2 minute read
Knattspyrnumaðurinn Samúel Kári kynntist golfinu í Leirunni
„Golf á að vera skemmtilegt“
„Það er foreldrum mínum að þakka að ég fór að spila golf sem krakki. Ég var líklega 10 ára þegar ég byrjaði. Um tíma fór ég nánast alltaf með þeim út í Leiruna að spila,“ segir Samúel Kári Friðjónsson sem er atvinnumaður í knattspyrnu með þýska liðinu SC Paderborn.
Foreldrar Samúels Kára eru þau Friðjón Einarsson og Sólveig Guðmundsdóttir. Þau eru bæði kylfingar í Golfklúbbi Suðurnesja og það lá því beinast við að Samúel fengi að kynnast íþróttinni snemma á lífsleiðinni.
Suðurnesjamaðurinn kann því ýmislegt fyrir sér í golfíþróttinni sem hann stundaði mikið sem barn og unglingur á Hólmsvelli í Leiru.
Sú reynsla kemur sér vel í frístundum atvinnumannsins í dag og einnig í óformlegum golfkeppnum landsliðsmanna Íslands í knattspyrnu.
Samúel Kári fór ungur í atvinnumennsku en hann fór 17 ára gamall frá Keflavík til enska liðsins Reading. Eftir fjögur ár á Englandi samdi hann við Vålerenga í Noregi þar sem hann var fram til ársins 2020. „Ég var alltaf með fótboltann í forgangi og ég fór því aldrei 100% í golfið sem keppnisíþrótt. Ég tók samt sem áður þátt á einu Íslandsmóti unglinga að mig minnir, og nokkrum sinnum í meistaramóti Golfklúbbs Suðurnesja,“ segir Samúel Kári en hann vonast til þess að geta stundað golfið mun meira á næstu árum. „Ef ég gæti þá myndi ég spila miklu meira golf en ég hef gert að undanförnu. Ég er með 10 í forgjöf en held að ég spili frekar í kringum 12 í forgjöf eins og staðan er í dag. Það sem heillar mig við golfið er að þetta er íþrótt þar sem ég ætla bara að hafa gaman. Vera úti í náttúrunni með vinum eða fjölskyldu – það er ferskleiki sem fylgir því að fara út á golfvöll í góðu veðri. Draumaráshópurinn væri vel skipaður, ég myndi bjóða mömmu og pabba með í keppni við Phil Mickelson.“
Samúel Kári er mikill íþróttamaður og getur því slegið boltann langt en hann á eftir að slá draumahöggið
„Á góðum degi get ég dúndrað boltanum 270–280 metra. En hann fer ekki alltaf þangað sem ég miða. Því miður hef ég ekki enn náð að fara holu í höggi. Það kemur að því og það væri gaman að slá draumahöggið á uppáhaldsholunni minni, Bergvíkinni, á uppáhaldsvellinum mínum, Hólmsvelli í Leiru. Af erlendum völlum þá er völlur sem ég spilaði nýlega í Lúxemborg sá sem stendur upp úr, hann heitir Junglinster og er magnaður völlur.