Notkunarheimild: Kaupandi þessa skjals Penninn ehf. (5601090670) hefur heimild til að nota það á 1 vinnustöð/vum skv. samningsskilmálum Staðlaráðs Íslands. 30.8.2021.
85:2012 ÍST 85 Viðauki D Dómar og úrskurðir (Til upplýsingar) D.1
Inngangur
Í þessum viðauka eru reifaðir allir dómar Hæstaréttar um launajafnrétti kynja sem gengið hafa á tímabilinu 1996 til 2011. Í 69. gr. samningsins um evrópska efnahagssvæðið er kveðið á um meginregluna um launajafnrétti kynja en samningurinn hefur lagagildi hér á landi, sbr. 2. gr. laga nr. 2/1993. Segir í 3. gr. þeirra laga að skýra skuli lög og reglur að svo miklu leyti sem við á til samræmis við EES samninginn. Í þessum viðauka er við það miðað að skýra beri íslensk lagaákvæði um launajafnrétti kynja jafnframt til samræmis við ákvæði Evrópuréttarins, þ.e. sáttmála og tilskipanir Evrópusambandsins.7 Nokkrir dómar Evrópudómstólsins eru því reifaðir hér. Sérstaða Evrópudómstólsins er að hann dæmir ekki um tiltekinn ágreining. Til hans geta dómstólar ríkja Evrópusambandsins beint spurningum er varða túlkun á ákvæðum sáttmála og tilskipana sambandsins. Með dómum sínum veitir Evrópudómstóllinn því veigamiklar leiðbeiningar um hvernig beita skuli meginreglunni um launajafnrétti kynja. Þá eru nokkur álit/úrskurðir kærunefndar jafnréttismála reifuð. Úrskurðir kærunefndar jafnréttismála eru bindandi gagnvart málsaðilum en heimilt er að bera þá undir dómstóla, sbr. 5. gr. laga nr. 10/20088. Þau álit/úrskurðir sem hér eru rakin hafa ekki sætt slíkri endurskoðun. Sérhver reifun er stutt og einungis dregin fram þau atriði sem til upplýsinga og leiðbeininga geta verið við innleiðingu jafnlaunakerfis í fyrirtæki. Í nokkrum tilvikum er fjallað um sama málið undir fleirum en einum kafla og þá út frá þeim efnisþætti sem þar er til umfjöllunar. Í D.6 eru rakin þau ákvæði laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er varða launajafnrétti kynja, sem og ákvæði EES samningsins og samninga og tilskipana Evrópusambandsins. Í D.7 er síðan að finna lista yfir öll mál er varða launamun kynja sem kærunefnd jafnréttismála hefur fjallað um á tímabilinu 1. janúar 2000 til 31. desember 2011.
D.2 Dómar, álit/úrskurðir sem skýra hugtakið laun og önnur kjör Hugtökin laun og kjör eru skýrð rúmt og taka til sérhverrar þóknunar hvort heldur í fé eða fríðu sem launþegi fær beint eða óbeint frá vinnuveitanda vegna starfa sinna.
D.2.1. Dómur Hæstaréttar frá 5. febrúar 1998, mál nr. 208/1997: Kærunefnd jafnréttismála f.h. Sigurðar Torfa Guðmundssonar gegn íslenska ríkinu. Í málinu var deilt um rétt karla sem störfuðu hjá ríkinu til að taka launað fæðingarorlof en á þessum tíma nutu einungis konur sem þar störfuðu þess réttar. Eiginkona stefnanda sem jafnframt var ríkisstarfsmaður hafði afsalað hluta af fæðingarorlofi sínu til hans. Fjármálaráðuneytið synjaði erindi hans með vísun til þess að samkvæmt þágildandi lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins var réttur til launa í fæðingarorlofi afmarkaður við konur í starfi hjá ríkinu og á því ákvæði byggði reglugerð ríkisins um barnsburðarleyfi. Í niðurstöðu Hæstaréttar er m.a. vísað til 4. gr. þágildandi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem kvað á um að konum og körlum skuli greidd jöfn laun og þau njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf og þess að þar sé tilgreint að með launum sé átt við venjulegt grunn- eða lágmarkskaup og hvers konar frekari þóknun, beina eða óbeina, hvort heldur með hlunnindagreiðslum eða öðrum hætti og að með kjörum sé átt við lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hvers konar önnur samningsréttindi (sbr. nú 19. gr. laga nr. 10/2008). Var talið ótvírætt að þær greiðslur sem hér var um deilt féllu undir ofangreinda skilgreiningu á launahugtakinu.9 D.2.2 Dómur Evrópudómstólsins frá 9. febrúar 1982, (C 12/81): Eileen Garland gegn British Rail Engineering Limited. Sú hefð hafði skapast hjá bresku járnbrautunum að niðurgreiða ferðir starfsmanna hjá fyrirtækinu, maka þeirra og barna undir lögaldri. Þessi sérkjör í lestarferðum héldust eftir að starfsmaður fór á eftirlaun þó svo niðurgreiðslan væri lægri. Óumdeilt var að makar karla á eftirlaunum og börn hans undir lögaldri héldu þessum skertu sérkjörum á meðan konur í sömu stöðu nutu hlunnindanna aðeins fyrir sig. Fríðindin voru ekki hluti kjarasamninga. Þeirri spurningu var vísað til Evrópudómstólsins hvort niðurgreiðsla ferða starfsmanna félli undir hugtakið laun samkvæmt 119. gr. Rómarsáttmálans10 og tilskipun
9 7 8
Sjá um þetta atriði rit Stefáns Más Stefánssonar: Evrópusambandið og evrópska efnahagssvæðið. Bókaútgáfa Orators 2000. Kærunefnd jafnréttismála var sett á stofn með lögum nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, og var hlutverk hennar að gefa álit sitt á meintum brotum á lögunum. Samkvæmt núgildandi lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, skal kærunefnd kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
Sjá nú lög nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof með síðari breytingum. 10 Nú 141. gr. Ákvæði 1. mgr. 141. gr. hljóðar svo á ensku:“Each Member State shall ensure that the principle of equal pay for male and female workers for equal work or work of equal value is applied“. Í 2. mgr. segir að „For the purpose of this Article „pay“ means the ordinary basic or minimum wage or salary and any other consideration, whether in cash or in kind, which the worker receives directly or indirectly, in respect of his employment, from his employer.“
32
Skjal þetta er verndað af ákvæðum höfundalaga og afritun þess og dreifing er með öllu óheimil nema skv. samkomulagi við Staðlaráð Íslands.