5 minute read

Samantekt og umræða

Next Article
Heimildir

Heimildir

nú minnkandi, viðskipti við Nýja-Sjáland. Írar hafa lagt áherslu á að mæta kröfum þessara markaða um stöðugt framboð af gæðavöru árið um kring. Það er hins vegar ekki einfalt verkefni. Til dæmis gengur það ekki upp að hafa sauðburð alfarið snemma vors sem er kostnaðarlega hagkvæmast, heldur hefur seinkun burðartíma verið áhersluatriði, og ýmsar aðgerðir til að dreifa framboðinu sem mest yfir árið, sem aftur er skýring á vaxandi framleiðslukostnaði (Carty, 2018).

Írland er vel staðsett gagnvart evrópskum mörkuðum, sem almennt eru ekki sjálfum sér nógir um lambakjöt. Jafnframt hafa Írar augun á hinum stóru mörkuðum í USA og Kína, þar sem eru tækifæri, en líka ýmsar hindranir. Árið 2020 var útflutningur Íra til Kína 100 tonn, og til USA 44 tonn, samanborið við 18.300 tonn til Frakklands, 11.400 tonn til UK, 6.200 tonn til Svíþjóðar, 6.000 tonn til Þýskalands og 3.600 tonn til Belgíu.

Bord Bia – Irish Food Board (2021) er regnhlíf fyrir matvælaframleiðsluna í landinu; var stofnað árið 1994, við sameiningu Irish Meat and Livestock Board og þess hluta Irish Trade Board sem starfaði að markaðssetningu matvæla. Síðar komu þarna inn verkefni sem tengjast garðyrkjuframleiðslunni í Írlandi (2004) og sjávarafurðum. Sjá nánar: https://www.bordbia.ie/

Meginhlutverk Bord Bia virðist vera í markaðssetningu en tenging er yfir í framleiðsluhlutann. Þar er ekki síst mikilvæg samvinna við Teagasc (rannsókna- og ráðgjafastofnun Íra í landbúnaði/matvælaframleiðslu), m.a. í útgáfu efnis sem kemur á framfæri leiðbeiningum og niðurstöðum rannsókna á vegum Teagasc og tengir það við markmið Board Bia í markaðsmálum. Sbr. t.d. þennan bækling (Teagasc, 2010):

https://www.teagasc.ie/media/website/publications/2010/IrishSheepSectorOverview.pdf

Samantekt og umræða Lambakjötsverð til bænda í ESB í heild (án Bretlands) var 80% hærra en á Íslandi árið 2020. Af þeim 20 ESB-löndum sem verðsamanburðurinn við Ísland á 21. mynd nær til, eru 16 sem framleiða á ári 1 kg af lambakjöti eða minna á hvern íbúa; Frakkland framleiðir 1,2 kg og Spánn og Kýpur 2,6 kg á íbúa. Frakkland flytur inn álíka mikið lambakjöt og framleitt er í landinu, Þýskaland nær neyslu á mann hátt í 1 kg á ári með því að flytja inn tvöfalt meira en er framleitt. Þessi lönd eru á toppnum í verði fyrir „heavy lamb“ til bænda, ásamt Króatíu, þar sem framleiðslan er aðeins 0,3 kg á íbúa. Eina landið í Evrópu þar sem verð til bænda er lægra en á Íslandi, Rúmenía, er sér á báti að því leyti að 79% af framleiðslunni þar er flutt út. Verð til bænda í Noregi er líka lágt miðað við önnur Evrópulönd, þar hefur framleiðslan vaxið talsvert undanfarin ár og birgðir hafa safnast upp.

Af framansögðu mætti draga þá ályktun að í þeim löndum þar sem er hóflegt framboð miðað við eftirspurn á innanlandsmarkaði (seljendamarkaður) náist hærra verð. Og þá jafnframt að lönd sem stóla hlutfallslega mikið á útflutning séu í verri stöðu, þar sé kaupendamarkaður og lágt verð; einkum þegar erfiðleikar eru á útflutningsmörkuðum. Það er áreiðanlega mikið til í þessu, í flestum löndum. Fyrir Ísland má til rökstuðnings þessari kenningu benda annars vegar á þróunina á fyrri hluta síðasta áratugar þar sem allvel gekk á útflutningsmörkuðum og skilaverð til bænda þokaðist upp á við (19. mynd); og svo hins vegar þróunina eftir miðjan

þann áratug þegar útflutningsþörf jókst í kjölfar vaxandi framleiðslu (12. mynd) og verr gekk að ná ásættanlegu verði í útflutningi. Gengisbreytingar íslensku krónunnar gagnvart evru og fleiri gjaldmiðlum mögnuðu þessar sveiflur upp.

En svo eru lönd þar sem er mikil framleiðsla og mikill útflutningur, en samt ágætt verð til bænda miðað við það sem við þekkjum hér. Írland sker sig úr ESB-löndunum að þessu leyti. Þar er framleiðslan 13,4 kg á íbúa og 85% af því eru flutt út, svo neyslan heimafyrir er um 2 kg á íbúa. Verðið til bænda er engu að síður 800 kr./kg, eða 59% hærra en á Íslandi árið 2020. Í Bretlandi (UK) er kindakjötsframleiðslan 4,5 kg á íbúa og neyslan svipuð, því álíka mikið er flutt inn og út. Verðið til bænda þar árið 2019 var um 660 kr./kg, eða um 40% hærra en á Íslandi það árið.

Kína er með um fjórðung af heimsframleiðslu á kindakjöti, Ástralía og Nýja-Sjáland eru varla hálfdrættingar samanlagt í framleiðslu á við Kína en standa fyrir 72% af útflutningi á kindakjöti í heiminum; á meðan Kína stendur fyrir 27,5% af innflutningi á heimsvísu. Setjum þetta í samhengi: Milliríkjaviðskipti með kindakjöt eru 12–13% af heimsframleiðslu þess. Kínverjar eru 1,4 milljarðar; Ástralir og Nýsjálendingar samtals um 30 milljónir, eða rúm 2% af íbúafjölda Kína. Framleiðslan í Nýja-Sjálandi er um 93 kg á hvern landsmann; þar af eru rúm 90% flutt út, innanlandsneyslan á mann tæp 9 kg. Í Ástralíu er framleiðslan um 29 kg á íbúa, um 65% af því flutt út en neyslan skv. því um 10 kg á íbúa. Í Kína er framleiðslan um 1,7 kg á íbúa; en með innflutningi er neyslan nálægt 2 kg á íbúa.

Bretland (UK) er sjötti stærsti framleiðandi kindakjöts; þriðji stærsti útflytjandinn og fjórði stærsti innflytjandinn á heimsvísu! Brexit hefur verulega þýðingu fyrir viðskipti með kindakjöt, ekki síst í Evrópu, líklegt er að Bretar dragi bæði úr út- og innflutningi. Ástralir og Nýsjálendingar skipta nánast alveg með sér innflutningi til stærstu innflutningslandanna, Kína og USA, aðrar þjóðir komast þar varla á blað. Um 45% af kindakjötsútflutningi Nýsjálendinga fór til Kína árið 2018. Ástralir eru sterkari á Bandaríkjamarkaði en Nýsjálendingar, en öfugt í Bretlandi. Ástralir selja mikið til Asíulanda, en Nýsjálendingar meira til Evrópu. Útflutningur Breta er aðallega innan Evrópu, mest til Frakklands, Þýskalands, Belgíu, Hollands og Ítalíu. Írar flytja út til sömu landa og Bretar, en einnig töluvert til Bretlands og Svíþjóðar. Stærstu útflutningslönd Spánar eru Frakkland og Ítalía. Jákvæð þróun hefur verið á lambakjötsverði til bænda í heiminum (Nýja-Sjáland, Ástralía) og í Evrópu undanfarin ár, og vekur sérstaka athygli jákvæð þróun síðustu mánuðina í Írlandi og Bretlandi.

Ástralir, Nýsjálendingar og Írar eru einu sauðfjárræktarþjóðirnar sem má skilgreina sem sérhæfðar í útflutningi, með hlutfallslega lítinn heimamarkað miðað við það magn kindakjöts sem þessi lönd framleiða. Þetta þýðir að öll framleiðslustjórnun, bústjórn og úrvinnsla afurða er mjög miðuð á að framleiða nákvæmlega það sem erlendu viðskiptavinirnir þurfa.

This article is from: