekki á milli mála hver hann er. Prinsinn danski líkamnast í hugskoti manns, en hverfur þó jafnharðan, aðeins til að birtast í hinu horni skotsins, á bakvið mann, yfir manni, svo aftur fyrir framan. Um leið og litið er, hverfur hann. Hamlet er eins og afturganga. Hamlet er draugur. Hamlet gamli er draugur en Hamlet ungi líka. Hann er dauður, Hann lifir. Hann gengur aftur í höfði okkar. Í verkinu er hann Draugur Draugsson en verkið sjálft er líka sonur draugs. Hamlet er sonur Frum-Hamlets sem er sonur hins franska Amlets sem er sonur draugagangs í dönsku riti sem súrraður var upp úr munnmælandi afturgöngum ofan af Íslandi, sem bárust þangað með flöskuskeytum frá Rómaveldi hinu forna. Hamlet er draugur dreginn upp í gegnum draug. Draugur komin af draugum. Lífseigasta afturganga bókmenntasögunnar. Við vitum að hann mun deyja í lokin en vekjum hann samt aftur og aftur, það er svo gaman að sjá hann deyja, það tekur hann fimm klukkutíma og fjögur þúsund línur. 30% þeirra eru óskiljanlegar, 30% þeirra eru auðskiljanlegar, og 30% þeirra eru snilld. Restin, 10%, eru ofar mannlegum listskilningi. Harmleikurinn er leikur okkar að harminum. Hann er náskyldur leiknum að eldinum. Og alveg jafn ómótstæðilegur.
Hamlet er demantur Það sem slær mann við lesturinn nú er fjölbreytnin og framvindan í persónu Hamlets og hvernig allt verkið fjallar meira og minna um hana. Þegar línurnar eru taldar kemur í ljós að af öllum þeim línum sem Hamlet mælir ekki fjalla tveir þriðju hlutar þeirra um hans persónu. Og þegar verkið er kortlagt kemur í ljós að nánast allar senurnar eru á sporbaug um persónu prinsins, hún er sú sól sem skín á allar senur, en eins og alltaf hjá Shakespeare er það ekki svo einfalt, því um leið skína senurnar á hana. Þessi sól er ekki bara skínandi björt, hún er svarthol líka. Ef við sundurgreinum atriðin kemur ýmislegt í ljós. Þau eru tuttugu alls, í fimm þáttum. Fyrsta atriði fyrsta þáttar (1.1.) er formáli. Varðmenn úti fyrir kastalanum sjá vofu Hamlets eldri. Hóras er fulltrúi Hamlets sem er fjarri í þessari senu. En hún kynnir hann og fallinn föður hans til leiks. Í 1.2. birtist Hamlet sem sorgmæddur ungur maður. Hann syrgir föður sinn og á erfitt með að horfa upp á móður sína í örmum föðurbróður. Í 1.3. reyna feðgarnir Póloníus og Laertes að tala um fyrir Ófelíu, hún eigi ekki að trúa ástargutli Hamlets við hana. Hér er elskhuginn Hamlet til umtals. Í 1.4. birtist Hamlet sem þjóðfélagsgagnrýnandi og gagnrýnir ástandið við hirðina, allt fylleríið. Í 1.5. fer svo Hamlet á trúnó með Vofu föður síns, og fær að heyra sannleikann og föðurlega kröfu um hefnd, allt þetta sem knýr verkið áfram. Hér er Hamlet sem sjokkeraður sonur. Í 2.1. er honum lýst sem geðsjúklingi. Við vitum þó ekki hvort hann hefur leikið sig þannig eða hagað sér þannig eftir erfiðan miðilsfund. 2.2. er lengsta senan í verkinu. Hér plottar konungur gegn Hamlet er hann kallar vini hans til ráðabruggs, þá Rósinkrans og Gullinstjörnu. Hér birtist Hamlet sem fórnarlamb. En hann birtist líka sem skáld, því Póloníus les konungi vísu sem hann orti til Ófelíu. Þá birtist Hamlet hér einnig sem grallari, háðfugl, í stórfyndnu og frægu samtali hans við Póloníus. Þar er hann hinn besti gamanleikari, en Hamlet kemst alltaf í mikið stuð er hann sér hinn langorða Póloníus. Seinna í senunni á Hamlet samtal við „vini” sína, Rósinkrans og Gullinstjörnu, og þar er hann var um sig, einskonar vænisjúklingur. En síðan mæta leikararnir og Hamlet tekst allur á loft, verður loksins glaður. Í samskiptum við leikarana birtist hann líka sjálfur sem leikari, leikstjóri og leikskáld.
Borgarleikhúsið 2013–2014
16
En Hamlet tekur ekki bara á móti leikurum sem leika leikrit inni í leikritinu, heldur leikur hann líka sjálfur í nokkrum slíkum leikþáttum, líkt og þeim með Póloníusi og nefndur var hér á undan. En stundum veit maður ekki hvenær hann er að leika. Eftir að hafa farið með sínar frægustu línur í 3.1. verður hann óafvitandi leikari í leikþætti sem Póloníus og Kóngur setja upp. Þeir standa á hleri á meðan Hamlet ræðir við Ófelíu og skipar henni í klaustur. Hér er Hamlet ungi reiði maðurinn. En jafnframt aftur staddur í leikriti inni í leikritinu. Í 3.2. kemur svo leikritið í leikritinu. Hamlet breytir klassísku leikverki, Morðið á Gonzago, í nýtt verk sem hann semur á staðnum og nefnir Músagildruna, rétt eins og Shakespeare sjálfur umbreytir Frum-Hamlet í Hamlet. Með því að umbreyta verkinu sviðsetur Hamlet morðið á föður sínum fyrir morðingjann sjálfan og hirðina alla. Hér er Hamlet afhjúpandinn, rannsóknarblaðamaðurinn sem sviptir hulu af svikum og spillingu háttsettra. Í 3.3. gengur Hamlet fram á konung á bænastund, þar sem Kládíus játar syndir sínar. Hér birtist Hamlet sem hikverji, mannlegur morðingi sem hættir við á síðustu stundu. 3.4. fer fram í herbergi drottningar og enn og aftur stendur leynilegur áhorfandi á bakvið tjald og fylgist með Hamlet er hann ræðir við móður sína, því hér er Póloníus kominn í svefnherbergi drottningar. (Skal velta vöngum yfir því? Heldur sá armi þrjótur ef til vill líka við Geirþrúði?) Hér er Hamlet á ný í hlutverki sonarins, ræðir reiður við móður sína, og sér aftur vofu föður síns, en bregður sér síðan í hlutverk morðingja er hann uppgötvar Póloníus á bakvið tjaldið. Í 4.1. ræða kóngur og drottning um Hamlet sem vandræðaungling. Í 4.2. stríðir Hamlet „vinum” sínum, þeim Rósinkransi og Gullinstjörnu. Stríðnispúkinn heldur áfram í 4.3. er konungur spyr hann um Póloníus. Þar er hann einnig orðinn fangi á leið í útlegð. Í 4.4. er Hamlet kominn niður að höfn á leið til Englands en bregður sér í líki heimspekings er hann horfir upp á heila herdeild stefna til stríðs og ganga í opinn dauðann. 4.5. færir okkur óráð Ófelíu og reiði Laertesar. Hér er Hamlet sökudólgur. Það er hans sök að stúlkan er fallin í öngvit og geðveiki. Því fylgir atriði þar sem Hóras les upp bréf frá Hamlet, hvernig hann sneri af sér svikahrappana á sjóleiðinni til Englands. Hér sjáum við rithöfundinn Hamlet. Prinsinn er semsagt á heimleið og Konungur og Laertes hugsa upp viðbrögð sín, plotta hefnd: Hamlet er allt í einu orðinn utanaðkomandi óvinur, hermaður, ógn sem höllinni ber að verjast. Þá erum við komin í fimmta og síðasta þáttinn, þar sem Hamlet hefur náð fullum þroska og er orðið skítsama um allt og alla, og alveg hættur að leika. Harold Bloom, hinn ameríski bókmenntapáfi, hefur sagt að það sé engu líkara en Hamlet snúi aftur til Danmerkur þrítugur að aldri. Það er eins og hann hafi elst um nokkur ár, þótt hann hafi aðeins verið fjarri í nokkrar vikur. “And yet none of this matters: he is always both the youngest and the oldest personality in the drama,” segir páfi svo. 5.1. er hin fræga kirkjugarðssena. Hér er Hamlet orðinn rafmagnaður af reiði og það réttlátri. Það er eins og hann sé fullnuma, fullþroskaður, orðinn karlmaður, maður með mönnum, til í allt, morð, hefnd, allt þetta sem búið er að bögglast fyrir honum leikritið út í gegn. Síðan fylgir 5.2., lokasenan þar sem allir deyja að lokum nema Hóras, hirðmaðurinn Ósrik, og Fortinbras hinn ungi sem erfir hið rotnandi ríki. Hér er Hamlet skylmingaþrællinn, bardagamaðurinn mælski, og loks liðið lík. „Það er nánast fáránlegt hversu ólíkur Hamlet eins leikara er Hamleti annarra leikara,“ segir Bloom. „Hamletarnir verða alltaf jafnmargir leikurunum, leikstjórunum, leikhúsgestunum, lesendunum og gagnrýnendunum.“ Og hann bætir við: „Við stöndum ráðþrota frammi fyrir persónu sem breytist í hvert skipti sem hún hefur upp raust sína en hefur þó svo sterk einkenni að engin leið er að villast á henni og nokkurri annarri persónu Skakespeares.“ Og við höfum séð það. Í verkinu birtist Hamlet okkur í þessum ótalmörgu hlutverkum sem rakin eru hér að framan. Útkoman er því afar margbrotinn persónuleiki. Hver og ein sena verksins sýnir á honum nýja hlið, sýnir hann í nýju ljósi, skín á hann frá nýju sjónarhorni. Sérhver sena er pláneta á sporbaug um persónu Hamlets sem skín í miðjunni, margbrotin og marghliða, eins og demantur. Demantur sem bæði skín og sogar til sín ljós. Skínandi og svartur í senn. Dýrasti demantur bókmenntasögunnar. Hallgrímur Helgason (Greinin er nokkuð stytt en mun birtast í fullri lengd í tímaritinu Stínu síðar á árinu.)
17
Hamlet
Borgarleikhúsið 2013–2014
18
19
Hamlet
Borgarleikhúsið 2013–2014
20
21
Hamlet
Borgarleikhúsið 2013–2014
22
23
Hamlet
Borgarleikhúsið 2013–2014
24
25
Hamlet
Ólafur Darri Ólafsson
Hilmar Jónsson
útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands vorið 1998. Meðal nýlegra kvikmynda- og sjónvarpsverkefna má nefna Djúpið, XL og The Secret Life of Walter Mitty. Á næsta ári mun hann m.a. koma fram í sjónvarpsþáttunum True Detectives og Banshee og kvikmyndunum Harrý & Heimir, morð eru til alls fyrst og A Walk Among The Tombstones. Í leikhúsinu hefur Ólafur Darri m.a. leikið í Shopping & Fucking hjá Egg-leikhúsinu, í Kvetch hjá leikhópnum Á senunni, Steinar í djúpinu hjá Lab Loka og Robin Hood hjá Royal Shakespeare leikhúsinu í Stratford upon Avon. Í Þjóðleikhúsinu hefur Ólafur Darri m.a. leikið í Rambó 7, Pétri Gaut, Gerplu, Íslandsklukkunni og Lé konungi. Í Borgarleikhúsinu hefur hann m.a. leikið í Abigail heldur partý, Kristnihaldi undir jökli, Fjandmanni fólksins og Músum og mönnum. Ólafur Darri er einn af stofnendum Vesturports og þar hefur hann m.a. leikið í Rómeó og Júlíu, Kommúnunni, Bastards og Woyzeck. Ólafur Darri hefur þrisvar sinnum hlotið Grímuverðlaun fyrir leik sinn í sýningunum Rómeó og Júlíu/Kvetch, Ívanov og Mýs og menn og var tilnefndur fyrir leik sinn í Pétri Gaut og Steinar í Djúpinu. Hann hefur sex sinnum verið tilnefndur til Eddu verðlauna fyrir leik og hlotið verðlaunin fyrir Rokland og Djúpið. Ólafur Darri fékk verðlaun sem besti karlleikari á kvikmyndahátíðinni í Ivanovo í Rússlandi árið 2007 fyrir Börn og í Karlovy Vary í Tékklandi árið 2013 fyrir XL.
útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands árið 1990 og starfaði næstu sjö ár sem leikari við Þjóðleikhúsið áður en hann stofnaði Hafnarfjarðarleikhúsið Hermóð og Háðvöru og hóf þá um leið leikstjórnarferil sinn. Hilmar hefur leikið í fjölda kvikmynda á undanförnum árum og leikstýrt yfir fjörutíu leiksýningum m.a. í Hafnarfjarðarleikhúsinu, Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu og hefur einnig starfað sem leikstjóri í Svíþjóð og í Finnlandi. Hilmar mun leikstýra Furðulegt háttalag hunds um nótt sem frumsýnt verður á Stóra sviðinu í Mars 2014.
Sýningar Ólafs Darra á leikárinu: Mýs og menn og Hamlet. Borgarleikhúsið 2013–2014
26
Sýningar Hilmars á leikárinu: Hamlet ásamt því að leikstýra Furðulegt háttalag hunds um nótt.
Elva Ósk Ólafsdóttir
Hildur Berglind Arndal
lauk námi við Leiklistarskóla Íslands 1989. Hún hefur farið með fjölda burðarhlutverka við Þjóðleikhúsið, meðal annars í Gauragangi, Snædrottningunni, Oleönnu, Stakkaskiptum, Þreki og tárum, Don Juan, Sem yður þóknast, Grandavegi 7, Óskastjörnunni, Komdu nær, Brúðuheimilinu, Horfðu reiður um öxl, Vilja Emmu, Veislunni, Rauða spjaldinu, Jóni Gabríel Borkmann, Þetta er allt að koma, Edith Piaf, Öxinni og jörðinni, Dínamíti og Hjónabandsglæpum. Hún lék veigamikil hlutverk í Húsi Bernörðu Alba og Íslandsklukkunni hjá Leikfélagi Akureyrar og í Ég er meistarinn, Kjöti, Heima hjá ömmu, Englum í Ameríku og Nóttin nærist á deginum hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Síðast liðið sumar lék Elva Hallgerði Langbrók í leikriti Hlínar Agnarsdóttur, Gestaboð Hallgerðar. Elva Ósk hefur leikið í nokkrum kvikmyndum, meðal annars í Stuttum frakka, Benjamín dúfu, Ikingut, Hafinu, Kaldri slóð og nú síðast Ófeigur gengur aftur. Hún hlaut Edduverðlaunin fyrir leik sinn í Hafinu. Hún lék einnig í framhaldsþáttunum Erninum hjá Danmarks Radio. Elva Ósk hlaut Menningarverðlaun DV í leiklist fyrir túlkun sína á hlutverki Nóru í Brúðuheimili og var tilnefnd til Grímuverðlaunanna fyrir leik sinn í Veislunni og Hjónabandsglæpum. Elva Ósk Ólafsdóttir hlaut Stefaníustjakann fyrir störf sín að leiklist árið 2007.
útskrifaðist með BA gráðu frá leiklistar- og dansdeild Listaháskóla Íslands síðast liðið vor. Hildur Berglind lék í leiksýningunni Hrópíum með Stúdentaleikhúsinu árið 2010. Hún dansaði í sýningunni Discomfort in Comfort með Spíral dansflokknum árið 2012 og lék hlutverk Lindu í kvikmyndinni Gauragangur sumarið 2010. Hildur lék svo Adelu í Húsi Bernhörðu Alba í uppsetningu Kristínar Jóhannesdóttur sem sýnt var í Gamla bíói haustið 2013. Sýningar Hildar á leikárinu: Hús Bernhörðu Alba, Hamlet og Ferjan
Sýningar Elvu Óskar á leikárinu: Hamlet
27
Hamlet
Jóhann Sigurðarson
Hjörtur Jóhann Jónsson
lauk prófi frá Leiklistarskóla Íslands árið 1981 og var fyrst um sinn fastráðinn hjá LR þar sem hann lék mörg burðarhlutverk, til að mynda titilhlutverkið í Jóa, Arnald í Sölku Völku, Leslie í Gísl og Kjartan í Guðrúnu og nýverið í söngleiknum Gretti og í Gosa. Jóhann lék svo í Þjóðleikhúsinu í fjölda ára, m.a. í Aurasálinni, Hafinu, Trígorín í Mávinum, titilhlutverkið í Don Juan, í Þreki og tárum, Grandavegi 7, Abel Snorko býr einn, Krítarhringnum, Veginum brennur, Ivanov og Öllum sonum mínum. Jóhann er nú fastráðinn leikari hjá Borgarleikhúsinu hefur m.a. leikið í Milljarðamærin snýr aftur, Fólkinu í blokkinni, Gauragangi, Ofviðrinu og Fólkinu í kjallaranum. Einnig má nefna aðalhlutverk í nokkrum söngleikjum; Vesalingunum, Söngvaseiði, My Fair Lady og Fiðlaranum á þakinu auk hlutverka í Íslensku óperunni; Valdi örlaganna og Rakaranum í Sevilla. Meðal kvikmynda sem Jóhann hefur leikið í eru Óðal feðranna, Eins og skepnan deyr, Húsið, Tár úr steini, 101 Reykjavík, Brúðkaup og Heiðin. Jóhann var tilnefndur til Grímuverðlauna fyrir leik sinn í Svartri mjólk, söngleiknum Gretti, Öllum sonum mínum og Fólkinu í kjallaranum. Jóhann hlaut Stefaníustjakann fyrir störf sín í leiklist árið 2013
útskrifaðist með B.F.A. gráðu í leiklist frá leiklistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2012. Hann hefur meðal annars leikið í verkinu Pizzasendillinn eftir Elísabetu Jökulsdóttur og í einleiknum Grande eftir Tyrfing Tyrfingsson, en það verk hlaut tilnefningu til Grímunnar sem leikrit ársins. Hann hefur leikið í sjónvarpi og kvikmyndum og má þar nefna sjónvarpsþættina Steindann okkar og Hæ gosa, kvikmyndirnar Okkar eigin Osló, Dead Snow 2 og Faust í leikstjórn hins rússneska Alexander Sokurovs. Hjörtur er einn stofnenda leikhópsins Óskabörn ógæfunnar og hefur leikið þar í verkunum Nóttin var sú ágæt ein eftir Anthony Neilson og Lúkas eftir Guðmund Steinsson. Hjörtur lék í Blakkát eftir Björk Jakobsdóttur í Gaflaraleikhúsinu.
Sýningar Jóhanns á leikárinu: Rautt, Mary Poppins, Hamlet
Borgarleikhúsið 2013–2014
28
Sýningar Hjartar á leikárinu: Saumur, Hamlet og Bláskjár
Hilmar Guðjónsson
Halldór Gylfason
útskrifaðist frá Leiklistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2010 og var þegar fastráðinn við Borgarleikhúsið. Hilmar hafði þó áður stigið á svið með Leikfélagi Reykjavíkur en hann lék hlutverk Billy í sýningunni Geitin, eða hver er Sylvía áður en hann hóf leiklistarnám. Auk þess hefur hann farið með hlutverk í kvikmyndunum Bjarnfreðarson og Á annan veg og í sjónvarpsþáttunum Fiskar á þurru landi og Fólkinu í blokkinni. Hilmar lék sitt fyrsta hlutverk í Borgarleikhúsinu að lokinni útskrift haustið 2010 í sýningunni Enron en lék svo hlutverk Trinkúlós í Ofviðrinu á Stóra sviðinu, hlutverk Guðfinns Maacks í Nei, Ráðherra, Fuglahræðuna í Galdrakarlinum í Oz, Alexander í Fanný og Alexander og Ken í Rautt en fyrir það síðastnefnda hlaut hann Grímuverðlaun. Hilmar var haustið 2011 valinn í hóp Shooting Stars, ungra efnilegra kvikmyndaleikara í Evrópu.
útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands árið 1997. Hann réði sig til Borgarleikhússins árið 1998 og hefur verið þar allar götur síðan. Telja hlutverk hans í húsinu nú á fjórða tug. Meðal eftirminnilegra hlutverka Halldórs í Borgarleikhúsinu eru Grettir úr samnefndum söngleik, Þráinn í And Björk, of course..., Hänschen í Vorið vaknar, Ósvald í Lé konungi, Skolli í Gosa, Lucky í Beðið eftir Godot, Haddi í Fólkinu í blokkinni og hlutverk hans í Góðum Íslendingum, Ofviðrinu, Strýhærða Pétri, Hótel Volkswagen og Mary Poppins. Einnig lék Halldór norðurljós og dögg í norskum skógi í Búasögu. Halldór mun einnig leikstýra verkinu Baldri á Stóra sviðinu í vetur. Halldór hefur sömuleiðis komið víða við í sjónvarpi, hann hefur leikið í áramótaskaupum og er einn leikara og handritshöfunda Sigtisins sem sýnt var á Skjá einum. Halldór er líka tónlistarmaður og meðlimur í hljómsveitinni Geirfuglunum.
Sýningar Hilmars á leikárinu: Rautt, Mýs og menn, Hamlet, Ferjan og Baldur
Sýningar Halldórs á leikárinu: Mary Poppins, Mýs og menn, Hamlet og Ferjan ásamt því að leikstýra Baldri
29
Hamlet
Sigurður Þór Óskarsson útskrifaðist frá leiklistardeild Listaháskóla Íslands með BFA gráðu árið 2012. Að lokinni útskrift réði hann sig til Borgarleikhússins og er nú fastráðinn leikari þar. Sigurður lék í Grease 2009 í Loftkastalanum, barnaleikritinu Jólaævintýri 2010, í Gosa í Borgarleikhúsinu árið 2007 og fuglahræðuna í Galdrakarlinum í Oz árið 2012. Sigurður lék í Gulleyjunni á Litla sviðinu haustið 2012, í Bastörðum, Mýs og menn, Mary Poppins og Núna sem frumsýnt var á Litla sviðinu vorið 2013. Sigurður hefur talsett fjölda teiknimynda fyrir sjónvarp og kvikmyndahús. Sýningar Sigurðar á leikárinu: Mary Poppins, Mýs og menn, Hamlet, Furðulegt háttalag hunds um nótt og Litli Hamlet
Borgarleikhúsið 2013–2014
30
31
Hamlet
Jón Páll Eyjólfsson
útskrifaðist árið 2000 frá East 15 Acting School í London og lék í uppfærslu Young Vic Theatre Company á The Three Musketeers sama ár. Hann hefur leikið í flestum leikhúsa landsins auk þess að vinna með sjálfstæðum leikhópum. Þar má nefna Syngjandi í Rigningunni, Cyrano, Grettisögu, Gaggalagú, Grís, Meistarann og Margarítu, Rauðu Skóna, Úlfhamsögu og Íslandsklukkuna. Jón Páll fékk tilnefningu til Grímuverðlauna fyrir síðastnefnda hlutverkið. Á síðari árum hefur Jón Páll snúið sér æ meira að leikstjórn. Hann leikstýrði Herra Kolbert og Maríubjöllunni hjá LA og Hér og nú Sokkabandsins í Borgarleikhúsinu. Jón Páll var fastráðinn leikstjóri við Borgarleikhúsið leikárið 2008 til 2009 og leikstýrði þar sýningunum Vestrið eina og Óskar og bleikklædda konan. Jón Páll hefur einnig leikstýrt sýningunum Heima er best, Elsku barni, Strýhærða Pétri, Eldhafi og Mýs og menn hjá Borgarleikhúsinu . Hann gerði einnig sýningarnar Þú ert hér, Góða Íslendinga og Zombíljóðin á árunum 2009 - 2011 í Borgarleikhúsinu ásamt þeim Jóni Atla Jónassyni og Halli Ingólfssyni en þeir félagar deildu með sér leik, leikstjórn og handritsgerð . Þú ert hér var tilnefnd til fimm Grímuverðlauna, m .a . sem sýning ársins 2009 . 2012 leikstýrði hann Tengdó með leikhópnum CommonNonsense . Sýningin hlaut fjölda Grímuverðlauna árið 2012 . Hann leikstýrði einnig Nóttin nærist á deginum í Borgarleikhúsinu eftir Jón Atla Jónasson 2013.
Helgi Hálfdanarson (1911-2009)
var menntaður lyfjafræðingur og var lyfsali á Húsavík og í Reykjavík. Hann stundaði einnig kennslu og kenndi meðal annars stærðfræði í Kennaraskóla Ísklands. Hann var helsti þýðandi Íslendinga á síðustu öld og eftir hann liggur ótrúlegt verk: Hann þýddi öll leikrit Williams Shakespeare, grísku harmleikina eftir Æskýlos, Sófókles og Evripídes, Pétur Gaut eftir Henrik Ibsen og mörg önnur þekkt leikrit í bundnu máli. Hann þýddi einnig Kóraninn og fjölda ljóða frá ýmsum löndum. Helgi skrifaði auk þess mikið um íslensk fræði og pistla í dagblöð og á mörg velheppnuð nýyrði í íslensku eins og t.d. „heilkenni“ (syndrome).
Jón Atli Jónasson
er eitt af leikskáldum Borgarleikhússins . Hann hefur meðal annars samið leikritin 100 ára hús fyrir Frú Emilíu, Krádplíser fyrir Reykvíska Listaleikhúsið, Brim fyrir Vesturport, Draugalest fyrir Leikfélag Reykjavíkur, Rambó 7 fyrir Þjóðleikhúsið og Mindcamp og Democrazy ásamt Agli Heiðari Antoni Pálssyni fyrir CampX leikhúsið í Kaupmannahöfn . Jón Atli er einn af stofnendum Mindgroup sem eru evrópsk regnhlífasamtök leikhúsfólks sem vinna að tilraunakenndri leiklist . Síðustu verkefni Jóns Atla fyrir Borgarleikhúsið eru Þú ert hér, Góðir íslendingar og Zombíljóðin sem hann gerði ásamt Mindgroup og Djúpið, rómaður einleikur sem hann skrifaði og leikstýrði . Nýjasta leikverk Jóns Atla, Nóttin nærist á deginum í leikstjórn Jóns Páls Eyjólfssonar var frumsýnt í lok janúar 2013 í Borgarleikhúsinu .
Ilmur Stefánsdóttir
útskrifaðist úr Myndlista- og Handíðaskóla Íslands árið 1995 og lauk síðar Mastersnámi í myndlist frá Goldsmiths College í London árið 2000. Hún hefur haldið fjölda einka- og samsýninga og lagt stund á gjörningalist hérlendis og erlendis. Ilmur hefur hannað ýmsar leikmyndir í Þjóðleikhúsi, Borgarleikhúsi og víðar. Meðal verkefna í Þjóðleikhúsinu eru Leg, Baðstofan, Hreinsun, Brennuvargarnir, Finnski hesturinn og Dýrin í Hálsaskógi og Af ástum manns og hrærivélar á vegum CommonNonsense sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu. Af leikmyndum Ilmar í Borgarleikhúsinu má nefna Forðist okkur í uppsetningu Nemendaleikhússins og CommonNonsense, Vestrið eina, Lík í óskilum, Heima er best, Dúfurnar, Elsku barn, Eldhaf og Mýs og menn. Meðal annarra sýninga sem Ilmur hefur unnið að eru Húsmóðirin hjá Vesturporti, Hvít kanína og Gangverkið hjá Nemendaleikhúsi LHÍ, Hinn útvaldi í Loftkastalanum og CommonNonsense og CommonCouple á vegum CommonNonsense. Hún starfar í leikhópnum CommonNonsense sem hefur staðið fyrir ýmsum sýningum og setti upp heimildaleikverkið Tengdó á síðasta leikári, en þar var Ilmur höfundur leikmyndar. Ilmur var tilnefnd til Grímuverðlauna fyrir leikmynd í Forðist okkur, Legi og Elsku barni og hlaut verðlaunin fyrir leikmynd sína í Hreinsun. Stökkbreyting hluta er henni einstaklega hugleikið viðfangsefni.
Björn Bergsteinn Guðmundsson
hefur lýst fjölda sýninga í atvinnuleikhúsum landsins auk þess sem hann starfaði eitt ár við Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn. Meðal sýninga sem Björn hefur lýst eru Brúðuheimilið, Krítarhringurinn í Kákasus, Hægan Elektra, Kirsuberjagarðurinn, Blái hnötturinn, Hver er hræddur við Virginíu Woolf?, Cyrano frá Bergerac, Veislan, Rauða spjaldið, Jón Gabríel Borkmann, Þetta er allt að koma, Edith Piaf, Nítjánhundruð, Öxin og jörðin og Leg í Þjóðleikhúsinu. Hann hefur unnið lýsingu margra sýninga Hafnarfjarðarleikhússins, Íslensku óperunnar og ýmissa leikhópa. Hjá LA lýsti Björn m.a. Eldað með Elvis, Maríubjölluna, Herra Kolbert og Ökutíma. Meðal nýlegra sýninga í Borgarleikhúsinu eru Milljarðamærin snýr aftur, Fjölskyldan, Fólkið í kjallaranum, Ofviðrið, Strýhærði Pétur, Kirsuberjagarðurinn, Svar við bréfi Helgu og Mýs og menn. Björn hefur hlotið fjölda viðurkenninga, m.a. hefur hann hlotið Grímuna fyrir vinnu sína. Björn er nú yfirljósahönnuður í Borgarleikhúsinu.
Borgarleikhúsið 2013–2014
32
María Th. Ólafsdóttir
hefur gert búninga fyrir fjölda sviðsverka og sjónvarp. Verkefni hennar í Þjóðleikhúsinu eru Dýrin í Hálsaskógi, Vesalingarnir, Ballið á Bessastöðum, Oliver, Kardemommubærinn, Þrek og tár og West Side Story. Meðal annarra verkefna eru Dísa ljósálfur í Austurbæ, Gosi og Mary Poppins í Borgarleikhúsinu, Hárið í Gamla bíói og Latibær, Ávaxtakarfan og Grease í Loftkastalanum. Hún var tilnefnd til Grímuverðlaunanna fyrir búninga sína í Vesalingunum og Gosa.
Úlfur Eldjárn
er tónskáld, hljóðfæraleikari og upptökustjóri sem hefur komið víða við á tónlistarferlinum. Hann hefur samið töluvert af tónlist fyrir kvikmyndir, sjónvarp, leikhús og aðra miðla en auk þess er hann meðlimur í hinni rómuðu hljómsveit Apparat Organ Quartet. Úlfur hefur gefið út þrjár hljómplötur undir eigin nafni: Yfirvofandi (2009), hina tilraunakenndu Field Recordings: Music from the Ether (2011) og Ash (2013) sem inniheldur tónlist úr heimildarmyndinni Ösku. Þessa dagana er Úlfur að leggja lokahönd á gagnvirkt tónverk, Strengjakvartett nr. ∞, þar sem hlustendur geta farið á netið og búið til sína eigin útgáfu af verkinu. Síðar á árinu er einnig væntanleg ný breiðskífa með efni sem hann frumflutti á síðustu Iceland Airwaves hátíð við mikinn fögnuð. Úlfur lauk B.A. gráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands vorið 2013.
Baldvin Þór Magnússon
útskrifaðist úr hljóðtækninámi frá SAE Institute of Technology í New York í lok árs 2008 og hefur starfað sem hljóðmaður hjá Leikfélagi Reykjavíkur síðan árið 2009, við keyrslu og hönnun sýninga. Auk þess hefur hann unnið með sjálfstæðum leikhópum, tónlistarfólki og danshópum af ýmsu tagi bæði hérlendis og í Danmörku. Til helstu verkefna má telja margar af sýningum Borgarleikhússins og Íslenska dansflokksins síðustu ára, auk Journey - samstarfsverkefni Gus Gus og Reykjavik Dance Productions sem sýnt var á Listahátíð í Hörpu árið 2012 og á mennigarhátíðinni Lys Over Lolland í Danmörku árið 2013 og matarleikhússýningin Völuspá, samstarfsverkefni Norræna hússins og Teater Republique frá Danmörku og verðlaunaverkið Coming Up með Hreyfiþróunarsamsteypunni.
Árdís Bjarnþórsdóttir
nam leikhús- og kvikmyndaförðun í Los Angeles á árunum 1988-1990. Hún nam einnig hárkollugerð hjá Margréti Matthíasdóttur. Árdís Hóf störf hjá Þjóðleikhúsinu árið1991 og tók þar við stöðu forstöðumanns hárkollu-og förðunardeildar árið 2003. Hún sinnti því starfi fram til ársins 2011 en tók þá við stöðu deildarstjóra leikgervadeildar Borgarleikhússins. Árdís hefur sinnt fjölda leikhúsförðunarverkefna hjá Þjóðleikhúsinu og má þar nefna Utangátta, Frida viva la vida, Oliver Twist, Hart í bak auk fjölda annarra sýninga í gegnum árin. Árdís hannaði m.a. leikgervi fyrir Galdrakarlinn í Oz, Kirsuberjagarðinn og Mary Poppins á Stóra sviði Borgarleikhússins. Auk starfa í leikhúsinu hefur Árdís sinnt ýmiss konar kvikmynda- og auglýsingaverkefnum.
Ingibjörg E. Bjarnadóttir
lauk námi í sýningastjórn frá Guildford School of Acting and Dance árið 1990. Hún hóf störf hjá Borgarleikhúsinu sem sýningarstjóri sama ár og starfaði þar til 1999 við mörg verkefni á Stóra sviðinu eins og Þrúgur reiðinnar, Ljón í síðbuxum, Stone free, Galdrakarlinn í OZ, Grease og Pétur Pan. Ingibjörg var ráðin sem sýningarstjóri hjá Þjóðleikhúsinu árið 2001 og var m.a. sýningarstjóri í Önnu Kareninu, Jóni Oddi og Jóni Bjarna, Allir á svið, Ríkarði þriðja, Dínamíti og Dýrunum í Hálsaskógi. Hún kom svo aftur til starfa hjá Borgarleikhúsinu árið 2007 og er nú fastráðinn sýningarstjóri á Stóra sviðinu. Síðustu sýningar sem Ingibjörg vann við eru Gosi, Miljarðamærin snýr aftur, Gauragangur, Fjölskyldan,Ofviðrið, Galdrakarlinn í OZ ,Fanný & Alexander og Mýs og menn. 33
Hamlet
Borgarleikhúsið og Leikfélag Reykjavíkur Leikfélag Reykjavíkur er eitt elsta starfandi menningarfélag á Íslandi, stofnað 11. janúar 1897 er tveir hópar áhugamanna um leiklist sameinuðust í eitt félag. Helsti hvatinn að stofnun félagsins var bygging Iðnaðarmannahússins við Tjörnina. Félaginu var falin varðveisla eigna Kúlissusjóðsins svonefnda, sem var myndaður af aðgangseyri hinna fyrstu opinveru leiksýninga í Reykjavík 1854. Leikfélag Reykjavíkur starfaði óslitið í Iðnó þar til árið 1989 er öll starfsemi félagsins fluttist í nýtt leikhús, Borgarleikhúsið, sem Reykjavíkurborg byggði í samvinnu og samráði við Leikfélag Reykjavíkur.
Leikhússtjórar Leikfélags Reykjavíkur
•. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Sveinn Einarsson 1963 - 1972 •. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Vigdís Finnbogadóttir 1972 - 1980 •.Stefán Baldursson og Þorsteinn Gunnarsson 1980 - 1983 •. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Stefán Baldursson 1983 - 1987 •. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Hallmar Sigurðsson 1987 - 1991 •. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Sigurður Hróarsson 1991 - 1996 •. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Viðar Eggertsson 1996 •. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Þórhildur Þorleifsdóttir 1996 - 2000 •. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Guðjón Pedersen 2000 - 2008 •. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Magnús Geir Þórðarson 2008 –
Stjórn Borgarleikhússins
Heiðursfélagar Leikfélags Reykjavíkur
•. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Aðalheiður Jóhannesdóttir •. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Baldvin Tryggvason •. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Guðmundur Guðmundsson •. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Guðrún Ásmundsdóttir •. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Jón Sigurbjörnsson •. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Margrét Helga Jóhannsdóttir •. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Ragnar Hólmarsson •. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Stefán Baldursson •. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Steinþór Sigurðsson •. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Sveinn Einarsson •. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Tómas Zoëga •. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Vigdís Finnbogadóttir •. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Þorleikur Karlsson •. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Þorsteinn Gunnarsson
Borgarleikhúsið 2013–2014
Nýr samningur Leikfélags Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar gekk í gildi 11. janúar árið 2001. Þá leysti stjórn Leikfélags Reykjavíkur leikhúsráð af hólmi og tók ábyrgð á rekstri leikhússins. Síðar voru gerðar breytingar á samþykktum félagsins og það opnað öllu áhugafólki um leiklistarstarfsemi LR, en frá stofnun þess voru það eingöngu starfsfólk Leikfélagsins sem áttu aðild að félaginu. Stjórn er kosin á aðalfundi og er í dag skipuð áhugafólki um rekstur Borgarleikhúss. Ræður hún til sín leikhússtjóra og framkvæmdastjóra til að annast daglegan rekstur leikhússins. Í dag sitja stjórn þau Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður, Eggert Guðmundsson, varaformaður, Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir, ritari, Ármann Jakobsson, Hilmar Oddsson. Varamenn eru Bessí Jóhannsdóttir og Finnur Oddsson.
34
Fastráðnir starfsmenn Yfirstjórn og skrifstofa Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri Þorsteinn S. Ásmundsson, framkvæmdastjóri Hafliði Arngrímsson, leiklistarráðunautur Frank Hall, listrænn ráðunautur Hildur Harðardóttir, markaðsstjóri Jón Þ. Kristjánsson, (Jorri) hönnuður / markaðsfulltrúi Helga Pálmadóttir, gjaldkeri Ástrós Elísdóttir, fræðslufulltrúi Kári Gíslason, skipulagsstjóri Leikarar Arnar Dan Kristjánsson Bergur Þór Ingólfsson Brynhildur Guðjónsdóttir Guðjón Davíð Karlsson Halldór Gylfason Halldóra Geirharðsdóttir Hallgrímur Ólafsson Hanna María Karlsdóttir Hildur Berglind Arndal Hilmar Guðjónsson Ilmur Kristjánsdóttir Jóhann Sigurðarson Jóhanna Vigdís Arnardóttir Kristín Þóra Haraldsdóttir Nanna Kristín Magnúsdóttir Nína Dögg Filippusdóttir Ólafur Darri Ólafsson Sigrún Edda Björnsdóttir Sigurður Þór Óskarsson Theodór Júlíusson Unnur Ösp Stefánsdóttir Valur Freyr Einarsson Þorvaldur Davíð Kristjánsson Þröstur Leó Gunnarsson
Búningadeild Stefanía Adolfsdóttir, forstöðumaður Maggý Dögg Emilsdóttir Elma Bjarney Guðmundsdóttir Leikgervadeild Árdís Bjarnþórsdóttir, forstöðumaður Elín Sigríður Gísladóttir, leikgervahönnuður Guðbjörg Ívarsdóttir, hárgreiðsla Hulda Finnsdóttir, hárgreiðsla Margrét Benediktsson, leikgervahönnuður Leikmunadeild Móeiður Helgadóttir, forstöðumaður Ísold Ingvadóttir, leikmunavörður Lárus Guðjónsson, leikmunagerð Nína Bergsdóttir, leikmunavörður Smíðaverkstæði Ingvar Einarsson, forstöðumaður Gunnlaugur Einarsson (í leyfi), fostöðumaður Karl Jóhann Baldursson, smiður Miðasala og framhús Guðrún Stefánsdóttir, miðasölustjóri Kristín Ólafsdóttir, veitingastjóri Erna Ýr Guðjónsdóttir, miðasala Guðrún Sölvadóttir, miðasala Hörður Ágústsson, miðasala Ingibjörg Magnúsdóttir, ræsting Sól Margrét Bjarnadóttir, miðasala
Listrænir stjórnendur Jón Páll Eyjólfsson, leikstjóri Kristín Eysteinsdóttir, leikstjóri
Eldhús Sigurveig Guðmundsdóttir, forstöðumaður Áslaug Sunna Óskarsdóttir, matreiðslumaður
Sýningarstjóradeild Anna Pála Kristjánsdóttir, sýningarstjóri, Stóra svið Chris Astridge, sýningarstjóri, Nýja svið Hlynur Páll Pálsson, sýningarstjóri, Litla svið Ingibjörg Bjarnadóttir, sýningarstjóri, Stóra svið
Ræsting Elín Anna Sigurjónsdóttir, ræstitæknir
Leiksvið Kjartan Þórisson, forstöðumaður Friðþjófur Sigurðsson, aðstoðarsviðsstjóri Ögmundur Jónsson, tæknisviðsstjóri Richard Haukur Sævarsson, sviðsmaður
Móttaka Agnes Lily Guðbergsdóttir, móttökuritari Ágústa Magnúsdóttir, móttökuritari Umsjón húss Ögmundur Þór Jóhannesson
Ljósadeild Þórður Orri Pétursson, forstöðumaður Björn Bergsteinn Guðmundsson, yfirljósahönnuður Garðar Borgþórsson, ljósamaður
Borgarleikhúsið Listabraut 3, 107 Reykjavík Miðasala: 568-8000, skrifstofa: 568-5500 Netfang: borgarleikhus@borgarleikhus.is www.borgarleikhus.is
Hljóð- og tölvudeild Ólafur Örn Thoroddsen, forstöðumaður Baldvin Magnússon, hljóðmaður Thorbjørn Knudsen, hljóðmaður Stefán Þórarinsson, tölvuumsjón 35
Hamlet
Borgarleikhúsið er rekið með sérstökum rekstrarsamningi við Jafnframt er ómetanlegur stuðningur nokkurra öflugustu fyrirtækja landsins sem gerir okkur kleift að halda áfram að bjóða landsmönnum upp á kraftmikið og skapandi leikhús. Fyrir það erum við afar þakklát.
Borgarleikhúsið 2013–2014
36
ÍSLENSKA SIA.IS ICE 64617 06/13
BORGARFERÐIR
SPÓKIÐ YÐUR Á STRÆTUM STÓRBORGA Borgarferðir Þú færð ekki betra tækifæri til þess að lyfta þér upp. Þú getur valið á milli allra áfangastaða Icelandair, austan hafs og vestan. Hver er uppáhaldsborgin þín? Hún bíður.
Tilboðsferðir Spennandi tilboðsferðir. Einstök tækifæri í haust og í vetur. Fylgstu með á vefnum og taktu flugið án þess að hika. Ævintýrin gerast enn.
+ Bókaðu þína ferð á icelandair.is
37
Hamlet
Millifærðu með hraðfærslum í Appinu einn
...
tveir
og þrír!
1.000 kr.
Millifærðu með hraðfærslum Með Íslandsbanka Appinu einföldum við millifærslur í snjallsímanum margfalt. Millifærðu smærri fjárhæðir á vini og vandamenn með örfáum smellum.
Við bjóðum góða þjónustu
Skannaðu kóðann til að sækja Appið.
LEGGJUM
Í ÞAÐ SEM SKIPTIR MÁLI
10 KRÓNUR AF HVERRI EGILS MALT RENNA TIL SLYSAVARNAFÉLAGSINS LANDSBJARGAR Í ár er heil öld síðan Egils Malt kom fyrst á markað og hefur þessi einstaki drykkur fylgt þjóðinni í gegnum súrt og sætt. Af því tilefni ætlum við að láta 10 kr. af hverri seldri dós og flösku af Egils Malti renna til Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Ástæðan er einföld: FÍTON SÍA
VIÐ LEGGJUM MALT Í ÞAÐ SEM SKIPTIR MÁLI.
UmhverfisvottUð prentsmiðja
Umbúðir sem tryggja bragðgæði Oddi hefur gegnum tíðina séð íslenskum fyrirtækjum í matvælaiðnaði og inn flutningi fyrir umbúðum af öllu tagi. Við framleiðum umbúðir úr pappír og plasti sem ná utan um alla vörulínuna, hvort heldur í iðnaði eða verslun. Framleiðsla þín er í öruggum höndum hjá Odda.
Oddi – umhverfisvottuð prentsmiðja. höfðabakka 7, 110 reykjavík, sími 515 5000, www.oddi.is
Umbúðir og prentun
Góða skemmtun!
Valitor er einn af máttarstólpum Borgarleikhússins.
www.valitor.is
Borgarleikhúsið 2013–2014
42
43
Hamlet