1 minute read

borgarmarka

Umhverfi C: Borgarskógatré – Skógarreitir í útjaðri byggðar eða milli uppbyggðra svæða innan borgarmarka.

Meginhlutverk þessara svæða sem við getum kallað borgarskóga er að mynda skjól fyrir byggðina og góð og fjölbreytt útivistarsvæði fyrir borgarbúa. Erlendar og innlendar rannsóknir hafa sýnt að þetta eru verðmætustu útivistarsvæðin og hér leitar fólk upplyftingar í grænu umhverfi laust við áreiti borgarinnar. Fólk vill upplifa grósku, margbreytileika og náttúrulegt og villt yfirbragð skóganna. Hér eru það fyrst og fremst náttúrulegar aðstæður sem ráða för varðandi ræktunarmöguleika og lúta því skilyrðum sem gerðar eru til ræktunar skóga og þeirra aðferðarfræði sem er viðhöfð við ræktun þeirra svo sem með tilliti til jarðvegsskilyrða, skjóls og möguleika til umhirðu vegna kostnaðar og aðgengis. Þetta takmarkar nokkuð það úrval tegunda sem hægt er að nota en fjölbreytileiki og sjálfbærni skiptir þó höfuðmáli og ýmislegt hægt að gera. Flestar algengar tegundir koma til greina, birki, elri, ösp, reynir, greni og fura sem aðaltegundir, allt eftir því hvað aðstæður leyfa, og trén mega vera margbreytileg í útliti og það sérstaka eins og skrýtið óvenjulegt vaxtarlag er velkomið. Ýmsar aðrar tegundir má hér einnig rækta sem aukategundir svo sem hegg, álm, þin, þöll og einnig runnategundir og ýmsar jurtkenndar skógarbotnstegundir bæði aðfluttar og innlendar. Gæta verður þó þess að planta ekki óæskilegum ágengum tegundum svo sem skógarkerfil og risahvönn svo eitthvað sé nefnt.

Mörg þau svæði sem með ærnum tilkostnaði eru ræktuð sem garðsvæði eins og til að mynda umhverfi gatna mætti rækta á forsendum vistvænnar og sjálfbærrar borgarskógræktar.

Mynd 5. Horft yfir Elliðaárdal í átt að Akrafjalli og Esjunni. Elliðaárdalur er dæmi um frábæran útivistarskóg.

12

This article is from: