1 minute read

Formáli

Next Article
Heimildir

Heimildir

Eitt af þeim verkefnum sem Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) var falið skv. samningi skólans við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið (ANR) fyrir árin 2020–2023, er að „greina afkomu sauðfjárbænda og tillögur til að styrkja hana“ . Út frá þessu orðalagi er strax hægt að gera ráð fyrir að afkoma sauðfjárbænda sé almennt ekki talin nægilega góð. Engu að síður virðist þó rökrétt að byrja á að meta hvernig afkoma sauðfjárbænda er í dag og hvernig hún hefur þróast undanfarin ár og jafnvel áratugi. Þá ætti að vera hægt að fara að átta sig á því hvar stærstu vandamálin liggja, leitast við að skilja þau og í framhaldi af því að benda á leiðir til úrbóta.

Þessi fyrsta málsgrein var skrifuð í upphafi þessa verkefnis og lýsir vinnulaginu nokkurn veginn. Þegar einni spurningu hefur verið svarað kviknar önnur. Röðun kafla í skýrslunni tekur mið af þessu. Það er óhemju mikið til af gögnum um sauðfjárrækt á Íslandi, hvað þá í heiminum öllum. Óhjákvæmilegt er að setja íslenska sauðfjárrækt aðeins í samhengi við umheiminn, þar sem útflutningur á sauðfjárafurðum héðan er og hefur lengi verið umtalsverður.

Ýmsir hafa lagt gott til mála til að þessi skýrsla gæti orðið að veruleika. Þar ber fyrst að telja að verkefni Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) um afkomuvöktun sauðfjárbúa, sem Eyjólfur I. Bjarnason og María S. Jónsdóttir hafa leitt og unnið af mikilli elju og yfirsýn, er lykillinn að því að hér er hægt að sýna með raunsæjum hætti þróun í rekstri íslenskra sauðfjárbúa á undanförnum árum. Þeim er þökkuð margvísleg aðstoð og hjálpsemi vegna þessara gagna, og Eyjólfi einnig vegna gagna úr skýrsluhaldi fjárræktarfélaganna.

Landssamtök sauðfjárbænda halda utan um ýmis gögn vegna framleiðslu, sölumála og verðlagningar á sauðfjárafurðum. Unnsteinn S. Snorrason framkvæmdastjóri LS útvegaði mikið af slíkum gögnum, mjög vel fram settum. Honum er þökkuð mjög góð samvinna. Bestu þakkir fær líka Arnar Freyr Einarsson sérfræðingur hjá atvinnuvegaráðuneytinu sem útvegaði ýmis gögn tengd búvörusamningum og fleiru. Öðrum ráðgjöfum og yfirlesurum eru einnig sendir hlýjir straumar, og þá ekki síst þeim sem hafa lagt það á sig að hlusta á og ræða um margt af því sem hér er ritað, til að skerpa á samhengi hlutanna.

This article is from: