
4 minute read
Dómarastarfið hefur opnað nýjar dyr fyrir mig
Dómarastarfið hefur opnað nýjar dyr fyrir mig
Sigurður J. Hallbjörnsson, golfdómari úr Golfklúbbi Vatnsleysustrandar, bættist í hóp alþjóðlegra dómara hér á Íslandi í febrúar sl. Alls hafa því þrettán íslenskir golfdómarar fengið slíkt réttindi frá árinu 1965.
Sigurði var boðið að taka þátt á námskeiði fyrir golfdómara hjá R&A í St. Andrews í Skotlandi dagana 4.–7. febrúar 2020. Námskeiðinu lauk með prófi sem lagt var fyrir 96 golfdómara sem komu frá 47 þjóðum. Sigurður stóðst prófið og er því með alþjóðleg dómararéttindi frá R&A sem golfdómari.
Sigurður segir í samtali við golf.is að námskeiðið hafi verið áhugavert, skemmtilegt og fræðandi – en á sama tíma mjög krefjandi verkefni. „Þetta kom nú þannig til að dómaranefnd Golfsambands Íslands fékk boð um að senda tvo fulltrúa á þetta námskeið. Aron Hauksson frá Golfklúbbi Reykjavíkur fékk einnig boð en hann gat því miður ekki þegið boðið. Ég fór því einn til „Mekka“ golfsins í St. Andrews í Skotlandi og það var mikil upplifun,“ segir Sigurður en námskeiðið samanstóð af fyrirlestrum, sýnikennslu og verklegum æfingum.
„Ég fékk ekki mikinn tíma til þess að skoða mig um á Old Course í St. Andrews en ég náði þó að ganga aðeins um á svæðinu þegar við fengum lausa stund. Það var mikil upplifun samt sem áður að koma á þetta sögufræga golfsvæði. Annars var þetta mikil vinna og lærdómur uppi á hótelherbergi á kvöldin. Ég leyni því ekkert að þetta var bara ansi strembið,“ bætir Sigurður við í léttum tón.
Sló fyrstu höggin á Sauðárkróki
Golfíþróttin hefur fylgt Sigurði um langa hríð en hann byrjaði í golf sem unglingur á Sauðárkróki. „Ég er Skagfirðingur og það er vini mínum Erni Sölva Halldórssyni að þakka að ég byrjaði í golfi á sínum tíma. Í minningunni voru þetta „jarðvegsframkvæmdir“ hjá okkur félögunum en ekki golf þegar við vorum að byrja. Það voru fleiri högg sem fóru í jörðina en í boltann svona til að byrja með.“

Hvatning frá formanni kveikti áhugann
Alþjóðadómarinn fékk áhuga á dómgæslu þegar slík mál voru til umræðu á aðalfundi GVS árið 2012. „Fyrrum formaður Golfklúbbs Vatnsleysustrandar, Andrés Guðmundsson, vakti athygli á því á aðalfundi GVS árið 2012 að það væri skortur á dómurum hjá klúbbnum. Hann hvatti okkur félagsmennina til að fara á dómara- námskeið og styðja við starf klúbbsins með þeim hætti. Ég fann að ég hafði áhuga á þessu og fór því á héraðsdómaranámskeið árið 2012. Fjórum árum síðar eða árið 2016 tók ég landsdómarapróf og nú fjórum árum eftir þann áfanga bætti ég alþjóðlega dómaraprófinu við. Dómarastarfið er skemmtilegt og hefur opnað nýjar dyr fyrir mig.
Ég hef kynnst skemmtilegu fólki í golfhreyfingunni út um allt land. Það er einnig gaman að fá tækifæri til að öðlast meiri þekkingu á innra starfi golfklúbba í gegnum dómara- störfin.“ Sigurði vonast eftir því að fá tækifæri til þess að nýta alþjóðadómararéttindin á mótum erlendis á næstu misserum. „Það væri gaman að fá tækifæri til þess að fá verkefni á mótum erlendis. Það er alla vega eitt af markmiðunum hjá mér. Ég hef líka velt því fyrir mér að taka próf hjá bandaríska golfsambandinu, USGA, og auka þar með möguleika mína á þessu sviði. Þetta eru bara vangaveltur hjá mér en aldrei að vita nema ég láti verða af þessu einn góðan veðurdag.“
Kálfatjarnarvöllur mitt annað heimili
Eins og áður segir er Sigurður félagi í Golfklúbbi Vatnsleysustrandar og er klúbburinn nánast hans annað heimili. „Ég hef verið félagi í Golfklúbbi Vatnsleys- ustrandar frá árinu 2009 þegar við fluttum á Suðurnesin. Ástæðan fyrir því að ég valdi GVS var í raun sú að það hentaði vel að spila þar á leiðinni heim úr vinnu þar sem ég var á þeim tíma að vinna í Reykjavík. Mér fannst líka andinn í klúbbnum minna mig á það sem ég kannaðist við frá mínum æskuslóðum í Skaga- firði. Konan mín hefur einnig áhuga á golfi og GVS. Hún gekk í klúbbinn árið 2011 og Kálfa- tjarnarvöllur er í dag okkar annað heimili,“ segir Sigurður J. Hallbjörnsson.

Þrettán alþjóðlegir dómarar
Alls hafa 13 íslenskir golfdómarar öðlast alþjóðleg réttindi og var Kristján Einarsson úr GS sá fyrsti sem hlaut slík réttindi. Á árunum 1965–1999 voru aðeins tveir íslenskir dómarar með alþjóðleg réttindi. Á síðustu tveimur áratugum hafa ellefu dómarar bæst í alþjóðlega hópinn.

Eftirtaldir dómarar frá Íslandi hafa fengið alþjóðleg dómararéttindi:
Kristján Einarsson, GS (1965) Hörður Geirsson, GK (2010) Þorsteinn Sv. Stefánsson, GR (1980) Kjartan Bjarnason, GKG (2011) Hinrik Gunnar Hilmarsson, GR (2000) Sæmundur Melstað, GKG (2012) Sigurður Geirsson, GM (2000) Bergsveinn Þórarinsson, GKG (2015) Jón Thorarensen, GÖ (2003) Þorgrímur Björnsson, GKG (2016) Þórður Ingason, GO (2008) Sigurður J. Hallbjörnsson, GVS (2020) Aðalsteinn Örnólfsson, GKB (2010)