
1 minute read
„Hlakka til að fara vestur aftur“
Fjölmenni á golfnámskeiði á Bíldudal
„Þetta var mjög skemmtilegt verkefni og Litlueyrarvöllur kom mér mikið á óvart. Þetta er völlur sem allir ættu að heimsækja og upplifa,“ segir Sigurður Hafsteinsson PGA golfkennari.

Sigurður, sem er einn reyndasti kylfingur landsins, fór um miðjan maí í heimsókn til Golfklúbbs Bíldudals þar sem hann hélt golfnámskeið. „Karl Þórisson hafði samband við mig og spurði hvort ég gæti komið til þeirra. Ég ákvað að slá til, þetta var stórskemmtilegt og vonandi höfðu nemendurnir líka gaman af þessu,“ bætir Sigurður við.
Kylfingar frá Bíldudal, Tálknafirði og Patreksfirði komu á námskeiðið hjá Sigurði og svo gæti farið að hann færi á ný vestur og þá yrði námskeiðið haldið á Vesturbotnsvelli á Patreksfirði. „Aðsóknin fór fram úr öllum væntingum. Það voru 40 kylfingar sem mættu. Um helmingur þeirra voru nýliðar. Við vorum við æfingar og kennslu í þrjá daga. Veðrið var alls konar, það var gott fyrsta daginn, alveg geggjað á öðrum degi og hrikalega vont á þeim þriðja. En það mættu allir þegar veðrið var sem verst og það gladdi mig mikið.“
Sigurður hvetur íslenska kylfinga að nýta tækifærið og heimsækja sem flesta íslenska golfvelli í sumar. „Það kostar t.d. 2.500 kr. á dag að leika á Bíldudal. Og þá er hægt að leika eins marga hringi og kylfingar kjósa. Ég mæli með þessu og hlakka til að fara vestur aftur,“ sagði Sigurður enn fremur.







