2 minute read
Íslenskur æðardúnn ehf
ÍSLENSKUR ÆÐARDÚNN EHF Einstök náttúruafurð
Fjölskyldufyrirtækið Íslenskur æðardúnn ehf er starfrækt í Stykkishólmi og eru eigendur æðarbændur í eyjum í Breiðafirði sem er stærsta nytjaða æðarvarp í heiminum. Fjölskyldan sér um tínslu og hreinsun á æðardúni sem er að langmestu leyti fluttur til útlanda auk þess að framleiða eigin vörur úr æðardúni. Fyrirtækið rekur Æðarsetur Íslands við Frúarstíg 6 þar sem er meðal annars hlunninda- og fræðslusýning. Þá eru vörur úr æðardúni og æðardúnssængur til sölu sem og listmunir tengdir æðarfugli. Kynningarefnið sem og kynningarmynd er á fjórum tungumálum: Íslensku, ensku, þýsku og japönsku.
Fjölskyldan á ásamt fleiri aðilum Bjarneyjar og Hvallátur og auk þess nokkrar litlar eyjar rétt fyrir utan Stykkishólm en æðarfuglinn verpir á öllum þessum eyjum.
Æðarfuglinn getur orðið um 20 ára gamall og segir Erla Friðriksdóttir, einn eigenda og framkvæmdastjóri fyrirtækisins, að hver æðarkolla verpi í um 17 ár. „Hún er með æðardún á bringunni sem ver hana fyrir kulda á veturna en þegar hún verpir verða hormónabreytingar í henni sem veldur því að dúnninn losnar frá og myndast varpblettur. Þaðan kemst hiti frá henni að eggjunum. Það fellur til í hvert hreiður um 16 grömm af æðardúni. Æðardúnn er séríslensk vara en árlega falla til um 4000 kíló í öllum heiminum af æðardúni og þar af á Íslandi um 3000 kíló.“
Starfsfólk Íslensks æðardúns ehf hreinsar svo og þvær dúninn sem Erla segir að sé mikið verk og taki langan tíma en það þarf að skilja hann frá meðal annars grasi, sandi, steinum, mosa og fleiru sem er í náttúrunni. „Þetta er óhemjuvinna. Allur dúnn er svo þveginn í höndunum hjá okkur.“
Æðardúnn þykir vera einstök náttúruafurð og hefur hann einstaka eiginleika. „Hann helst mjög vel saman og hefur því mikla samloðun og mikinn teygjanleika. Svo hefur hann einstakt einangrunargildi og því hefur verið haldið fram að hann hafi mest einangrunargildi af öllum náttúrulegum efnum sem hafa fundist. Hann er mjög hlýr.“
Íslenskur æðardúnn ehf flytur dúninn út og samkvæmt íslenskum lögum þarf matsmaður frá íslenska ríkinu að skoða dúninn. „Um 90% af þeim dún sem við fáum inn til okkar fer til Japan, eða um 1000-1200 kíló á ári, en einnig seljum við til Evrópulanda. Við höfum hug á að flytja dún til fleiri landa. Ég held að möguleikarnir í framtíðinni séu að gera meira úr dúninum hér á landi; selja minna af hrávörunni og meira af fullunnum afurðum þannig að verðmætasköpunin verði til hér í ríkara mæli.“- SJ
Rafn Rafnsson og Erla Friðriksdóttir