2 minute read

Formáli

Þann 18. janúar 2011 var samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur tillaga Besta flokksins og Samfylkingar um fækkun aspa í miðborginni. Í tillögunni stendur: „Borgarstjórn Reykjavíkur beinir þeim tilmælum til garðyrkjustjóra að hann móti áætlun um hvernig best sé að fækka öspum í miðborginni. Hafist verði handa við að fjarlægja aspir af Sóleyjargötu, Vonarstræti, Laugavegi og Tjarnargötu og önnur tré sett í staðinn. Faglegt mat verði lagt á það rými sem þarf til að aspir annarsstaðar njóti sín hverju sinni.“ (Borgarstjórn Reykjavíkurborgar, 2011).

Í kjölfar fréttaumfjöllunar um tillöguna fór mikil umræða af stað í samfélaginu og skiptust menn í tvær fylkingar, með og á móti eins og gjarnan gerist í íslensku samfélagi. Umræðan þróaðist út í vissa öfga þar sem menn ræddu almennt um hvort alaskaösp væri góð eða slæm. Í tilefni þessa var haldinn fundur á vegum Reykjavíkurborgar, Landbúnaðarháskóla Íslands og FIT (Félags iðn- og tæknigreina) í Hafnarhúsinu 21. febrúar 2011 undir yfirskriftinni „Tré fyrir götur og torg“ þar sem nokkrir fagaðilar héldu erindi um málefnið (Reykjavíkurborg, 2011). Meðal þeirra var skýrsluhöfundur, Samson Bjarnar Harðarson, lektor í landslagsarkítektúr við Landbúnaðarháskóla Íslands, sem hélt erindi um vanda þess að rækta götutré og um val á tegundum. Í framhaldi af fundinum fór garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar þess á leit við Samson að taka saman skýrslu er snéri að því hvaða trjátegundir gætu hentað sem götutré í Reykjavík. Úr varð tillaga að stefnumótun um ræktun götutrjáa í þéttbýli og val á tegundum sem Samson afhennti Reykjavíkurborg í nóvember 2012. Skýrslan var jafnframt birt á heimsíðu Yndisgróðurs (http://yndisgrodur.lbhi.is/pages/2470).

Í október 2012 var skipaður starfshópur á vegum umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar sem vann drög að stefnumörkun í trjáræktarmálum þar sem meðal annars var stuðst við skýrslu Samsonar. Úr varð stefna í trjáræktarmálum sem var vísað til borgarráðs í október 2013 (Reykjavíkurborg, 2013a). Meðal markmiða í stefnunni er að rækta fjölbreyttan trjágróður sem hæfir aðstæðum þannig að líffskilyrði trjágróðurs verði sem best.

Þetta rit byggir ofangreindri skýrslu með uppfærðum upplýsingum um stöðu mála í ræktun götutrjáa í Reykjavík. Einnig hefur hún verið endurskoðuð með það í huga að nýast sem góð almenn umfjöllun um ræktun og val á götutrjám almennt þótt upphaflega hafi verið gengið út frá aðstæðum sem ríkja á höfðuborgarsvæðinu. Hún ætti því að nýtast sveitafélögum og öðrum aðilum sem koma að ræktun götutrjáa um allt land.

Upplýsingar og teikning um rótarvænt burðarlag, í kaflanum Aðbúnaður götutrjáa er frá Kára Aðalsteinssyni, landslagstæknir hjá Lbhí. Færum við honum bestu þakkir ásamt örðum sem hafa veitt gagnlegar upplýsingar.

3

This article is from: