
2 minute read
Sterk staða afreksmála þrátt fyrir óvissutíma
Sterk staða afreksmála Kórónuveirufaraldurinn hefur sem betur fer haft takmörkuð áhrif á mótahald á Íslandi sem er fagnaðarefni sérstaklega samanborið við það ástandið víða annars staðar. Staða alþjóðlegra atvinnu- og áhugamannamóta hefur tekið miklum breytingum frá fyrstu drögum og mörgum mótum hefur verið frestað eða aflýst. Þær mótaraðir sem atvinnukylfingar okkar leika á munu fara aftur af stað í júlí og það stefnir í þétta dagskrá út tímabilið þar sem mót eru haldin í hverri viku. Evrópska golfsambandið og R&A hafa nýlega uppfært sína mótaskrá fyrir árið 2020 og það stefnir í þétta dagskrá fyrir okkar afrekskylfinga erlendis frá og með ágúst. Einu stærsta verkefni ársins, heimsmeistaramótinu, sem þrátt fyrir óvissutíma fyrst átti að fara fram í Hong Kong og síðar í Singapúr í október, hefur því miður verið aflýst. Einnig hefur Evrópumóti golfklúbba verið aflýst og Ólympíuleikunum vissulega frestað fram á næsta ár. Evrópumót liða verða skipuð 4 kylfingum frá hverju landi í stað 6 og öll lið fá þátttökurétt í efstu deild í ár. Þó verður horft til árangurs 2019 fyrir mótin 2021. Það þýðir að engin lið munu falla í ár og þá jafnframt að á næsta ári munu karlalið, kvennalið og stúlknalið Íslands leika í efstu deild en piltaliðið leikur í 2. deild.
Afreksnefnd og afreksþjálfarar GSÍ fylgjast vel með þróun mála og vinna að því að endurskoða mótaáherslur jafnt og þétt. Óvissan er býsna mikil en staða afreksmála er þó sterk. Það stefnir í afturhlaðið tímabil hjá okkar bestu kylfingum en á móti skapast önnur tækifæri, til að mynda aukinn æfingatími með þjálfurum og þétt mótadagskrá á Íslandi þar sem allir okkar sterkustu kylfingar munu keppa innbyrðis. Það mun klárlega styðja vel við uppbyggingu yngri afrekskylfinga sem að öllu jöfnu hafa fá tækifæri til að keppa á móti okkar frábæru atvinnukylfingum.
Helstu mót áhugamanna má finna hér að neðan:
Breska áhugamannamótið (stúlkur) 11.–15. ágúst -England
Breska áhugamannamótið (piltar) 11.–16. ágúst -England
Breska áhugamannamótið (konur) 25.–29. ágúst -Skotland
Breska áhugamannamótið (karlar) 25.–30. ágúst -England
European Young Masters 27.–29. ágúst -Tékkland
Evrópumót einstakl. karla 2.–5. september -Frakkland
Evrópumót einstakl. kvenna Óstaðfest -Finnland
Evrópumót liða karla 9.–12. september -Holland
Evrópumót liða kvenna 9.–12. september -Svíþjóð
Evrópumót liða stúlkna 23.–26. september -Slóvakía
Evrópumót liða pilta 20.–23. október -Spánn
Heimsmeistaramót karla og kvenna Aflýst - Singapúr

Greg Brodie afreksstjóri GSÍ.

Ólafur Björn Loftsson, aðstoðar afreksstjóri GSÍ.
