4 minute read

6. Aðgerðaáætlun

Tækifæri íslenskra sauðfjárbænda til bættrar afkomu má draga saman svona:

Að halda áfram að leita leiða til að draga úr framleiðslukostnaði:

• Þann mun sem er í breytilegum kostnaði á milli hæsta og lægsta þriðjungs í framlegðargreiningum RML má yfirfært á landsvísu meta á 880 milljónir á ári (meðaltal áranna 2014-2019), sem gerir um 90 kr./kg kindakjöts. Ef næðist að hagræða sem þessu næmi væri framleiðslukostnaður á kindakjöti hérlendis nálægt því sem hann er í Bretlandi og Frakklandi, svo dæmi sé tekið.

Að ná hærra afurðaverði til bænda:

Samanburður á skilaverði til íslenskra bænda (504 kr./kg) og meðaltali í ESB (901 kr./kg) fyrir árið 2019 (21. mynd) er sláandi. Ef tekið er tillit til hlutfalla dilkakjöts og kjöts af fullorðnu í heildarframleiðslu og verðs á hvoru um sig má meta þennan mun upp á um 350 kr./kg kindakjöts. Þennan mun má svo greina niður í einstaka þætti:

• Með fækkun sláturhúsa og hagræðingu í rekstri þeirra mætti lækka sláturkostnað um 70-100 kr./kg, samanber umfjöllun í 4. kafla. • Þá eru eftir 100-170 kr./kg af þeim mun sem er á kostnaði á afurðastöðvastigi hér og víðast annars staðar. Sá munur liggur að mestu í kostnaði við frystingu, geymslu á frysti og fjármagnskostnað birgða. Eina leiðin til að losna alveg við þennan kostnað er að selja allt kjöt ferskt. Það mundi fela í sér breytingar á framleiðslukerfi bænda sem fullyrða má að fæli í sér meiri kostnað en mundi sparast. Hins vegar mætti mögulega ná fram raunverulegri hagræðingu með því að dreifa slátrun nokkru meira en nú er gert, einkum með því að auka við slátrun í ágúst og byrjun september. Ekki liggur fyrir mat á kostnaði sláturhúsanna við að reka þau í lengri tíma á ári en nú er, en á móti mögulegri kostnaðarhækkun þess vegna þarf að vega þá möguleika sem felast í hærra skilaverði fyrir ferskt kjöt en frosið. • Gróflega metið eru þá eftir ca 150 (±50) kr./kg kindakjöts sem liggja fyrst og fremst í óstöðugu gengi krónunnar, eins og fjallað var um í 3. kafla (20. mynd), sem hefur dregið skilaverð til bænda á árabilinu 2016–20 niður sem þessu nemur miðað við árin þar á undan. Af þessu er um þriðjungur til fjórðungur, eða ca 40–50 kr./kg vegna gengisáhrifa á útflutningshlutann, sem sauðfjárræktin á Íslandi hefur ekki mikil áhrif á.

Gera má ráð fyrir að áhrif gengissveiflna á innflutt aðföng jafni út þau áhrif að einhverju leyti. • Þá eru enn eftir ca. 100 kr./kg kindakjöts sem liggja í þeim áhrifum sem (aðallega) gengi krónunnar og aðrir þættir á erlendum mörkuðum hafa á innanlandsmarkaðinn fyrir kindakjöt. Markaðsstöðugleikasjóði og tengdum aðgerðum er ætlað það hlutverk að vinna á þessu vandamáli.

Hér er miðað við að stefnt sé á framleiðslumagn sem fullnægir þörfum innanlandsmarkaðar fyrir alla skrokkhluta, lágmarks framboð miðast þá við þann skrokkhluta sem mest eftirspurn er eftir. Þetta er í samræmi við stefnumörkun endurskoðaðs búvörusamnings 2019, sem hefur í sér mun minni framleiðsluhvata en sami samningur fyrir endurskoðun.

Eftirfarandi eru beinar aðgerðir sem lagt er til að teknar verði inn í áætlun til að efla afkomu íslenskra sauðfjárbænda. Listinn er ekki tæmandi, en leiðbeinandi, og við mögulega útfærslu atriða af honum er bent á nánari upplýsingar í skýrslunni hér að framan.

• Hagtölusöfnun og afkomuvöktun sauðfjárbúa, samanber verkefni RML, þarf að festa varanlega í sessi og efla. • Strax þarf að huga að endurskoðun sauðfjársamnings og rammasamnings sem fara á fram árið 2023. Sviðsmyndagreiningu stuðningsforma á borð við þá sem kynnt er í skýrslunni mætti útfæra mun nánar og nýta við þá vinnu. • Átak í upplýsingasöfnun um vinnuþáttinn á búunum og samspil sauðfjárræktarinnar við aðrar tekjuöflunarleiðir bændanna væri mikilvæg undirstaða ákvarðana um fyrirkomulag býlisstuðnings, einnig til útreiknings á framleiðslukostnaði. • Átak (rannsóknir, leiðbeiningar) til að bæta nýtingu á upplýsingum um jarðrækt og fóðuröflun mundi nýtast vel til að efla rekstur sauðfjárbúa og finna út hvernig landgreiðslum og jarðræktarstyrkjum verði beitt með skynsamlegum hætti til að ýta undir hagkvæma fóðuröflun og beit. • Halda þarf áfram að leita leiða til hagræðingar í afurðastöðvageiranum, með það að markmiði að efla markaðsstarf og hækka skilaverð til bænda. • Greina þarf möguleika á meiri slátrun í ágúst og fyrri hluta september, með það að markmiði að selja stærri hluta framleiðslunnar ferskan, bæði innanlands og ekki síður á erlendum mörkuðum. Niðurstöður eldri rannsókna má nýta ásamt því að gera nýjar í þessu skyni. • Ríkisstuðningur greiddur út á ull þarf áfram að fela í sér hvata til hámörkunar á ullargæðum, en einnig þarf að halda áfram að leita leiða til að auka verðmætasköpun úr verðminni ullarflokkunum. • Skráningu útfluttra kjötafurða eftir tollflokkum þarf að stórbæta. Slík vinna gæti farið saman við sambærilegar úrbætur varðandi innfluttar landbúnaðarafurðir. • Innanlandsvog taki í kjölfar slíkra úrbóta til nákvæmari sundurgreiningar eftir skrokkhlutum bæði af dilkum og fullorðnu heldur en mögulegt er í dag. • Mælaborð landbúnaðarins verði notað til að halda utan um útflutning eftir skrokkhlutum í þessum tilgangi. • Stofnaður verði markaðsstöðugleikasjóður, sem viðhaldið er með gjaldi á alla framleiðslu sem síðan er ráðstafað til að stuðla að stöðugleika, t.d. með markaðsstarfi eða með stuðningi við eftirspurnarhvetjandi aðgerðir. Reglur markaðsstöðugleikasjóðs þurfa að tryggja með besta mögulega hætti að markmiðum hans sé náð. • Nauðsynlegar lagabreytingar verði gerðar sem heimila afurðastöðvum samvinnu og verkaskiptingu í vinnslu og sölu á þeim hluta framleiðslunnar sem fluttur er út. Þessar lagabreytingar gætu varðað markaðsstöðugleikasjóð, tollflokkaskráningu, innanlandsvog, gagnasöfnun um útflutning og fleira er þessum málum kann að tengjast í lagalegu tilliti. Markmið slíkra lagabreytinga ætti að vera meiri stöðugleiki, bæði í afkomu bænda og verði til neytenda.

This article is from: