1 minute read

Samantekt og umræða

Next Article
Heimildir

Heimildir

Samantekt og umræða Kindakjötsframleiðsla á Íslandi náði mest 16 þúsund tonnum árið 1979, en dróst hratt saman á níunda áratugnum. Innanlandsneysla minnkaði á sama tíma, en þó minna en framleiðslan svo að útflutningsþörf var minni, eða milli 1 og 2 þúsund tonn flest árin frá 1990 til 2010. Framleiðsla kindakjöts jókst á áratug úr um 8.600 tonnum árið 2007 í um 10.600 tonn árið 2017, á meðan innanlandssala tók litlum breytingum, en útflutningur var á bilinu 2.500 til 3.500 tonn á ári á þessu tímabili. Í kjölfar lækkunar á afurðaverði til bænda um 35–40% á árunum 2016–2017 og breytinga sem gerðar voru á búvörusamningi 2019 minnkaði framleiðslan aftur, var um 9.500 tonn haustið 2020. Tæpar 900 þúsund kindur voru vetrarfóðraðar á Íslandi þegar mest var veturinn 1977–1978, en í ársbyrjun 2021 er fjöldinn aðeins ríflega 400 þúsund. Miðað við þessa miklu fækkun fjár kann að koma mörgum á óvart hvað kindakjötsframleiðslan er enn mikil. Skýringin er um þriðjungs afurðaaukning á hverja vetrarfóðraða kind á þessu tímabili. Í skýrslunni eru raktar ýmsar tölur um þátttöku í skýrsluhaldi sauðfjárræktarfélaganna og framfarir í magni og gæðum afurða síðustu áratugina.

Um tveggja áratuga reynsla af gæðastýringu í íslenskri sauðfjárrækt er rakin í stuttu máli. Innan þess kerfis hafa svæði sem nema 8% af flatarmáli Íslands verið friðuð fyrir sauðfjárbeit. Sauðfjárbændur vinna nú með Landgræðslunni að mati á stöðu gróður- og jarðvegsauðlinda og þróun sjálfbærnivísa fyrir landnýtingu innan Grólindar verkefnisins. Upptaka gæðastýringar leiddi af sér að heildarþátttaka í skýrsluhaldi í sauðfjárrækt fór úr 46% af ám í landinu árið 2000 í 96–97% árin 2017–2020. Meðal árleg afurðaaukning á hverja kind er 0,26 kg eftir upptöku gæðastýringar en 0,06 kg fyrir tíð gæðastýringarinnar. Gæðastýringin hefur hvort tveggja bætt framleiðni og stuðlað að bættum afurðagæðum. Sama framleiðsla með færri ám þýðir betri nýtingu vinnuafls, húsnæðis og aðfanga, minna beitarálag á úthaga og minni kolefnislosun á hvert framleitt kg. Fullyrða má að þátttaka í skýrsluhaldi, skráning og nýting á ýmsum búrekstrarupplýsingum er á heimsmælikvarða í íslenskri sauðfjárrækt, sömuleiðis bæði afurðamagn á hverja kind og afurðagæði. Hins vegar má með rannsóknum og leiðbeiningum bæta nýtingu á upplýsingum sem tengjast jarðrækt, uppskeru og fóðrun verulega.

This article is from: