2 minute read

5. Ríkisstuðningur við sauðfjárrækt, búvörusamningar

5. Ríkisstuðningur við sauðfjárrækt, búvörusamningar

Þegar fyrstu samtök íslenskra bænda voru stofnuð árið 1837, Búnaðarfélag Suðuramtsins, var búskapur hérlendis svipaður því sem verið hafði um aldir. Sjálfsþurftarbúskapur að mestu, þéttbýlismyndun enn lítil og þau viðskipti sem áttu sér þó stað með búsafurðir voru enn að miklu leyti vöruskipti. Vaðmál, fiskar, vættir smjörs o.s.frv. skiptu um eigendur á sérstöku gengi sem var á milli þessara vara og hafði litlum breytingum tekið um aldir. Aðilar virtust nokkuð sammála um hvert raunverulegt virði þessara vara væri, þegar þær voru vegnar hver á móti annarri.

Á þessu urðu ekki verulegar breytingar fyrr en á ofanverðri 19. öldinni með tilkomu sauðasölunnar til Bretlands og stofnunar samvinnufélaga bænda. Þegar kom fram á fyrri hluta 20. aldarinnar fór svo tæknivæðing í sveitunum að þokast meira af stað og þar framleiddi færra fólk smám saman meiri mat til að selja ört vaxandi mannfjölda í þéttbýlinu. Vörur eins og lambakjöt og mjólk voru allt í einu orðnar verslunarvara sem þurfti að finna út verð á sem gat gengið upp. Það hefur síðan verið ærið viðfangsefni.

Og á því viðfangsefni eru nokkrar hliðar. Bóndinn þarf að fá það hátt verð fyrir sína framleiðslu að það standi undir rekstrarkostnaði búsins, þar með talið eðlilegum vinnulaunum. Þeir aðilar sem sjá um slátrun, vinnslu og sölu afurðanna þurfa einnig sitt. Framantaldir aðilar eiga allt sitt undir dómi neytandans, sem spyr sig: Hvað kosta þessar blessaðar vörur? Hef ég efni á þessu? Ríkisvaldið getur þó gripið inn í þetta samhengi með ýmsum aðgerðum. Það getur lækkað verð á vöru til neytenda með niðurgreiðslum eða hækkað það með sköttum eða tollum. Slíkar aðgerðir geta haft ýmis konar áhrif en eiga það sammerkt að vera umdeildar. Því er mikilvægt að stjórnvöld á hverjum tíma missi ekki sjónar af tilgangi slíkra aðgerða og málefnaleg umræða sé í þjóðfélaginu um markmið og leiðir í því sambandi. Hér á eftir verður gerð tilraun til að leggja eitthvað til þeirra mála, fyrst með aðeins meiri upprifjun, og svo með vangaveltum um núverandi stöðu og leiðina fram á við.

Niðurgreiðslur landbúnaðarvara hafa átt sér stað hérlendis síðan 1943. Skattfé er þannig notað til að lækka verð á mat til neytenda. Almannafé er einkum notað í þjóðfélaginu til að sem flestir fái grunnþarfir uppfylltar. Matur er óneitanlega grunnþörf, líkt og til dæmis heilbrigðisþjónusta, því tíðkast niðurgreiðslur af einhverju tagi á landbúnaðarvörur víða um heim. Þó ekki alls staðar og aðferðirnar eru býsna breytilegar milli landa. Þær taka líka breytingum í tímans rás vegna þess að illa gengur að finna kerfi sem hentar alltaf og alls staðar.

Í skýrslu um mjólkurvöruframleiðsluna á Íslandi (Hagfræðistofnun HÍ, 2015) segir á bls. 10:

„Skilvirk og hagkvæm framleiðsla er að jafnaði best tryggð með markaðsfyrirkomulagi, samkvæmt kenningum rekstrarhagfræðinnar sem studdar eru umfangsmiklum raungögnum. Inngrip í starfsemi frjálsra markaða, s.s. innflutningshöft, framleiðslutakmarkanir og fjárstuðningur til bænda, leiða þess vegna að jafnaði til óhagræðis. Frávik frá þessari meginreglu geta þó átt sér stað ef einhverjar af forsendum frjálsra markaða eru ekki fyrir hendi. Það á t.d. við framleiðslu sem skapar ytri áhrif, þ.e. hefur jákvæð eða neikvæð áhrif á þá, sem ekki taka beinan þátt í viðkomandi viðskiptum. Sköpun menningarlandslags eða framlag til fæðuöryggis eru dæmi um jákvæð ytri áhrif meðan mengun er dæmi um neikvæð ytri áhrif.“

This article is from: