1 minute read

Ný golfakademía

í Fjölbrautaskóla Suðurlands

Golfklúbbur Selfoss og Fjölbrautaskóli Suðurlands hafa gert með sér samkomulag um að stofna afreksbraut eða golfakademíu. Golfíþróttin mun því bætast við sem valkostur fyrir nemendur í íþróttaakademíu FSu. Þar með eru tveir framhaldsskólar á landinu sem bjóða upp á golf sem valkost á afreksbraut fyrir íþróttafólk. Borgarholtsskóli í Grafarvogi í Reykjavík hefur boðið upp á slíkt nám í nokkur ár.

Í íþróttaakademíu FSu er íþróttaæfingum hjá úrvalsþjálfurum fléttað saman við nám á fjölmörgum námsbrautum.

Alls munu 12 nemendur verða teknir inn á námsbrautina til að byrja með og er búist við mikilli aðsókn í námið.

Ný og glæsileg inniaðstaða hjá Golfklúbbi Selfoss gegnir lykilhlutverki í því að boðið verður upp á afreksþjálfun í golfi samhliða námi í FSu.

Olga Lísa Garðarsdóttir skólameistari FSu segir að málið hafi verið lengi í um- ræðunni en vegna aðstöðuleysis til æfinga yfir vetrartímann hafi því verið frestað. Ný og glæsileg inniaðstaða GOS hafi breytt forsendunum til þess að bjóða upp á golf sem valkost yfir vetrarmánuðina.

„Starfið í íþróttaakademíunni hefur afar jákvæð áhrif inn í skólastarfið. Krakkarnir eru góðar fyrirmyndir og standa sig vel í námi. Þau eru skipulögð og kunna að fylgja reglum og sinna skólastarfinu af kostgæfni,“ bætir Olga við.

Hlynur Geir Hjartarson framkvæmdastjóri GOS segir að íþróttaakademía FSu hafi breytt íþróttalífinu á Suðurlandi. Og nú sé tækifæri fyrir golfíþróttina að nýta tækifærin sem skapist.

„ Afreksstarfið er að skila sér og við eigum nokkra kylfinga í landsliðum. Þessi viðbót er hluti af því að halda áfram að byggja upp afreksstarfið. Ekki bara fyrir GOS heldur fyrir allt Suðurland og landið allt. Það eru fullt af efnilegum krökkum úti á landi sem ekki komast í afreksstarf og afreksþjálfun hjá menntuðum PGAþjálfurum. Þá væri þetta mögulega leiðin þeirra. Fara í skóla í FSu og ná í afreksþjálfun í leiðinni.“

This article is from: