5 minute read

Möguleikar á hagræðingu í slátrun, vinnslu og dreifingu

Next Article
Heimildir

Heimildir

Almennt verður að segjast að útflutningurinn hefur verið óstöðugur, bæði nú síðustu árin og sé litið lengra aftur; hvað varðar verð, magn, samsetningu og viðskiptalönd. Mikilvægt hlýtur að vera til framtíðar að skilgreina vel markmið með útflutningi, um það hversu mikill hann á að vera; á hvaða markaði og fleira því tengt.

Möguleikar á hagræðingu í slátrun, vinnslu og dreifingu Þar sem fyrir liggur nýleg úttekt KPMG (2018) fyrir ANR á afurðastöðvum er ekki lögð áhersla á það í þessu verkefni að afla nýrra upplýsinga sem gætu bætt við þá skýrslu. Hins vegar er rétt að birta hér það sem út úr þeirri vinnu var dregið sem „þættir til skoðunar:

• Kanna ætti kosti þess þess að minnka framleiðslumagn kindakjöts þar til jafnvægi næst milli framboðs og innlendrar eftirspurnar. • Skoða mætti kosti þess og galla að lengja sláturtímabilið með þeim möguleika að selja ferskt kjöt í lengri tíma en nú er gert bæði hér innanlands og erlendis við réttar markaðsaðstæður. • Kanna þarf hvort skipulögð sérhæfing t.d. í vinnslu kindakjöts, gæti skilað ávinningi umfram samkeppni þegar fáir leikendur eru eftir fækkun afurðastöðva [svo] til að hún skili tilætluðum árangri. • Kanna þarf kosti og galla þess að heimila samstarf með flutning og dreifingu líkt og t.a.m. orku-og mjólkurgeirinn hefur gert. Í þeim greinum sem búa við einokun, eins og í flutningi á raforku, hefur verið farin sú leið að setja fyrirtækjum tekjumörk. Til að slíkt fyrirkomulag gangi upp er mikilvægt að félög með einokunarstöðu hafi verðskrár sínar opinberar og bjóði öllum sömu kjör. • Skoða þarf með hvaða hætti hægt er að draga úr fjármögnunarkostnaði birgða t.d. með lækkun á birgðabindingu eða breytingum á greiðslufyrirkomulagi til bænda.

Mikilvægt er að sá ávinningur sem gæti náðst skili sér til allra aðila í virðiskeðjunni. “ (KPMG, 2018, bls. 7)

Fyrsta punktinum hefur verið brugðist við, eins og fjallað verður um í 5. kafla, með ýmsum aðgerðum í tengslum við endurskoðun á búvörusamningi árið 2019.

Þriðji punkturinn um skipulagða sérhæfingu í vinnslu kindakjöts og fjórði punkturinn um samstarf í flutningi og dreifingu eru atriði sem afurðafyrirtækin hljóta að skoða innan þess ramma sem lagaumhverfið setur hverju sinni. Í 5. kafla er komið inn á umræðu um lagaumhverfið og tilraunir bænda og sláturleyfishafa til að fá undanþágu frá samkeppnislögum.

Hvað fimmta punktinn varðar er erfitt að sjá fyrir sér hvernig það á að skila hagræðingu í greininni að breyta greiðslufyrirkomulagi til bænda. Afurðastöðvarnar, sem eru að mestu í eigu bænda, eru í mun betri stöðu til að semja um kjör á fjármögnun en einstakir bændur eru að jafnaði. Það kemur bændum að litlu gagni að fá hærra skilaverð ef það felur í sér aukinn fjármagnskostnað þeirra sjálfra.

Hvað varðar annan punktinn, að lengja sláturtímabilið með það fyrir augum að selja ferskt kjöt í lengri tíma, er rétt að rifja upp fyrri reynslu. Á tímabilinu frá um 1990 til um 2010 var lagt í töluverða þróunarvinnu hjá bændum og afurðastöðvum með dyggum stuðningi félagskerfis

bænda, Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og fleiri aðila, til að lengja sláturtímann, í þeim tilgangi að geta boðið upp á ferskt kjöt í lengri tíma ár hvert. Margir bændur lögðu á sig mikla vinnu til að þróa eigin búrekstur þannig að lenging sláturtíðar væri möguleg. Sláturleyfishafar voru áhugasamir um þessa þróun og hvöttu mjög til hennar árum saman. Ýmsar tilraunir voru gerðar hjá fagstofnunum landbúnaðarins, sem miðuðu að því að þróa eldisaðferðir og meta gæði afurðanna. Í grein um hluta þessara rannsókna eftir Emmu Eyþórsdóttur o.fl. (2006) kom fram að niðurstöður gæðamælinga og skynmats gæfu til kynna að gæði kjöts af lömbum sem höfðu verið í innieldi væri jafngott og af lömbum sem slátrað var á hefðbundnum tíma út frá þeim mælistikum sem fyrir lágu fyrir til að meta gæði. Teknar voru upp yfirborganir á innlegg bænda utan hefðbundinnar sláturtíðar, sem er frá miðjum september til loka október. Allháar yfirborganir voru á sumarslátrun í júlí og ágúst sem lækkuðu smám saman fram að hinni hefðbundnu sláturtíð. Eftir 1. nóvember voru líka stighækkandi yfirborganir, alveg fram í miðjan desember; og einnig í sérstakri páskaslátrun. Þessar yfirborganir voru rökstuddar með því að verið væri að þjóna markaði fyrir ferskt kjöt, sem gæfi hærra verð. Alveg fram til 2005–2006 var allmikill verðhvati til bænda að teygja slátrunina frá alveg júlílokum og sem næst jólum, auk páskaslátrunar, enda var verið að byggja upp markaði fyrir ferskt kjöt erlendis. Svo smám saman dró úr verðhvatanum og sláturtíminn styttist aftur. Síðasta áratuginn eða svo hefur hann náð frá síðari hluta ágúst og fram í fyrstu vikuna í nóvember. Sláturhúsin eru að stórum hluta mönnuð sérhæfðu erlendu vinnuafli sem kemur hér til starfa í þennan takmarkaða tíma.

Hvað varð til þess að afurðastöðvarnar drógu úr áherslu sinni á lengingu sláturtíðar er ekki fullljóst, mögulegar ástæður gætu verið: a)erfiðleikar við að hasla sér völl á nýjum mörkuðum, b)skortur á sveigjanleika í hinu íslenska árstíðabundna framleiðslukerfi, c)afnám útflutningsskyldu 2007 sem nánar verður rætt í 5. kafla, d)vaxandi erfiðleikar við að manna slátrun með heimafólki. Ástæðurnar geta verið fleiri, en mikilvægt er að rifja þessa reynslu enn betur upp en hér hefur verið gert áður en ákvörðun væri tekin um að lengja sláturtíðina að nýju fram í nóvember og desember.

Öðru máli gæti gegnt um aukna áherslu á slátrun síðsumars. Slíkt fellur mun betur að möguleikum í framleiðslukerfi bændanna, og er líklega einnig hentugra fyrir sláturhúsin, ekki síst hvað varðar flutninga sem ævinlega eru auðveldari viðureignar í sumarblíðu en í hausthreti. Sláturleyfishafar hafa aldrei hætt alveg að hvetja til síðsumarslátrunar. Til er þó nokkuð af rannsóknaniðurstöðum sem hægt væri að dusta rykið af sem varða tilraunir með eldi sláturlamba sem miðuðu að byrja slátrun fyrr. Þar má til dæmis nefna tilraun Þóreyjar Bjarnadóttur o.fl. (2006) þar sem sýnt var fram á að ná mátti mjög góðum vexti í lömb sem tekin voru undan mæðrum sínum snemma í ágúst og bötuð á vetrarrepju. Almennt er miðað við að þurfi 5 vikna beitartíma til að ná góðum árangri af slíkri bötun. Þó kemur vel til greina að slátra lömbum sem koma inn á svona beit í mjög góðum vexti eftir 3-4 vikna bötun. Það þarf að sá repjunni mjög snemma, helst í byrjun maí ef möguleiki á að vera á því í góðu ári að hún sé orðin þokkalega sprottin í byrjun ágúst. Til eru fljótsprottnari grænfóðurtegundir, fæstar þó jafnöruggar og ódýrar í ræktun eins og vetrarrepjan. En það er mjög áhugavert verkefni að þróa framleiðslukerfi er gætu hentað þar sem auðvelt er að ná fé inn á ræktarland af úthaga svo snemma.

This article is from: