3 minute read
Feldur
Efniviðurinn mótar hönnunina
Feldur er fjölskyldufyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnun og framleiðslu á hágæða vörum úr skinni og leðri. Starfsemi þeirra fer fram á Snorrabraut 56 þar sem er bæði verslun og verkstæði. Þar má finna úrval af mokkakápum, pelsum og loðfóðruðum úlpum. Samhliða því eru þau með fallega og hlýja aukahluti eins og húfur, hanska, kraga og vesti.
Feldur er fjölskyldufyrirtæki í eigu hjónanna Heiðars Sigurðssonar feldskera og Kristínar Birgisdóttur. Dóttir þeirra, Marta, er á meðal starfsmanna en hún lærði fatahönnun í Danmörku.
Starfsemi þeirra fer fram á Snorrabraut 56 þar sem er bæði verslun og verkstæði.
Á verkstæðinu sérsaumar Heiðar, breytir og gerir við pelsa. „Það er svo gaman þegar konur koma með gamla pelsa sem einhver nákominn þeim hefur átt og vilja láta laga þá eða breyta.“ „Mikil aukning hefur verið í viðgerðum á pelsum sem má sennilega tengja við vitundavakningu á endurnýtingu.“ segir Marta.
Á verkstæðinu hanna þau einnig nýjar flíkur sem eru framleiddar erlendis. Þau eru í nánu sambandi við framleiðsluaðila sína sem gerir þeim einnig kleift að sérsauma pelsa og mokkakápur eftir eftirspurn. Þau nefna að þetta er bæði tækifæri fyrir kúnnann að geta pantað kápur eftir eigin málum en einnig fyrir þau að vera ekki með stóran lager. „Það er einstakt að geta sniðið kápur á kúnnann og breytt sniðinu aðeins eftir höfði þeirra, til dæmis síkka, stytta, bæta við vasa eða hvað sem okkur dettur í hug. Þetta er skemmtilegt ferli sem gerir flíkina persónulegri.“
VÖRUÞRÓUN
Við hönnun á vörum þarf að skoða efniviðinn fyrst og sjá hvað hægt er að gera úr honum. „Þetta er sérstakt hönnunarferli.“ segir Marta, „að því leyti að það þarf að skoða eiginleika efnisins og sjá hvernig hægt er að nýta hann í vöru.“ Í þessu sambandi má nefna lambaskinnslínuna þeirra. Í því ferli flokka þau skinnin eftir þykkt og mýkt. Mýkstu og þynnstu skinninn fara í inniskó, lúffur og húfur og afskurðurinn úr þeirri framleiðslu fer í barnavörur. Þykkari skinnin fara í heimilislínuna þeirra sem eru meðal annars púðar, sessur, kollar og teppi. „Íslenska lambaskinnið býður upp á endalausa möguleika og við elskum að koma með nýjar lausnir.“
Að undanförnu hefur fjölskyldan verið að skoða möguleikann á að þróa vörulínu úr íslensku fiskroði og þá sérstaklega laxi, þorski og hlýra. „Það eru breyttar aðstæður hjá okkur, fáir erlendir ferðamenn og þá þarf maður að hugsa um nýjungar,“ segir Kristín. „Við höfum reyndar oft hugsað um þennan möguleika en nú er komin svo góð framleiðsla á þessu á Sauðárkróki hjá Nordic fish leather. Þetta er flott sútun sem er bara að verða betri,“ segir Heiðar. Við höfum lengi verið með íslenska lambaskinnið í þróun en núna langar okkur til að sjá möguleikann á íslenska roðinu.“
Ferlið í hönnun þessarar vörulínu er svipað og þróunin á lambaskinninu en útkoman verður allt önnur að þeirra sögn. Eiginleikar fiskiroðsins eru aðrir og því þarf að taka tillit til þess.
FRAMTÍÐIN
„Þegar við hugsum um framtíðina þurfum við stundum að hugsa til fortíðarinnar,“ segir Marta. „Mér finnst áhugavert að skoða það sem mamma og pabbi voru að gera fyrir minn tíma.“ Blær, barnaleðurhúfan þeirra með þvottabjarnaskinni, er dæmi um það en Marta Hreiðardóttir,Heiðars Sigurðsson feldskeri og Kristín Birgisdóttir.
Heiðar byrjaði að framleiða hana fljótlega eftir útskrift 1983. Þessi húfa er ennþá mjög vinsæl og getur erfst milli systkina. Þar má einnig nefna kerrupokann úr lambaskinni sem var líka mjög vinsæll á þessum árum. Þessi poki er ennþá að erfast milli kynslóða en í dag er hann ekki með sama öryggi og komið er í dag. „Við erum að vinna að því að koma með nýja útfærslu af gamla, góða gærupokanum sem við létum sauma fyrir okkur á Akureyri á sínum tíma,“ segir Kristín. -SJ