2 minute read

Um umhverfi borgartrjáa og hlutverk þeirra

Vaxtarskilyrði trjáa innan borga eru margbreytileg, bæði með tilliti til jarðvegs, vatnsbúskapar og veðurfars á hverjum stað. Oft eru skilyrðin öfgakennd eins og í gatnaumhverfi í þéttri byggð þar sem getur orðið bæði heitara og þurrara en á dreifbyggðari svæðum. Þetta getur valdið trjánum mikilli streitu sem rýrir vaxtarskilyrði tegunda sem annars eru harðgerar (Sæbø o.fl., 2005). Dæmi um slíkar tegundir eru t.d. birki og greni úr norrænu eða landrænu loftslagi. Sömu aðstæður geta hins vegar hentað öðrum tegundum sem annars eru taldar viðkvæmar, þetta eru gjarnan suðlægari tegundir eða tegundir úr hafrænu loftslagi (Sjöman og Richnau, 2009). Plöntuval í borgarumhverfi þarf því að vera vel ígrundað með tilliti til mismunandi vaxtarkrafna og aðlögunarhæfni tegunda.

Við val á trjátegundum til notkunar í borgarumhverfi þarf því að hafa ýmislegt í huga og er nánar fjallað um þá þætti í kaflanum um Viðmið við val á trjátegundum í borgarumhverfi (sjá töflu 1 um viðmið við val á tjátegundum). Til að vel takist til þarf tegundin að vera harðger við þau skilyrði sem hún á að búa við og því nauðsynlegt að greina vel þær umhverfisaðstæður sem ríkja á hverjum stað. Jafnframt þarf að taka tillit til staðbundinna skilyrða eins og hvaða rými tréið hefur til að vaxa bæði ofan jarðar og neðan jarðar (Bassuk o.fl., 2009). Það sem mestu máli skiptir er að tréið þarf að henta í það hlutverk sem því er ætlað. Þess fyrir utan þarf að huga að hagkvæmni í fjölgun, framleiðslu og umhirðu við viðkomandi tegundir (Sæbø o.fl., 2005).

Í stuttu máli, rétt tegund > á réttan stað > fyrir rétt hlutverk.

Fyrsta spurningin við val á trjátegund er því, hvaða hlutverki á hún að gegna og við hvaða aðstæður á hún að vaxa?

Samkvæmt flokkun og skilgreiningu sem alþjóðlegur starfshópur um borgarskógrækt og ræktun græna netsins (Urban forestry and urban greening) gerði er umhverfi trjáa í borgum skipt niður í þrjár megin umhverfisaðstæður (Sæbø o.fl., 2003, Benedikz o.fl., 2005 og Sæbø o.fl., 2005):

A. Umhverfi A: Götu- og torgtré – Tré sem standa í hellulögðu eða malbikuðu umhverfi við götur og umferðaræðar eða á torgum. B. Umhverfi B: Garðtré – Tré sem vaxa í einka- og almenningsgörðum innan uppbyggðra svæða. C. Umhverfi C: Borgarskógatré – Skógarreitir í útjaðri byggðar eða milli uppbyggðra svæða innan borgarmarka.

Í þessari skýrslu er ljósinu fyrst og fremst beint að umhverfi A, þ.e. tré í götuumhverfi. Fyrst verður farið lauslega yfir þessa þrjá flokka.

8

This article is from: