2 minute read
9 Niturnýtni, samantekt
Niturnýtni, samantekt
Eftir skoðun á fyrstu niðurstöðum útreikninga á áhrifum N-áburðar á upptöku niturs í tilraunum á túni árið 1975 var valið að miða við 2/3 eða 0,67 sem eðlilega eða góða nýtni niturs á túni. Í þessari grein koma fram niðurstöður úr seinni mælingum. Á 8. mynd eru sýndar vikulegar mælingar 1979 og 1980 á grasvexti og upptöku niturs frá vori og fram í septemberbyrjun. Áburður var 120 kg N ha-1, en ekki var samanburður með minni áburði eða án áburðar svo að hægt væri að reikna niturnýtni. Áburðartímar voru þrír. Í tilraununum voru átta yrki af fjórum tegundum. Niðurstöður mælinga birtust í tilraunaskýrslu 1980, en að undanskildum línuritum sem sýna grasvöxt höfðu þær ekki verið birtar að nýju. Vallarfoxgras tók upp lítið nitur fyrr en borið var á, en vallarsveifgras og puntgrös mun meira. Í fjórum haustáburðartilraunum var mæld upptaka af 60N, borið á á mismunandi tímum, til viðbótar 60N sem voru borin á alla liði um vorið. Fleiri tilraunaliðir voru í einni tilrauninni (12. -14. mynd). Tvær tilraunir voru á sömu reitum og áðurnefndar klippingartilraunir eftir árs hvíld. Af N-áburði eftir slátt, viku af júlí, voru um 30% komin fram í grasi við næsta áburðartíma sem var seint í ágúst eða í byrjun september. Af N-áburði 17. –20. ágúst voru um 20% komin fram um jafndægur. Í þessum tilraunum var niturnýtnin <1/2. Er það minna en í öðrum tilraunum, nema í þeim tilraunum með Kjarna þar sem hann hafði valdið súrnun á jarðvegi (3., 23., 24. mynd). Í hinum tveimur haustáburðartilraununum var landið vel þurrt, og þar var niturnýtnin meiri, um 2/3 hjá vallarfoxgrasi. Nýtnin var minni hjá öðrum grastegundum, e.t.v. vegna þess að þær taka nitur ekki upp eins lengi fram eftir sumri. Einnig safna þær meira nitri í rætur. Þær fara að spretta á vorin áður en borið er á, þó misjafnt eftir tegundum og yrkjum af þeim, og má nýta þann eiginleika með því að bera á síðsumars eða haustið áður. Mest spratt Fylking vallarsveifgras. Árleg gildi á niturnýtni í langtímatilraunum voru mjög breytileg því að sláttutímar voru ekki staðlaðir. Þá flytjast áburðaráhrif milli ára, en einnig voru ár þar sem niturnýtni var lítil, að líkindum vegna áburðartaps (29. mynd). Að slepptum 3 árum, sem voru afbrigðileg, var niturnýtni frá 75N til 120N í tilraun 19-54 á Skriðklaustri 73,2±3,5% að meðaltali í 24 ár. Niðurstöður sem hér birtast um eftirverkun áburðar eftir 11 ár í áburðartilraun á Sámsstöðum (25. mynd), og um eiginleika jarðvegs á mismunandi dýpi og fjarlægð frá skurðbakka í tilraun á Skriðuklaustri (33. mynd) hafa ekki birst áður nema að takmörkuðu leyti. Hjá einærum gróðri með langan vaxtartíma getur verið meiri hætta á N-skorti vegna útskolunar en á túni vegna þess að snemma er borið á (bygg) eða jarðvegurinn er sendinn (kartöflur). Þá þarf aðferðir til að prófa fyrir skorti þegar líður á vaxtartímann. Í lokaköflunum eru dregnar fram niðurstöður um upptöku niturs umfram áhrif áburðar og um nitur sem safnast í jarðveg. Einnig um söfnun N í mýrar og losun úr þeim og um mengun af Nsamböndum sem losna úr jarðvegi og áburði. Sú spurning er ítrekuð frá fyrri greinum hvort um geti verið að ræða einhverja virkni í jarðvegi til að nema nitur úr andrúmslofti.