1 minute read

Áhrif jarðvinnsluaðferða á uppskeru og þroska byggs, Keldudal JH, ÞS

Áhrif jarðvinnsluaðferða á vöxt og þroska byggs, Keldudal. Um er að ræða mastersverkefni Þórarins Leifssonar við LbhÍ. Hann mun birta niðurstöður í lokaritgerð sinni árið 2016. Viðfangsefnið er að reyna nýjar aðferðir við jarðvinnslu fyrir kornrækt á íslenskum jarðvegi. Auk uppskeru verður kannað hver áhrif mismunandi jarðvinnsla hefur á rakabúskap jarðvegs. Líkur eru á því að reynsla sú, sem fást mun af rannsókn þessari, geti orðið til þess að lækka kostnað við kornrækt hér á landi.

Tilraunin hefur staðið í tvö ár og hófst haustið 2012 með jarðvinnslu og því að settir voru upp veðurmælar og mælar til að skrá hita og raka í jarðvegi. Sáð var í fyrri tilraunina vorið 2013 og tilraunin var endurtekin 2014. Sama byggyrki, Judit, hefur verið í öllum reitum. Tilraunin er gerð á þrenns konar jarðvegi: 1. Framræstri mýri 2. Mólendi 3. Sandi

Borin eru saman á hverjum stað áhrif mismunandi jarðvinnslu. Mismunandi jarðvinnsla er á stórreitum og er eftirfarandi:

i. Haustplæging, vorherfing ii. Haustherfing, vorplæging og herfing iii. Óhreyft um haustið, vorplæging og herfing iv. Óhreyft um haustið, vorherfing v. Óhreyft um haustið, vorherfing með plógherfi Í hverjum stórreit eru tvenns konar smáreitir. Annars vegar er mismunandi nituráburður og hins vegar mismunandi sáðmagn: a1 30 kg N/ha b1 sáð 150 kg/ha a2 60 kg N/ha b2 sáð 200 kg/ha a3 90 kg N/ha b3 sáð 250 kg/ha

Sumarið 2013 Haustvinnsla fór fram í október 2012. Vorvinnsla um miðjan maí 2013 eða um leið og fært var. Grunnáburður var 23 kg P/ha og 36 kg K/ha í steinefnablöndu. Áburður var felldur niður. Sáð var 17.maí og skorið 24. september. Reitir voru 10 m2 að stærð. Smáreitir komu í stað samreita og ekki um aðra samreiti að ræða. Jarðvegshiti og jarðvegsraki var mældur með sjálfvirkum mælum á öllum mælistöðum.

Sumarið 2014 Tilraunin var að mestu gerð á sama hátt og árið áður. Áburðarliðum á sandi var breytt og þeim fjölgað um einn og voru í kg/ha talið 40N – 80N – 120N – 160N. Grunnáburður steinefna sá sami og áður og í öðrum liðum, það er 23P og 36K kg/ha. Sáð var 7.maí og skorið 4. september.

This article is from: