3 minute read

8 Tilraunir framtíðar

Next Article
7.8 Hvítsmári

7.8 Hvítsmári

Tilraunir framtíðar

Tilraunir með áburð á liðinni öld voru að miklu leyti gerðar á og hugsaðar fyrir nýlega ræktað land og tún sem ekki hafði verið endurræktað. Stundum hefur þó val á tilraunameðferð mótast af því að tilraunirnar voru gerðar á endurræktuðu landi. Oft var jarðvinnsla lítil umfram það að jafna landið, ýmist sjálfgrætt eða grasfræi sáð. Algengt er þó að vinnslan hafi náð dýpra, t.d. í 15 - 20 cm, og búfjáráburður stundum unninn niður í moldina fyrir sáningu. Í þeim tilraunum sem fjallað hefur verið um var áburði dreift ofan á. Þá safnast fosfór og kalí í yfirborðið, en dýpra, jafnvel neðan plógdýptar, gengur á kalí. Lág gildi á ammóníumlaktatleysanlegu P og K (P-Al og K-Al) neðan 5 cm í túni fundust í verkefni um móajarðveg á þremur stöðum á landinu þar sem sýni voru tekin (Hólmgeir Björnsson 2011). Í framtíðinni er eðlilegt að gera ráð fyrir að rannsóknir á borð við þjónustuefnagreiningar á jarðvegi hafi verið gerðar á undan tilraunum með áburð, þótt meiri rannsóknir á jarðvegi geti verið æskilegar. Þegar meta á áhrif áburðar á einæran gróður eða tún nægir að hafa 3 eða 4 áburðarskammta, að meðtöldu 0N (eða 0P, 0K) ef það á við, til að finna feril áburðarsvörunar, annars vegar línulegan þátt og hins vegar hve mikið dregur úr áhrifum á sprettu með auknum áburði. Fjölda endurtekninga þarf að meta. Endurtekningu má ná með því að bæta við meðferðarþætti, t.d. P- eða K-áburði í tilraun með N, en oft má gera ráð fyrir því að áhrif þáttanna séu óháð, þ.e. að víxlhrif séu engin. Þá nýtast þættirnir til fulls sem endurtekningar hvers á öðrum. Hver endurtekning tekur þó með því móti meira land og hætta er á að tilraunaskekkjan verði meiri. En þá má skipta tilrauninni í smáblokkir sem eru minni en heil endurtekning með samþættingu (confounding)smáblokkanna við vel valinn hluta af víxlverkun þátta. Ef þættir eru þrír væri það hluti af víxlverkun þriggja þátta. Þetta var gert með ágætum árangri í kartöflutilraunum 2004. Voru ekki aðrar endurtekningar en tvö til þrjú stig af þremur meðferðarþáttum, NPK (Hólmgeir Björnsson 2008, viðauki B). Alltaf þarf að hafa í huga við val á tilraunalandi og þegar lega tilraunar á því er ákveðin að það sé sem jafnast. Ef vitað er um einhver skil skal sjá til þess að þau lendi á blokkamörkum. Í tilraunum með samanburð á kornyrkjum var reitum raðað hlið við hlið milli skurðbakka. Yrki voru mörg og skiptist ein endurtekning á nokkrar raðir. Frjósemi landsins breyttist eftir tilraunastykkinu endilöngu. Hver reitaröð milli skurða var því skilgreind sem smáblokk og breytileiki milli þeirra einangraður í uppgjöri með reml. Þó er óþarft að nota reml nema nokkur vissa sé um að munur sé á smáblokkum. Þegar yrkjum er skipt í smáblokkir skal gæta að jafnvægi í skipulagi svo að skekkjan á mismun yrkja verði sem jöfnust. Í góðum tölfræðiforritum á að vera hægt að fá hjálp við það. Þó má raða þannig að tvíraða eða sexraða yrki verði borin saman innbyrðis af meiri nákvæmni en tvíraða við sexraða svo dæmi sé tekið. Annað dæmi má nefna. Eitt árið fyllti tilraunin betur út í landið milli skurða en árið áður. Í ljós kom að reitirnir næst skurðinum þar sem ekkert korn var árið áður skáru sig úr. Þá var sett hjálparbreyta (covariate) inn í uppgjörið til að meta þetta frávik og leiðrétta fyrir því, en að vísu varð skekkjan á mismun yrkja meiri við það og breytileg. Völ er á allmörgum tilbrigðum af tilraunaskipulagi sem geta átt við ef bera á saman t.d. mörg yrki í sömu tilraun. Ekki skal farið út í þá sálma hér, en góð forrit eiga að geta leyst úr því.

This article is from: