2 minute read

Fyrstu afurðasölulögin, verðlagsgrundvöllur, niðurgreiðslur

Þó ríkisstuðningur við sauðfjárrækt hafi í upphafi fyrst og fremst verið niðurgreiðslur, sem eru í andstöðu við framangreindar meginkenningar markaðshagfræðinnar, hefur stuðningurinn við greinina þróast á þann veg að vera líka við atriði sem færa má rök fyrir að séu „jákvæð ytri áhrif“ . Um slík atriði er m.a. fjallað í nýlegum skýrslum:

Fæðuöryggi: Um fæðuöryggi Íslendinga og þátt sauðfjárræktar í því má lesa í skýrslu LbhÍ fyrir ANR (Erla Sturludóttir o.fl., 2021).

Byggðamál: Um mikilvægi sauðfjárræktar sem atvinnugreinar í hinum dreifðu byggðum er fjallað í skýrslu Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri (RHA) fyrir Landssamtök sauðfjárbænda (Hjalti Jóhannesson og Jón Þorvaldur Heiðarsson, 2015).

Í annarri skýrslu sem unnin var af RHA fyrir ANR árið 2015 (Vífill Karlsson o.fl., 2015), um markmið og forsendur sauðfjársamnings, er einnig komið inn á varðveislu menningar, búsetulandslags og samspil við ferðaþjónustu sem atriði er geti verið rök fyrir stuðningi við sauðfjárrækt. Slíkir þættir eru býsna fyrirferðarmiklir í stuðningi við landbúnað í ESB og víðar.

Framantalin og fleiri „jákvæð ytri áhrif“ sauðfjárræktar eru gjarnan nefnd í umræðu um ríkisstuðning við greinina, en eru lítt eða illa skilgreind í samningum ríkis og bænda.

Í tilvitnun hér að ofan var minnst á mengun sem dæmi um „neikvæð ytri áhrif“. Slík áhrif geta verið forsenda íþyngjandi aðgerða fyrir tilteknar atvinnugreinar, eða aðföng, til dæmis skattlagning á jarðefnaeldsneyti. Umhverfismál tengjast í vaxandi mæli samningum bænda við hið opinbera víða um heim, ekki síst í Evrópu. Stuðningur sem veittur er á forsendum umhverfismála getur bæði verið til að koma í veg fyrir neikvæð ytri áhrif búgreina, eins og með því að styrkja bændur til orkuskipta; og til að stuðla að jákvæðum ytri áhrifum eins og með því að styrkja bændur til að stunda landgræðslu og skógrækt til að styrkja viðkvæm vistkerfi og binda kolefni. Bretar ætla að binda stuðning sinn við landbúnað í auknum mæli við umhverfismál nú í kjölfar Brexit (Torfi Jóhannesson, 2021).

Fyrstu afurðasölulögin, verðlagsgrundvöllur, niðurgreiðslur Til nánari skilnings á þeim stuðningsformum sem þegar hafa verið reynd í íslenskri sauðfjárrækt er nauðsynlegt að líta aðeins yfir söguna. Upphaf verulegra viðskipta íslenskra sauðfjárbænda gegn greiðslum í peningum átti ekki síður rót í útflutningi en á innanlandsmarkaði. Sauðasalan til Bretlands á ofanverðri 19. öldinni, saltkjötsútflutningur til Noregs á fyrstu tveimur áratugum tuttugustu aldarinnar, svo umtalsverður útflutningur á frystu dilkakjöti til Bretlands (Jónas Jónsson, 1988). Veruleg aukning varð á framleiðslu sauðfjárafurða á þriðja áratugnum; vaxandi neysla innanlands tók við þeirri aukningu. Árið 1929 komu svo áhrif heimskreppunnar hingað til lands og lýstu þau sér m.a. í sölutregðu og

verðhruni á útfluttum afurðum, sem leiddi svo aftur af sér meiri samkeppni og undirboð í

kjötsölu innanlands. Kjötsölulög, hluti af afurðasölulögum sem sett voru árið 1934 til að bregðast við þessu ástandi, kváðu á um:

• opinbert lágmarksverð á kindakjöti bæði í heildsölu og smásölu • framboðsstýringu (söluleyfi, sláturleyfi) • verðjöfnunargjald af öllu kjöti sem selt væri innanlands til að bæta upp verð á útfluttu dilkakjöti.

This article is from: