Ársskýrsla Hafnarsóknar 2011 - 2012

Page 1

HAFNARSÓKN Hafnarkirkja - Stafafellskirkja Kirkjugarðarnir á Höfn og Stafafelli

Ársskýrsla 2011 – 2012 Aðalsafnaðarfundur haldinn í Safnaðarheimili Hafnarkirkju 18. mars 2012


Hafnarsókn Aðalfundur Hafnarsóknar árið 2011 var haldinn 20. mars á Hótel Höfn.

Sóknarnefnd og starfsfólk Prestar: Sóknarprestur er séra Sigurður Kr. Sigurðsson. Séra Einar Jónsson á Kálfafellsstað leysti hann af í fríum þar til hann lét af störfum í maí og færði sóknarnefnd honum bókagjöf sem þakklætisvott á afmæli hans 16. apríl sl. Séra Karl Matthíasson og séra Halldór Reynisson leystu sóknarprestinn af sl. sumar.

Sóknarnefnd, aðalmenn: Albert Eymundsson Gauti Árnason Halldóra K. Guðmundsdóttir Jón Stefán Friðriksson Gunnlaugur Þ. Höskuldsson Marta Imsland, Sigurður Ólafsson.

formaður, varaformaður, ritari, varasafnaðarfulltrúi, gjaldkeri, safnaðarfulltrúi,

Sóknarnefnd, varamenn: Magndís Birna Aðalsteinsdóttir, Gunnhildur L. Gísladóttir, Halldóra Ingólfsdóttir, Heiðar Sigurðsson, Linda Hermannsdóttir, Stefanía Sigurjónsdóttir, Þorvaldur Viktorsson. Sóknarnefndarmenn skiptu með sér verkum eins og að ofan greinir. Samkvæmt reglum um kjör sóknarnefnda á ekki að kjósa nefndarmenn í ár og verður nefndin óbreytt næsta ár en verkaskipting nefndarfólks getur breyst.

Skoðunarmenn reikninga voru kjörnir: Svava Kr. Guðmundsdóttir, Jón. G. Gunnarsson.

Nýjar starfsreglur um valnefndir tóku gildi 1. janúar 2012. Til að skýra starfsreglurnar skal hér tekin tilvitnun úr 6. gr. reglnanna: „Valnefnd prestakalls velur sóknarprest og prest. Hún skal skipuð viðkomandi prófasti, sem jafnframt er formaður nefndarinnar og níu fulltrúum prestakalls. Með valnefndum skal starfa ráðgjafi skv. 2. grein starfsreglna þessara og skal hann sitja alla fundi valnefndar. Hann hefur ekki atkvæðisrétt á fundum hennar, en verkefni hans er að veita ráðgjöf um verklag og að gæta þess að valnefnd fari að reglum. Valnefnd er heimilt að kalla til ritara. Fulltrúar prestakalls og jafnmargir varamenn þeirra eru valdir til setu í valnefnd til fjögurra ára á sóknarnefndarfundi eða á sameiginlegum fundi sóknarnefnda í prestaköllum þar sem sóknir eru fleiri en ein. Prófastur boðar til þess fundar þegar fleiri en ein sóknarnefnd á í hlut. Það val skal fara fram að loknum fyrstu sóknarnefndarkosningum eftir gildistöku þessara reglna. Sé ein sókn prestakallsins fjölmennari en hinar samanlagt skulu varamenn hennar einnig taka þátt í vali fulltrúanna. Þar sem sóknir eru fleiri en ein í prestakalli skal taka mið af fjölda sókna og fjölda sóknarbarna einstakra sókna við val fulltrúa. Þær sóknir sem ekki fá fulltrúa í valnefnd skipa áheyrnarfulltrúa til setu á fundum þeirrar valnefndar.“ Samkvæmt þessu á ekki að velja nýja valnefnd á þessum fundi heldur bíða eftir sameiginlegum fundi sóknarnefnda Bjarnarnessóknar þar sem valið á að fara fram. Í þessu sambandi er rétt að benda á að af nýjum fulltrúum í valnefnd eiga að vera fimm frá Hafnarsókn, miðað við fjölda sóknarbarna.

Safnaðarstarfið Safnaðar- og kirkjustarfið hefur verið með hefðbundnum hætti þrátt fyrir þröngan kost eins og fram kemur í umfjöllun um fjármálin. Messað var reglulega og starf samkórsins hefur verið öflugt eins og áður. Viðhaldi fasteigna hefur verið haldið í lágmarki án þess að láta eignir og muni kirknanna drabbast niður. Orgel Hafnarkirkju var allt yfirfarið af sérfræðingi. Kostnaður vegna þess var um 360.000- kr.

Athafnir og samvera í kirkjunum

Starfsmenn þeir sömu og áður: Kristín Jóhannesdóttir organisti, Örn Arnarson kirkjuvörður, Helga Stefánsdóttir og Magndís Birna Aðalsteinsdóttir kórfélagar aðstoðuðu við sunnudagaskólann, Sóknarnefndarmenn leystu kirkjuvörð af í fríum hans.

Valnefndina skipuðu: Albert Eymundsson, Þorvaldur Viktorsson, Ágústína Halldórsdóttir, Sigurður Ólafsson, Halldóra Guðmundsdóttir, Marta Imsland.

Andlegar athafnir í Hafnarkirkju voru 70 sem 4.011 einstaklingar sóttu.

Veraldlegar athafnir í Hafnarkirkju voru 17 sem 1.831 einstaklingar sóttu.

Samtals komu í Hafnarkirkju á árinu 5.842 manns.

Athafnir í Stafafellskirkju voru 5 sem 212 einstaklingar sóttu.

Þá eru ótaldar allar kóræfingar (samkórsins, karlakórsins og barnakórsins um tíma), fundir og annað sem fer fram í kirkjunni og safnaðarheimilinu.


Fundir og námskeið •

Sigurður sóknarprestur, Gunnlaugur Þröstur safnaðarfulltrúi og Örn kirkjuvörður sóttu héraðsfund í Suðurprófastdæmi sem haldinn var á Kirkjubæjarklaustri.

Sóknarnefndarformaður og gjaldkeri sóttu þing kirkjugarðasambandsins sem haldið var á Húsavík.

Kristín organisti sótti námskeið fyrir organista í Skálholti.

Fjármál Fjármálin hafa verið helsta viðfangsefni sóknarnefndar á þessu starfsári eins og því síðasta. Eins og áður er sérstök áhersla á að í starfsreglum fyrir sóknarnefndir eru skýr fyrirmæli um að sóknarnefndum beri að sýna ábyrgð í fjármálum en jafnframt að gæta þess að kirkjan, búnaði hennar og safnaðarheimili sé vel viðhaldið. Eftir að það stefndi í 4,5 m. kr. halla á rekstri kirkju og kirkjugarða árið 2011 að óbreyttum rekstri þá hefur sóknarnefndin haldið fast um fjármálin og gætt þess að viðhalda hallalausum rekstri í samræmi við rekstraráætlun fyrir árið 2011.

Ársreikningur 2011 (tölur ársins 2010 innan sviga) Tekjur voru samtals 15.662.945- kr. (11.994.990- kr.). Helsti tekjustofninn eru sóknargjöld 9.364.370- kr. (10.170.417- kr.). Styrkur frá Skinney-Þinganesi að upphæð 4.256.534- kr., sem fór til greiðslu bankaláns í LÍ, skýrir að hluta háar heildartekjur. Hafnarsókn er nú skuldlaus. Ef sértækir styrkir vegna fjárhagsvandans eru dregnir frá eru tekjurnar 11.106.411- kr. og lækka milli ára um 900.000- kr. Rekstrargjöld voru 10.797.462- kr. (12.516.635- kr.). Stærstu útgjaldaliðirnir eru laun ásamt launatengdum gjöldum og bifreiðakostnaði, samtals 7.360.351- kr. Rekstragjöld lækka milli ára um 1.700.000- kr. Þetta aðhald var ekki sársaukalaust. Leggja þurfti af starfsemi barnakórsins og launakjör starfsfólks, kirkjuvarðar og organista voru skert verulega. Þetta kann að hljóma mótsagnarkennt þar sem hagnaður af rekstrinum var 4.892.580- kr. í stað rúmlega 800.000- kr. halla árið 2010. Skýringin er áðurnefndur styrkur frá Skinney-Þinganesi sem var eyrnamerktur til greiðslu lánsins í LÍ og styrkur sveitarfélagsins að upphæð 300.000- kr. Að frádregnum þessum styrkjum er hagnaður ársins 308.949- kr. Ársreikningurinn sýnir að vel hefur tekist að halda rekstrinum innan fjárhagsáætlunar og ekki hefur komið til greiðsluvanda eins og árið 2010 og á fyrri hluta sl. árs. Hvað varðar frekari skýringar er vísað í ársreikninginn sem liggur fyrir á fundinum.

Fjárhagsáætlun Á þessum fundi er lögð fram fjárhagsáætlun fyrir árið 2012. Í 4. gr. starfsreglna fyrir sóknarnefndir segir: „Sóknarnefnd skal í samráði við sóknarprest gera fjárhagsáætlun fyrir hvert almanaksár og hafa þar m.a. hliðsjón af starfsáætlun

sóknarprests og annarra starfsmanna sóknarinnar. Fjárhagsáætlun skal lögð fram á aðalsafnaðarfundi til kynningar og afgreiðslu.“ Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar eru að gert er ráð fyrir rekstrartekjum að fjárhæð samtals 12.350.792- kr. Þar af eru sóknargjöld 9.530.792- kr. eða 77% af heildartekjum. Rekstrargjöld eru samtals 11.942.644- kr. Varðandi rekstrargjöldin skiptir sköpum að lánið í LÍ var greitt upp en afborganir og vextir af því voru um 1,5 m. kr. á ári. Eins og fram kemur í forsendum áætlunarinnar þá verða laun kirkjuvarðar leiðrétt en bílastyrkur er áfram skertur frá því sem var árið 2010. Nú þegar hefur Skinney-Þinganes greitt nýjan styrk vegna þessa árs að upphæð 1.200.000kr. Verði um meiriháttar viðhald á árinu að ræða þarf að afla sértekna vegna þess en aðkallandi er að mála kirkjuna að utan.

Helstu forsendur áætlunarinnar: •

Sóknargjöld eru reiknuð 701- kr. á hvert gjaldskylt sóknarbarn árið 2012 í stað 698- kr. á árinu 2011. Miðað er við 1133 einstaklinga í þjóðkirkjunni.

Laun starfsmanna hækkuð um 3,5% í samræmi við gildandi kjarasamninga.

Kirkjuvörður fær full laun eins og var árið 2010.

Miðað er við 1.000 km. á mánuði í bifreiðastyrk hjá kirkjuverði í stað 1.200 km. samkvæmt upphaflegum starfssamningi. Taxti er nú kr.111- pr. km.

Orkukostnaður er áætlaður 14% hærri en rauntölur 2011.

Áætlað viðhald kirkju er um 200 þúsund.

Gert er ráð fyrir að aðrir kostnaðarliðir verði sambærilegir og rauntölur 2011 gefa til kynna.

Áætlaðir styrkir eru 1.200.000.- kr. (Nú þegar greiddur)

Vísað er í framlagða fjárhagsáætlunina á fundinum til frekari skýringa.

Kirkjugarðar í Hafnarsókn Sóknarnefnd skipar jafnframt stjórn kirkjugarðanna en rekstur garðanna á að vera aðskilinn rekstri sóknarinnar. Það er viss hagræðing af því þegar rekstur beggja aðila er á sömu hendi. Sérstaklega á þetta við um starfsmannahald sem hægt er að samræma. Rekstur kirkjugarðanna hefur verið erfiður og afmarkaðar tekjur nægja alls ekki fyrir eðlilegum gjöldum. Erfitt er að finna sparnaðar- eða hagræðingarleiðir og því síður viðbótartekjur þegar rekstur kirkjugarða er annars vegar og ekki hægt að sætta sig við að sjá þá illa hirta og drabbast niður. Þess vegna er fjárhagsáætlun garðanna afgreidd með rekstrarhalla með von um að úr rætist í framtíðinni.


Ársreikningur kirkjugarðanna (tölur ársins 2010 innan sviga)

Helstu niðurstöður ársreiknings kirkjugarðanna eru að rekstrartekjur/kirkjugarðsgjöld voru samtals 3.372.908- kr. (3.932.104- kr.). Rekstrargjöld voru samtals 3.771.030- kr. (4.760.385- kr.). Hallinn er 398.122- kr. sem skuldfærður er á reikning sóknarinnar og er svipuð upphæð og hagnaður sóknarinnar.

Fjárhagsáætlun kirkjugarðanna Fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir að tekjur verði 3.602.756- kr. og gjöld 4.076.634- kr. Halli er 475.878- kr. sem er svipuð upphæð og hagnaður og afskriftir sóknarinnar. Helstu forsendur áætlunarinnar: •

Umhirðugjald kirkjugarða samkvæmt bréfi dagsettu 21. febrúar 2012.

Greftrunargjald er óbreytt: 76.000- kr.

8,5% af kirkjugarðsgjöldum fara í Kirkjugarðasjóð.

Viðhald kirkjugarðs er áætlað um 200.000- kr.

Stækkun kirkjugarðsins á Höfn Sveitarfélagið hefur unnið að undirbúningi á stækkun kirkjugarðsins á Höfn. Skipulagsvinna er í fullum gangi og áætlar sveitarfélagið að undirbyggja stækkun garðsins í ár. Málið hefur nokkrum sinnum komið til umræðu hjá sóknarnefnd/stjórn garðsins og ákveðið var að sækja um styrk til kirkjugarðasjóðs í samráði við Guðmund Rafn Sigurðsson hjá Biskupsstofu. Styrkurinn er til að standa undir hluta af kostnaði við steinhleðslu. Um er að ræða að einhlaða eins metra háan vegg úr gabbrói umhverfis stækkun kirkjugarðsins til norðurs. Jafnframt þarf að ganga frá tenginu við stækkunina og ráðast í aðrar framkvæmdir sem sveitarfélaginu ber ekki að greiða. Kirkjugarðasjóður samþykkti styrk að upphæð kr. 3.000.000- kr. en kostnaðaráætlun hljóðar upp á 5.123.600- kr. Samkvæmt þessu þarf framlag kirkjugarðsins að vera verulegt en möguleikar eru á að það sé m.a. í vinnuframlagi og ýmsum stuðningi við verkefnið. Á þessum fundi er mikilvægt að taka afstöðu til þess hvort fara á í ofangreindar framkvæmdir og nýta styrkinn. Það verða alltaf skiptar skoðanir um stækkun kirkjugarðsins eða nýtt kirkjugarðsstæði en tímabært er að fá lendingu í þeim málum.

Héraðsprestur Kirkjuráð frestaði í desember sl., án fullnægjandi rökstuðnings, að auglýsa hálfa stöðu héraðsprest. Eftir að niðurstaða kirkjuráðsins lá fyrir óskaði formaður sóknarnefndar eftir að fá fund með biskupi og lýsti þar yfir vonbrigðum með niðurstöðuna og hann teldi hana væri óásættanlega fyrir sóknarprest og sóknarbörn í Austur-Skaftafellssýslu. Í framhaldi af fundinum ritaði formaður kirkjuráði ítarlegt bréf um málið og fór fram á að það væri tekið fyrir aftur á næsta fundi ráðsins 18. janúar. Á þeim fundi er eftirfarandi bókað; „Hafnarsókn, Bjarnarnesprestakall, Suðurprófastsdæmi. Lagt fram bréf

sóknarnefndar Hafnarsóknar, Suðurprófastdæmi, dags. 10. janúar 2012, vegna prestþjónustu í Bjarnarnesprestakalli. Biskup mun auglýsa embætti héraðsprests með sérstakar skyldur við Bjarnarnesprestakall. Embættið verður auglýst til umsóknar frá 1. júlí 2012. Um 50% starfshlutfall verður að ræða.“ Þessari niðurstöðu ber að fagna. Til skýringar þá er héraðsprestur ekki valinn af valnefnd prestakallsins og er undir stjórn prófasts. Aftur á móti er alveg ljóst að staðan er eyrnamerkt Bjarnanesprestakalli og væri annars ekki á dagskrá.

Líkhús Eins og öllum er kunnugt þá er aðstaðan í núverandi líkhúsi ekki viðunandi. Þó ekki sé fjárhagslegur grundvöllur fyrir framkvæmdum að sinni má ekki sofna á verðinum. Mikilvægt er að umræður um framtíðarlausnir fari reglulega fram og nauðsynlegt taka þá umræðu upp við og við.

Lokaorð og þakkir Margar dýrmætustu stundir og minningar í lífi okkar tengjast kirkjulegum athöfnum s.s. skírnum, fermingum og giftingum. Sömuleiðis finnst okkur mikilvægt að útfarir ástvina geti farið virðulega fram og öllum til sóma. Þess vegna er svo mikilvægt að það sé ákveðin myndugleiki kringum allt starf kirkjunnar. Til þess að svo megi vera er nauðsynlegt að rekstrarumhverfi sóknarinnar og kirkjugarðanna verði fært til betra horfs en tekjurnar hafa dregist saman yfir 30% síðustu þrjú ár. Mér er enn og aftur ljúft og skylt að þakka öllum gott samstarf og samvinnu á liðnu starfsári. Sömuleiðis skal öllum þakkað sem lagt hafa sóknarnefnd og kirkjustarfinu lið með styrkjum eða á annan hátt. Forsvarsmenn Skinneyjar-Þinganes fá sérstakar þakkir fyrir framlag sem skipti sköpum varðandi rekstrarstöðu kirkjunnar. Presti og starfsfólki er einnig þakkað sérstaklega fyrir vel unnin störf sem unnin voru af metnaði eins og sjá mátti í athöfnum, viðhaldi kirknanna, umhverfi þeirra og kirkjugörðunum. Það er full ástæða til að hvetja safnaðarmeðlimi til að standa vörð um safnaðar- og kirkjustarfið og taka því vel ef sóknarnefnd leitar til sóknarmeðlima eða annarra aðila með einhver erindi til að efla starfið. Hornafirði 18. mars 2012 Albert Eymundsson, formaður sóknarnefndar


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.