1 minute read

Ágrip

Nytjalandsverkefnið miðar að því að gera gagnagrunn með upplýsingum um bújarðir landsins, m.a. m.t.t. landkosta. Viðamestu verkþættirnir voru að afla upplýsinga um gróðurfar og landamerki bújarða. Upplýsingaöflun um gróðurfar miðaði að flokka svæði á grundvelli þess hversu gróskumikil þau væru sem jafnframt gæfi upplýsingar um um ástand lands og beitargildi þess. Upplýsingaöflunin náði til alls landsins, en hún var að mestu gerð með greiningum og flokkun á gervitunglamyndum með fjarkönnunaraðferðum (Remote Sensing). Til stóð að birta gögnin í stafrænni Jarðabók þar sem unnt væri að gera fyrirspurn varðandi bújarðir og fá þar upplýsingar um flest það sem viðkemur jarðareignum. Verkefninu var ekki lokið eins og fyrirhugað var, en rétt þótti að taka saman upplýsingar um það sem gert var. Í þessu riti er gerð grein fyrir aðferðafræðinni við yfirborðsflokkunina og helstu niðurstöðum. Gerð er grein fyrir bakgrunni verkefnisins, hvaða gögn liggja að baki, hvaða aðferðum var beitt og afrakstrinum.

Yfirborðsflokkunin var unnin með tveimur kortlagningarlyklum sem hafa verið samþættir og mynda þannig heildarþekju yfirborðsflokkunar fyrir landið allt. Gögnin hafa verið leiðrétt m.t.t. vatnsyfirborðs eins og það er dregið upp í kortagrunni Landmælinga Íslands og einnig hefur upplýsingum um ræktað land og skóglendi verið bætt í flokkunina.

Gerð er grein fyrir því hversu rétt yfirborðsflokkunnin er. Sé aðeins horft til eins af þeim stuðlum sem notaðir eru til að meta hversu vel hefur tekist til með flokkun þá sýnir gæða mat á einstökum myndum sem greindar voru í 12 yfirborðsflokka, að nákvæmni flokkunarinnar var að meðaltali 70%. Þegar öll flokkuðu gögnin höfðu verið samræmd og ýmsum aðfengnum gögnum verið bætt inn, reyndist Nytjalandsmynd með 12 flokkum vera 68% rétt en Nytjalands mynd með 8 flokkum 76% rétt. Gæðaúttektin sýndi að það sem dregur stuðla þessa niður er fyrst og fremst skörun milli flokka sem eru vistfræðilega líkir og hafa ekki skýr mörk í náttúrunni og er árangur sæmilega ásættanlegur miðað við notkun gagnanna til að fá yfirlit um grósku landsins.

Gróskumestu yfirborðsflokkarnir, ræktað land, graslendi, ríkt mólendi, hálfdeigja, votlendi og skóglendi þekja samtals 16 596 km2 lands samkvæmt Nytjalandi. Rýrt mólendi og mosavaxið land er samtals 28 210 km2. Rýrt mólendi og mosavaxið land er ekki uppskerumikið og gróðurþekjan allvíða rofin, en gróður þekur þó í öllum tilvikum meira en helming yfirborðsins. Samtals er gróið land með meira en 50% gróðurþekju í Nytjalandsgögnunum 45 691 km2 eða tæplega 45% landsins

This article is from: