1 minute read

Vigdís Sigurðardóttir fyrrum bikarmeistari með ÍBV

Next Article
Sigurður Bragason

Sigurður Bragason

Vigdís Sigurðardóttir, lék um áraraðir með kvennaliði ÍBV og lék á þeim tíma sem liðið var afar sigursælt. Hún varð m.a. bikarmeistari með ÍBV árið 2001 og 2002. Við tókum stutt spjall við hana í aðdraganda bikarhelgarinnar.

Advertisement

Hver er eftirminnilegasti bikarleikur þinn sem leikmaður? Það eru nánast allir bikarúrslitaleikir sem ég hef komist í. Þeir eru allir eftirminnilegir á sinn hátt. Fyrsta skiptið var með ÍBV '93 í leik sem við töpuðum en leikgleðin var svo mikil að þó að við töpuðum þá var eins og við værum sigurvegarnir. Svo vann ég 1997 með Haukum og sá leikur er mjög eftirminnilegur þar sem hann var fyrsti bikarmeistaratitillinn sem ég vann. Svo auðviðtað fyrsti bikarsigurinn með ÍBV 2001 það gleymist aldrei, þessi margumtalaða sigling með bikarinn heim, hún er eitthvað sem allir þurfa að upplifa.

Hvernig tilfinning er að lyfta bikarnum í Höllinni?

Hún er eiginlega ólýsanleg, þessi tilfinning að vinna bikar og lyfta honum upp fyrir framan fullt af stuðningsmönnum sem hafa lagt sig alla fram við að hjálpa að vinna bikar, það er yndislegt.

Hvernig metur þú möguleika ÍBV í bikarhelginni þetta árið? Ég er mjög bjartsýn, ég veit alveg að þetta verða erfiðir leikir en stelpurnar hafa verið að spila vel undanfarið og ég hef fulla trú á því að þær haldi því áfram. Bikarleikir eru líka aðeins öðruvísi leikir þannig að þú þarft að koma 110% undirbúin í báða leikina, því að í bikarleikjum getur allt gerst.

Hversu mikilvægur er stuðningur áhorfenda í svona leikjum? Ég held að hann skipti sköpum sérstaklega í svona leikjum. En þeir þurfa að vera virkir áhorfendur svo að það skili sér inn á völlinn til leikmanna. Það er best í heimi að heyra fögnuðinn og stuðninginn í áhorfendum þegar okkar lið skorar eða markmaður ver.

Hvernig er tilfinningin að fylgjast með börnunum þínum leika á stóra sviðinu? Það er mjög skemmtilegt. Ég hef mikinn áhuga á að fylgjast með handboltanum og þá er ekki leiðinlegt að eiga smá í liðinu. Það er reyndar stundum svolítið erfiðara þegar þau eru að spila.

Besti Íslendingur og erlendi leikmaður sem þú hefur spilað með?

Þetta er svolítið erfið spurning og erfitt að gera upp á milli. Með erlendu leikmennina þá var Anita Andreasen frá Noregi ein sú eftirminnilegasta. Hún var hornarmaður sem gat nánast unnið leiki upp á sitt einsdæmi. Einnig var Sylvia Straz miðjumaður frá Austurríki einnig mjög góð. Með íslensku leikmennina þá eru fullt af leikmönnum sem ég get eiginlega ekki gert upp á milli og ég held að það væri ekki sanngjarnt að nefna einn frekar en annan.

Eitthvað að lokum?

Áfram ÍBV, treysti á að ég fái siglingu með ykkur og bikarnum heim á laugardaginn!

This article is from: