
1 minute read
Sunna Jónsdóttir
Fyrirliði kvennaliðs ÍBV
Sunna Jónsdóttir er fyrirliði kvennaliðs ÍBV. Sunna gekk til liðs við ÍBV haustið 2018 og hefur verið einn af burðarásunum í liðinu allar götur síðan. Sunna er þrautreynd en hún lék um árabil í atvinnumennsku erlendis ásamt því að eiga fjölmarga landsleiki að baki. Við spurðum hana nokkurra spurninga í aðdraganda Final 4.
Advertisement

Hvernig líkar þér lífið í
Eyjum og hjá ÍBV?
Mér og fjölskyldunni líkar lífið í
Eyjum mjög vel. Hér er dásamlegt að vera og auðvelt að láta sér líða vel í því sem maður er að fást við. Samheldnin í samfélaginu er einstök og hér er stórbrotin náttúra og margt í boði.
ÍBV er frábær klúbbur. Umgjörðin og stemmningin í kringum liðið er flott og stuðningurinn magnaður. Í
ÍBV er aðstaða og tími til að þróast og þroskast sem leikmaður óháð aldri eða hvaðan maður kemur. Hér er einnig hægt að vera hluti af góðri liðsheild og samstöðu. Ég væri allavega hvergi annars staðar til í að vera eins og staðan er núna.
Hvernig er leikdagsrútínan þín?
Ég hef svo sem aldrei verið föst í einhverjum rútínum og get alveg haft þær mismunandi á milli leikja. En mér finnst voða gott að ná að eyða smá tíma með peyjanum mínum, fá mér vatn, kaffi og smá súkkulaði, fara út í ferskt loft og hlusta á góða músík. Hinsvegar í ferðalögum með ÍBV er spilið gúrka orðið að mjög mikilvægari rútínu. Ég man ekki hvenær eða hvort ég hafi tapað í gúrku!
Besta minning úr handboltanum hingað til?

Finnst ég búin að upplifa margar góðar minningar á ferlinum og kynnast fullt af frábæru fólki en svona handboltalega þá er það stórmót með landsliðinu, Íslandsmeistarar í Fram, tíminn úti í atvinnumennsku og svo úrslitakeppnin hér 2021 á móti KA/Þór þar sem maður upplifði þessa mögnuðu Eyjastemmningu.
Hver eru markmið liðsins fyrir bikarhelgina?
VINNA og sigla bikarnum heim eins og okkur dreymir um.
Hvernig er stemningin í hópnum á þessum tímapunkti?
Frábær. Við erum full tilhlökkunar fyrir komandi leikjum bæði í Final 4, deild og svo úrslitakeppni. Hópurinn er mjög þéttur og liðsheildin er sterk. Það er mjög mikilvægt í hópíþrótt og ég veit að það skilar sér inn á völlinn. Ég hlakka alltaf til að hitta liðið hvort sem það eru æfingar, fundir, leikir, ferðalög eða fjáraflanir. Það eru margir ólíkir einstaklingar í hópnum en allir fá sitt pláss og andrúmsloftið og húmorinn er upp á 100.