2 minute read

1. Bakgrunnur

Next Article
2.3. Fjarkönnun

2.3. Fjarkönnun

Í riti þessu er greint frá verkefninu Nytjaland sem stofnað var til 1999 með það að markmiði að safna upplýsingum um gróðurfar og bújarðir landsins á stafrænu formi. Verkefnið Nytjaland var rekið af miklum krafti á árunum 2001-2005 en á þeim árum var það kostað af sérstökum lið á fjárlögum. Á þessum tíma var safnað viðamiklum upplýsingum um yfirborðsgerð landsins og jarðamörk bújarða. Verkefninu lauk hins vegar ekki að fullu vegna skorts á fjármagni. Niðurstöður verkefnisins hafa eigi að síður verið notaðar í margvíslegum tilgangi og áfram er haldið við að byggja upp grunninn í tengslum við önnur verkefni. Í þessu riti er gerð grein fyrir aðferðafræði verkefnisins Nytjaland, en slík samantekt hefur ekki legið fyrir áður. Einnig er gerð grein fyrir helstu niðurstöðum verkefnisins.

Hugmyndin með verkefninu Nytjaland var að upplýsingarnar sem allar eru á stafrænu formi, mynduðu eins konar jarðabók með upplýsingar um landkosti dreifbýlisins. Þessar upplýsingar eru m.a. gróðurfar, ástand lands, landamerki og stærðir helstu landeininga. Einnig var hugmyndin að gögnunum tengdust upplýsingar um bústofn á hverjum bæ. Gagnagrunnurinn Nytjaland yrði þá að sumu leiti líkur þeim sem birtur var í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem gerð var á árunum 1702 til 1714 (Árni Magnússon og Páll Vídalín, 1990). Slíkar upplýsingar eru einnig að hluta að finna í svokölluðum Búkollum en það eru bækur þar sem fjallað er um hvern bæ, t.d. Byggðir Eyjafjarðar (Búnaðarsamband Eyjafjarðar, 1973) og Byggðir og bú Suður Þingeyinga 1985 (Búnaðarsamband SuðurÞingeyjarsýslu, 1986). Ekki var stefnt að hefðbundinni útgáfu Nytjalands í bókarformi, heldur að gögnin yrðu geymd í landfræðilegum gagnagrunni og þeim síðan miðlað á stafrænu formi eftir þörfum.

Verkefnið Nytjaland miðaði að því að vera upplýsingaveita fyrir þá sem koma að skipulagningu og/eða ákvarðanatöku er varðar landnýtingu og þá sem eru fást við hinar ýmsu umhverfis- auðlinda- og náttúrurannsóknir á Íslandi. Einnig var eitt af markmiðum Nytjalandsverkefnisins að gögnin nýttust bændum til að skipuleggja landnýtingu á bújörðum, s.s. ræktun, friðun, landgræðslu, skógrækt, beit og annað sem bóndinn kann að vera að fást við. Um leið verður til gagnagrunnur sem nýtist beint til upplýsingaöflunar á landsvísu, m.a. vegna upplýsingaskyldu landsins gagnvart alþjóðasamningum og stofnunum á borð við OECD.

Til að unnt væri að birta upplýsingar um einstaka jarðir var nauðsynlegt að afla upplýsinga um jarðamörk og hnitsetja í landupplýsingakerfi. Með því móti var hægt að tengja ýmiskonar upplýsingar við hverja bújörð, s.s. heiti jarðar, landnúmer, ábúendur og fl.. Jafnframt fengist flatarmál hverrar jarðar og unnt yrði að reikna út stærð mismunandi yfirborðsflokka á hverri jörð (Fanney Ósk Gísladóttir og Björn Traustason, 2003).

Skömmu eftir að vinna við Nytjaland hófst var gerður nýr samningur milli ríkisins og sauðfjárbænda (Landbúnaðarráðuneytið, 2003). Í samningnum kom fram nýtt ákvæði varðandi gæðastýringu í sauðfjárrækt sem fól í sér að bændur sem óskuðu eftir því að vera aðilar að gæðastýringunni gerðu ítarlega grein fyrir sinni landnotkun og sýndu fram á að þeir nýttu land á sjálfbæran hátt. Var þeim bændum umbunað með hærri beingreiðslum en ella. Landgræðslu ríkisins var falið að votta landnýtinguna (Alþingi, 2002). Bæði bændur og Landgræðsluna vantaði grunn fyrir sína vinnu og því var ákveðið að miða fyrstu útgáfu af Nytjalandi við að gögnin myndu nýtast bændum við upplýsingagjöf vegna gæðastýringarinnar.

Þessari samantekt er ætlað að gefa bakgrunn fyrir á Nytjalandsverkefnið og lýsa aðferðafræðinni sem liggur að baki yfirborðsflokkunninni. Slíkar upplýsingar hafa ekki legið fyrir og því hefur örlað á misskilningi um eðli, upplausn og notagildi gagnanna. Er það von okkar að rit þetta bæti þar úr.

This article is from: