2 minute read
Útiræktun jarðarberja JHH
Útiræktun jarðarberja 2014 Jarðarber eru meðal verðmætustu nytjaplantna heims. Innflutningur á jarðarberjum til Íslands nemur til að mynda hundruðum milljóna króna á ári. En jarðarber eru ekki aðeins verðmæt landbúnaðarafurð heldur einnig rík af andoxunarefnum, vítamínum og steinefnum. Slík matvæli gegna mikilvægu hlutverki sem uppspretta nauðsynlegra bætiefna og aukið framboð getur þannig haft jákvæð áhrif á lýðheilsu. Íslenskum neytendum þykja innlend jarðarber eftirsóknarverð og hafa íslenskir ræktendur hingað til ekki annað eftirspurn. Þessu til staðfestingar var innflutningur ferskra jarðarberja >323 tonn árið 2012. Það er því eftir nokkru að slægjast á þessum markaði og ekkert sem ætti að koma í veg fyrir að íslenskir garðyrkjubændur fullnægi að mestu eftirspurn innanlands sé rétt staðið að málum. Möguleikar til ræktunar hérlendis eru umtalsverðir bæði í gróðurhúsum og hugsanlega á ökrum. Markmið rannsóknarinnar er að finna efnivið og aðferðir við ræktun til þess að rækta megi jarðarber við íslenskar aðstæður á samkeppnishæfu verði. Slíkar prófanir voru síðast framkvæmdar á Hvanneyri og Korpu á árunum 1981–1986 og niðurstöðurnar því komnar til ára sinna. Miklar framfarir hafa orðið í kynbótum og því full ástæða til að endurtaka prófanir hérlendis. Veðurfar í Noregi er keimlíkt því íslenska og töluvert er ræktað utandyra í Noregi af jarðarberjum. Þar eru jafnframt stundaðar kynbætur á jarðarberjum og því nærtækt að líta þangað með val á yrkjum og kynbótalínum. Í þessu verkefni var sett upp yrkjatilraun utandyra með 21 yrki og norskum kynbótalínum, sem líklegar þykja til þess að sýna þrótt við hérlend vaxtarskilyrði, m.a. voru valin yrkin Sonata, Saga, Nobel, Glima, Blink, Korona og Senga Sengana auk nýlegra kynbótalína frá Graminor AS. Móðurplöntum af tíu yrkjum og þrettán ræktunarlínum frá Graminor AS var fjölgað í gróðurhúsi að Reykjum vorið 2014. Þeim var plantað út í samtals sex beð, þrjár meðferðir í tveimur endurtekningum. Plönturnar voru því í sex endurtekningum í hverri meðferð. Samtals voru 396 plöntur gróðursettar með 40 cm millibili á 100 cm breiðum beðum í sex blokkum. Hver blokk er 15 m að lengd og 80 cm göngustígur er milli blokka. Meðferðirnar þrjár eru tæknilegar útfærslur á ræktun:
Meðferð 1 - Enginn dúkur. Meðferð 2 - Plantað í ræktunardúk. Meðferð 3 - Plantað í ræktunardúk og akrýldúkur breiddur yfir að vori, þar til plönturnar hafa komið sér vel fyrir, eftir 4-6 vikur. Öll beð voru útbúin með seytlslögnum sem tryggja jafna vökvun og áburðargjöf. Borið verður á eftir þörfum en áætlað var að gefa hverri plöntu sem samsvarar 120 kg N/ha. Fosfóráburður var borinn á sem grunnáburður. Dreift var sem samsvarar 2 kg P/100m2 í 0-20-0 áburði frá Yara. Ekki náðist að uppskera sumarið 2014. Þó virðist ljóst að plönturnar hafi náð að koma sér fyrir í akrinum og munu að öllum líkindum gefa mikilvægar upplýsingar um bæði vetrarlifun og í framtíðinni möguleika til ræktunar jarðarberja utandyra. Fylgst var með vetrun plantnanna á Reykjum í haust og fylgst verður með vetrarþoli þeirra í vetur. Lifun verður metin og stefnt er að því að mæla uppskeru sumarið 2015. Eftirfarandi eiginleikar verða metnir sumarið 2015: Þróttur, tími blómgunar, blómsturferill, haustun, uppskerutími og heildaruppskera. Berin verða flokkuð í þrjá gæðaflokka. Fylgt verður greiningaraðferðum sem notaðar eru af sérfræðingum Graminor AS svo að niðurstöður verði að nokkru leyti samanburðarhæfar við rannsóknir á sömu yrkjum í Noregi.